Fara í efni

Bæjarstjórn

544. fundur 13. apríl 2022 kl. 17:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
  • Hlynur Kárason varamaður
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Friðrik Sigurbjörnsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum og komu eftirfarandi athugasemdir frá Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur.
Undirrituð gerir athugasemd við fundarboð vegna þess að fylgiskjöl vegna skýrslu Verkís bárust seint og ekki fyrr en eftir ítrekaðar beiðnir. Því er velt upp hvort það standist lög.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.

1.Fundargerð bæjarráðs 17. mars 2022.

2203004F

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs 7. apríl 2022.

2203007F

Liðir afgreiddir sérstaklega 10, 11, 12, 13, 14 og 15.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Sigrún Árnadóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Liður 10 "Bréf frá Tailwind ehf" dags. 11.mars 2022".
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs og fagnar þeim metnaðarfullu hugmyndum sem forsvarsmenn Tailwind hafa um uppbyggingu Ultra Hengill í Hveragerði. Rétt er að geta þess að styrkur bæjarins fer að mestu til greiðslu fyrir vinnu Iþróttafélagsins Hamars og Hjálparsveitar skáta í Hveragerði. Jafnframt verði bæjarstjóra falið að gera samning til lengri tíma við forsvarsmenn Tailwind um áframhaldandi uppbyggingu hlaupsins.
Liður 11 "Bréf frá HVER, áhugaljósmyndafélagi FEBH frá 1. apríl 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.
Liður 12 "Lóðaumsóknir Hólmabrún" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir úthlutanirnar.
Liður 13 "Opnun tilboða - lífræn sía við skólphreinsistöð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að taka lægsta tilboði frá Arn-verk ehf enda uppfylli bjóðandi öll skilyrði útboðsgagna.
Liður 14 "Minnisblað - Vatnsrannsóknir - öflun frekara neysluvatns fyrir ört stækkandi byggð í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir verksamninginn.
Liður 15 "Sláttursamningur við Golfklúbb Hveragerðis fyrir árið 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir samninginn.
Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð bæjaráðs frá 13. apríl 2022.

2204004F

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 5. apríl 2022.

2203008F

Liður afgreiddur sérstaklega 2.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Hlynur Kárason og Eyþór H. Ólafsson.
Liður 2 "Tívolíreitur, ný íbúðar- og miðsvæðisbyggð, breyting á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir deiliskipulagsbreytinguna með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga 123/2010.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 16. mars 2022.

2204408

Liður afgreiddur sérstaklega 1.

Enginn tók til máls.
Liður 1 "Tillaga að gjaldskrárháækkun vegna stuðningsfjölskyldna í barnavernd" afgreidur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð fræðslunefndar frá 30. mars 2022.

2203006F

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Fundargerðin samþykkt samhljóða og þá um leið sú breyting á skóladagatali Leikskólans Undralands sem samþykkt var af fræðslunefnd.

7.Fundargerð umhverfisnefndar frá 17. mars 2022.

2203005F

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
Bæjarstjórn vill þakka Elísabetu Björney fyrir afar gott og hvetjandi samstarf í verkefninu Zero Waste.

8.Fundargerð kjörstjórnar frá 31. mars 2022.

2204409

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

9.Fundargerð kjörstjórnar frá 8. apríl 2022

2204417

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

10.Fundargerð kjörstjórnar frá 11. apríl 2022

2204418

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

11.Skipan í nefndir og ráð - varamaður í kjörstjórn.

2204412

Kl. 17:45 var gert fundarhlé.
Kl. 17:50 hélt fundur áfram.

Eftirtaldir tóku til máls: Enginn tók til máls.
Lögð fram tillaga um að Kristinn Ólafsson verði varamaður í kjörstjórn í stað Reynis Þórs Garðarssonar.
Meirihluti D-listans leggur fram eftirfarandi bókun:

Í upphafi kjörtímabils skipaði D-listinn Reyni Þór Garðarsson sem varamann sinn í kjörstjórn enda var þá í gildi heiðursmannasamkomulag á milli D og B lista um myndun meirihluta í nefndum og ráðum Hveragerðisbæjar. Með okkar aðstoð fékk B-listinn mann í allar 5 manna nefndir sem annars hefði ekki getað gerst. Í ljósi þessa samkomulags sem gert var við Garðar B. Árnason stöndum við við þessa ákvörðun og styðjum þá tillögu að Kristinn Ólafsson verði varamaður í kjörstjórn í stað Reynis Þórs Garðarssonar.

12.Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga 14. maí 2022.

