Fara í efni

Bæjarstjórn

534. fundur 12. maí 2021 kl. 17:00 - 20:22 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2020, síðari umræða.

2105035

Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020.
Á fundinn mættu Jónas Gestur Jónasson og Kristján Þór Ragnarsson frá Deloitte endurskoðun og lögðu fram endurskoðunarskýrslu sína. Jónas Gestur Jónasson kynnti ársreikninginn og Kristján Þór Ragnarsson kynnti endurskoðunarskýrsluna.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Meirihluti D-listans lagði fram eftirfarandi bókun:

Undanfarið ár hefur verið sveitarfélögum á Íslandi, rétt eins og heimsbyggðinni allri, eitt samfellt lærdómsferli. Lærdómsferli sem við þó hefðum öll helst viljað sleppa við. Heimsfaraldur inflúensu hefur valdið gríðarlegri röskun á lífi einstaklinga og ein mesta efnahagskreppa sem riðið hefur yfir heimsbyggðina til fjölda ára er staðreynd.
Það fer ekki á milli mála þegar niðurstaða ársreikninga bæði fyrirtækja og margra sveitarfélaga hér á landi er skoðuð.

Í nýútkominni greiningu á rekstrarniðurstöðu 10 stærstu sveitarfélaganna kemur í ljós að staða sveitarfélaga er erfið en þó skárri en svarsýnustu spár gerðu ráð fyrir. En af þessum 10 stærstu sveitarfélögum landsins eru sex þeirra að skila rekstri í tapi.

Hér í Hveragerði er niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2020 neikvæð sem nemur 87,7 m.kr. Er það í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem niðurstaða bæjarsjóðs og tengra stofnana er neikvæð. Er því ljóst að áhrifa Covid gætir verulega þegar rekstrarniðurstaðan er skoðuð. Er niðurstaða ársreiknings nokkuð lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun en búist var við rekstrarhalla upp á tæplega 64 m.kr.. Skýrist þetta frávik frá fjárhagsáætlun einna helst af því að verðbólga varð meiri en gert var ráð fyrir og eins því að því miður láðist að gera ráð fyrir vöxtum vegna leiguskuldar við Reiti fasteignafélag í fjárhagsáætlun. Helstu ástæður neikvæðs rekstrar liggja í hruni í tekjum margra stofnana og auknum útgjöldum vegna Covid. Einnig urðu miklar launahækkanir á árinu og eðlisbreyting á starfi leikskólastarfsmanna með auknum undirbúningstíma sem þurfti að bregðast við með aukningu starfsmanna.

Þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu rekstrar Hveragerðisbæjar árið 2020 er rekstur bæjarfélagsins í samræmi við viðmið laga um skuldastöðu en skuldir samstæðu nema nú um 103% sem hlutfall af heildartekjum sveitarfélagsins. Rétt er þó að geta þess að fjármálareglur sveitarfélaga hafa verið afnumdir vegna efnhagskreppunnar til ársins 2025.

Það er ánægjulegt að sjá að mikill vöxtur er í húsbyggingum og framkvæmdum í sveitarfélaginu. Nú eru hafnar framkvæmdir við eða skipulög á lokastigi á svæðum sem rúmað geta 373 íbúðir og þá eru ekki taldar með íbúðir sem komið gætu í næsta áfanga Kambalands. Ef Hólmabrúninni og nýjum áfanga í Kambalandi yrði bætt við þessa tölu þá er ekki óvarlegt að áætla að bætast munu við um 120 íbúðir. Þetta gera um 500 íbúðir sem nú eru á framkvæmdastigi eða í farvatninu næstu misserin. Þetta er mikil aukning og langt umfram þær áætlanir sem bæjarstjórn hefur hingað til unnið eftir. Í ljósi þessa skoðar nú meirihluti D-listans uppbyggingu innviða hratt og örugglega því ánægja íbúa er sú breyta sem við viljum fyrst og fremst horfa til.

Vel er haldið utan um fjármál og grannt fylgst með þróun útgjalda og brugðist við eftir því sem þurfa þykir. Með fjárfestingum í landi og fasteignum á undanförnum árum hefur meirihluti D-listans sýnt að hann hugsar til framtíðar en nú er byggingaland í bæjarfélaginu tryggt næstu áratugina. Er það ánægjuleg staða í landlitlu sveitarfélagi.
Sterk stjórn á fjármálum bæjarins ásamt skynsamlegri uppbyggingu innviða og þjónustu hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum með því besta sem gerist á landinu.

