Fara í efni

Bæjarstjórn

555. fundur 08. desember 2022 kl. 17:00 - 21:27 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Sandra Sigurðardóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Sigmar Karlsson varamaður
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Kl. 17:07 var gert fundarhlé.
Kl. 17:11 hélt fundur áfram.

Í upphafi fundar samþykkti bæjarstjórn eftirfarandi bókun.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar lýsir áhyggjum sínum yfir þeirri stöðu sem uppi er á Fangelsinu að Sogni. Samkvæmt minnisblaði frá Dómsmálaráðuneytinu dagsett þann 22. nóvember 2022 kemur fram að rekstrarumhverfi fangelsiskerfisins á Íslandi hafi verið mjög þungt um margra ára skeið og að ein af afleiðingum þess, ef ekki komi til auknar fjárheimildir 2023, verði að fangelsinu að Sogni verði varanlega lokað.

Í fangelsinu að Sogni er unnið gott og öflugt starf og er fangelsið einstakt úrræði til betrunar fyrir þá vistmenn sem þar dvelja. Ef til þess kæmi að loka yrði fangelsinu að Sogni myndu 12 störf í nálægð við Hveragerði leggjast af og 21 fangelsispláss hverfa, en í dag eru 17 fangelsispláss nýtt. Fangelsið að Sogni skiptir Hvergerðinga, atvinnurekendur í Hveragerði og bæjarfélagið í heild miklu máli. Á Sogni hafa margir Hvergerðingar starfað í gegnum tíðina og starfa nokkrir Hvergerðingar þar enn og þá hafa fjöldi vistmanna á Sogni starfað við hin ýmsu störf í Hveragerði. Lokunin myndi því hafa gífurleg áhrif á samfélagið í Hveragerði og fyrir fangelsiskerfið almennt í landinu.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar skorar því á dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra að gera allt hvað þeir geta til að tryggja til framtíðar áframhaldandi starfsemi að Sogni öllum til heilla.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 17. nóvember 2022

2211003F

Liðir afgreiddir sérstaklega 3, 6, 7 og 8.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson,
Liður 3 "Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 26. október 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir verða áfram þátttakandi í stafrænu ráði sveitarfélaga.

Liður 6 "Bréf frá Stígamótum frá 31. október 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 7 "Bréf frá foreldrafélagi leikskólanna í Hveragerði ódagsett" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 8 "Umsókn um skólavist utan lögheimilissveitarfélags" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 1. desember 2022

2211007F

Liðir afgreiddir sérstaklega 6, 8 og 9.

Enginn tók til máls.
Liður 6 "Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 18. nóvember 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að endurnýja kjarasamningsumboð við Samband íslenskra sveitarfélaga og samþykkir sameiginlega ábyrgð á öflun upplýsinga með rafrænum hætti.

Liður 8 "Bréf frá Sjóðnum góða frá 17. nóvember 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að styrkja Sjóðinn góða um 100.000,-.

Liður 9 "Bréf frá Ríkharði Traustasyni frá 18. nóvember 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að Ríkharður Traustason fái að skipta lóðinni Hólmabrún 2 og fá Hólmabrún 4 í staðinn.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð menningar-íþrótta og frístundanefndar frá 22. nóvember 2022

2211005F

Liður afgreiddur sérstaklega 6.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigmar Karlsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Sandra Sigurðardóttir og Halldór B. Hreinsson.
Liður 6 "Tillaga frá fulltrúum D-lista - Lengri opnunartími Laugaskarðs" afgreiddur sérstaklega.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúar D-listans fagna því að opnunartími sundlaugarinnar sé að rýmka þó að vissulega hefðum við fulltrúar D-listans viljað ganga enn lengra líkt og kom fram í okkar tillögu til bæjarstjórnar. Fulltrúar D-listans leggja mikla áherslu á að þessi aukni opnunartími verði auglýstur vel og að menningar- og frístundafulltrúi sjái til þess að haldið sé gaumgæfilega utan um nýtingu á þessum aukna opnunartíma á meðal sundlaugargesta svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvort að þörf á aukinni opnun sé í raun og veru til staðar.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Sund er mikilvæg hreyfing og eru bæjarbúar hvattir til að nýta Sundlaugina Laugaskarð sér til heilsubótar.
Heimsóknatölur hafa ekki gefið þá mynd að kallað sé eftir aukinni opnun, forsendur fyrir auknum opnunartíma er aukin gestafjöldi í sundlaugina enda kallar lengri opnunartími á meiri fjárútlát í rekstri sundlaugarinnar. Bæjarstjórn telur sér því ekki fært að verða við tillögunni að stöddu. Það liggja tækifæri í markaðssetningu á sundlauginni sem bæjarstjórn hefur áhuga á að leggja meiri áherlsu á næstu misserin.

Sund er mikilvæg hreyfing og eru bæjarbúar hvattir til að nýta Sundlaugina Laugaskarð sér til heilsubótar.
Heimsóknatölur hafa ekki gefið þá mynd að kallað sé eftir aukinni opnun, forsendur fyrir auknum opnunartíma er aukin gestafjöldi í sundlaugina enda kallar lengri opnunartími á meiri fjárútlát í rekstri sundlaugarinnar. Bæjarstjórn telur sér því ekki fært að verða við tillögunni að stöddu. Það liggja tækifæri í markaðssetningu á sundlauginni sem bæjarstjórn hefur áhuga á að leggja meiri áherlsu á næstu misserin.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Halldór B. Hreinsson.