2204419

Á kjörskrá til sveitarstjórnarkosningar 14. maí 2022 eru 2.284 manns.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Kjörskrárstofninn samþykktur samhljóða. Jafnframt er Helgu Kristjánsdóttur, skrifstofustjóra og staðgengli bæjarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna Sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí nk. í samræmi við 32. og 33. gr. laga um kosningar nr. 112/2021.

13.Lánasamningur - Lánasjóður sveitarfélaga

2204410

Lagður fram lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga upp á 270. m. kr. lán.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 270.000.000, með lokagjalddaga þann 20. mars 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér. Bæjarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til fjármögununar á framkvæmdum sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Aldísi Hafsteinsdóttur, kt. 211264-5009, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hveragerðisbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

14.Minnisblað frá skrifstofustjóra - yfirdráttaheimild í Arion banka.

2204411

Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra þar sem óskað er eftir að bæjarráð samþykki yfirdráttarheimild í Arion banka að upphæð 130 mkr. Er þetta í samræmi við reglur sem í gildi eru en þar óskar Arion banki eftir árlegri staðfestingu bæjarstjórnar á yfirdráttarheimild í bankanum.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir yfirdráttarheimild upp á 130 mkr. hjá Arion banka.

15.Minnisblað frá Eflu - Breiðamörk 2022, útboð.

2204413

Lagt fram minnisblað frá Eflu varðandi útboðið Breiðumörk 2022, (Álfafell, Álfaklettur og Friðastaðarland).

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að útboð á gatnagerð við Breiðumörk á hinum svokallaða Friðarstaðareit verði auglýst nú þegar. Samkvæmt gögnum Eflu er ljóst að þessi framkvæmd er mun kostnaðarsamari er fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir enda hefur verkið reynst miklu umfangsmeira en hægt var að sjá fyrir þegar kostnaðaráætlun var samþykkt. Tekjur af lóðum á þessum reit munu þó duga fyrir þessum kostnaði og gott betur.

16.Hamarshöllin Hveragerði - samanburður valkosta og tilboð frá Duol.

2204416

Lagt fram minnisblað frá Verkís varðandi ráðgjöf um enduruppbyggingu á Hamarshöllinni Hveragerði og tilboð frá Duol.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigrún Árnadóttir, Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Hlynur Kárason.
Meirihluti D-listans leggur fram eftirfarandi tillögu:

Til að tryggja sem fyrst áframhaldandi starfsemi í Hamarshöllinni og gott íþróttastarf í bæjarfélaginu leggur meirihluti D-listans til að þegar í stað verði pantaður nýr dúkur frá fyrirtækinu Duol, www.duol.eu, í samræmi við tilboð fyrirtækisins dags. 22. mars 2022. Tilboð Duol nemur EUR 624.000,- eða 86,7 m.kr. samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands í dag. Innifalið í tilboðinu er tvöfaldur dúkur sem er 20% sterkari en sá sem áður var, 7 neyðarútgangar, inngangshurðir, akkerisfestingar og lýsing.
Einnig er innifalin yfirumsjón með uppsetningu á verkstað.
Með þessari ákvörðun gefst tækifæri til að endurheimta þá aðstöðu sem áður var í Hamarshöllinni með hagkvæmum hætti og stefna jafnframt ótrauð að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja svo sem viðbyggingar sunnan við íþróttahúsið Skólamörk og uppbyggingu gervigrasvallar. Slík uppbygging gæti ekki orðið að veruleika í mjög langan tíma ef ráðist er í uppbyggingu húss sem kostar margfalt á við það sem Hamarshöllin myndi kosta með dúk.

