Fara í efni

Bæjarstjórn

543. fundur 10. mars 2022 kl. 17:00 - 19:29 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Sigurður Einar Guðjónsson varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Friðrik Sigurbjörnsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar samþykkir bæjarstjórn að nýta heimild sem gefin hefur verið til 31. mars 2022, samkvæmt auglýsingu innviðaráðherra frá 2. febrúar 2022, þar heimild er til að halda fjarfundi sveitarstjórnar, bæjarráðs og annarra lögbundinna nefnda sveitarfélagsins án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélagsins erfiðar eða að mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins. Einnig samþykkir bæjarstjórn að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar, bæjarráðs og annarra lögbundinna nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10 og 11. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 15. janúar 2013, um ritun fundargerða, nr. 22/2013. Bæjarstjórn samþykkir að undirritun og frágangur fundargerða verði í samræmi við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga við aðstæður sem þessar.

Forseti lagði fram dagskrárbreytingartillögu um að við fundarboð bætist liður 1 "Málefni Úkraínu - móttaka flóttamanna" Aðrir liðir færist til samkvæmt því.
Dagskrárbreytingartillagan samþykkt samhljóða.

1.Málefni Úkraínu - móttaka flóttamanna.

2203034

Lagður fram tölvupóstur frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er varðar móttöku flóttafólks.

Eftir taldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu sem kallað hefur bæði þjáningu og eyðileggingu yfir saklaust fólk. Það er skýlaus krafa alþjóðasamfélagsins að hernaðaraðgerðir Rússa verði stöðvaðar nú þegar.

Bæjarstjórn samþykkir að Hveragerðisbær taki þátt í móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Bæjarstjóra er falið að láta ráðuneytið vita af vilja bæjarstjórnar og að hafa að öðru leyti umsjón með viðræðum við ráðuneytið um móttökuna. Það er skylda allra að taka þátt í að létta þær byrgðar sem nú eru lagðar á íbúa Úkraínu. Þar verðum við öll að leggjast á eitt. Hvergerðingar skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í því að hlúa að þeim sem nú þurfa að flýja heimili sín og það líf sem fólkið áður þekkti. Bæjarstjórn hvetur alla þá sem geta lagt húsnæði til verkefnisins að skrá það inn á ísland.is en móttaka flóttamanna verður svo skipulögð í nánu samstarfi ríkis og viðkomandi sveitarfélaga.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 17. febrúar 2022.

2202001F

Liðir afgreiddir sérstaklega 5 og 6.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Liður 5 "Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg frá 19. janúar 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 6 "Bréf frá eigendum Eignafell ehf frá 15. febrúar 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð bæjarráðs frá 3. mars 2022.

2202003F

Liðir afgreiddir sérstaklega 5, 10, 11, 12 og 13.


Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Sigurður Einar Guðjónsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Liður 5 "Bréf frá Skipulagsstofnun frá 22. febrúar 2022" afgreiddur sérstaklega.

Bæjarstjórn tekur undir bókun bæjarráðs og minnir á fyrri bókanir varðandi mikilvægi þess að vandlega sé kannað hvaða áhrif niðurdæling getur haft á umhverfi sitt, ekki síst hvað varðar aukna jarðskjálftavirkni á svæðinu. Það hefur sýnt sig að niðurdælingar í og við Hellisheiði hafa framkallað jarðskjálfta, fjölmarga og nokkuð stóra. Því hlýtur það að vera skýlaus krafa íbúa í nágrenni við framkvæmdasvæðið að í umhverfismati sé lagt mat á hættuna af aukinni skjálftavirkni og þau áhrif sem slíkt getur haft á nánasta umhverfi. Í umhverfismati Hellisheiðarvirkjunar á sínum tíma var þessi hætta ekki metin, sem enn í dag vekur furðu þar sem allir þeir sérfræðinga sem unnu það mat hefðu átt að vita að aukin skjálftavirkni gæti verið fylgifiskur niðurdælingar. Hvergerðingar munu áfram fylgjast grannt með framvindu við mat á umhverfisáhrifum af framkvæmdum á Hengilsvæðinu og treysta því að í dag hafi allir lært af biturri reynslu og að nú verði unnið betur að gerð umhverfismats en áður var gert á sama svæði. Mikilvægt er að fram komi að í kafla 6.1.3 eru nefndir möguleikar á enn meiri niðurdælingu jafnvel frá fleiri og utanaðkomandi aðilum en ljóst er að slík aukin niðurdæling verður að vera háð nýju umhverfismati.

