Fara í efni

Hlynurinn eini

er draumatré okkar Íslendinga og einkennistré okkar Hvergerðinga

Hlynur (fræðiheiti: Acer) er ættkvísl trjáa af sápuberjaætt (Sapindaceae). Íslendingar þekkja helst garðahlyn sem hér hefur verið ræktaður í görðum á aðra öld.

Garðahlynur (Acer pseudoplatanus)
er draumatré okkar Íslendinga og einkennistré okkar Hvergerðinga
Það hefur beinan, kröftugan stofn og breiða og gróskumikla krónu. Greinar krónunnar eru það voldugar og umfangsmiklar að fjölskyldan getur setið saman undir trénu í skjóli eða forðað sér undan regndropunum eða heitri sólinni um miðjan daginn. Hér í Hveragerði dafnar garðahlynur afskaplega vel og eru fjölmargir áberandi garðahlynir í görðum bæjarbúa sem og í almenningsgörðum.

Ætt: Garðahlynur er ættaður frá Evrópu og vestasta hluta Asíu. Hann er af hlynsættinni, Aceraceae en innan hennar eru tvær ættkvíslir, Acer og Dipteronia sem samtals innihalda um 100 tegundir plantna sem aðallega er að finna á tempruðum svæðum norðurhvels jarðar.

Hæð: Í heimkynnum sínum geta hlynir náð allt að 40 m hæð en á Íslandi eru hæstu hlynir rétt um 15 m háir.

Vaxtarlag: Hlynur er einstofna tré með stóra og hvelfda krónu. Hlynurinn þarf mikið og gott rými til að hann njóti sín til fulls. Eitt af sameiginlegum einkennum hlyntegunda er lögun blaðanna en þau eru handsepótt til handflipótt. Stærð blaðanna er mjög mismunandi milli tegunda og einnig er fjöldi flipa eða sepa mismikill.

Fjölgun: Fræin eru einkennandi fyrir ættkvíslina. Þau eru föst saman tvö og tvö og á hverju fræi er vængur. Vængir fræjanna mynda hvasst horn eða allt að því rétt horn (60-90°) hver við annan og er þetta atriði oft notað til að greina sundur mismunandi hlyntegundir. Þegar fræið fellur til jarðar gerir vængurinn það að verkum að það skrúfast niður og getur þannig lent í dálítilli fjarlægð frá móðurplöntunni.

Aldur og vöxtur: Garðahlynur getur vaxið hratt við bestu aðstæður í heimkynnum sínum og orðið eldgamall eða 400 – 500 ára. Á Íslandi glímir hann við haustkal í æsku sem dregur úr vexti þannig að íslensku plönturnar eru flestar frekar ungar eða rétt á táningsaldri.

Vaxtarskilyrði: Garðahlynur þarf frjósaman jarðveg, gott skjól í æsku og langt sumar. Þetta tignarlega tré er e.t.v. það langlífa eðallauftré sem er næst því að vera nothæft í skógrækt á Íslandi. Reynslan er að hann vaxi upp úr tilhneigingunni til kals á 10-20 árum og vaxi áfallalítið eftir það. Hann er vind og saltþolinn sem eru styrkleikar.

Tvö líf, tvö hjörtu sameinuðust í vináttu sameinuð að eilífu í kærleika. - Dottie Kinealy

 

Tilbrigði við stef
eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttir

Sum tré eru þannig að við höldum að þau séu eitt þegar þau eru í raun tvö. Við sjáum ekki að þarna standa tvær nánar en ólíkar persónur fyrr en líða tekur á haustið og annað tréð ákveður að mál sé til komið að skipta út grænu fyrir gult og rautt. Hvernig er slík ákvörðun tekin? Varla einungis með sjálfvirkum hætti, því þá hlytu þau að vera svo samtaka að engan grunaði neitt.

Vitað er að tré ræða saman og nota til þess ræturnar með hjálp sveppþráðakerfis í jarðveginum. Þau vara hvert annað við aðvífandi plágum og annað slíkt. Því skyldu þau þá ekki vera ósammála um sumt?

Hér er orðið kalt og dimmt og mál til komið að fella laufin.
Hvaða vitleysa, hér eru nokkrir góðir dagar eftir enn.
Hafðu það eins og þú vilt, kæri vin.

Það er mikilvægt fyrir hlyn að vita hvenær sumri lýkur en þó eru það ekki nákvæm vísindi. Tíminn er sagður harður húsbóndi en hann gefur rými fyrir spuna; tilbrigði við stef.

Við höfum hvert og eitt okkar fullt leyfi - eða eiginlega ber okkur heilög skylda - til að elta eigin dynti. Eins lengi og það skaðar ekki næsta mann. Eða næsta tré.

Síðast breytt: 21.06.2022
Getum við bætt efni síðunnar?