Tillaga menningar- og frístundanefndar felld með 5 atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar D-listans með.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar frá 6. desember 2022

2211009F

Liðir afgreiddir sérstaklega 3, 4, 5, og 8.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 3 "Dalsbrún 34 - ábending vegna þrengsla við útakstur af bílastæðum" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að banna lagningu bíla í götu í Dalsbrún til þess að athafnasvæði samþykktra bilastæða á lóðum verði tryggt. Gatan verði merkt með skiltum og gulmáluðum kantsteini til samræmis við ákvörðunina.

Liður 4 "Þelamörk 48 - deiliskipulagsbreyting vegna bílskúrs" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir deiliskipulagsbreytinguna í samræmi við 3. mgr. 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 5 "Borgarheiði 1H - fyrirspurn um nýtt rafhleðslustæði á lóð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu nefndarinnar um að heimila ekki nýtt bílastæði á lóð fyrir rafhleðslu, þegar aðrir kostir eru í boði.

Liður 8 "Hringvegur - 3. áfangi - Núpanáma og akstur efnis að framkvæmdasvæði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að áform Vegagerðarinnar um flutning efnis vegna vegagerðar 3. áfanga Hringvegar (1-d6) Biskupstungnabraut - Hveragerði. Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða við Vegagerðina um frágang á umræddu svæði.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð fræðslunefndar frá 6. des 2022

2212001F

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Sandra Sigurðardóttir.
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar D-listans gera athugasemd varðandi skipun í fræðslunefnd af hálfu O-listans og Framsóknar. Í fræðslunefnd hefur meirihlutinn skipað tvo fulltrúa sem eru starfsmenn menntastofnanna bæjarins. Eitt af hlutverkum fræðslunefndar er að hafa eftirlit með stofnunum bæjarins sem vinna að fræðslumálum og það verður teljast óeðlilegt að umræddir nefndarmenn séu settir í þá stöðu að þeir séu á vissan hátt að hafa eftirlit með eigin störfum.

Samkvæmt 34. greinar Samþykktar um stjórn Hveragerðisbæjar kemur eftirfarandi fram

Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana sem þeir starfa hjá. Bæjarstjórn getur þó ákveðið að víkja frá þessu ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starfið er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum vegna nefndarsetu.

Ljóst er að ekki er um að ræða óverulegan þátt og því hvetja fulltrúar D-listans meirihlutann til að endurskoða skipan í nefndir og ráð og nýta þannig tækifærið til að jafna einnig kynjahlutfall sitt í nefndum og ráðum bæjarins.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð NOS frá 24. nóvember 2022

2211096

Liðir afgreiddir sérstaklega 1 og 2.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigmar Karlsson, Sandra Sigurðardóttir, Geir Sveinsson og Halldór B. Hreinsson.
Liður 1 "Staða Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir að ganga úr Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. Útganga miðast við 1. mars 2023 og að öll aðildarsveitarfélög hafi komist að samkomulagi um eignir, skuldir, yfirfærslu á málum sem eru í vinnslu hjá skóla- og velferðarþjónustu sem og öðru er leysa þarf úr fyrir útgöngu sveitarfélaganna. Bæjarstjórn samþykkir einnig útgöngu Sveitarfélagsins Ölfus með sömu skilyrðum.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar D-listan lýsa áhyggjum sínum varðandi slit Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ). Líkt og fram hefur komið hefðu fulltrúar D-listans viljað fara í úttekt og þarfagreiningu síðasta sumar en því miður hafnaði meirihlutinn því. Starfsemi skóla- og velferðarþjónustu er mjög mikilvæg eining fyrir Hveragerðisbæ og á þeim grundvelli telja fulltrúar D-listans brýnt sé að vinna hratt að úrlausn mála til dæmis með því að tryggja áframhaldandi vinnuframlag núverandi lykilstarfsmanna hjá SVÁ. Tíminn líður hratt og senn lýður að umræddum slitum og það er meðal annars þess vegna sem málaflokkurinn þarf að fá úrlausn sinna mála hið fyrsta.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson


Liður 2 "Önnur mál" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að framlengja skipunartíma nefndarmanna í Skólaþjónustu- og velferðarnefnd Árnesþings til 1. mars 2023.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

7.Fundargerð Skólaþjónustu - og velferðarnefndar Árnesþing frá 9. nóvember 2022

2211064

Engin tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

8.Fundargerð Skólaþjónustu - og velferðarnefndar Árnesþing frá 16. nóvember 2022

2211065

Engin tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

9.Jafnréttisáætlun 2023-2027, síðari umræða

2211025

Lögð fram Jafnréttisáætlun 2023-2027 til síðari umræðu.

Engin tók til máls.
Jafnréttisáætlunin samþykkt samhljóða.

