Fara í efni

Bæjarstjórn

570. fundur 29. nóvember 2023 kl. 17:00 - 18:38 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Njörður Sigurðsson forseti bæjarstjórnar
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Sandra Sigurðardóttir
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Alda Pálsdóttir
  • Sigmar Karlsson varamaður
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Íris Bjargmundsdóttir
Fundargerð ritaði: Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Njörður Sigurðsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð.

Fulltrúar D-listans leggja fram eftirfarandi tillögu að dagskrár breytingu á lið 2 á fundinum:
Þar sem ófullnægjandi gögn lágu fyrir við boðun fundarins um viðkomandi lið þá teljum við að ekki sé hægt að taka málið fyrir á þessum fundi. Lagt er til að afgreiðslu málsins sé frestað.

Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson


Klukkan 17:02 var gert fundarhlé.
Klukkan 17:19 hélt fundur áfram.

Breytingartillaga borin upp.
Fulltrúar minnihluta kusu með en fulltrúar meirihlutans kusu á móti. Tillagan er því felld.

Í upphafi fundar var samþykkt eftirfarandi bókun.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar undrast hálýstar yfirlýsingar í fjölmiðlum í gær um virkjanaáform í Ölfusdal og samstarf Orkuveitu Reykjavíkur, Sveitarfélagsins Ölfuss og Títans án nokkurs samráðs eða aðkomu Hveragerðisbæjar að því máli. Eins og fram hefur komið er Ölfusdalur að stærstum hluta í Hveragerði og að minnihluta í Ölfusi. Það er furðulegt að fara af stað með slík áform án þess að Hveragerðisbær eigi aðkomu að málinu því ljóst er að virkjanaframkvæmdir munu hafa mest áhrif á íbúa Hveragerðisbæjar. Í þessu samhengi má nefna þau óþægindi sem íbúar Hveragerðis og nágrennis hafa orðið af borholum á Hellisheiði, með aukinni jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar, loftmengun og hávaðamengun sem berst íbúum þegar borholurnar eru látnar blása. Í Ölfusdal er að finna fjölbreytta aðstöðu til útvistar og íþrótta, má þar nefna að golfvöll, knattspyrnuvöll, sviflínu og gönguleiðir, þ.m.t. upphaf gönguleiðar inn í Reykjadal sem tugþúsundir ferðamanna fara á hverju ári. Í undirbúningi er frekari uppbygging í Ölfusdal í þágu útivistar og nálægðar við náttúruna. Umræður og ákvarðanir um virkjanir í og við náttúrperlur eins og Ölfusdal, og í næsta nágrenni við íbúabyggð, eru því mál sem þarf að vanda sérstaklega vel til og hafa víðtækt samráð við íbúa og ferðaþjónustuaðila. Hveragerðisbær leggst gegn því að rannsóknarleyfi verði veitt í Ölfusdal fyrr en náið og eðlilegt samráð hefur verið haft við sveitarfélagið og íbúa þess um þessa framkvæmd. Því er beint til umræddra aðila og stjórnvalda að tryggja aðkomu Hveragerðisbæjar að öllum áformum um virkjanaframkvæmdir í Ölfusdal áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar um rannsóknarleyfi eða framkvæmdir.

1.Skipan í nefndir og ráð

2311339

Ívar Sæland hefur óskað eftir lausn frá setu í Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd.



Enginn tók til máls.
Tillaga kom um að Atli Örn Egilsson verði aðalmaður í Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd í stað Ívars Sælands.

Tillagan samþykkt samhljóða.

2.Minnisblað frá bæjarstjóra vegna stækkunar leikskólans Óskalands

2311341

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra um stækkun leikskólans Óskalands.



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Sigmar Karlsson, Sandra Sigurðardóttir, Geir Sveinsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Alda Pálsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að gengið verði til samninga við Hrafnshól ehf. um byggingu viðbyggingar leikskólans Óskalands að Réttarheiði 45, Hveragerði.

