Fara í efni

Afreks- og styrktarsjóður

Afreks- og styrktarsjóður er sjóður sem menningar-, íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðisbæjar úthlutar styrkjum úr tvisvar á ári, í apríl og október. Stjórninni er heimilt að auglýsa eftir umsóknum um styrki eftir nánari ákvörðun sinni. Einnig getur hún veitt styrki og viðurkenningar án umsókna. Menningar- og frístundafulltrúa er heimilt að úthluta A-styrkjum samkvæmt vinnureglum sjóðsstjórnar á öðrum tímum ársins.

Umsóknareyðublað um styrk úr afreks- og styrktarsjóði má finna í íbúagátt Hveragerðisbæjar.

Reglur sjóðsins

1. gr.
Afreks- og styrktarsjóður

Sjóðurinn heitir afreks - og styrktarsjóður Hveragerðisbæjar.

2. gr.
Styrkir og viðurkenningar

Sjóðurinn veitir styrki og viðurkenningar eftir nánari ákvörðun menningar-, íþrótta - og frístundanefndar.

3. gr.
Stjórn sjóðsins

menningar-, íþrótta - og frístundanefnd Hveragerðisbæjar fer með stjórn sjóðsins, ákvarðar styrkveitingar og viðurkenningar fyrir unnin afrek og hefur eftirlit með nýtingu styrkveitinga. Starfstími sjóðsstjórnar er kjörtímabilið. Menningar- og frístundafulltrúi er starfsmaður sjóðsins.

4. gr.
Markmið sjóðsins eru:

  • að veita afreksíþróttafólki með lögheimili í Hveragerðisbæ fjárhagslegan styrk vegna æfinga og/eða keppni, og þannig búa þeim sem besta aðstöðu til að stunda íþrótt sína.
  • að veita íþróttahópum í íþróttafélögum í Hveragerðisbæ sem náð hafa afburðaárangri, fjárhagslegan styrk og gera þeim kleift að búa sig enn betur undir áframhaldandi keppni.
  • að veita árlega styrki og viðurkenningar fyrir unnin afrek í íþróttum.

5. gr.
Viðmið styrkveitinga

Við styrkveitingar skal taka mið af eftirfarandi:

  • Árangri á innlendum og erlendum vettvangi.
  • Markmiðum og áætlunum um æfingar og/eða þátttöku í keppnum innanlands og erlendis.
  • Unnum titlum í íþróttum á árinu.

6. gr.
Umsóknir um styrki

Stjórn sjóðsins úthlutar styrkveitingum úr sjóðnum tvisvar á ári, í apríl og október. Menningar- og frístundafulltrúa er heimilt að úthluta A-styrkjum samkvæmt vinnureglum sjóðsstjórnar á öðrum tímum ársins. Stjórninni er heimilt að auglýsa eftir umsóknum um styrki eftir nánari ákvörðun sinni. Einnig getur hún veitt styrki og viðurkenningar án umsókna. Umsóknareyðublað um styrk úr afreks- og styrktarsjóði er á heimasíðu Hveragerðisbæjar www.hveragerdi.is . Umsóknir um styrki:

  • vegna einstaklinga skulu vera í nafni viðkomandi íþróttamanns.
  • vegna íþróttahópa skulu vera í nafni viðkomandi íþróttaflokks/-hóps.
  • skulu vera staðfestar af formanni deildarinnar/félagsins.

Með umsóknum skulu fylgja:
*áætlanir um æfingar og fyrirhugaða þátttöku í keppnum og markmiðum íþróttamannsins. *fjárhagsáætlun vegna fyrirhugaðra æfinga og/eða keppna. *önnur gögn er stjórn sjóðsins kann að telja nauðsynleg.

Stjórn sjóðsins skal svara skriflega öllum umsóknum sem berast.

7. gr.
Greiðsla styrkja

Greiðslur úr afreks - og styrktarsjóði greiðast strax þegar ákvörðun sjóðsstjórnar liggur fyrir. Menningar- og frístundafulltrúa er heimilt að afhenda styrki til afreksmanna sem eru að keppa með landsliðum samkvæmt vinnureglum sjóðsstjórnar. Styrkupphæðir miðast við fjármagnsgetu sjóðsins hverju sinni.

8. gr.
Skyldur styrkþega

Allir íþróttamenn sem þiggja styrk úr afreks - og styrktarsjóði skulu hlíta þeim reglum sem Íþrótta - og Ólympíusamband Íslands setur um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit, svo og þeim almennu siða og agareglum sem gilda um framkomu íþróttamanna innan vallar sem utan. Styrkþegi þarf að skila greinargerð til sjóðsstjórnar um hvernig styrknum var varið.

9. gr.
Varsla afreks- og styrktarsjóðs

Vörslu og reiknishald sjóðsins annast stjórn sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal birta uppgjör hans árlega með fundargerðum íþrótta - og tómstundanefndar.

10. gr.
Tekjur sjóðsins

Árlegt framlag úr bæjarsjóði Hveragerðisbæjar samkvæmt fjárhagsáætlun hverju sinni. Frjáls framlög.

11. gr.
Gildistími

Reglugerðin gildir frá 1. janúar 2009. Endurskoðun á reglugerð fór fram 7. október 2014 og var samþykkt á fundi menningar-, íþrótta- og frístundanefndar.

Umsóknareyðublað er að finna í íbúagátt. 

Síðast breytt: 06.04.2021
Getum við bætt efni síðunnar?