Bæjarstjórn hefur verið einhuga og samhent í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og það hefur áhrif langt út fyrir þau störf sem bæjarstjórn eru falin. Vinsældir Hveragerðisbæjar sem farsæls búsetukosts hafa aukist mjög á undanförnum árum, fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fjöldi fjölbreyttra íbúða í byggingu. Það er því óvarlegt að áætla annað en að bæjarbúum muni fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum enda hefur bæjarbúum fjölgað um 13% frá árinu 2015.

Þrátt fyrir að við sjáum nú vonandi til lands varðandi afleiðingar yfirstandandi efnahagskreppu með bólusetningum, bjartsýni og auknum fjölda ferðamanna er brýnt að áfram sé vel haldið utan um rekstur bæjarins og að fjármálum bæjarins sé áfram stýrt af festu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.

Í ársreikningi 2020 kemur fram að samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 203,1 mkr. eða sem nemur ríflega 6,3% af heildartekjum bæjarins. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 252 mkr. eða sem nemur um 7,8% af heildartekjum samstæðu. Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2020 102,87 % sem er 47,1 prósentustigum undir því skuldaþaki sem sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað. Langtímaskuldir samstæðu að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 og Breiðumerkur 20 nema 3.021 mkr.. Lífeyrisskuldbinding er 650 mkr.. Samtals gerir þetta 3.671 mkr. eða rétt ríflega 1,32 mkr. pr íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár.

Fjárfestingar á árinu 2020 námu 304 mkr.. Helstu fjárfestingar ársins fólust í viðbyggingu við grunnskólann (141 mkr.), framkvæmdum í Kambalandi (277 mkr.) gatnagerð, vatns- og fráveituframkvæmdum, endurbótum á sundlauginni Laugaskarði (35 mkr.), kaupum á Breiðamörk 21 (44 mkr. ), framkvæmdum í vatnsveitu (65,5 mkr.), Framkvæmdum í fráveitu (15,9 mkr), kaupum á félagslegu húsnæði (28 mkr.), Hús fyrir vélbúnað Hamarshallar (23 mkr) aðrar fjárfestingar voru smærri á árinu. Tekjur vegna gatnagerðargjalda námu 310 mkr., seld var fasteign á árinu ( 38,7 mkr.).

Tekin ný langtímalán voru 389 mkr.. Afborganir langtímalána námu 210,6 mkr..
Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 51% af skatttekjum, félagsþjónustan 13,4% og æskulýðs- og íþróttamál 9,2%.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðri og styrkri stjórn forstöðumanna bæjarins og framlagi starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Umhverfi stjórnenda bæjarfélagsins hefur sjaldan ef nokkru sinni verið jafn krefjandi og raun hefur verið undanfarið ár. Lokanir, sóttvarnir, sóttkví og smit hafa einkennt margar starfsstöðvar en auk þess var innleiðing styttingar vinnuvikunnar krefjandi viðfangsefni og þá sérstaklega á vaktavinnu vinnustöðunum.

Meirihluti D-listans vill nýta þetta tækifæri og færa stjórnendum og starfsmönnum öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins og einstakt vinnuframlag við erfiðar og krefjandi aðstæður.

Meirihluti bæjarstjórnar þakkar einnig endurskoðendum og skrifstofustjóra fyrir góða vinnu við gerð ársreiknings. Fjárhagsáætlanir undanfarinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka.
Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir

Fulltrúar O-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Rekstrarreikningur Hveragerðisbæjar er neikvæður upp á 87,8 m.kr. sem er 24 m.kr. meiri mínus en lagt var upp með í fjárhagsáætlun. Ástæða þessara frávika eru skv. bæjarstjóra vanáætlun á hækkun vísitölu og mistaka í fjárhagsáætlanagerð þar sem gleymdist að reikna fjármagnsgjöld vegna leiguskuldar í Breiðumörk og Sunnumörk. Það er þó ekki í fyrsta skipti sem þetta gleymist því það gerðist líka fyrir ári síðan. Rétt er að hafa í huga að rekstrartekjur Hveragerðisbæjar voru 107,8 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Hefðu rekstrartekjurnar ekki hækkað svo mikið hefðu frávirkin frá fjárhagsáætlun upp á 24 m.kr. og mínusinn í rekstrarreikningi orðið miklu hærri. Skuldahlutfall Hveragerðisbæjar (A og B hluta) er 136% en 102% skv. reglum þegar búið er að draga lífeyrisskuldbindingar frá.