Greinargerð:
Það er tillaga D-listans að dúkur Hamarshallarinnar verði endurnýjaður og stefnt að því með öllum tiltækum ráðum að Hamarshöllin verði risin aftur næsta haust. Þessi tillaga er sett fram eftir ítarlega skoðun á valkostagreiningu sem unnin var af Verkís ehf. Allir bæjarfulltrúar voru sammála um að fá Verkís í það verk.
Að endurreisa Hamarshöllina í sömu mynd og hún var í er lang hagvæmasti kosturinn sem við höfum til að viðhalda góðu íþróttastarfi í bænum. Allir aðrir valkostir fela í sér umtalsvert meiri kostnað. Ljóst er að það mun verða dýrkeypt og tímafrekt verkefni að byggja annars konar íþróttahöll á þessum stað og ekki einfalt að fjármagna hana samhliða öðrum aðkallandi framkvæmdum sem framundan eru í bæjarfélaginu. Má þar nefna byggingu nýs leikskóla og viðbyggingu við grunnskólann svo fátt eitt sé nefnt. Samkvæmt greiningu Verkís kostar stálgrindarhús með öllu því sem tilheyrir 1.200 m.kr - 1.600 m.kr.. Byggingakostnaður slíkra húsa sem nýlega hafa verið reist liggja fyrir. Nýr og endurbættur dúkur og endurreisn Hamarshallarinnar kostar 315 - 370 m.kr og er þá að fullu verðlögð öll sú sjálfboðavinna sem fram fór við samsetningu hallarinnar. Rétt er einnig að geta þess hér að Hamarshöllin er tryggð og mun Sjóvá bæta stóran hluta þess tjóns sem hlaust af óveðrinu. Tryggingafélagið hefur fullvissað bæjaryfirvöld um að ekki standi á þeim að tryggja sambærilegt mannvirki að nýju.
Verkís ehf bar einnig saman rekstrarkostnað stálgrindahúss og loftborins og reyndust flestar tölur sambærilegar nema að viðhaldskostnaður stálgrindarhúss er mun meiri eða sem nemur 7 m.kr á ári og orkukostnaður er meiri í loftbornu eða sem nemur 3,1 m.kr á ári. Tryggingakostnaður er sambærilegu.
Fulltrúar minnihlutans hafa sett fram nokkrar hugmyndir um aðrar tegundir húsa sem mögulega gætu verið ódýrari en hefðbundin stálgrindarhús. Óvissuþættir við slík mannvirki eru margir og ekki einfalt að leggja mat á raunverulegan byggingakostnað þeirra þegar hönnun liggur ekki fyrir. Hætt er við því að þegar að bæjarfulltrúar stæðu frammi fyrir ákvörðun um bygginguna í ljósi kostnaðar sem þá lægi fyrir væri allt annað hljóð komið í strokkinn og erfitt yrði þá að uppfylla væntingar um uppbyggingu annarra íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu.
Rétt er að minna á að Hamarshöllin olli byltingu í íþróttastarfi í Hveragerði þegar hún reis árið 2012. Um það erum við öll sammála. Þá þegar sköpuðust afar góðar aðstæður fyrir unga sem aldna til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar. Aðstæður sem mjög margir öfunduðu okkur af. Inni var hlýtt og notalegt og kom það mörgum á óvart sem vanari voru kaldara lofti í öðrum íþróttahúsum.
Ákveðið var strax að auka notkunarmöguleika hússins með íþróttagólfi í fullri stærð til hliðar við gervigrasið sem var hálfur fótboltavöllur. Milli vallanna skapaðist rými þar sem púttvelli var komið upp auk aðstöðubyggingar.
Hamarshöllin hefur nýst mun betur heldur en vonast var til í upphafi þar sem auk íþróttaæfinga Hvergerðinga hefur hún skapað ríka tekjumöguleika fyrir deildir vegna mótahalds auk þess sem félög annars staðar frá auk sérsambanda ÍSÍ hafa nýtt höllina til margvíslegra æfinga.
Fyrir lítið sveitarfélag eins og okkar sem ekki er ríkt af fjölbreyttum tekjustofnum þá taldist það kraftaverk að geta boðið bæjarbúum jafn góða aðstöðu og Hamarshöllin gat gert.
Við viljum ekki stíga skref aftur á bak. Með því að endurreisa Hamarshöllina með úrbótum sem við vitum að eru nauðsynlegar svo sem bættum hita við íþróttagólfið, betri inngöngum, annarri staðsetningu aðstöðuhússins og lituðum dúk við íþróttagólfið sem hentar betur til dæmis blaki og badminton getum við gert enn betur. Við þekkjum Hamarshöllina og vitum hvernig við þurfum að gæta að húsinu. Það hafa starfsmenn okkar hingað til gert og gert það vel. Nú þegar við erum reynslunni ríkari munum við leggja áherslu á að dúkurinn verði styrktur sérstaklega og aukastyrkingar verði settar á álagspunkta. Auk þessa er nauðsynlegt að setja upp skjól hvort sem það yrðu girðingar eða eitthvað annað sem brjóta myndi norðanáttina.
Samkvæmt upplýsingum frá Duol er afhendingartími dúks núna um 4 mánuðir þannig að ef á að takast að setja upp mannvirkið fyrir næsta vetur þarf að ganga frá pöntun hið allra fyrsta.
Rétt er að geta þess að framleiðandi dúksins og tilheyrandi búnaðar, Duol, hefur yfir 27 ára reynslu af mannvirkjum sem þessum hefur afhent meira en 1600 hallir í yfir 40 löndum þar sem mannvirkin hafa þurft að standast alls konar krefjandi aðstæður. Er Duol alþjóðlega viðurkennt fyrirtæki sem uppfyllir ISO9001:2015 gæða staðalinn og er það leiðandi á sínu sviði.
Það er bjargföst trú meirihluta D-listans að með nýjum dúk sem kostar mögulega undir 300 m.kr með VSK. gefist bæjarbúum tækifæri til að byggja upp afar farsælt íþróttastarf í bænum þar sem hugað yrði að þörfum fjölbreyttra hópa með frekari uppbyggingu annars konar íþróttamannvirkja einnig.
Friðrik Sigurbjörnsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Eyþór H. Ólafsson
Aldís Hafsteinsdóttir.