Fulltrúar minnihluta sátu hjá með eftirfarandi bókun.
Fulltrúar D-listans sitja hjá við afgreiðslu viðkomandi máls þar sem ófullnægjandi gögn liggja fyrir í fundargátt bæjarins. Það er ánægjulegt að heyra að viðræður gangi vel og hafi skilað árangri en til þess að taka afstöðu í málinu þá er mikilvægt að upplýsa bæjarfulltrúa fyrir fund hvað sé verið að fara að byggja, hvort og hverjar breytingar séu við framkvæmdina, hver kostnaðurinn sé og hversu langan tíma verkið taki.
Við fögnum tilkomu nýrra leikskólaplássa í Hveragerði en hefðum kosið að þau yrðu í Kambalandi og húsnæðið væri í eigu Hveragerðisbæjar en ekki tekið á leigu af þeim aðila sem byggir leikskólann.

Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson

3.Samningur við Veiðifélag Varmár og Þorleifslækjar

2311340

Lögð fram drög að samningi við Veiðifélag Varmár og Þorleifslækjar vegna skólpmengunar í Varmá og Þorleifslæk.



Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn samhljóða.

4.Fyrirspurn frá bæjarfulltrúum D-listans vegna endurbóta á fráveitumannvirkjum

2311343

Bæjarfulltrúar D-listans óska eftir upplýsingum um þær aðgerðir sem farið hefur verið í á árinu 2023 til að bæta fráveitumannvirki bæjarins og hver heildarkostnaður þessarar framkvæmda er.

Á síðasta kjörtímabili var hafin vinna við endurbætur á fráveitumannvirkjunum og samkvæmt fjárfestingaráætlun fyrir árið 2023 var áætlað að setja 30 miljónir króna til endurbóta á fráveitumannvirki bæjarins.

Þá óska bæjarfulltrúarnir eftir upplýsingum um þær áætlanir meirihlutans sem liggja fyrir varðandi endurbætur á fráveitumannvirkjum á árunum 2024 og 2025.



Alda Pálsdóttir

Sigmar Karlsson



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Alda Pálsdóttir og Geir Sveinsson.

Bæjarstjóri svaraði fyrirspurninni með eftirfarandi hætti:

Allt frá því að sú staða kom upp sl. vor að stöðva þurfti ótímabundið veiði í Varmá og Þorleifslæk vegna ófullnægjandi afkasta fráveitu Hveragerðis hefur verið unnið markvisst að endurskipulagningu fráveitumála bæjarins með það í huga að koma til móts við kröfur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og um leið að móta framtíðaruppbyggingu fráveitumála Hveragerðis til 2050.

Við þá vinnu hefur verið meðal annars stuðst við greinargóð og vel unnin minnisblöð Guðmundar F. Baldurssonar fyrrverandi byggingar- og skipulagsfulltrúa Hveragerðis, greiningar og mælingar á núverandi ástandi gerðar með aðstoð sérfræðinga, gott og stöðugt samtal við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, auk þess sem heilmikil vinna hjá starfsfólki bæjarins hefur verið unnin.

Ekki hefur verið ráðist í eiginlegar aðgerðir á þessu ári á fráveitunni sjálfri enda myndu þær aðgerðir í sjálfu sér litlu sem engu skila nema auknum kostnaði, þar sem vandamál fráveitunnar eru mun stærri í sniðum og ljóst að ráðast þarf í stærri og fjárfrekari aðgerðir til þess að leysa fráveitumál bæjarins til framtíðar þar sem meðal annars þarf væntanlega að ráðast í gerð nýrrar fráveitustöðvar.

Með það í huga og þar sem engin nýleg og nákvæm greining og mæling á ástandi á fráveitumálum Hveragerðisbæjar lá fyrir, hefur sú vinna átt sér stað, meðal annars með það í huga að fá utanaðkomandi sérfræðiráðgjöf frá til þess bærum aðilum, sem gætu aðstoðað bæinn með næstu skref svo tryggja megi að fráveitumál bæjarins verði sem best á kosið allt til 2050 hið minnsta og uppfylli þar af leiðandi þau skilyrði sem uppfylla þarf.

Eftir ítarlega yfirlegu og greiningarvinnu og fjölda samtala við sérfræðinga fráveitumála og söluaðila fráveitulausna erum við á lokametrunum á vali á ráðgjafa sem verður til aðstoðar og leiðbeiningar hvað næstu skref varðar og mun sá aðili njóta aðstoðar erlendra aðila sem þekkja til þeirra lausna sem Hveragerðisbær er þegar með.

Heildarkostnaður framkvæmda á þessu ári til dagsins í dag er tæpar fjórar milljónir kr. sem skiptist í sérfræðikostnað að upphæð 3.113.000 kr. og aðkeypt efni að upphæð 817.586 kr.

