Fara í efni

Sorpmál í Hveragerði

Þriggja tunnu flokkun á sorpi

Hveragerðisbær vinnur að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hefur valið sérstök áherslumarkmið sem lögð er sérstök áhersla á. Eitt af þeim markmiðum sem bæjarstjórn vinnur sérstaklega að er heimsmarkmið nr. 13, en það snýr að aðgerðum í loftslagsmálum. Lögð hefur verið rík áhersla á að allt  fráveituvatn frá bænum verði hreinsað og að stuðlað verði að minni urðun úrgangs,  með hliðsjón að þeim áherslun sem lagðar eru í myndinn í hér til hliðar.  Í Hveragerði er mikilvægt að flokka  og leggur bæjarfélagið sitt af mörkum til að stuðla að ítarlegri flokkun á sorpi.

Hvergerðingar eru duglegir að flokka og eru í farabroddi íbúa á landinu þegar kemur að hlutfalli sorps sem fer til endurvinnslu og/eða endurnýtingar. Mikilvægt er að íbúar kynni sér leiðbeiningar um sorpflokkun og láti ekki sitt eftir liggja í þessum mikilvæga málaflokki.

Mikilvægt er að hvert heimili skoði úrganginn sem fer frá heimili sínu og kanni hvort ekki megi gera enn betur.   Fyrsta skrefið er að skoða neyslu heimilisins til þess að lágmarka úrganginn sem kemur frá hverju heimili. Hvatt er til þess að endurnota þá hluti sem enn eru nothæfir. Á gámasvæðinu í Hveragerði er nytjagámur þar sem íbúar geta farið með gömul og heil húsgögn, húsbúnað, bækur og annað sem nýst getur öðrum íbúum. 

Í Hveragerði er þriggja flokka kerfi í sorphirðu. Bæjarbúum gefst kostur á að flokka sorpið í þrjár tunnur, brúna, græna og gráa að lit. Markmiðið með sorpflokkuninni er að lágmarka það magn sorps sem fer til urðunar og auka um leið endurvinnslu með því að bjarga nothæfum úrgangi frá urðun.

Getur hópur eldhuga fengið heilt bæjarfélag til þess að draga úr óflokkuðum heimilis úrgangi um 10% á einu ári?

 

Það er spurningin sem við spyrjum okkur við upphaf Erasmus+ verkefnisins Crethink / Co-creative re-thinking for sustainable cities, sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga/SASS og Hveragerði taka þátt í.

Markmið verkefnisins er að þjálfa hinn almenna íbúa í að nota „samsköpun“ sem verkfæri við að leysa úr alls kyns flóknum samfélagslegum áskorunum.

Áskorunin sem hópurinn ætlar að einbeita sér að snýr að úrgangsmálum í Hveragerði og hvernig best sé að færa bæjarfélagið í átt að hringrásarhagkerfi með engri sóun eða „zero waste economy“.

Í verkefnahópnum sitja fyrir hönd Hveragerðis þau Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Kolbrún Vilhjálmsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Anton Tómasson auk Ingunnar Jónsdóttur verkefnisstjóra á vegum SASS og Elísabetar Björneyjar Lárusdóttur ráðgjafa í umhverfismálum.

Þrjú önnur lönd taka þátt í verkefninu, Danmörk, Ítalía og Slóvenía og er hvert land að vinna að með ólík viðfangsefni og áskoranir en öll notast þau við sömu aðferðarfræði sem felur í sér að virkja hagsmunaaðila með aðferðum samsköpunar (e. co-creation) og nýta til þess það sem kallað hefur verið „lifandi rannsóknarstofa“ eða living-labs. Nánar má lesa um verkefnið og þátttakendur á síðunni www.crethink.eu og fylgjast með fréttum á https://www.facebook.com/co.creative.re.thinking

Þegar unnið er með hugtakið samsköpun er öll áhersla lögð á að tillögur að lausnum við þeim áskorunum sem unnið er með verði til í opnu og skapandi samtali við alla hagsmunaaðila. Í framhaldi eru þessar lausnir færðar inn í lifandi rannsóknarstofuna þar sem reynt er að fá niðurstöður í það hvort þessar lausnir virki eða ekki.

Eins og áður sagði gengur íslenska áskorunin út á að reyna að finna leiðir til þess að draga úr óflokkuðum heimilis úrgangi í Hveragerði með það sem langtíma markmið að koma bæjarfélaginu eins nálægt hringrásarhagkerfinu og hægt er. Gangi þetta verkefni vel sem og þær leiðir sem verið er að vinna með gæti útkoman jafnframt verið ákveðið skapalón fyrir önnur bæjar- og sveitafélög sem hafa áhuga á að fara í sömu vegferð.