Okkar Hveragerði og Frjáls með framsókn lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn leggja fram sameiginlega bókun um skýrslu Verkís um uppbyggingu Hamarshallarinnar og málsmeðferð meirihlutans. Bókunin er í nokkrum liðum.

Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir hvað var þess valdandi að Hamarshöllin, loftborið íþróttahús, féll. Engin skýrsla liggur fyrir fundinum varðandi það enda vantar áhættumat í skýrslu Verkís. Minnihlutinn telur mjög mikilvægt að þær upplýsingar séu til staðar áður en tekin verður ákvörðun um hvaða byggingarform eigi að velja fyrir enduruppbyggingu Hamarshallarinnar. Það er mat minnihlutans að það sé óábyrgt að taka ákvörðun um hundruð milljóna króna fjárfestingu þegar slík niðurstaða liggi ekki fyrir.

Í öðru lagi fengu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn ekki aðgang að öllum gögnum málsins fyrr en tæpum sólarhring fyrir fund bæjarstjórnar og það eftir ítrekaðar óskir um að fá aðgang að gögnunum. Með fundarboði bæjarstjórnar barst eingöngu skýrsla Verkís og tilboð frá Duol en ekki önnur gögn málsins. Þau gögn bárust ekki fyrr en 19 klukkustundum fyrir fund bæjarstjórnar en öll fundargögn eiga að berast bæjarfulltrúum minnst tveimur sólarhringum fyrir fund samkvæmt 15. gr. sveitarstjórnarlaga. Því er ljóst að útsending fundargagna er í andstöðu við lög og getur því ákvörðun um þennan lið í dagskrá bæjarstjórnar vart talist lögleg.

Í þriðja lagi óskuðu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn eftir því að ákvörðun um framtíðaruppbyggingu Hamarshallarinnar yrði frestað. Rök fyrir frestun eru að (1) bæjarfulltrúar hafa ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins, (2) skýrsla Verkís er ófullgerð þar sem aðeins voru kannaðir tveir af fimm kostum sem bæjarstjórn ákvað að leggja til grundvallar, (3) bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn fengu fyrst upplýsingar um innihald skýrslu Verkís þremur dögum fyrir fund bæjarstjórnar en vitað er að meirihlutinn hafði fengið upplýsingar fyrr og (4) skýrsla Verkís tekur alls ekki á öllum kostum sem mögulegir eru í uppbyggingu Hamarshallarinnar, þ.m.t. um innflutt stálgrindarhús sem er mun hagkvæmara en Verkís hefur reiknað að slíkt hús kosti. Vegna þessa óskuðu undirrituð eftir því að skýrsla Verkís yrði eingöngu lögð fram til umræðu á fundi bæjarstjórnar og ekki yrði tekin ákvörðun um framtíðaruppbyggingu heldur yrði málið skoðað betur.

