Fara í efni

Stöðuskýrsla bæjarstjóra 8. apríl 2020

Stöðuskýrsla v. COVID - 19 nr. 4

Dagarnir sem liðnir eru frá síðustu skýrslu hafa einkennst af samhug og samheldni bæjarbúa í kjölfar andláts hjónanna Jóninnu Pétursdóttur og Reynis Guðmundssonar, sem bæði hafa létust af völdum Covid-19. Stórt högg í litlu samfélagi og eitthvað sem ekkert okkar átti von á að myndi gerast eða hreinlega gæti gerst. Á fundi bæjarráðs þann 2. apríl var eftirfarandi fært til bókar:

Bæjarráð fyrir hönd bæjarstjórnar sendir þeim sem nú eiga um sárt að binda innilegar samúðarkveðjur en stórt skarð hefur verið höggvið í samfélagið hér í Hveragerði vegna yfirstandandi faraldurs Covid-19 og sorg ríkir í bænum okkar.
---------------------------------------------

Eins og áður er unnið að því að tryggja sem best þjónustu við bæjarbúa þrátt fyrir umfangsmikið samkomubann sem óneitanlega hefur sett stórt strik í starfsemi margra stofnana.

Meðfylgjandi stöðuskýrslu þessari eru fundapunktar bæjarstjóra af fundum Aðgerðarstjórnar Suðurlands sem haldnir eru daglega auk fundapunkta af fundi Vettvangsstjórnar Hveragerðisbæjar sem fundar núna einu sinni í viku.

Eftirfarandi er staða einstakra stofnana í bæjarfélaginu.

Bæjarskrifstofa:
Bæjarskrifstofu hefur verið lokað fyrir óviðkomandi umferð og tekið fyrir allar heimsóknir svo hægt sé að tryggja órofna starfsemi eins og mögulegt er. Lágmarksmönnun starfsmanna er á skrifstofu þannig að skipt hefur verið í tvær vaktir og er unnið þrjá daga aðra vikuna en tvo daga hina. Sími er opinn á hefðbundnum vinnutíma og símtöl send í GSM síma þeirra starfsmanna sem ekki eru við vinnu á bæjarskrifstofu þann dag. Annars óbreytt ástand á skrifstofu frá fyrri viku.

Fjármál:
Allt óbreytt frá því síðast. Óskir eru farnar að berast um frestun á greiðslu fasteignagjalda. Bæjarstjóri hefur haft samband við nokkra rekstraraðila og ljóst er að róðurinn er þungur í ferðaþjónustunni og í margri annarri starfsemi þar sem samkomubannið snertir mjög marga og ekki síður tilmælin um að vera sem minnst á ferðinni.

Um atvinnumál:
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var atvinnuleysi í Hveragerði í mars mánuði 7,7% miðað við 3,6% í febrúar. Spár Vinnumálastofnunar gera ráð fyrir að atvinnuleysi í Hveragerði muni fara í 13,9% í apríl. 1 95 aðilar eru á hlutabótum í samræmi við nýtt ákvæði og 94 aðilar skráðir atvinnulausir þó vissulega gætu þeir mögulega verið í hlutastarfi á móti. Óvissa til framtíðar er mikil og útilokað að spá fyrir um það hvernig mál muni þróast á næstu misserum. Ferðaþjónustu aðilar eru aftur á móti þegar farnir að sjá afbókanir fram í júní þannig að óttast má að verstu spár um að sumarið muni alveg tapast í þeirri grein gætu verið að rætast. Jafn ljóst er þó að um tímabundið ástand er að ræða og full ástæða til bjartsýni þegar til lengri tíma er litið.

Grunnskólinn í Hveragerði:
Skólinn er kominn í páskafrí en hefur haldið úti skólastarfi fyrir börn foreldra í framlínustörfum og forgangshópa. Tiltölulega fá börn hafa þó verið að mæta þannig að ljóst er að fjöldi fólks heldur börnum sínum heima þrátt fyrir að mega nýta sér skólann. Kennarar hafa sinnt kennslu með fjarbúnaði og hafa deilt með hverjir öðrum því sem gott er. Mjög áhugaverðar leiðarbækur að koma frá kennurum. Einn starfsmaður í sóttkví – eitt barn/unglingur smitað. Einn að losna úr einangrun í dag eða morgun.

Skólahald mun hefjast með öllum sínum skorðum í samkomubanni frá og með 14. apríl – þriðjudaginn eftir páska. Staðan með útskriftarhópinn verður tekin í fyrstu viku eftir páska og hugað að fleiri stundum fyrir þau í skólanum. Komin er upp girðing í kringum byggingasvæði og framkvæmdir við viðbyggingu að hefjast. Búið er að skræla innan úr skrifstofu eins deildarstjórans en þar fara nú fram viðgerðir á útvegg.

Bungubrekka:
Óbreytt frá síðustu viku. 2-4 börn hafa verið að mæta. Starfsemi eftir páska hefst að nýju að teknu tillit til tilmæla sóttvarnalæknis. Félagsmiðstöðin hefur verið alveg lokuð en opnar með takmörkunum eftir páska.

Íþróttamannvirki:
Staðan er óbreytt frá síðustu viku hvað varðar lokanir. Starfsmenn sinna eftirliti en það kom aðeins leki eftir púðursnjóinn fór inn um túðu á skyggni hússins. Starfmenn hafa verið að sinna viðhaldsvinnu og tiltekt í sundlaug og eftirlit verður yfir páskana en nú verður lokað í fyrsta skipti í mörg ár. Í Hamarshöll er lokað og stóð höllin af sér óveðrið um helgina.

