Fara í efni

Saga skólans

Í upphafi stóð Ölfushreppur einn að skólahaldi, en eftir að Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag hafa þessi tvö sveitarfélög staðið sameiginlega að rekstrinum. Í dag kemur sveitarfélagið Ölfus að rekstri tveggja grunnskóla, í Hveragerði og í Þorlákshöfn. Þannig sækja nemendur úr dreifbýli Ölfuss skóla í Hveragerði.

Áður en Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 1946 var skóli starfræktur að Kröggólfsstöðum í Ölfusi. Hann tók til starfa haustið 1881 og var þeim börnum sem ekki gátu gengið daglega til skólans komið fyrir á næstu bæjum. Skólinn að Kröggólfsstöðum var starfræktur í ellefu ár. Þrátt fyrir að skólinn legðist niður vorið 1892 var barnakennslu haldið áfram á árunum 1892-1897.  Fengnir voru farkennarar til að annast þá kennslu. Með setningu fræðslulaganna árið 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins. Þá var skólahús reist á Kotströnd og annað á Hjalla. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli og þegar Þinghús (elsti hluti gamla Hótels Hveragerðis) var byggt í Hveragerði árið 1930, fluttist skólahald þangað

Árið 1937 var stofnaður heimavistarskóli í Hveragerði þegar keypt var hús er áður hafði verið barnaheimili Oddfellow-reglunnar. Árið 1943 var keyptur skólabíll og síðan þá hefur skólinn verið heimangönguskóli. Haustið 1947 var elsti hluti núverandi aðalbyggingar  tekinn í notkun. Haustið 1972 var skólanum skipt í tvær aðskildar stofnanir, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði og urðu skólastjórar þá tveir.

Þegar Gagnfræðaskólinn var stofnaður haustið 1965 var efri hæð sundlaugarinnar í Laugaskarði tekin á leigu fyrir þrjá bekki Gagnfræðaskólans. Fyrsti bekkur var í barnaskólahúsinu. Í janúar 1973 fluttust allir bekkir Gagnfræðaskólans í leiguhúsnæði að Breiðumörk 2.

Árið 1988 var viðbygging við gamla barnaskólann tekin í notkun.  Skólinn var sameinaður á ný í eina stofnun. Skólastjóri varð einn og honum til aðstoðar yfirkennari, síðar aðstoðarskólastjóri. Guðjón Sigurðsson var skólastjóri árin 1988-2013. Fanney Ásgeirsdóttir 2013-2016. Skólastjóri frá 2016 er Sævar Þór Helgason.

Með grunnskólalögunum frá 1995 urðu 6 ára börn skólaskyld.  Skólinn var tvísetinn að hluta til ársins 2001 þegar sex nýjar kennslustofur voru teknar í notkun. Þrátt fyrir þessa viðbót er enn þörf á nýbyggingum. Í október 2007 var tekið í notkun endurgert húsnæði „kaupfélagsins” við Breiðumörk fyrir myndmennt, textíl og smíði.

Mötuneyti hefur verið starfrækt við skólann frá upphafi. Fyrst fyrir starfsmenn og nemendur úr Ölfusi.  Frá árinu 1989 hefur öllum nemendum staðið til boða að nýta sér mötuneyti skólans. Aðstaða mötuneytis tók farsælum breytingum haustið 2015 þegar tekið var í notkun ljómandi fínt eldhús.

Skólasel (heilsdagsskóli) hefur verið starfrækt samfleytt frá árinu 2000 og á haustmánuðum 2017 fór starfsemi Skólasels og félagsmiðstöðvarinnar Skjálftaskjóls í húsnæði leikskólans Undralands, vestan við Brekku, og er yfirheiti starfseminnar Bungubrekka.

Grunnskólinn í Hveragerði er vel staðsettur með náttúruperlur allt um kring. Varmá er í túnfætinum en þar er að finna heitar uppsprettur. Sundlaugin í Laugaskarði steinsnar frá, að ógleymdu náttúruundri sem á fáa sína líka í heiminum, en það er hverasvæðið við Hveramörk.  Mjög fallegar gönguleiðir eru í nánasta umhverfi skólans og óþrjótandi möguleikar til útivistar- og útikennslu.

Síðast breytt: 06.02.2020