10.Minnisblað frá Alark arkitektum og Mannvit um endurbyggingu Hamarshallarinnar

2212019

Lagt fram minnisblað frá Alark arkitektum og Mannvit um endurbyggingu Hamarshallarinnar.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Halldór B. Hreinsson, Sigmar Karlsson, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson og Sandra Sigurðardóttir.
Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar ásamt bæjarstjóra, öðru starfsfólki bæjarins og hönnunarteymi frá Alark og Mannviti hafa undanfarin misseri kappkostað við að útfæra framtíðarsýn í uppbyggingu íþróttamannvirkja Hveragerðisbæjar inni í Dal. Sú vinna hefur tekið mið af þarfagreiningu hönnunarhópsins sem skilaði tillögum sínum í haust, en mikilvægt er að stíga næstu skref í uppbyggingu Hamarshallarinnar með það fyrir augum að skapa samkeppnishæfan húsakost fyrir allar íþróttir til framtíðar á sem hagkvæmastan máta. Meirihlutinn hefur haft samráð við Íþróttafélagið Hamar um fyrirliggjandi tillögur að framtíðaruppbyggingu og áfangaskiptingu og er samhljómur með íþróttahreyfingunni um næstu skref um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Samráðsfundur með öllum bæjarfulltrúum um tillögur að framtíðaruppbyggingu var fyrr í dag. Fyrsti áfangi í uppbyggingu nýrrar Hamarshallar er ný yfirbygging reist á steyptum grunni eldri Hamarshallar, dúkveggur settur upp til að afmarka fótboltahús frá óinnréttaðri fjölnota íþróttaaðstöðu og þjónusturýmum innan nýju yfirbyggingarinnar, og nýtt anddyri reist og fullbúið við norðurhlið Hamarshallarinnar. Stefnt er að því að alútboð verði auglýst á næstu dögum, tilboð opnuð í lok janúar og samningur undirritaður mánuði síðar. Markmiðið er að fótboltasalur verði afhentur í september 2023 til notkunar og áfangi eitt verði fullbúinn í byrjun desember 2023. Með samþykki bæjarstjórnar á útboði fyrsta áfanga Hamarshallarinnar í þessari útfærslu er stigið skref í átt að uppbyggingu framtíðarhúsnæðis fyrir íþróttahreyfinguna í Hveragerði með samkeppnishæfri æfinga- og keppnisaðstöðu, en síðari áfangar í uppbyggingu Hamarshallarinnar verða byggðir upp eftir því hvernig íbúafjölgun og byggð þróast í bæjarfélaginu á næstu árum.

Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar þakkar þeim sem hafa komið að þeirri vinnu sem hefur átt sér stað vegna verkefnisins undanfarna mánuði. Við horfum björtum augum til framtíðar og fögnum því að nú sé framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja kominn í góðan farveg.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Halldór B. Hreinsson.

Kl. 17:55 var gert fundarhlé.
Kl. 18:18 hélt fundur áfram.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Nú hafa fulltrúar D-listans loks fengið aðgang að gögnum um mögulega uppbyggingu Hamarshallar og fund með verkfræðingum Mannvits og arkitekts frá Alark. Upplýsingaleysið og leyndin sem ríkt hefur um þessi uppbyggingaráform eru algjör.

Eftir fall Hamarshallarinnar hófst mikil umræða í bæjarstjórn og í samfélaginu öllu um það hvernig standa ætti að uppbyggingu hallarinnar að nýju. Að sögn bæjarfulltrúa O-listans voru þeir með verðhugmynd að nýrri byggingu á grunni Hamarshallarinnar sem hljóðaði upp á 260 milljónir króna og stóðu þeir í þeirri trú að sú bygging gæti verið komin upp í nóvember á þessu ári, 2022. Seinna sagði bæjarfulltrúi O-listans á íbúafundi um Hamarshöllina að hann hefði upplýsingar frá Ölfusi um að til stæði að reisa þar íþróttahús sem væri stálgrindarhús sem ætti að kosta 400 milljónir króna, eftir samtöl við bæjarfulltrúa í Ölfusi kom í hinsvegar ljós að enginn kannaðist við umrædda byggingu né upphæð. Núverandi formaður skipulags- og mannvirkjanefndar og fulltrúi Framsóknar skrifaði grein í Dagskránni að hægt væri að reisa nýtt íþróttahús á grunni Hamarshallarinnar og að stofnkostnaður væri 450 milljónir króna.

Bæjarfulltrúar D-listans hafa ætíð bent á að þessar tölur gætu aldrei staðist og að nokkuð ljóst væri að ný Hamarshöll sem ekki væri loftborin myndi kosta yfir einn milljarð króna líkt og nú virðist vera ljóst. Þrátt fyrir það hafa fulltrúar O-lista og Framsóknar talað um að þetta væri vel hægt og byggðu meðal annars sína kosningabaráttu á því.

Nú virðist sem fulltrúar O-lista og Framsóknar hafi sagt Hvergerðingum ósatt, en þau hafa ekki viljað viðurkenna það. Samkvæmt fundi sem var fyrr í dag með verkfræðingum Mannvits og arkitekts frá Alark kom fram að fullbyggð Hamarshöll myndi kosta 2.7 milljarða króna eða yfir 1.000% hækkun frá þeim tölum sem O-listin kynnti á bæjarstjórnarfundi í apríl á þessu ári. Miðað við þær upphæðir sem gert er ráð fyrir í fjárfestingaráætlun bæjarins er reiknað með að 1 milljarður króna verði settur í framkvæmd Hamarshallar á næstu þremur árum, en samkvæmt verkfræðingum Mannvits eru vikmörk 20-30%. Þá setja bæjarfulltrúar D-listans mikinn fyrirvara við þann tímaramma sem settur er fram í minnisblaðinu frá Mannvit og Alark og það kom einnig fram frá verkfræðingum Mannvits að þetta gæti dregist til ársins 2024.

Bæjarfulltrúar D-listans velta fyrir sér hvað hafi breyst hjá fulltrúum O-listans sem jafnan hafa kallað eftir opnari stjórnsýslu og vönduðum vinnubrögðum.