Gera má ráð fyrir að frekari kostnaður vegna vinnu ráðgjafa muni koma til viðbótar á þessu ári.

Samkvæmt fjárhagáætlun Hveragerðisbæjar 2024-2026, sem á þessum fundi bæjarstjórnar er til umfjöllunar, er gert ráð fyrir að í endurbætur á fráveitu Hveragerðis fari;

2024 100 milljónir.
2025 300 milljónir.
2026 100 milljónir.

Geir Sveinsson bæjarstjóri.

5.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2024-2027, fyrri umræða

2311342

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2024-2027.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs kynnti áætlunina.



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigmar Karlsson og Alda Pálsdóttir.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 er hér með lögð fram. Fjárhagsáætlunin var eingöngu unnin af meirihluta en minnihluti D - lista þáði ekki boð um þátttöku í fjárhagsáætlunarvinnunni. Besta tækifærið til þess að vinna að hag bæjarbúa er að taka þátt í fjárhagsáætlunarvinnunni og hafa þannig áhrif á rekstur sveitarfélagsins og áherslur til framtíðar. Það er einlæg von okkar að þessi vinna sé unnin í góðu samstarfi allra flokka. Saman gerum við góðan bæ enn betri.
Meirihlutinn vill koma á framfæri góðum þökkum til bæjarstjóra og skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar fyrir óeigingjarna og góða vinnu við fjárhagsáætlun. Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og er þeim þakkað fyrir mjög góða vinnu. Einnig er starfsmönnum Hveragerðisbæjar færðar þakkir fyrir gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Almennt um rekstur og horfur 2024
Stefnt er að því að gera reksturinn sjálfbæran en verðbólguinnskot og ytri aðstæður í fjármála umhverfinu þyngir róðurinn umtalsvert. Í áætluninni sem nú er lögð fram er tekið mið af ytri aðstæðum og miðast gjaldskrárhækkanir að þeim. Ráðdeild er í rekstri og samhliða því fjárfest í innviðum í takt við íbúafjölgun.
Mikil eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerði og fjölgaði íbúum um 7,1% árið 2022 og stefnir í að íbúafjölgun á þessu ári verði litlu minni. Þessi eftirspurn gefur okkur tækifæri til að snúa við þróun síðustu ára, í rekstri bæjarins, með því að fá inn tekjur í innviðauppbyggingu og til að lækka skuldir sveitarfélagsins. Á sama tíma er mikilvægt verkefni að byggja upp og fjölga atvinnutækifærum í Hveragerði og í því augnamiði hefur verið sett á stofn nefnd og ráðinn fulltrúi sem fara með málefni menningar- atvinnu- og markaðsmála.

Forsendur fjárhagsáætlunar 2024
Tekjur Hveragerðisbæjar eru útsvar, fasteignagjöld, þjónustugjöld og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar er óbreytt í fjárhagsáætlun 2024 eða 14,52%. Fasteignamat fyrir árið 2024 hækkaði um rúm 8% í Hveragerði. Í áætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts. Álagningarprósentur á vatnsgjaldi, holræsagjaldi og lóðarleigu á húsnæði í öllum flokkum breytast ekki milli ára. Aukavatnsgjald hækkar úr 15 kr. á rúmmetra í 16 kr. Gjalddagar fasteignagjalda verða áfram 11.
Áhersla var lögð á að koma sem mest til móts við bæjarbúa vegna hækkana á gjaldskrám sveitarfélagsins. Hækkun gjaldskráa Hveragerðisbæjar miðast því við verðlagsþróun síðasta árs. Verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði var um 8% og því hækka flest þjónustugjöld í samræmi við það. Dvalargjöld á leikskóla hækka þó aðeins um 3%.
Breytingar eru gerðar á gjaldskrá sorphirðu vegna gildistöku breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Nú greiðir hvert heimili eftir tunnufyrirkomulagi hjá hverjum húseiganda.