Verkefnið er eins og áður sagði Erasmus + verkefni sem klárast vorið 2022. Eins og gefur að skilja hefur COVID 19 sett sitt strik í reikninginn og ýmsar aðlaganir hafa þurft að eiga sér stað. Það er hins vegar von allra þátttakenda að þrátt fyrir það verði hægt að eiga gott samtal og samstarf við íbúa í Hveragerði um leiðir til þess að vinna okkur í átt að því að samfélag án sóunar.

Ingunn Jónsdóttir
Verkefnastjóri

Endurvinnslutunnan (græna tunnan)

Blandaður pappi og pappír: Blanda má öðrum pappa en bylgjupappa saman við pappír og safna í sama ílát. Það er gott að skola allar fernur vel og fjarlæga allar matarleifar úr matarumbúðum til þess að tryggja góða endurvinnslu. Einnig er gott að brjóta fernur saman svo þær taki minna pláss.
Plasttappar mega fara með fernum.

Plastumbúðir: Mikilvægt er að plastumbúðir séu lausar við matarleifar og skolaðar. Terra reynir eftir fremsta megni að koma plastumbúðum í efnisendurvinnslu, þ.e að plastumbúðirnar verði að nýjum umbúðum eða öðrum plastvörum.
Dæmi um plastumbúðir eru sjampóbrúsar, plastdósir, plastpokar, áleggsbréf, kaffiumbúðir, frauðplast og snakkpokar.

Ál: Ál og aðra málma má setja í endurvinnslutunnuna. Ál er gott dæmi um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu. Endurunnið ál er alveg jafn gott og                                                   nýtt ál, en mun umhverfisvænna.

Lífræna tunnan (brúna tunnan)

Í brúnu tunnuna fer lífrænn eldhúsúrgangur sem fellur til í eldhúsum heimila og fyrirtækja. Nauðsynlegt er að setja lífrænan úrgang í maíspoka áður en hann er settur í tunnuna. Úr brúnu tunnunni fer lífræni eldhúsúrgangurinn í jarðgerð og honum breytt í moltu sem t.d. er hægt að nýta í landgræðslu. 

Gott er að hafa í huga að allt sem maður gæti borðað en vill ekki borða má fara í brúnu tunnuna.   Eftirfarandi er dæmi um lífrænan úrgang:

 • Ávextir og ávaxtahýði
 • Grænmeti og grænmetishýði
 • Eldaðir kjöt- og fiskafgangar
 • Tannstönglar úr tré
 • Egg og eggjaskurn
 • Eldhúsbréf
 • Kaffikorgur
 • Tepokar
 • Afskorin blóm

Á bæjarskrifstofunni geta nýir íbúar fengið afhenda körfu, gjaldfrjálst,  undir lífrænan úrgang og eina rúllu af maíspokum.

Almennt sorp (gráa tunnan)

Allt annað heimilissorp heldur en það sem talið er upp hér að ofan skal láta í gráu tunnuna. Gler skal farga á gámasvæði, sjá nánar neðar á síðunni.

Fatagámur Rauða krossins

Fatagámur frá Rauða krossinum er staðsettur á gámasvæðinu. Öll föt, skó og hverskyns tau á að endur­nýta.
Allt lín á að fara í endurvinnslu:

Vefnaðarvörur, gluggatjöld, áklæði, teppi, sængurföt og handklæði. Það skiptir engu þótt fötin séu gömul, rifin og slitin, en þau þurfa að vera hrein og þurr í lokuðum poka. Ónýtt tau er gott að merkja sem slíkt.

Annað sem ber að hafa í huga

 • Gler: Í gleri er mikil þyngd og því er lögð áhersla á að öllu gleri sé skilað á gámasvæðið. Þaðan er það flutt á jarðvegstipp, enda er gler með öllu óvirkt efni. Óæskilegt er að farga gleri í aðrar tunnur, þar sem slysahætta getur skapast við úrvinnslu sorpsins.
 • Lyf: Lyf eru flokkuð sem spilliefni sem skal flokka frá og skila til eyðingar. Allar lyfja­verslanir taka á móti öllum lyfjaafgöngum endurgjaldlaust.

 

Síðast breytt: 26.08.2021