Fara í efni

Lárus Rist

Minnisvarði við Sundlaugin Laugaskarði um Lárus J. Rist sundkennara

Árið 1936 kom Lárus J. Rist sundkennari frá Akureyri til Hveragerðis.  Hann hafði stundað nám við lýðháskólann Askov í Danmörku og lokið prófi frá fimleikaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1906.  Lárus hafði um árabil unnið við sundkennslu á Akureyri og 6. janúar 1907 vann hann það afrek að synda yfir Eyjafjörð.  Lárus gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu.  Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins.  Lárus tók forystu í sundlaugarnefnd og valdi sundlauginni stað í gilinu fyrir neðan gróðurskálana á Reykjum.  Þar seytlaði volgur lækur milli grasigróinna bakka og hjálpaði hann til að grafið var fyrir lauginni á þessum stað.

Í ágústmánuði árið 1959 var afhjúpaður minnisvarði um Lárus J. Rist í Laugaskarði í tilefni áttræðisafmæli hans.  Þetta var brjóstmynd gerð af listamanninum Ríkharði Jónssyni. 

Það var hátíðarblær yfir staðnum þennan dag og hundrað börn og unglingar steyptu sér til sunds í laugina.  Jóhannes úr Kötlum flutti frumsamið kvæði að fornum hætti.  Gunnar Benediktsson rithöfundur las kvæði Matthíasar Jochumssonar í tilefni af Eyjarfjarðarsundi Lárusar árið 1907. 

Stefán Guðmundsson hreppstjóri sagði í ræðu sinni:

„Brjóstmynd þessi á ekki aðeins að vera
óbrotgjarn minnisvarði um frumherjann,
heldur einnig bending til æskufólks á
óleyst verkefni og síðast en ekki síst á
hann að minna á hve vilji, vit og atorka
einstaklingsins fær miklu til leiðar komið
ef vasklega er unnið að góðum málefnum.”

 

Síðast breytt: 29.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?