Fjölskyldan
Í málefnasamningi meirihlutans er lögð rík áhersla á velferð fjölskyldunnar og því ber að geta þess að á árinu 2024 verður haldið áfram að lækka gjöld fyrir leikskólavist. Haustið 2022 ákvað meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar að bjóða upp á eina gjaldfrjálsa klukkustund á leikskólum bæjarins og haustið 2023 var önnur klukkustund gerð gjaldfrjáls. Gert er ráð fyrir því að haustið 2024 verði þriðja klukkustundin gjaldfrjáls og með því lækka gjöld foreldra leikskólabarna. Leikskólagjöld hafa lækkað um 4% frá því að nýr meirihluti tók við á sama og vísitala hefur hækkað um 12%. Frístundastyrkur verður hækkaður úr 32.000 kr. í 38.000 kr. Frístundastyrkur hefur hækkað um 46% á kjörtímabilinu. Stefnt er að því að lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrksins verði áfram í skrefum á kjörtímabilinu.

Fjárfestingar 2024
Áfram verður haldið í innviðauppbyggingu. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting á árinu 2024 verði tæpar 1.318 milljónir króna. Stærstu framkvæmdir ársins verða eftirfarandi:
* Áætlað er að framkvæmdir við þriðja áfanga Grunnskólans í Hveragerði klárist á árinu 2025 og er gert ráð fyrir fjárfestingum í það verkefni á árinu 2024 upp á 500 m.kr. en framlag Sveitarfélagsins Ölfuss er 70 m.kr. sem dregst frá þeirri tölu.
* Viðhald í grunnskólanum verður upp á 15,5 m.kr. á árinu.
* Gert er ráð fyrir að 100 m.kr. fari í viðbyggingu á Leikskólanum Óskalandi og þar með fjölgar leikskólaplássum og starfsmannaaðstaða bætt.
* Á árinu 2024 er jafnframt gert ráð fyrir 500 m.kr. í íþróttamannvirki.
* Áætlaðar fjárfestingar vegna gatnagerðar á árinu eru 242 m.kr. og gert er ráð fyrir tekjum af þeim framkvæmdum að fjárhæð 651 m.kr.
Á árunum 2024-2027 er áætlað að gatnagerðartekjur verði hærri en framkvæmdakostnaður við götur og hverfi. Þegar tekjur vegna gatnagerðar eru umfram framkvæmdakostnað í ákveðnum hverfum og því er hagnaður af hverfunum innleystur í gegnum rekstur sveitarfélagsins.
* Klæðning Birkimörk 50 m.kr.
* Kaup á félagslegu húsnæði 40 millj.
* Þá er gert ráð fyrir 100 m.kr. fjárfestingu í fráveitu bæjarins og 10 m.kr í vatnsveitur.

Helstu rekstrartölur í fjárhagsáætlun 2024
Við framlagningu fjárhagsáætlunar til fyrri umræðu er gert ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 5.192 m.kr. fyrir árið 2024. Þar af er útsvar og fasteignagjöld áætlaðar kr. 2.938 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 987 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 1.266 m.kr.
Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 4.536m.kr. EBITDA Hveragerðisbæjar er 835 m.kr. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er jákvæð um 656 m.kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 458 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 198 m.kr. sem er betri niðurstaða en undanfarin ár.

Forsendur þriggja ára áætlunar
Samhliða fjárhagsáætlun 2024 er lögð fram þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2025-2027. Forsendur hennar eru eftirfarandi:
* Gert er ráð fyrir að vísitala neysluverð verði frá 5,6% í upphafi tímabilsins og 2,7% í lok þess og er það í samræmi við uppfærða þjóðhagsspá sem birt var í nóvember 2023.
* Íbúar verði tæplega 4.100 í lok árs 2027.
* Tekjur af útsvari hækki um 8,99% á ári á tímabilinu.
* Tekjur af fasteignaskatti hækki um 6,5% á ári á tímabilinu.
* Framlög jöfnunarsjóðs hækki um 4,1% á ári á tímabilinu.
* Hækkun launa verði 4,1% á ári á tímabilinu.
* Starfsfólki sveitarfélagsins fjölgi um 3,1% á á ári á tímabilinu.
* Annar rekstrarkostnaður hækki um 3,6% til 6,03% á ári á tímabilinu.

Áætlun um rekstur 2024-2026
Markmið meirihlutans er að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær. Sýna þarf ráðdeild í rekstri án þess að skerða þjónustu til íbúa. Lögð er sérstök áhersla á að auka tekjur sveitarfélagsins en mörg tækifæri eru til þess í Hveragerði sem er vinsæll búsetukostur.