Þannig að vitnað sé beint í bókun frá fulltrúum O-listans frá umræðum um fjárhagsáætlun ársins 2022.
“Þá er líka rétt að minna bæjarstjórn á, bæði þá sem nú situr og þá sem taka mun við í maí á næsta ári, að gefa ekki afslátt af vönduðum vinnubrögðum og faglegri stjórnsýslu þó að hraða þurfi uppbyggingu innviða í samfélagi sem vex hratt. Það er mikilvægt að skoða mál frá öllum hliðum og hafa til staðar gögn fyrir alla bæjarfulltrúa svo að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir í öllum málum, sérstaklega þegar verið er að taka ákvarðanir sem munu að lokum kosta sveitarfélagið hundruð milljónir króna.?

Ljóst er að fulltrúar O-listans eru ekki að fylgja eigin sannfæringu þar sem fyrrnefnd leynd hefur ríkt um uppbyggingu Hamarshallarinnar. Bæjarfulltrúar D-listans fengu fyrst í hendurnar gögn um nýja Hamarshöll fyrir tveimur dögum og munnlegar upplýsingar um verð frá verkfræðingum Mannvits fyrir þremur klukkustundum. Ekkert hefur komið fram um það hvernig fulltrúar O-lista og Framsóknar ætli að fjármagna þessa uppbygginu á sama tíma og ráðast þarf í fjárfreka uppbyggingu á innviðum í Hveragerði sem sveitarfélaginu ber lögbundin skylda til að sinna. Það er óábyrgt að fara af stað í alútboð á svo stóru verki þegar að ráðast þarf í aðrar stórar og mikivægar framkvæmdir í sveitarfélaginu og fjármögnun verksins liggur ekki fyrir.

Bæjarfulltrúar D-listans eru enn þeirrar skoðunar að skynsamlegast væri með tilliti til fjárhagsstöðu bæjarins að hagkvæmast og fljótlegast væri að reisa að nýju loftborna íþróttahöll.

Í ljósi þess að loks liggja fyrir gögn um það hvernig O-listinn og Framsókn sjá fyrir sér uppbyggingu Hamarshallarinnar og að hér er um að ræða stóra, kostnaðarsama og stefnumótandi ákvörðun fyrir Hveragerðisbæ leggja bæjarfulltrúar D-listans til að farið verði í íbúakosningu um það hvaða leið verði farin við uppbyggingu Hamarshallarinnar og að engin ákvörðun um uppbyggingu verði tekin fyrr en að vilji íbúa Hveragerðisbæjar liggi fyrir. Bæjarstjóra verði falið að afla nánari upplýsinga um tillögur Mannvits annarsvegar og hinsvegar um loftborið íþróttahús og kynna á hlutlausan hátt.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson

Kl. 18:28 var gert fundarhlé.
Kl 19:07 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Því miður eru mjög margar og alvarlegar rangfærslur í bókun Sjálfstæðisflokksins, þ.m.t. ásakanir um um að einstaklingar hafi sagt ósatt í sínum pólitísku störfum. Þá eru villandi upplýsingar í bókun Sjálfstæðisflokksins þar sem tölur eru slitnar úr samhengi. Slíkt er ekki aðeins ósanngjarnt og ófaglegt, heldur eru það vinnubrögð sem meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar neitar að stunda. Hvergerðingar eiga skilið að bæjarfulltrúar ástundi fagleg vinnubrögð og hvetur meirihlutinn Sjálfstæðisflokkinn til að gera það. Varðandi ásakanir um leyndarhyggju er henni vísað til föðurhúsanna, en ljóst er frá upphafi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað fara aðra leið og hafði því lítinn áhuga á að byggt yrði alvöru hús og hefur gagnrýnt það mjög. Einnig hafnaði Sjálfstæðisflokkurinn góðu boði að taka þátt í fjárhagsáætlunarvinnunni þar sem hluti af vinnunni var umfjöllun um framtíðaruppbyggingu Hamarshallarinnar.

Eins og komið hefur fram var mikil umræða um Hamarshöllina í aðdraganda kosninga, m.a. knúðu íbúar fram borgarafund fyrir kosningar með undirskriftum svo að umdeild ákvörðun sem að fyrrum meirihluti Sjálfstæðisflokksins tók um að kaupa annað loftborið íþróttahús yrði rædd við íbúa. Síðan hefur Hamarshöllin verið rædd á flestum bæjarstjórnarfundum. Rétt er að horfa til framtíðar og byggja alvöruhús en tefja málið ekki frekar. Það eru hagsmunir bæjarbúa að halda áfram með uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Nú er verið að taka ákvörðun um framtíðaruppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Hveragerði, uppbyggingu sem mun standa næstu tugi ára en ekki aðeins í tíu ár. Það er skylda bæjarfulltrúa að hugsa til langs tíma og nýta fjármagnið vel. Það verður best gert með því að byggja alvöru hús. Vonandi mun Sjálfstæðisflokkurinn nú stökkva á framtíðarvagninn með okkur. Og við bjóðum ykkur velkomin.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Halldór B. Hreinsson.

Kl. 19:42 var gert fudarhlé.
Kl. 19:47 hélt fundur áfram.
Tillaga D-listans um íbúakosningu lögð fram og felld með fimm atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar minnihlutans með.