Liður 10 "Minnisblað frá bæjarstjóra - úttekt á valkostum við Hamarshöll" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs

Liður 11 "Minnisblað frá bæjarstjóra - úthlutun lóða við Hólmabrún" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs með þeirri breytingu að lóðum austan megin Hólmabrúnar (2-16) verði úthlutað með 30% álagi enda hefur nýtingarhlutfall þeirra lóða verið lækkað frá fyrra skipulagi. Bæjarstjórn samþykkir jafnframt þá óverulegu breytingu á deiliskipulagi að á lóð númer 18 verði einnar hæða hús og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,4.

Liður 12 "Minnisblað frá byggingarfulltrúa - Lagfæringar og breytingar á hitakerfi Sundlaugar í Laugaskarði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 13 "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa - akstur íþróttahópa v.falls Hamarshallar" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.


Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð fræðslunefndar frá 24. febrúar 2022.

2202002F

Liður 1 afgreiddur sérstaklega.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Sigrún Árnadóttir, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 1 "Sérfræðiþjónusta talmeinafræðings í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir þær breytingar á þjónustu talmeinafræðings sem lagðar eru til af fræðslunefnd. Með breytingunni verður börnum í Hveragerði tryggð enn meiri þjónusta talmeinafræðings en nú er en til framtíðar verður þá talmeinafræðingur ráðinn í hálft stöðugildi við grunnskólann og annar í hálft stöðugildi við leikskólana. Báðir fá heimild bæjarstjórnar til að nýta sér aðstöðu í skólunum til að þjónustu börn skv. samningi við Sjúkratryggingar. Með þessu móti bætist í raun við heilt stöðugildi talmeinafræðings í þjónustu við börn bæjarins án þess að til komi auka framlög frá bæjarfélaginu.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Fasteignafélags Hveragerðis ehf frá 28. febrúar 2022.

2202004F

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Njörður Sigurðsson.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð Menningar-, íþrótta- og frístundarnefndar frá 9. mars 2022.

2203002F

Liðir afgreiddir sérstaklega 1 og 2.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Liður 1 "Íþróttamaður ársins - reglugerð endurskoðuð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir reglur um kjör íþróttamanns ársins með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

Liður 2 "Afreks- og styrktarsjóður" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir reglurnar og vinnureglur afreks- og styrktarsjóðs með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

7.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. mars 2022.

2203003F

Í fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar kemur fram að Guðmundur F. Baldursson, hefur nú setið sinn síðasta fund sem skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar.

Bæjarstjórn vill því nota þetta tækifæri og þakka Guðmundi F. Baldurssyni sem senn lætur af störfum sem skipulagsfulltrúi bæjarins fyrir einstakt og óeigingjarnt starf í þágu bæjarfélagsins. Það er ekki sjálfgefið að njóta starfskrafta skipulagsfulltrúa í rúm 40 ár og sérstaklega ekki með jafn farsælum hætti og hér hefur verið raunin. Sýn Guðmundar á uppbyggingu og yfirbragð Hveragerðisbæjar hefur reynst afar farsæl og einstök leiðsögn hans til nefndarmanna, bæjarfulltrúa og annarra starfsmanna ekki síður.

Þrátt fyrir að nú sé komið að leiðarlokum hvað þetta starf varðar munu bæjarbúar vonandi njóta kunnáttu og þekkingar Guðmundar á öðrum sviðum til framtíðar.