Í fjórða lagi er ekki tekið tillit til krafna Íþróttafélagsins Hamars í skýrslu Verkís en þær eru í raun grundvallarforsenda uppbyggingar. Íþróttafélagið Hamar gerir kröfur um að lofthiti sé í samræmi við reglugerðir (18 gráður). Parketgólf verði sett í stað dúks eins og var, hjóðdempun sé tryggð, lýsing sé sérhönnuð fyrir innanhússíþróttir, fjarlægðarskynjun sé tryggð með lituðum bakgrunni, veggir séu til staðar, geymsluaðstaða, áhorfendaaðstaða og búningsklefar. Miðað við þær kröfur sem íþróttafélagið Hamar gerir er það ljóst að mati minnihlutans að Hamarhöllin í þeirri mynd sem hún var uppfyllir ekki þau skilyrði sem íþróttafélagið Hamar telur að þurfi að vera til staðar. Einnig telur minnihlutinn að ekki hafi verið sýnt fram á að loftborin höll muni tryggja að svo verði. Minnihlutinn bendir einnig á að í þeim loftþrýstingi sem er inn í loftborinni höll séu meiri líkur á því að boltar (körfubolti, handbolti og blak) ásamt flugu í badmintoni verði fyrir flökti og því ekki viðunandi aðstæður til þeirra íþróttaiðkunar í loftborinni höll. Telur minnihlutinn mikilvægt við ákvörðun á því hvaða byggingartegund verði fyrir valinu við enduruppbyggingu Hamarshallarinnar þurfi að gera greiningu á gæðum til íþróttaiðkunar á milli stálgrindar-, límtrés- og loftborinnar hönnunar hvað varðar þau atriði sem íþróttafélagið Hamar leggur fram til grundvallar sem mikilvægustu þætti til íþróttaiðkunar. Í þessu samhengi telur minnihlutinn einnig mikilvægt að lagt verði fram hve margar æfingar hafi verið felldar niður þar sem vindur (m/sek) urðu þess valdandi að ekki væri hægt að æfa í Hamarshöllinni en ljóst er það gerðist oft og mun líklega gerast jafnoft ef farin verður sú leið að blása upp loftborið íþróttahús að nýju. Þá er mikilvægt að lagt verði fram hver óbeinn kostnaður hefur verið eftir að Hamarshöllin féll við að halda uppi íþróttastarfi fyrir iðkendur Íþróttafélagsins Hamars? Er það mat minnihlutans að mikilvægt sé að taka tilliti til hans við mat á ákvörðun um endurbyggingu.

Í fimmta lagi telja bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn að taka þurfi tillit til reynslunnar af loftbornum íþróttahúsum hér á landi og í nágrannalöndunum. Það er ekki gert í skýrslu Verkís. Miðað við reynslu á Íslandi (Hamarshöllinni) er endingartími slíkra loftborinna húsa tíu ár. Þá er líka ljóst að nokkrum sinnum á tíu ára líftíma Hamarshallarinnar munaði litlu að hún myndi fjúka eins og gerðist svo síðastliðinn febrúar. Þá eru dæmi frá Noregi um að loftborið íþróttahús knattspyrnufélagsins Rosenberg (Abrahallen) fauk tvisvar af grunni sínum (2009 og 2011) þar til ákveðið var að hverfa frá hugmyndum um slík hús og stálgrindarhús byggt í staðinn. Í Danmörku fauk Østre Skøjtehal, sem var loftborin skautahöll, í vindi árið 2010 og hafði þá staðið í tvö ár. Í febrúar á þessu ári hrundi Karlstad airdome í Svíþjóð, sem var loftborin íþróttahöll, undan snjóþunga. Dæmi eru miklu fleiri þar sem loftborin íþróttahús hafa hrunið til grunna. Líka má benda á að Hamarshöllin er eina 5.000 fermetra húsið á Íslandi sem hefur í heilu lagi fokið af grunni sínum og eyðilagst í heilu lagi. Slíkt gerist ekki við hefðbundnar byggingar. Þá má benda á að á Íslandi er vindasamt og því á líklega ekki við að reisa loftborin hús hér. Einnig vilja undirrituð benda á að mikið mildi var að enginn skyldi slasast þegar Hamarshöllin féll en ljóst er að tilviljun réði því að ekki fór illa. Þá er það ekki boðlegt að ítrekað þurfi að fresta æfingum vegna þessa að loftborið íþróttahús getur ekki staðið af sér íslenskan vind.