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að setja 1. áfanga nýrrar Hamarshallar í alútboð, sbr. minnisblað Alark arkitekta og Mannvits um endurbyggingu Hamarshallarinnar dags. 5. desember 2022 og er bæjarstjóra falið að auglýsa útboðið og fylgja því eftir. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

11.Fyrirspurn D-listans - Sorphirðumál í Hveragerði

2212020

Fyrirspurn frá bæjarfulltrúum D-listans
Hver er staðan hjá Hveragerðisbæ varðandi fjögurra tunnu kerfi og hvenær mega bæjarfulltrúar og bæjarbúar Hveragerðisbæjar eiga von á að fá kynningu á þeim breytingum sem framundan eru í sorpmálum í Hveragerði?

Greinagerð
Þann 1. janúar 2023 koma til framkvæmda stór hluti ákvæða í lögum nr. 103/2021 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, er þar meðal annars kveðið á um að skylda verði að safna úrgangi við húsvegg í aðskilin ílát í eftirfarandi flokkum:

Pappír og pappi
Plast
Almennt sorp
Lífrænn eldhúsúrgangur

Á fundi Umhverfisnefndar Hveragerðisbæjar þann 9. nóvember lýsir nefndin yfir áhyggjum sínum að Hveragerðisbær sé ekki í stakk búið í dag til að innleiða þessar nýju breytingar. Síðan að Umhverfisnefnd fundaði hefur nær ekkert verið fjallað um breytingar á sorphirðumálum í Hveragerði á vettvangi bæjarstjórnar né bæjarráðs.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Staðan hjá Hveragerðisbæ á innleiðingu nýs flokkunarkerfis (fjögurra tunnu kerfi) á nýju ári er góð. Skoðaðar hafa verið mismunandi útfærslur og unnið hefur verið að undirbúningi innleiðingarinnar og þeim breytingum sem ætlað er að taki gildi 1. janúar 2023 en sveitarfélögum verður gefið svigrúm fram eftir árinu til þess að innleiða þessar breytingar að fullu. Hveragerðisbær gerir ráð fyrir að innleiðingunni ásamt kynningu fyrir bæjarfulltrúum og íbúum bæjarins verði lokið á vormánuðum 2023.

12.Fyrirspurn D-listans - Ráðning menningar- og frístundafulltrúa

2212021

Fyrirspurn frá bæjarfulltrúum D-listans
Hvenær má eiga von á því að auglýst og gengið verði frá ráðningu nýs menningarfrístundafulltrúa hjá Hveragerðisbæ og hvers vegna var ekki auglýst strax eftir nýjum menningar- og frístundafulltrúa?

Greinagerð
Á næstu vikum mun menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar láta af störfum, enda hefur hún nú ráðið sig til starfa annars staðar. Ljóst er að það tekur tíma að auglýsa eftir og ráða nýjan starfsmann. Bæjarfulltrúar D-listans telja að það hefði verið heppilegt að nýr menningar- og frístundafulltrúi hefði hafið störf hjá Hveragerðisbæ áður en núverandi fulltrúi hættir störfum þannig að núverandi fulltrúi gæti miðlað áfram þekkingu sinni og reynslu til nýs fulltrúa.

Eftirtaldir tóku til máls: Sigmar Karlsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsdóttir og Geir Sveinsson.
Á fundi bæjarráðs 3. nóvember var samþykkt að ganga til samninga við KPMG vegna úttektar á rekstri sveitarfélagsins og stefnumótun. Undir þá úttekt fellur skipurit bæjarins. Í ljósi þess að umrædd staða er á næstu misserum laus gafst tækifæri til að ígrunda framtíðarskipulag þess.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúar D-listans vilja nota tækifærið og þakka Jóhönnu Margréti Hjartardóttir fyrir óeigingjörn störf í þágu Hveragerðisbæjar síðustu ár. Jóhanna hefur staðið sína vakt vel og á mikið hrós skilið fyrir sín störf og vilja bæjarfulltrúar D-listans jafnframt óska henni velfarnaðar í sínum störfum á nýjum vettvangi.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson

13.Tillaga frá bæjarfulltrúum D-listans að fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar árin 2023-2026

2212022

Tillaga frá bæjarfulltrúum D-listans að fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar árin 2023-2026

Bæjarfulltrúar D-listans leggja hér fram sína tillögu að fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023 og fjárfestingaráætlun fyrir árin 2023-2026.

Eftirtaldir tóku til máls: Sigmar Karlsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi greinargerð við fjárhagsáætlun sína.

Bæjarfulltrúar D-listans leggja hér fram metnaðarfulla fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og fjárfestingaráætlun fyrir árin 2023-2026.

Bæjarfulltrúar D-listans ákváðu, eftir virkt samtal við okkar kjósendur, stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði og framboðslista D-listans, að taka ekki þátt í fjárhagsáætlanagerð með O-lista og Framsókn þrátt fyrir gott boð þar um. Ljóst er að áherslur D-listans og O-lista liggja ekki saman. Bæjarfulltrúar D-listans hafa lagt áherslu á það að veita meirihlutanum málefnalegt aðhald með því að leggja fram tillögur á bæjarráðs og bæjarstjórnarfundum sem snúa að uppbyggingu í sveitarfélaginu og með því að leggja hér fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Síðastliðinn áratug hefur rekstur Hveragerðisbær verið góður, en það sést ef skoðaðir eru ársreikningar sveitarfélagsins. Öll árin 2012-2019 skilaði bæjarsjóður hagnaði. Árin 2020 og 2021 skilaði bæjarsjóður tapi, en í áætlunum hafði hins vegar verið gert ráð fyrir hagnaði. Ástæða þess að tap var á rekstri bæjarins þessi tvö ár skýrist vegna ýmissa utanaðkomandi þátta eins og heimsfaraldur, nýrra kjarasamninga með miklum hækkunum launa, eingreiðslu lífeyrisskuldbindinga og auknum rekstrargjöldum.