Liðir afgreiddir sérstaklega 1, 3, 4, 5, 6, 7 og 8.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sigurður Einar Guðjónsson og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Liður 1 "Laufskógar, Frumskógar og Bláskógar, deiliskipulag innan hverfisverndarsvæðis HV4" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að tekið verði tillit til athugasemda og ábendinga Skipulagsstofnunar við deiliskipulagsgerðina.

Liður 3 "ZIP LINE Svifbraut á Árhólmasvæði, tillaga að breytingu á aðalskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir tillöguna óbreytta og að hún verði send Skipulagsstofnun til staðfestingar.

Liður 4 "Árhólmasvæði, svifbraut og bílastæði, breyting á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir tillöguna.

Liður 5 "Bláskógar 6b, umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir framkvæmdina.

Liður 6 "Bláskógar 6c, umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir framkvæmdina.

Liður 7 "Öxnalækur, mótun stefnu um uppbyggingu sunnan Hringvegar" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að leitað verði eftir umsögn Landform ehf. um báðar tillögurnar og um næstu skref.

Liður 8 "Tívolíreitur, ný íbúðar- og miðsvæðisbyggð, breyting á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins og óskar eftir fundi með lóðarhafa.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

8.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 1. mars 2022

2203011

Liðir afgreiddir sérstaklega 2b.

Enginn tók til máls.

Liður 2b afgreiddur sérstaklega "tillaga að gjaldskrárhækkunum - fjárhagsaðstoð".
Bæjarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

9.Endurskoðuð skólastefna Hveragerðisbæjar.

2203010

Lögð fram endurkoðuð skólastefna Hveragerðisbæjar.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Sigrún Árnadóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn þakkar starfshópnum og Kristrúnu Birgisdóttur ráðgjafa fyrir góða vinnu við gerð skólastefnu fyrir Hveragerðisbæ og samþykkir skólastefnuna. Starfshópnum er jafnframt falið að leggja til gæðaviðmið á grundvelli stefnunnar sem fræðslunefnd mun hafa til hliðsjónar í störfum sínum til framtíðar.

10.Tillaga frá fulltrúum D- lista um starfshóp um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

2203019

Fulltrúar meirihluta D-listans leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að skipaður verði starfshópur sem leggi fram tillögu að því hvernig íþróttagólf verði lagt í Hamarshöllina í stað þess sem skemmdist í óveðrinu nýlega. Starfshópurinn kanni einnig mögulega viðbyggingu við íþróttahúsið Skólamörk á reitnum sem nýlega var deiliskipulagður sunnan við núverandi íþróttahús.

Greinargerð: Á allra næstu vikum verður tekin ákvörðun um það með hvaða hætti Hamarshöllin verður byggð upp aftur. Vinna við skoðun valkosta er í gangi og er von á niðurstöðum úr þeirri vinnu í mars.

Um leið og ákvörðun er tekin um endurbyggingu þarf að ákveða með hvaða hætti íþróttagólfið í Hamarshöllinni verður endurnýjað. Sú ákvörðun felur í sér að um leið verði ákveðið hvaða íþróttagreinar þar verða stundaðar, enda er gólfið mikilvæg forsenda íþróttaiðkunar í höllinni.

Starfshópurinn fái einnig það hlutverk að kanna hvort möguleiki sé á viðbyggingu við íþróttahúsið við Skólamörk sem rúmað gæti frekari æfingaaðstöðu og bætt aðgengi allra að íþróttahúsinu. Áhersla yrði lögð á að möguleg viðbygging geti tengst þeim rýmum sem þar eru fyrir svo samnýta megi starfsmannahald í húsinu.