Fjárfestingar 2025-2027
Áætlaðar fjárfestingar árið 2025 eru 1.404 m.kr., árið 2026 1.080 m.kr. og árið 2027 770 m.kr. Stærstu fjárfestingarnar er bygging þriðja og fjórða áfanga grunnskólans, leikskóli í Kambalandi, íþróttamannvirki, hjúkrunarheimili, fráveita og vatnsveita. Allt eru þetta framkvæmdir sem nauðsynlegt er að fara í vegna íbúafjölgunar undanfarinna ára og þeirri fjölgun sem áætlað er að verði á næstu árum.
Rétt er að ítreka að fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi þess efnahagslega umhverfis sem ríkir á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar 2024-2025
Markmið meirihlutans er að þrátt fyrir miklar fjárfestingar vegna innviðauppbyggingar og lántöku vegna þeirra verði skuldir samstæðu undir 150% skuldaviðmiði. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun munu skuldir samstæðu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar.
2024 125,4% af tekjum
2025 131,9% af tekjum
2026 126,2% af tekjum
2027 112,3% af tekjum
Á árunum 2024-2027 munu skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar vaxa úr 7.320 m.kr. í 7.953 m.kr. vegna lántöku fyrir innviðafjárfestingar sem getið er að ofan.

Að lokum
Hveragerðisbær er í örum vexti og fram undan eru metnaðarfull verkefni. Mikilvægt er að huga að framtíðinni og skýr markmið eru um að innviðauppbygging haldist í hendur við fjölgun íbúa. Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar björtum augum á framtíðina enda tækifærin fjölmörg.
Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best. Áhersla er lögð á fjölskylduna, styðja við barnafjölskyldur, hér séu öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gæða íþrótta- og frístundastarf, heilsuefling íbúa á öllum aldri sé í hávegum höfð og að ferðaþjónusta og menningin haldi áfram að blómstra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Njörður Sigurðsson
Halldór Benjamín Hreinsson
Sandra Sigurðardóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir


Bæjarfulltrúar D-listans gera athugasemd við óskipulagða framsetningu fjárfestingaráætlunar og óska eftir skriflegum svörum við eftirfarandi spurningum varðandi fjárfestingaráætlun.


Götur og göngustígar - Stendur ekki til að fjárfesta neitt í þeim árið 2027?

Hamarshöllin - Gert er ráð fyrir 200 milljónum í hana árið 2026. Hvað felst í þeirri fjárfestingu?

Klæðning á heimili fyrir fatlaða - Gert er ráð fyrir 50 milljónum árið 2024. Á fjárfestingaráætlun ársins 2023 var gert ráð fyrir 22 milljónum í þessa sömu framkvæmd sem ekkert varð úr. Í hverju felst hækkunin?

Íþróttamannvirki - Gert er ráð fyrir 800 milljónum árin 2024 og 2025. Hvað felst í þeirri fjárfestingu?

Fram koma tveir liðir sem eru efnislega sambærilegir, Annars vegar er það ,,Eignasjóður - Bíll fyrir fatlaða - Vélar, áhöld? 6 milljónir árið 2025 og hins vegar ,,02 - Félagsþjónusta - Bíll fyrir fatlaða - Véla? 10 milljónir árið 2024. Hvað felst í þessum fjárfestingum?

Liðirnir ,,Gatnagerðartekjur?, ,,Gatnagerðrartekjur?, ,,Eignasjóður - Gatnagerð - Veitukerfi, hafnar? og ,,10 - Umferðar- og samgöngumál - Gatnager? virðist allir innihalda einhverskonar gatnagerð eða gatangerðartekjur. Óskað er eftir skýringum á því hvað felst í þessum liðum.

Hvers vegna eru tveir liðir um 4. áfanga grunnskólans?

Varðandi liðinn ,,Endurnýjun skóli?, hvað felst í þeirri fjárfestingu?

Gert er ráð fyrir 100 milljónum árið 2027 í íþróttamál. Hvað felst í þeirri fjárfestingu?

Hvers vegna eru þrjár línur á fjárfestingaáætlun um kaup á félagslegu húsnæði?


Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson

Fyrirspurninni verður svarað skriflega fyrir síðari umræðu fjárhagsáætlunnar.

Samþykkt að vísa fjárhagsáætlun áranna 2024-2027 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:38.

Getum við bætt efni síðunnar?