Skatttekjur

Í fjárhagsáætlun D-listans eru skatttekjur samkvæmt áætlun meirihlutans notaðar, enda reikna fulltrúar D-listans með því að skrifstofustjóri Hveragerðisbæjar hafi reiknað þær forsendur. Fulltrúar D-listans breyttu þó tekjum sem áætlaðar voru að kæmu inn af fasteignaskatti, en í stað þess að gera ráð fyrir 16% hækkun á tekjum af fasteignaskatti líkt og fulltrúar meirihlutans gera ráð fyrir áætla fulltrúar D-listans að tekjur af fasteignaskatti hækki um 5%.

Félags-, fræðslu- og uppeldismál

Í áætlun D-listans er gert ráð fyrir að stofnað verði skóla- og velferðaþjónusta Hveragerðisbæjar þannig að hægt verði að þjónusta þessum hóp einstaklinga í sveitarfélaginu enn betur en verið hefur, ljóst er að það muni kosta töluverðar upphæðir. Áfram er gert ráð fyrir að stutt verði við öflugt starf á Bungubrekku. Leikskólar bæjarins fá aukið fjármagn til að ráða inn starfsmenn þannig að hægt verði að fullmanna allar deildir leikskólanna og geta þannig fullnýtt allar deildir leikskólanna með tilliti til leikskólaplássa til að koma til móts við biðlista. Ekki er gert ráð fyrir niðurskurði til Grunnskólans í Hveragerði, heldur er frekar gert ráð fyrir eðlilegum launahækkunum og áframhaldandi framlögum til viðhalds.

Menningar-, íþrótta- og atvinnumál

Áfram er gert ráð fyrir að styðja við félagasamtök í Hveragerði, en ekki að skerða rekstrarframlög til félaga líkt og meirihlutinn gerir ráð fyrir í sinni áætlun. Líkt og sést í fjárfestingaráætlun er gert ráð fyrir að loftborin Hamarshöll verði reist og að hægt verði að hefja starfsemi í henni næsta haust. Þá er gert ráð fyrir því að Upplýsingamiðstöð Suðurlands og Bókasafn Hveragerðis verði sameinað í Upplýsingamiðstöð og Bókasafn Hveragerðisbæjar þar sem opnað verði á milli þessara tveggja stofnanna í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk. Þannig er hægt að ná fram hagræðingu í rekstri en á sama tíma auka þjónustu við bæjarbúa með meðal annars betri opnunartíma.

Skipulags-, mannvirkja- og umhverfismál

Gert er ráð fyrir að áfram verði haldið á sömu braut í umhverfismálum líkt og hefur verið síðustu ár. Með það að leiðarljósi að bærinn verði áfram fallegur og snyrtilegur í útliti. Áfram er gert ráð fyrir kostnaði við skipulagningu nýrra svæða og gerðar nýs aðalskipulags í Hveragerði.

Bæjarstjórn og aðrir liðir

Einungis er gert ráð fyrir að laun bæjarstjórnar hækki um 6,5% en ekki um rúmlega 35% líkt og í áætlun meirihlutans. Í ljósi áætlana um fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim á næsta ári er gert ráð fyrir enn meiri tekjum af bílastæðagjöldum heldur enn það sem af er þessu ári. Reglulegu viðhaldi verði áfram á húsnæðum í eigu bæjarins.

Fjárfestingaráætlun 2023-2026

Í fjárfestingaráætlun D-listans er horft til framtíðar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða líkt og hefur verið síðustu ár.

Gert er ráð fyrir að viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði verði framhaldið næstu ár, viðbygging við leikskólann Óskaland verði kláraður og að í áföngum verði nýr fullbyggður leikskóli í Kambalandi tekinn í notkun árið 2026. Áætlað er að í fyrsta áfanga leikskólans í Kambalandi verði byggðar þrjár deildir ásamt því að tvær færanlegar kennslustofur sem eru í dag við leikskólann Óskaland verði færðar að nýja leikskólanum. Þessi viðbygging verði tekin í notkun haustið 2024 og að leikskólinn fullbyggður verði tekinn í notkun 2026.
Þá er gert ráð fyrir að ný loftborin Hamarshöll verði reist á næsta ári og tekin í notkun í ágúst sama ár. Árið 2026 verði hugað að viðbyggingu við núverandi íþróttahús við Skólamörk þar sem að fimleikadeild Hamars fengi en betri aðstöðu.
Áfram verður haldið í gatnagerð í Hveragerði og að Kambalandið verði að fullu byggt árið 2026. Gatnagerð á Friðastaða og við Varmá fer í gang 2023. Þá er gert ráð fyrir tengingu milli Finnmarkar og Heiðmarkar með götunni Vesturmörk sem seinna, með tilfærslu þjóðvegarins, tengist við núverandi þjóðveg. Áfram verður unnið að fjölgun atvinnulóða í Vorsabæ þannig að atvinnulífið haldi áfram að stækka og blómstra í Hveragerði. Einnig er gert ráð fyrir að nýtt hundasvæði verði byggt upp í Vorsabæ samkvæmt skipulagi.
Viðhald gatna í Hveragerði er mikilvægt og því er gert ráð fyrir að næstu ár verði áfram sett fjármagn í það. Bílastæðið við Sundlaugina Laugaskarði verður stækkað og malbikað.
Þá verður hönnun á útivistarsvæði undir Hamrinum klárað og hafist handa við að byggja upp það svæði.