Lagt er til að starfshópinn skipi eftirtaldir aðilar:

Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi
Jón Friðrik Matthíasson, byggingafulltrúi
Formaður Íþróttafélagsins Hamars
Friðrik Sigurbjörnsson, forseti bæjarstjórnar
Ingibjörg Zoega, formaður Menningar-, íþrótta- og frístundanefndar
Sigurður Einar Guðjónsson, fulltrúi í Skipulags- og mannvirkjanefnd
Tveir fulltrúar minnihluta.

Starfsmaður hópsins og formaður verður Jóhanna M. Hjartardóttir og kallar hún hópinn saman til fyrsta fundar.

Hveragerði 7. mars 2022

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Sigurður Einar Guðjónsson.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Sigrún Árnadóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Sigurður Einar Guðjónsson.
Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi bókun.

„Með því að byggja við íþróttahúsið annan 600 m² íþróttasal er hægt að ná byggingarkostnaði verulega niður miðað við nýtt hús. Öll aðstaða í íþróttahúsinu sem þegar er til staðar nýtist, s.s. búningaaðstaða og áhorfendastæði. Byggingarkostnaður lækkar einnig verulega þar sem einn útveggur íþróttahússins mun nýtast við viðbygginguna. [...] Möguleiki verður að halda stærri íþróttamót í miðbæ Hveragerðis, t.d. badmintonmót með átta völlum, körfuboltamót og blakmót með tveimur völlum og svo mætti halda áfram. Slíkt yrði ekki einungis lyftistöng fyrir íþróttir í Hveragerði heldur einnig mannlífið.“

Þetta skrifaði annar undirritaðra, Njörður Sigurðsson, í grein í Dagskránni og á vefnum í lok mars árið 2010 og var þetta hluti af hugmynd A-listans í Hveragerði um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði fyrir bæjarstjórnarkosningar sem fram fóru þá um vorið.

Undirrituð fagna góðum hugmyndum, líka þeim sem eru endurnýttar, og telja skynsamlegt að skoða viðbyggingu við íþróttahúsið við Skólamörk, jafnt nú eins og 2010. Þá er ljóst nú, í ört stækkandi sveitarfélagi að þörf á frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja. Jafnframt fagna undirrituð því að skoða eigi í sameiningu hvernig íþróttagólf verður lagt í Hamarshöllinni.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir


Bæjarstjórn samþykkir tillöguna.

Fulltrúi Okkar Hveragerðis í starfshópnum verði Sandra Sigurðardóttir og fulltrúi Frjálsra með Framsókn verði Halldór Benjamín Hreinsson.

11.Þjónustusamningur við Íþróttafélagið Hamar.

2203021

Lagður fram Þjónustusamningur við Íþróttafélagið Hamar sem sem gildir til ársloka 2022.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Sigrún Árnadóttir, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Þjónustusamningurinn samþykktur samhljóða.

12.Minnisblað frá bæjarstjóra - uppbygging við Lindarbrún á vegum HNLFÍ.

2203020

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 8. mars 2022 varðandi uppbyggingu við Lindarbrún á vegum HNLFÍ.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að gatnagerðargjöld verði innheimt með hefðbundnum hætti af því húsnæði sem rísa mun við Lindabrún. Gatnagerð og frágangur utan lóða verði á hendi Hveragerðisbæjar. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að nú þegar verði ráðist í hönnun götunnar og svæðisins með það fyrir augum að útboð á verklegum framkvæmdum bæjarins innan reitsins geti átt sér stað hið fyrsta. Kostnaði við verkið verði mætt með auknum tekjum vegna gatnagerðargjalda.

13.Minnisblað frá bæjarstjóra - uppbygging leikvalla sumarið 2022.

2203022

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 8. mars 2022 varðandi uppbyggingu leikvalla sumarið 2022.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Sigrún Árnadóttir, Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Sigurður Einar Guðjónsson.
Bæjarstjórn samþykkir þær tillögur sem fram koma í minnisblaðinu enda eru þær í fullu samræmi við þegar samþykkta fjárhagsáætlun.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:29.

Getum við bætt efni síðunnar?