Fara í efni

Fólk með fötlun

Fatlað fólk getur þurft stuðning til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi á eigin forsendum og taka virkan þátt í samfélaginu.

Fræðslu- og velferðarsvið Hveragerðis hefur samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) að leiðarljósi í þjónustu við fatlað fólk.
Í honum felst viðurkenning á fjölbreytileika mannlífsins og því að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra.

Fatlað fólk á rétt á allri almennri þjónustu sveitarfélagsins en sé þjónustuþörf meiri er sértæk þjónusta veitt. Veitt er margvísleg þjónusta, svo sem ráðgjöf, stuðningur og stuðningsþjónusta við fatlað fólk, börn og foreldra fatlaðra barna, þjónusta á heimilum, hæfing, starfsþjálfun, vernduð vinna, stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn, skammtímadvöl, búsetuþjónusta og ferðaþjónusta.

Þjónustan miðar að því að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og skapa því skilyrði til að lifa eðlilegu lífi og taka virkan þátt í samfélaginu.
Sjá nánar hér í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Árið 2015 ákváðu 13 sveitarstjórnir á Suðurlandi þar á meðal Hveragerði að stofna með sér sameiginlegt þjónustusvæði vegna þjónustu við fatlað fólk, Bergrisann bs. Meginmarkmiðið er að tryggja fötluðu fólki samþætta og heildstæða nærþjónustu.

Stuðningsþjónustu er ætlað að aðstoða fólk sem þarf stuðning til að geta séð um sig sjálft, svo sem aðstoð við almennt heimilishald, persónulega umhirðu og félagslegan stuðning meðal annars til að rjúfa félgslega einangrun. Fötluðu fólki stendur til boða félagsleg þjónusta og sérstakur stuðningur til að geta búið á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Þessi þjónusta tekur mið af aðstæðum, óskum og þörfum hvers og eins.

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á að sækja um stuðningsfjölskyldu sem hefur það hlutverk að taka barnið í umsjá sína í skamman tíma til að létta álagi af fjölskyldu þess. Þörf fyrir þjónustu er metin út frá aðstæðum barns og fjölskyldu. Við matið er horft til fötlunar barnsins og umönnunarþarfar, sem og félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar.

Markmið ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk er að gera þeim sem ekki geta nýtt almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda.

Skammtímadvöl er ætlað að veita fötluðum börnum og fullorðnum tímabundna dvöl til tilbreytingar eða til að létta álagi af aðstandendum vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem veikinda eða annars álags. Vistunin er því ýmist reglubundin eða veitt til ákveðins tíma og er dvalartíminn breytilegur eftir aðstæðum hvers og eins. Á þjónustusvæði Bergrisa er ein skammtímadvöl og er hún staðsett á Selfossi.

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er aðstoð sem byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf. Fólk sem notar NPA stýrir sjálft fyrirkomulagi þjónustunnar og ákveður hvaða aðstoð er veitt, hvernig hún er skipulögð, hvenær og hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Hæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu er ætlað að veita fötluðu fólki þjálfun og stuðning sem miðar að því að auka hæfni þess til starfa og þátttöku í daglegu lífi eða á almennum vinnumarkaði. Á þjónustusvæði Bergrisa eru eftirfarandi vinnu- og hæfingarstöðvar:

VISS vinnu- og hæfingarstöð er staðsett á Gagnheiði 39 Selfossi
Útibú VISS er að Óseyrarbraut 4 Þorlákshöfn og að Flúðum, vinnustofa Kjallarinn.

Atvinna með stuðningi (AMS) felur í sér stuðning við fólk sem hefur skerta starfsgetu vegna fötlunar. Það fær aðstoð við að finna heppilegt starf á almennum vinnumarkaði og stuðning við að sinna því. Einnig er hægt að sækja um sértæka ráðgjöf.

Atvinna með stuðningi er starfrækt hjá: Vinnumálastofnun Suðurlands
Eyrarvegi 27, Selfossi
sími: 515-4800
Netfang: Sudurland@vmst.is

Fatlað fólk getur leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi þess, fjármuni og önnur persónuleg mál. Það má gera með því að hringja eða senda tölvupóst og hann aðstoðar fólk við að leita réttar síns.

Aðsetur réttindagæslunnar er : Austurströnd 3, 170 Seltjarnarnesi

Símanúmer réttindagæslumanna : 554-8100
Tölvupóstur réttindagæslumanna: postur@rettindagaesla.is

Frekari upplýsingar um réttindagæslumenn eru á vef Félagsmálaráðuneytisins: Félagsmálaráðuneytið og í lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks.

Síðast breytt: 30.06.2023
Getum við bætt efni síðunnar?