D-listinn hélt opinn fund fyrir bæjarbúa þar sem fjárhagsáætlunin var kynnt og var hann vel sóttur og gagnlegur. Við þökkum þeim sem þangað mættu og hafa rætt við okkur fulltrúa D-listans undanfarið fyrir þeirra innlegg í áætlanagerðina.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson


Tillagan borin upp og felld með fimm atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar minnihlutans með.

Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun.
Meirihlutinn fellir tillögu að fjárhagsáætlun minnihluta Sjálfstæðisflokksins. Fjárhagsáætlunin er of seint komin fram og forsendur í henni ekki nægilega vel ígrundaðar. Heillavænlegra er að minnihlutinn taki þátt í fjárhagsáætlunarvinnu með meirihlutanum og hafi áhrif þar.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Halldór B. Hreinsson.

14.Gjaldskrár Hveragerðisbæjar 2023

2212016

Lagðar fram gjaldskrár fyrir fasteignaskatt, leikskólagjöld, frístund, skólamötuneyti, matarbakka og sundlaug fyrir árið 2023.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigmar Karlsson, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson og Sandra Sigurðardóttir.
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Á fyrsta bæjarstjórnarfundi yfirstandandi kjörtímabils var rætt um að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts til þess að koma til móts við íbúa bæjarins vegna mikillar hækkunar á fasteignamati og voru allir bæjarfulltrúar sammála um það. Það er mat bæjarfulltrúa D-listans að ekki sé gengið nógu langt í að lækka álagningaprósentu eða aðra liði og þrátt fyrir að vissulega sé álagningarhlutfall lækkað felur þessi lækkun í sér skattahækkun fyrir íbúa Hveragerðisbæjar langt umfram eðlilegar verðlagshækkanir.

Í seinni umræðu virðist meirihlutinn vera að gera tilraun til þess að bregðast við fyrri umræðu með því að lækka hlutfallið á holræsagjaldinu og álagningaprósentuna örllítið meira, en að mati fulltrúa D-listans gera þessar breytingar lítið sem ekkert fyrir fasteignaeigendur í Hveragerði.

Staðreyndin er sú að á næsta ári koma Hvergerðingar til með að finna fyrir verulegri hækkun á fasteignaskatti mánaðarlega, en til að fela mánaðarlegar hækkanir verður bætt við einum gjalddaga þar sem þeim er fjölgað úr 10 í 11. Bæjarfulltrúum D-listans þykir bagalegt að meirihlutinn fari þá leið að kafa dýpra í vasa Hvergerðinga til þess auka tekjur bæjarins og teljum að betra hefði verið að gæta hófsemi í þessum hækkunum og láta þær fylgja eðlilegum verðlagshækkunum líkt og fyrri meirihluti reyndi ávalt að gera.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson

Gjaldskrárnar samþykktar með 5 atkvæðum meirihlutans, fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

15.Gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2023, síðari umræða

2211068

Lögð fram gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2023 til síðari umræðu.

Enginn tók til máls.
Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

16.Gjaldskrá hundahalds 2023, síðari umræða

2211070

Lögð fram gjaldskrá hundahalds 2023 til síðari umræðu.

Enginn tók til máls.
Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

17.Gjaldskrá kattahalds 2023, síðari umræða

2211071

Lögð fram gjaldskrá kattahalds 2023 til síðari umræðu.

Enginn tók til máls.
Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

18.Gjaldskrá vatnsgjalds 2023, síðari umræða

2211072

Lögð fram gjaldskrá vatnsveitu 2023 til síðari umræðu.
Enginn tók til máls.
Gjaldskráin samþykkt með 5 atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

19.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2023-2026, síðari umræða

2211057

Með breytingu sem gerð var á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga á árinu 2021, þurfa sveitarfélög nú að færa í samantekin reikningsskil sín, sem og fjárhagsáætlanir, hlutdeild sína í byggðasamlögum, sameignarfélögum, sameignarfyrirtækjum og öðrum félögum með ótakmarkaðri ábyrgð.

Í tilviki sveitarfélagsins Hveragerðisbæjar á þetta við um eftirtalin samrekstrarverkefni:
*
Bergrisinn bs.
*
Brunavarnir Árnessýslu
*
Héraðsnefnd Árnesinga bs.
*
Byggðasafn Árnesinga
*
Listasafn Árnesinga bs.
*
Héraðsskjalasafn Árnesinga bs.
*
Tónlistarskóli Árnesinga
*
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs.