Menningar- og frístundafulltrúi hefur unnið tillögur að afþreyingu og gönguferðum fyrir íbúa sem kynntar hafa verið á heimasíðu á síðustu dögum. Varðandi Varmahliðarhúsið hafa erlendir listamenn miklar áhyggjur af dvöl sinni og ljóst að breyta verður dvalartíma margra.

Bókasafn:
Staðan er óbreytt frá síðustu viku. Bókasafnið hefur verið lokað frá 23. mars. Starfsfólk mun skipta með sér vöktum og taka á móti pöntunum á bókum og öðrum safngögnum í síma og tölvupósti. Hægt er að fá heimsendar (innanbæjar).

Listasafn Árnesinga:
Safninu hefur verið lokað í samræmi við tilmæli um samkomubann þannig að staða þar er óbreytt.

Upplýsingamiðstöðin:
Staðan í Upplýsingamiðstöðinni er óbreytt. Dögunum er skipt niður á starfsmenn og er bara 1 á vakt. Lokað er um helgar og lokað verður alla páskana. Hveragarðurinn er lokaður þar til annað verður ákveðið.

Leikskólinn Óskaland:
Óbreytt staða frá fyrri viku. Haldið er úti skólastarfi fyrir börn foreldra í framlínustörfum og forgangshópa. 31 umsókn um forgang hefur borist en enn eru færri börn að mæta þannig að ljóst er að fjöldi fólks heldur börnum sínum heima þrátt fyrir að mega nýta sér skólann. Eftir páska hefst leikskólastarf með takmörkunum þannig að hvert barn mætir tvo daga í viku á meðan að samkomubannið er í gildi eða til loka maí. Einn starfsmaður er í sóttkví en ekki er vitað um önnur veikindi.

Leikskólinn Undraland:
Haldið er úti skólastarfi fyrir börn foreldra í framlínustörfum og forgangshópa. 31 umsókn um forgang hefur borist en mest 18 börn hafa verið að mæta þannig að ljóst er að fjöldi fólks heldur börnum sínum heima þrátt fyrir að mega nýta sér skólann. Engin veikindi í starfsmannahópnum og unnið samkvæmt skipulagi. Eftir páska hefst leikskólastarf með takmörkunum þannig að hvert barn mætir tvo daga í viku á meðan að samkomubannið er í gildi eða til loka maí.

Ánægjulegt að geta brugðist við með þessum hætti en margir eru orðnir leiðir á því að vera heima. Leki varð í húsinu eftir óveðrið en þá skóf inná loftræstinguna og lak frá stokkunum. Gríðarlegur snjór er sunnan við húsið, en moka þarf frá suðurhlið hússins til að tryggja neyðarútganga.

Heimaþjónusta:
Heimaþjónustan hefur gengið vonum framar. Allir starfsmenn eru í vinnu. Nú hafa 16 notendur afþakkað þjónustu vegna Covid-19. Unnið er skv. forgangslistum um þjónustuþörf sem gerðir voru í febrúar/mars s.l. og eru endurskoðaðir eftir því sem aðstæður breytast. Starfsmenn eru í símasambandi við marga notendur og er yfirmaður heimaþjónustu í góðu sambandi við Rauða krossinn um stuðning við eldri borgara.

Heimilið Birkimörk:
Starfsemi er óbreytt frá því síðast. Enginn veikur né í sóttkví svo það er full mannað í húsi enda nauðsynlegt þar sem allir íbúar eru nú heima allan daginn. Neyðar/viðbragðsáætlun vegna COVID-19 er tilbúin fyrir heimilið og í framhaldinu verður unnið að uppfærslu á ýmsum verkferlum og yfirfarið allar þjónustuáætlanir einstaklinga. Tveir íbúar fá virkniverkefni eftir hádegi virka daga frá Viss og leiðbeinandi af Viss fylgir verkefninu. Unnið er eftir leiðbeiningum um meira hreinlæti allra og einnig í húsi (snertifletir sótthreinsaðir 4x á dag).

Umhverfisdeild og veitur:
Staðan er óbreytt frá því síðast. Gámasvæði er ennþá opið með óbreyttum hætti. Snjórinn hefur verið aðalmálið frá því á sunnudag og mun verða til vandræða þar til hann bráðnar. Mörg símtöl hafa borist vegna snjómoksturs.

Bygginga, skipulags- og tæknideild:
Starfsemi er hefðbundin og starfsmenn eru komnir með tengingar heim þannig að mögulegt verður að sinna allri starfsemi þrátt fyrir að starfsmenn séu ekki á staðnum. Staðan er óbreytt frá síðasta fundi og starfsmenn sinna sínum störfum heima við.

Almennt:
Smitum hefur ekki fjölgað svo neinu nemur hér í Hveragerði. Samkvæmt tölum í dag 8. apríl, eru 6 einstaklingar í Hveragerði í einangrun en 17 í sóttkví. Hafa þessar tölur verið stöðugar síðustu daga. Til samanburðar má geta þess að á Selfossi eru 13 í einangrun og 62 í sóttkví. Á starfssvæði Lögreglustjórans á Suðurlandi eru 27 í einangrun og 141 í sóttkví.

Eins og kynnt var í síðustu stöðuskýrslu hafa ný lög verið sett um tilfærslu opinberra starfsmanna á neyðarstigi Almannavarna. Eftir páska verður kannað hvort nauðsynlegt reynist að grípa til þessara aðgerða sérstaklega sviði félagsþjónustu þar sem mögulega kann að vanta fleiri einstaklinga til að sinna þeim verkefnum sem þar þarf nú að sinna.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Síðast breytt: 28.04.2020