Fara í efni

Fólk með fötlun

 Hveragerðisbær veitir íbúum fjölbreytta þjónustu á ýmsum sviðum um flesta þá þætti er lúta að daglegu lífi fólksins í bænum. Hér má nálgast upplýsingar um ýmislegt er snýr að þjónustu við fatlað fólk.   

Anna Elísabet Ólafsdóttir er ráðgjafarþroskaþjálfi í málefnum fatlaðra, netfang: annalisa@hveragerdi.is 

Þeir málaflokkar eru helstir: 

  • Þjónusta við fullorðna með fötlun
  • Atvinnu- og búsetumál fatlaðra
  • Liðveisla
  • Þjónustu við börn með fötlun/þroskafrávik og fjölskyldur þeirra
  • Félagsleg liðveisla.

Frekari liðveisla.

Í sérstökum tilvikum skal veita fötluðum frekari liðveislu, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun. Frekari liðveisla er veitt eftir mati á þörf, forgangi og því fjármagni sem veitt er.

Búsetuúrræði.

  • Sambýli þar sem búa einstaklingar sem þurfa mismunandi mikla þjónustu.
  • Sjálfstæð búseta þar sem einstaklingar búa einir eða með öðrum í eigin/leiguhúsnæði en fá þjónustu í formi heimaþjónustu, liðveislu, heimahjúkrunar og frekari liðveislu.
  • Þjónustuíbúðir, en þar búa þeir sem þurfa mikla þjónustu.
  • Styrkir vegna námskostnaðar.
  • Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra getur fólk með fötlun sótt um styrki til að mæta sérstökum kostnaði vegna náms.

Ferðaþjónusta fatlaðra.

Skv. 35. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 skulu sveitarfélög gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.Jafnframt skulu fatlaðir eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.–4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega.

Þær stofnanir sem þar um ræðir eru

  • Hæfingar- og endurhæfingarstöðvar.
  • Dagvistarstofnanir fatlaðra.
  • Verndaðir vinnustaðir.

Ráðgjöf

Félagsþjónustan stuðlar að því að veitt sé ráðgjöf til einstaklinga með fötlun og aðstandenda þeirra m.a. greining, meðferð og stuðningur. Einnig miðlun upplýsinga m.a. um réttindi og möguleika fatlaðra til þjónustu og aðstoðar við lausn vandamála vegna fötlunar.

Félagsþjónustan hefur samskipti og samráð við aðrar þjónustustofnanir í tengslum við að finna viðeigandi lausn á málum einstaklinga með fötlun og aðstandenda þeirra.

Búsetumál

Þjónustusvæðið veitir fólki með fötlun þjónustu í búsetumálum með rekstri sambýla og þjónustuíbúða. Þjónustuúrræði í formi frekari liðveislu er veitt fullorðnum sem búa sjálfstætt eða í foreldrahúsum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessi þjónusta er liður í því að þjálfa og styðja íbúa í daglegu lífi og veita þeim heimilislegt umhverfi. Stefnt er að því að íbúar geti valið um búsetu eftir því sem færni þeirra breytist.

Atvinnumál fatlaðra

Atvinna með stuðningi (AMS) er fyrir þá sem þurfa stuðning við að komast út á almennan vinnumarkað. Þessi aðferð hefur reynst þeim vel sem ekki hafa verið í vinnu um lengri eða skemmri tíma.

Hún felur í sér m.a. eftirfarandi þætti:

  • Atvinnuleit
  • Ráðgjöf og stuðning við fatlaða og aðstandendur þeirra í tengslum við atvinnumál.
  • Ráðgjöf og stuðning við starfsmenn fyrirtækja á almennum vinnumarkaði, sem ráða fatlaða til starfa.
  • Að vera milligöngumaður fyrirtækja og Tryggingastofnunar ríkisins um gerð örorkuvinnusamninga, sem gefa einstaklingum með skerta vinnufærni tækifæri til launaðrar vinnu samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Markmið með vinnu á vernduðum vinnustað:

  • Að auka færni og hæfni einstaklinga með fötlun til að starfa og taka þátt í daglegu lífi.
  • Að gefa einstaklingum með fötlun kost á að sækja dagþjónustu við hæfi utan heimilis.
  • Að búa einstaklinga með fötlun undir að starfa á almennum vinnumarkaði.

Ráðgjöf og leiðbeiningar til fjölskyldna fatlaðra barna og samræming á þjónustu til þeirra.

Ráðgjafarþjónusta:

Markmið þjónustunnar er að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra barna og stuðla með þeim hætti að því að börn geti búið sem lengst í heimahúsum. Þá er skammtímavistun jafnframt ætlað að veita fötluðum ungmennum og fullorðnum, sem búa í heimahúsum tilbreytingu og búa þá undir að flytjast úr foreldrahúsum. Skammtímavistunin er fyrir alla fatlaða á Suðurlandi.

Umsóknum skal skilað til fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar

Stuðningsfjölskyldur:

Hlutverk stuðningsfjölskyldna er að taka fatlað barn í umsjón sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldum þess. Beiðni um þjónustu skal skilað til Félagsþjónustu.

Umönnunarbætur:

Fjárhagsleg aðstoð við foreldra fatlaðra barna. Starfsmaður Félagsþjónustunnar gerir tillögur um greiðslur og sendir til Tryggingarstofnunar ríkisins.

Umsóknareyðublöð fást hjá Félagsþjónustunni, einnig hægt að nálgast þau á www.tr.is

Liðveisla 

Er veitt fötluðum einstaklingum 6 ára og eldri. Með liðveislu er átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs.

Umsóknum skal skila til Félagsþjónustunnar.

 

Síðast breytt: 15.03.2023
Getum við bætt efni síðunnar?