Fara í efni

Deiliskipulagsáætlanir í kynningu

Árhólmasvæði í Hveragerði, tillaga að breytingu á aðal- og deiliskipulagi.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti þann 13. janúar 2022 að auglýsa samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 á svæði suðaustan við Hengladalaá skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árhólmasvæðis í Hveragerði, skv. 43. gr. sömu laga.

Tillagan að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar felur í sér nýtt 0,9ha. ferðamanna- og afþreyingarsvæði AF2 við Hengladalaá, stækkun á verslunar- og þjónustusvæði VÞ1 á Árhólmasvæðinu um 0,5ha. til norðurs og nýjar gönguleiðir í nágrenni Hengladalaár. Með breytingunni verður heimilt að reisa svifbraut (Zip-line) ásamt útsýnis- og upphafspalli og lendingarpalli og leggja nýja göngustíga.

Tillagan að breytingu á deiliskipulagi Árhólmasvæðisins felur í sér stækkun á reit A, þannig að hann nái til stækkunar á almennu bílastæði fyrir ferðamenn, tveggja lóða fyrir upphafs- og endapall svifbrautar og göngustíga meðfram Hengladalaá. Einnig felur breytingin í sér stækkun á byggingarreit á lóðinni Árhólmar 1. Meginmarkmið tillögunnar er að skapa nýja möguleika til afþreyingar fyrir ferðamenn, sem þannig fá tækifæri að sjá og njóta náttúrunnar frá nýju sjónarhorni.

Breytingartillögurnar liggja frammi á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar að Breiðumörk 20 frá og með mánudeginum 17. janúar 2022 og eru auk þess aðgengilegar á heimasíðu Hveragerðisbæjar www.hveragerdi.is

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skulu berast skipulagsfulltrúa Hveragerðisbæjar í síðasta lagi mánudaginn 7. mars 2022, annaðhvort á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar að Breiðumörk 20, 810 Hveragerði eða í tölvupósti á netfangið gfb@hveragerdi.is

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar

Árhólmasvæði tillaga að breytingu á aðalskipulagi
Árhólmasvæði tillaga að breytingu á deiliskipulagi

 

Hverfisskipulag á svæði innan hverfisverndarsvæðisins HV4 í Hveragerði.

Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 13. janúar 2022 var samþykkt að leita umsagnar Skipulagsstofnunar um meðfylgjandi lýsingu á hverfisskipulagi og kynna hana fyrir íbúum bæjarins og öðrum hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hverfisskipulagsvæðið er um 6,5ha að flatarmáli og afmarkast af Heiðmörk til suðvesturs, lóðum við Dynskóga til norðvesturs, Varmahlíð til norðausturs og Hveragarðinum, gámastöðinni, lóð Veitna ohf. og Heiðmörk 29 og 31a til suðausturs. Reitur með sjö lóðum milli Laufskóga og Frumskóga næst Varmahlíð er undanskilinn því þar er til staðar deiliskipulag.

Helstu markmið hverfisskipulagsins er að ná betri landnýtingu innan hverfisverndarsvæðisins og nýta betur þá innviði, sem þar eru til staðar. Hverfisskipulagið mun væntanlega nýtast vel við endurnýjun og endurbyggingu húsa og stytta afgreiðsluferli byggingarleyfisumsókna þar sem grenndarkynningar verða að mestu óþarfar.

Skipulagslýsingin, sem er hér í viðhengi, liggur frammi á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar.

Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum eða ábendingum við skipulagslýsinguna, skulu senda þær til skipulagsfulltrúans í Hveragerði fyrir 4. febrúar 2022 á heimilisfangið „Breiðamörk 20, 810ˮ Hveragerði eða í tölvupósti á netfangið gfb@hveragerdi.is.

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar

Hverfisskipulag - skipulagsslýsing

 

 

Kambaland í Hveragerði, tillaga að breytingu á deiliskipulagi.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti þann 9. september 2021 að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Kambaland í Hveragerði, skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagssvæðið afmarkast til suðurs og vesturs af Hringvegi (Suðurlandsvegi), til norðurs af Hamrinum og til austurs af núverandi byggð við Smyrlaheiði, Valsheiði, Kjarrheiði, Borgarhraun og Kambahraun. Tillagan felur í sér fjölgun íbúða á svæðinu, bæði á norður hluta þess og við Kaplahraun og breytingu á leikskólalóð og verslunar- og þjónustulóð. Tillagan gerir ráð fyrir samtals 334 íbúðum á svæðinu.

Tillagan liggur frammi á bæjarskrifstofunni Breiðumörk 20 og er til sýnis frá og með mánudeginum 20. september til mánudagsins 1. nóvember 2021. Tillagan er einnig aðgengileg á heimasíðu Hveragerðisbæjar, www.hveragerdi.is

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna til þriðjudagsins 2. nóvember 2021. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal þeim skilað á bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar Breiðumörk 20 eða á netfangið: gfb@hveragerdi.is.

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar

Kambaland tillaga að breytingu á deiliskipulagi - uppdráttur
Kambaland breyting 2021 greinagerð 
Kambaland byggingarsvæði


 

Síðast breytt: 18.01.2022