Í sjötta lagi gera bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn alvarlegar athugasemdir við úttekt Verkís sem liggur fyrir bæjarstjórnarfundi. Í fyrsta lagi ákvað bæjarstjórn að gerð yrði úttekt á fimm kostum við uppbyggingu Hamarshallarinnar 10. mars sl., sbr. fund bæjarráðs 3. mars,, þ.e. um loftborið íþróttahús, einangrað stálgrindarhús, óeinangrað stálgrindarhús, einangrað límtréshús og óeinangrað límstréshús. Í skýrslu Verkís eru aðeins tveir kostir, þ.e. loftborið íþróttahús og einangrað stálgrindarhús sem er smíðað á staðnum. Furðulegt er að sjá að Verkís hefur ekki unnið skýrsluna eftir óskum bæjarstjórnar. Óskar minnihlutinn eftir upplýsingum hvers vegna þetta er og hvers vegna skýrslan liggi fyrir bæjarstjórn ófullkláruð. Það er mat undirritaðra að ekki sé hægt að taka fyrir skýrslu í bæjarstjórn sem er ekki unnin eftir óskum bæjarstjórnar. Í öðru lagi er í skýrslu Verkís ekki að finna upplýsingar um möguleika á innfluttum stálgrindarhúsum sem eru mun hagkvæmari í innkaupum og framkvæmd heldur en kemur fram í skýrslunni. Þegar ljóst var hversu skýrsla Verkís var rýr ákváðu undirrituð að leita upplýsinga annarsstaðar um mögulega uppbyggingu Hamarshallarinnar. Verðhugmynd liggur fyrir um að það kosti um 260 m.kr. að koma upp einangruðu stálgrindarhúsi á grunni Hamarshallarinnar og að húsið verði tilbúið í lok nóvember og er um að ræða hús sem þegar er reynsla af hér á landi. Þá hefur minnihlutinn sent verðfyrirspurn til Danmerkur um kostnað við stálgrindarhús með einangruðum yleiningum á grunni Hamarshallarinnar. Rétt er að nefna að undirrituð bjuggumst auðvitað við að skýrsla Verkís væri betri og myndi taka inn þessa mismunandi kosti. Því fóru undirrituð af stað með framangreinda verðkönnun. Þessar upplýsingar undirbyggja enn frekar að fresta ákvörðun í málinu og skoða það nánar. Í þriðja lagi er í skýrslu Verkís gert ráð fyrir að í stálgrindarhúsi sé 4,6m vegghæð á langveggjum, mikið steypuvirki bætist við fyrir utan núverandi sökkul sem er til staðar. Ekki var athugað með mögulega stálgrind sem myndi ná alla leið niður á sökkul sem nú þegar er til staðar og nýta hann betur. Ekki er miðað við sambærilega hæð við útveggi og var í Hamarshöllinni. Því eru í raun gerðar aðrar kröfur til rýmis í stálgrindarhúsi í skýrslu Verkís en í loftbóluhúsi sem er furðulegt. Í fjórða lagi er í skýrslu Verkís talað um lítinn viðhaldskostnað á loftbornu húsi en ekki er tekið til greina hvað kostar að skipta um dúk eftir t.d. 5 ár, 7 ár eða 10 ár. Ekki er tekið tillit til þess að dúkur í loftborinni íþróttahöll endist tiltölulega stutt (við íslenskar aðstæður er ending samkvæmt reynslu tíu ár). Því væri rétt að taka tillit til þess að viðhaldskostnaði en það er ekki gert í skýrslu Verkís.

Það mat bæjarfulltrúa Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn að ekki stendur steinn yfir steini í þessu máli. Gögn bárust seint og í andstöðu við lög, ekki hefur verið fjallað sérstaklega um kröfur Íþróttafélagsins Hamars og skýrsla Verkís er því miður ekki nægilega vel unnin og kostir sem eru hagkvæmir fyrir uppbyggingu nýrrar Hamarshallar hafa ekki verið skoðaðir.

Því leggja undirrituð til að ákvörðun um framtíðaruppbyggingu Hamarshallarinnar verði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar. Innflutningsaðili hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að koma og halda kynningu á húsakostum frá Besthall.

Nauðsynlegt er að allir bæjarfulltrúar fái tækifæri til að kynna sér nýjustu upplýsingar.

Hlynur Kárason
Sigrún Árnadóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir


Kl. 18:25 var gert fundarhlé.
Kl. 19:00 hélt fundur áfram.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Fulltrúar D-listans lögðu fram tillögu í upphafi fundar þar sem ítarlega var farið yfir þær endurbætur sem þarf ráðast í í endurreistri Hamarshöll. Svo virðist vera sem að fulltrúar minnihlutans hafi ákveðið að hlusta ekki þegar tillagan var flutt hér áðan en í henni var einmitt rakið að endurbætur yrðu gerðar á nýrri loftborinni Hamarshöll og tekið tillit til óska Íþróttafélagsins Hamars.
Mannvirki geta fokið, þau geta brunnið og þau geta fallið saman. Sama hvort um sé að ræða loftborin mannvirki, stálgrindarhús eða límtréshús. Þess vegna eru þau tryggð.
Það er merkilegt að heyra hér bæjarfulltrúa minnihlutans tala niður lausn á aðstöðuvanda íþróttafélagsins sem hefur reynst okkur jafn vel og raun ber vitni síðustu 10 ár. Lausn sem hefur gjörbylt íþróttastarfi í svo fámennu sveitarfélagi sem við búum í. Þetta er einnig lausn sem skuldbindur ekki sveitarfélagið og íbúa þess fjárhagslega næstu áratugi. Þetta er lausn sem gefur Hvergerðingum færi á að halda áfram þeirri innviðauppbyggingu sem eru fyrirhuguð á næstu árum.
Lausnin sem minnihlutinn leggur hér fram stenst enga skoðun og það að þau taki ekki mark á rauntölum í skýrslu frá einni stærstu verkfræðistofu landsins er í raun ótrúlegt. Verkfræðistofu sem hefur síðustu ár verið að hanna og gera kostnaðaráætlanir fyrir íþróttamannvirki. Verkfræðistofu sem byggir niðurstöður sínar á rauntölum úr sambærilegum verkum.
Minnihlutinn bendir á að svipað stálgrindarhús og þau leggja til að verði byggt hafi verið reist í Hafnarfirði. Það stálgrindarhús er óeinangrað og kalt hús sem daglega er kallað fótboltaskjól. Þetta sama hús kostaði fyrir 3 árum meira en 800 milljónir króna og er 8.500fm. Þessi kostnaður hefur einungis hækkað á síðustu 3 árum, með tilliti til verðbólgu og verðlagsþróunar og ef það á að bæta við yleiningum og öðrum búnaði til að halda húsinu heitu og loftræstu yrði kostnaðurinn mun meiri. Hverjum mun slík höll nýtast? Bara knattspyrnunni? Annað nærtækt dæmi er Selfosshöllin sem byrjað var á í lok árs 2019 og tekin í notkun í lok árs 2021, upphitað hús svo að segja, sem einungis nýtist knattspyrnu og að einhverju leiti frjálsum íþróttum. Það hús kostaði milli 1.500-2.000 m.kr. og er 6.500m2. Í Garðabæ var verið að reisa eitt stærsta íþróttamannvirki landsins, heildar fermetra fjöldi þess með stoðrýmum og öllu er 18.200m2 og kostaði um eða yfir 5.000 milljónir króna. Ef við skoðum meðal fermetra verð á þessum tveimur síðar nefndu kostum sjáum við að fermetra verðið er um 267.000 kr., ef við margföldum það með 5.000m2 sem er stærð Hamarshallarinnar ætti stálgrindarhús upphitað að kosta um 1.335 milljónir króna sem er næstum því það sama og Verkís gefur upp í sinni skýrslu.
Ástæða þessarar bókunar er ekki síst sú að minnihlutinn segist vera með verðhugmynd þar sem einhver ótilgreindur aðili segist geta reist stálgrindarhús fyrir 260 milljónir króna og að mesta lagi að kostnaðurinn færi í 300 milljónir króna og að húsið verði komið upp í nóvember. Er það virkilega raunhæft að hægt sé að hanna og reisa upphitað stálgrindarhús fyrir 300 milljónir króna, þar sem fermetra verðið væri þá 60.000,- kr., og að það náist að reisa slíkt hús á 7 mánuðum þegar það tók um 2 ár að reisa 6.500m2 höll á Selfossi? Vissulega styttir það framkvæmdatímann eitthvað að þegar hefur margt verið gert, en við teljum að það myndi aldrei nást á 7 mánuðum. Við verðum að setja íþróttastarfið og fjármuni íbúa sveitarfélagsins í forgrunn. Með því að fara þá leið að reisa loftborið íþróttahús með 20% sterkari dúk og með því að taka tillit til þarfa íþróttafélaganna munum við koma íþróttastarfinu aftur í samt lag eins fljótt og nokkur er kostur. Heildarverð við endurbætur á Hamarshöllinni liggur fyrir og framkvæmdatíminn einnig. Verðmiðinn í heildarpakkann að meðtöldu nýju gervigrasi og íþróttagólfi er um 300 milljónir og þá á eftir að taka tillit til bóta frá tryggingafélaginu og húsið verður komið upp í haust

Friðrik Sigurbjörnsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Eyþór H. Ólafsson
Aldís Hafsteinsdóttir.


Tillaga Okkar Hveragerði og Frjáls með Framsókn borin upp og felld með fjórum atkvæðum meirihlutans, fulltrúar Okkar Hveragerði og Frjáls með framsókn með.

Tillaga D-listans borin upp og samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans, fulltrúar Okkar Hveragerði og Frjáls með Framsókn sátu hjá.

Undirrituð ákveður að sitja hjá vegna þess að hún telur að ekki hafi allar leiðir verið skoðaðar til hlýtar. Verkís kynnti til loftbóluhús og dýrari kostinn af stálgrindarhúsum. Minnihlutinn telur sig hafa fundið aðrar leiðir sem vert er að skoða og verður ekki tímafrekt. Undirrituð vill leggja áherslu á að ekki sé rétt að þau vilji þæfa málið en að auðvitað beri að skoða alla fleti vel og vandlega. Okkar Hveragerði og Frjáls með Framsókn bera auðvitað hag allra iðkenda íþrótta hér bæ að leiðarljósi, ungra sem aldna og hafa og munu halda áfram að styrkja íþróttastarf í bænum.

