Fara í efni

Veitur

Fráveita
Hveragerðisbær á og starfrækir Fráveitu Hveragerðisbæjar og ber ábyrgð á uppbyggingu hennar í bæjarfélaginu. Skipulagsfulltrúi hefur umsjón með uppbyggingu fráveitunnar og umhverfisfulltrúi annast daglegan rekstur hennar. Fráveita Hveragerðisbæjar er starfrækt í samræmi við lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009.

Helstu markmið bæjarstjórnar er að sinna skyldum sínum hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir, tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitunnar þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, skýra réttindi og skyldur notenda fráveitunnar og stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu Fráveitu Hveragerðisbæjar.

Bæjarstjórn semur gjaldskrá Fráveitu Hveragerðisbæjar, þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands veitir starfsleyfi vegna fráveitu- og hreinsibúnaðar sem notaður er við meðhöndlun, hreinsun og losun á skólpi frá Fráveitu Hveragerðisbæjar í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti.

Dreifikerfi Fráveitu Hveragerðisbæjar er svokallað „tvöfalt kerfiˮ. Í því fellst að skólp og regnvatn rennur um aðskilin dreifikerfi. Fráveita Hveragerðisbæjar leggur bæði skólp- og regnvatnslagnir að lóðarmörkum allra lóða í Hveragerði.

Hveragerðisbær starfrækir skólphreinsistöð sem tekin var í notkun í júní árið 2002. Hreinsistöðin er með lífrænu hreinsistigi og fer hreinsunin að mestu leyti fram í stöðvarhúsi. Allt skólp frá frá byggðinni í Hveragerði er hreinsað í hreinsistöðinni að frá töldu óverulegu magni sem hreinsað er í nokkrum rotþróm sem staðsettar eru í jaðri bæjarins.

Vatnsveita

Hveragerðisbær á og starfrækir Vatnsveitu Hveragerðisbæjar og ber ábyrgð á uppbyggingu hennar í bæjarfélaginu. Skipulagsfulltrúi hefur umsjón með uppbyggingu vatnsveitunnar og umhverfisfulltrúi annast daglegan rekstur hennar. Vatnsveita Hveragerðisbæjar er starfrækt í samræmi við lög um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 og reglugerð um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 40/2005. Vatnsveita Hveragerðisbæjar er skilgreind sem matvælafyrirtæki og starfrækir innra eftirlit.

Helstu markmið bæjarstjórnar er að sinna skyldum sínum hvað varðar vatnsveitumál og vatnsveituframkvæmdir, hafa ávallt til nægt vatn af bestu gæðum fyrir notendur, með þeim nægum vatnsþrýstingi, tryggja öryggi og viðbúnað í vatnsafhendingu, við rekstur, viðhald og nýframkvæmdir verði ávallt unnið með viðurkennd efni og fyllsta hreinlætis gætt, tryggja hagkvæman rekstur vatnsveitunnar og uppfylla kröfur um afhendingu nægs vatns til brunavarna.

Bæjarstjórn semur gjaldskrá Vatnsveitu Hveragerðisbæjar, þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands veitir starfsleyfi fyrir rekstri Vatnsveitu Hveragerðisbæjar í samræmi við ákvæði reglugerðar um neysluvatn nr. 536/2001, reglugerðar um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999 og reglugerðar um matvælaeftirlit nr. 522/1994.

Vatnsból Vatnsveitu Hveragerðisbæjar eru tvö, annað er staðsett á Selhæðum norðan Hamars undir Kömbum en hitt er staðsett undir Reykjafjalli í landi Reykja. Vatnsbólin eru lokuð og er grunnvatni dælt uppúr allt að 30m djúpum borholum sem eru fjórar talsins.

Vatnsveita Hveragerðisbæjar starfrækir einn 750m2 miðlunargeymi, sem staðsettur er vestan við Hlíðarhaga. Dælu- og lokahús er sambyggt miðlunargeyminum.

Vatnsveita Hveragerðisbæjar á allar vatnsveituheimæðar í bæjarfélaginu. Lóðarhafi leggur, á sinn kostnað, ídráttarrör fyrir heimæð, frá lóðarmörkum og inn fyrir húsvegg. Vatnsveitan sér um að draga heimæð í gegnum ídráttarrörið og setur upp tengigrind við inntaksstað.

Dreifikerfi Vatnsveitu Hveragerðisbæjar er að langmestu leyti gert úr PEH plastlögnum.

 

Síðast breytt: 17.05.2021
Getum við bætt efni síðunnar?