Áætlanir framangreindra rekstrareininga fyrir árin 2023 til 2026 um rekstur, efnahag og sjóðsstreymi liggja ekki fyrir og því hafa áhrif þeirra ekki verið verið færð í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þegar samþykktar fjárhagsáætlanir framangreindra rekstrareininga liggja fyrir á viðeigandi formi er fyrirhugað að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2023 til 2026.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Sigmar Karlsson, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson og Dagný Sigurbjörnsdóttir.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Milli umræðna hafa fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar í samstarfi við starfsfólk bæjarins lagt mikla vinnu í að finna leiðir til að lækka álögur á íbúa. Það er því ánægjulegt að segja frá því að í fyrirliggjandi tillögu til fjárhagsáætlunar sem liggur hér fyrir til seinni umræðu, hafa fasteignagjöld verið lækkuð til hagsbóta fyrir íbúa. Í tekjuforsendum Hveragerðisbæjar þá lækkar fasteignaskattur á húsnæði í A flokki úr 0,415% í 0,33% en í fyrri umræðu var gert ráð fyrir að lækka í 0,34%. Einnig er holræsagjaldið lækkað úr 0,155% í 0,145%. Í fyrri umræðu var gert ráð fyrir hækkun um 5% umfram verðlag en með þessum breytingum er hækkunin komin niður í 13,46% með sorphirðu, 12,21% án sorphirðu eða 2% umfram verðlag. En eins og áður hefur komið fram þá eru breytingar í vændum hvað sorphirðu og álagningu vegna hennar varðar.
Til að koma til móts við íbúa sveitarfélagsins og lækka greiðslubyrði þá fjölgar gjalddögum jafnframt úr 10 í 11 eins og gert var ráð fyrir í fyrri umræðu fjárhagsáætlunar. Til að svara þessari breytingu kemur hækkun á áætluðu útsvari þar sem ekki var tekið tillit að fullu til íbúafjölgunarspár.
Bæjarstjórn ákvað að gefa íbúum tækifæri til þess að koma með sínar tillögur fyrir fjárhagsáætlun milli umræðna á íbúagátt bæjarins. Bæjarstjórn þakkar íbúum fyrir góðar undirtektir og gagnlegar tillögur sem koma til með að nýtast í framtíðinni.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Halldór B. Hreinsson.

Klukkan 20:29 var gert fundarhlé.
Klukkan 20:51 hélt fundur áfram.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar D-listans telja að fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023 sé metnaðarlaus og fjárfestingaráætlun næstu fjögurra ára sem O-listinn og Framsókn leggja hér fram sé skammsýn. Það er ljóst að kostnaðarsöm uppbygging Hamarshallarinnar hefur víðtæk áhrif á framtíðar fjárfestingar bæjarins og býr til mikla óvissu varðandi aðra uppbyggingu í bænum. Mikil lántaka virðist vera framundan hjá sveitarfélaginu og þær aðgerðir sem meirihlutinn hyggst fara í varðandi hagræðingu í rekstri eru að mati fulltrúa D-listans illa ígrundaðar og forgangsröðun er ekki eins og best verður á kosið.

Rekstraráætlun

Bæjarfulltrúar D-listans lögðu hér fyrr á fundinum fram sína fjárhagsáætlun og bentu á ýmsa hluti sem fulltrúar D-listans telja að betur mætti fara.

Á fjárhagsáætlun virðist ekki vera gert ráð fyrir nefndarlaunum fyrir Atvinnumálanefnd og velta því bæjarfulltrúar D-listans því fyrir sér hvort sú nefnd eigi að vera ólaunuð í sínum störfum. Það er mat bæjarfulltrúa D-listans að málfutningur meirihlutans í viðkomandi fjárhagsáætlun er oft á tíðum þversagnakenndur. Má þar nefna að þrátt fyrir að meirihlutinn hafi ítrekað talað fyrir því að leggja eigi áherslur á atvinnumál í sveitarfélaginu má sjá sérstakar útfærslur á því markmiði. Það virðist vera að sumum fyrirtækjum sé gert erfitt fyrir af hálfu meirihlutans og þar má til dæmis nefna óhóflega hækkun leigu á gróðurhúsi sem rekstraraðilar í Hveragerði leiga af Hveragerðisbæ, en hækkun á milli ára er um það bil 26% sem er langt umfram eðlilegar verðlagshækkanir. Þá gerir meirihlutinn ráð fyrir að álagningarhlutfall fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði standi í stað sem felur í sér umtalsverða skattahækkun fyrir atvinnurekendur hér í Hveragerði sem getur haft þau áhrif að færri fyrirtæki sjá hag sinn í því að flytjast til Hveragerðis og einnig að fyrirtæki sem fyrir eru sjái lítinn hag í því að byggja upp frekari atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Það er einnig sérstakt að á sama tíma og talað sé um að auki eigi kynningu á sundlauginni og sveitarfélaginu sér gert ráð fyrir að minnka framlög til kynningamála.

Fjárfestingaráætlun

Í fjárfestingaráætlun meirihlutans er ekki gerð ráð fyrir gatnagerð árin 2024-2026 en á sama tíma er gert ráð fyrir 200 íbúa fjölgun á ári í forsendum með fjárhagsáætlun, þá er einnig ekki gert ráð fyrir nýjum götum á iðnaðarsvæðinu í Vorsabæ þar sem hægt væri að byggja upp en meiri atvinnustarfsemi.
Þá var einnig vísað til gerðar fjárhagsáætlarinnar uppbyggingu hundasvæðis í Hveragerði, en þá fjárfestingu er ekki að finna í fjárfestingaráætlun, þrátt fyrir ítrekaðar umræður og loforð þar um.
Síðustu ár hafa fulltrúar O-listans talað mikið um aukna þörf fyrir félagslegu leiguhúsnæði í sveitarfélaginu, en á fjárfestingaráætlun er hvergi minnst á kaupum á félagslegu húsnæði. Það er einnig athyglisvert að sjá að ekki sé gert ráð fyrir malbikun eða viðgerðum á götum á næsta ári sem er slæmt enda þarf ávallt að gæta þess að standa jafnt og þétt að viðhaldi gatna.

Friðrik Sigurbjörnsson
Sigmar Karlsson


Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2023-2026 samþykkt með 5 atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 21:27.

Getum við bætt efni síðunnar?