Sigrún Árnadóttir

17.Skýrsla starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja

2204423

Lögð fram skýrsla frá starfshópi um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson.
Meirihluti D-listans lagði fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti D-listans þakkar starfshópnum góð störf og góðar ábendingar og tillögur. Þar sem ákveðið hefur verið að kaupa dúk frá Duol og endurreisa Hamarshöllina í þeirri mynd sem hún var þá hefur verið verið tekið tillit til athugasemda hópsins hvað margar athugasemdirnar varðar.
Ennfremur leggur meirihlutinn til að við endurbyggingu Hamarshallar verði tekið tillit til eftirfarandi:
Til að halda jafnari hita í Hamarshöll verður lagður hiti í eða við íþróttagólfið. Einnig verður unnið með Veitum ohf að því að auka orku til hallarinnar og jafnframt verður hitabúnaður endurnýjaður.
Parket verði lagt í stað dúks á íþróttagólfið enda er það samhljóma álit hópsins að það gólfefni henti betur.
Í samvinnu við Duol verði unnið að endurbættri lýsingu.
Veggir við íþróttagólf verði með lit.
Með breytingum innanhúss verði hugað að geymslurými fyrir áhöld.
Við fjárhagsáætlun næsta árs verði hugað að möguleikum á byggingu viðbyggingar við íþróttahúsið Skólamörk


18.Skýrsla um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi.

2204414

Lögð fram skýrsla frá Evu Marín Hlynsdóttur, prófessor í opinberri stjórnsýslu við HÍ um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Lagt fram til kynningar.

19.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2021, fyrri umræða.

2204422

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri kynnti ársreikning 2021.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 356,5 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 1,3 m.kr.

Heildartekjur A og B hluta eru 3.520 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifa 3.465 m.kr.
Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er neikvæð um 320,4 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 7,8 m.kr.

Helstu ástæður þessa munar er að hækkun vísitölu var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en slíkar hækkanir á vísitölu hafa gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu allra sem skulda. Þrátt fyrir áhrif hækkunar vísitölu þá hefur þó enn meiri áhrif á rekstrarniðurstöðuna sú ákvörðun tryggingastærðfræðinga og fjármálaráðuneytis að nú skuli með einskiptisfærslu færð til bókar breyting á lífeyrisskuldbindingu. Áhrif þeirrar aðgerðar hefur mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga almennt og hér nemur sú breyting 131 m.kr. Það jákvæða er þó að hér er um einskiptis aðgerð að ræða sem ekki mun falla til á næstu árum.
Þriðja atriðið sem er stórt frávik frá fjárhagsáætlun eru launahækkanir og fjölgun stöðugilda en launakostnaður fór um 200 m.kr. umfram áætlun. Annar rekstrarkostnaður fer 100 m.kr fram úr áætlun og liggur það helst í auknum kostnaði við málefni fatlaðs fólks. Ljóst er að kjarasamningar og ýmsar breytingar sem í þeim eru hafa haft mikil áhrif á rekstur sveitarfélaga sem erfitt var að sjá fyrir í aðdraganda gerðar fjárhagsáætlunar. Heildartekjur hækka um 200 m.kr. en það dugar þó ekki til til að mæta þeim kostnaði sem varð á árinu.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 134 m.kr. eða 3,8% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 239,2 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 243,4 m.kr.

Fjárfestingar á árinu 2021 námu 675 m.kr. sem er umfram það sem gert var ráð fyrir. Viðbótin felst í auknum kostnaði við endurbætur á sundlaugarhúsinu, lausar kennslustofur við Óskaland og í gatnagerð.

Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 278,8 m kr. Tekin ný langtímalán voru 654m.kr..
Í árslok er hlutfall skulda af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar 117,37%.

Rétt er að geta þess að ársreikningurinn er óendurskoðaður við fyrri umræðu en endurskoðendur óska eftir að sá háttur sé hafður á. Þrátt fyrir að endurskoðun sé að mestu lokið geta komið upp skekkjur sem kunna að krefjast leiðréttingar á ársreikningnum. Frekari umfjöllun um ársreikninginn mun fara fram við síðari umræðu sem fram fer í lok apríl og þá munu endurskoðendur einnig skila skoðunarbréfi sínu og ítarlegar verður fjallað um einstaka liði ársreikningsins.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?