Fara í efni

Almennt um byggingamál

 

Byggingaleyfi:

Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa.

Á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að finna leiðbeiningar við ýmsum ákvæðum byggingareglugerðar. Leiðbeiningarnar eru meginreglur og eru þær í stöðugri endurskoðun.

Allar skráningar fyrir byggingarleyfi fara rafrænt í gegnum íbúagátt Hveragerðisbæjar.

Íbúagátt 

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn um byggingaleyfi eru:
     -  Umsókn um skráningu byggingastjóra
     -  Ábyrgðaryfirlýsing hönnunarstjóra
     -  Umsókn um skráningu iðnmeistara
     -  Starfsábyrgðartrygging byggingastjóra
     -  Aðaluppdrættir 
     - Skráningartafla af forskrift Þjóðskrár Íslands

Umsókn um byggingarleyfi skal afhenda í móttöku bæjarskrifstofunnar eða senda á jonfridrik@hveragerdi.is og drifa@hveragerdi.is

Lausar lóðir í Hveragerði:

Upplýsingar um lausar byggingalóðir í Hveragerði eru undir skipulagsmálum.

Minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingaleyfi

Í 2.3.5. gr. byggingareglugerðar nr. 112/2012 eru framkæmdir sem eru undanþegnar byggingaleyfi tilgreindar, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag:

a. Framkvæmdir innanhúss í íbúðarhúsnæði.
Allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsum, s.s. endurnýjun innréttinga, viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar o.þ.h. Einnig breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum íbúðar, að undanskildum burðarveggjum og eldvarnarveggjum. Ekki má þó flytja til votrými eða eldhús innan íbúðar, né breyta burðarvirki, nema að fengnu byggingarleyfi.

b. Framkvæmdir innanhúss í atvinnuhúsnæði.
Allt minniháttar viðhald innanhúss í atvinnuhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, viðhald lagnabúnaðar innanhúss o.þ.h. Einnig endurnýjun léttra innveggja án breytinga á fyrirkomulagi þeirra, þó ekki burðarveggja og eldvarnarveggja. Ekki má flytja til votrými eða eldhús, né breyta burðarvirki, nema að fengnu byggingarleyfi.

c. Framkvæmdir utanhúss.
Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga þegar notað er eins eða sambærilegt efni og frágangur er þannig að útlit byggingar sé ekki breytt. Sækja ber um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar eða þegar endurbyggja þarf burðarvirki að hluta eða öllu leyti.

d. Móttökuloftnet.
Uppsetning móttökudisks, allt að 1,2 m að þvermáli, vegna móttöku útsendinga útvarps eða sjónvarps eða móttökuloftnets, á þak byggingar eða á lóð, að því tilskildu að slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt skilmálum skipulags. Vegna uppsetningar á móttökuloftneti eða móttökudiski á útvegg húss eða á svalir skal þó sótt um byggingarleyfi.

e. Framkvæmdir á lóð.
Allt eðlilegt viðhald lóðar, girðinga, bílastæða og innkeyrslu. Gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, enda rísi pallur ekki hærra en 0,3 m frá því yfirborði sem fyrir var. Pallur úr brennanlegu efni má þó ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Ekki er heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá er ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni nágranna, t.d. vegna útsýnis.

f. Skjólveggir og girðingar á lóð.
Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m. Ennfremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum. Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Hámarkshæð girðingar/skjólveggjar í 2. og 3. málsl. miðast við jarðvegshæð við girðingu/vegg eða jarðvegshæð lóðar á lóðarmörkum ef hæð jarðvegs þar er meiri en jarðvegshæð á lóð við vegginn.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur samþykkt undanþágur á ofangreindum reglum í minnisblaði um smáhýsi, girðingar og skjólveggi - nema að deiliskipulag segi til um annað. Deiliskipulag hverfa er hægt að finna á vefsjá Skipulagsstofnunar.

g. Smáhýsi á lóð.
Smáhýsi til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar eftirfarandi kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi:

  1. Flatarmál smáhýsis er að hámarki 15 m².
  2. Fjarlægð milli smáhýsa innbyrðis og frá glugga eða hurð húss, svo og frá útvegg timburhúss er a.m.k. 3,0 m.
  3. Veggur smáhýsis sem snýr að lóðarmörkum og er nær lóðarmörkum en 3,0 m er glugga- og hurðalaus.
  4. Mesta hæð útveggja eða þaks á smáhýsi er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
  5. Smáhýsi er án allra vatnslagna, raflagna og hitunar.
  6. Ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3,0 m skal liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar og skal það lagt fram hjá byggingarfulltrúa.

Sjá nánar í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um smáhýsi.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur samþykkt undanþágur á ofangreindum reglum í minnisblaði um smáhýsi, girðingar og skjólveggi, nema að deiliskipulag segi til um annað. Deiliskipulag hverfa er hægt að finna á vefsjá Skipulagsstofnunar.

Viðtalstími bygginga- og mannvirkjafulltrúa Hveragerðisbæjar er alla virka daga á milli 13:00 og 15:00.

Síðast breytt: 12.02.2024