Ljóst er að sveitarfélagið þarf strax að huga að uppbyggingu innviða, leikskóla og grunnskóla og annarrar grunnþjónustu þar sem hröð uppbygging og fjölgun íbúa hefur verið í bænum. Til þess að sveitarfélagið geti haldið úti þokkalegri grunnþjónustu eru verulegar fjárfestingar framundan í sveitarfélaginu sem mun auka skuldsetningu en einnig tekjur til lengri tíma.

Undirrituð þakka endurskoðendum fyrir góða vinnu við ársreikning og starfsfólki Hveragerðisbæjar fyrir góð störf fyrir sveitarfélagið.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Fulltrúi B-listans lagði fram eftirfarandi bókun.
Að krefjandi ári loknu ber að þakka árverkni forstöðumanna bæjarins og öllu starfsfólki bæjarins.

Undanfarin ár hefur afkoma bæjarsjóðs verið mjög háð framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, sem endurspeglar hversu tekjulágt bæjarfélagið hefur verið. Á síðasta ári var framlag Jöfnunarsjóðs um 16,4% af rekstrartekjum bæjarins, eða um 525 milljónir króna. Má því færa rök fyrir því að laun bæjarbúa fari hækkandi.

Bagalegt er hversu lítið handbært fé er frá rekstri, einungis 1,89% fyrir A og B hluta. Jákvætt er að veltufjárhlutfallið hefur hækkað og er nú komið í 0,83% en æskilegt er að veltufjárhlutfallið væri yfir 1.

Undanfarin ár hafa einkennst m.a. af miklum og nauðsynlegum fjárfestingum í innviðum bæjarfélagsins, sem hefur leitt til aukinnar lántöku. Á milli ára jukust langtímaskuldir bæjarins um 235 milljónir króna og námu í árslok um 2,8 milljörðum króna. Þó svo að skuldahlutfallið sé innan við viðmið, veldur skuldsetningin ákveðnum áhyggjum í ljósi hækkandi verðbólgu. Með öðrum orðum þá er um miklar fjárhæðir að ræða og brýnt að hefja undirbúning að niðurgreiðslu lána.

Að mati bæjarfulltrúa B-listans er staða Hveragerðisbæjar sterk, með sína öflugu grunnstoðir en með hagsýni og ráðdeild við fjármálastjórn bæjarins er framtíð bæjarins björt.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
B-lista
Frjáls með Framsókn

Ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 21. apríl 2021.

2104007F

Liðir afgreiddir sértaklega 12, 13 og 14.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 12 "Minnisblað frá bæjarstjóra um Hveraportið - Garðyrkjudeild" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 13 " Minnisblað frá forstöðumanni stuðningsþjónustu og málefna aldraðra - félagsleg heimaþjónusta" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 14 "Motus - endurnýjun samnings og stöðuskýrsla" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að framlengja samninginn við Motus.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð bæjarráðs frá 6. maí 2021.

2104009F

Liðir afgreiddir sértaklega 6, 7, 8, 9, 10 og 11.

Enginn tók til máls.
Liður 6 "Bréf frá íbúum efri hluta Heiðmerkur - Umferðaröryggi við Heiðmörk" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 7 "Minnisblað frá bæjarstjóra - stytting vinnutíma bæjarskrifstofu" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 8 "Minnisblað frá bæjarstjóra - Skipulag í Kambalandi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 9 "Forkaupsréttur Austurmörk 20" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að falla frá forkaupsrétti sínum að fasteigninni Austurmörk 20 fn. 223-4364, eignarhluta 01-04.

Liður 10 "Opnun tilboða - Hlíðarhagi fráveita verðkönnun" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda Smávélar ehf.


Liður 11 "Lóðaumsókn - Vorsabær 4" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir úthlutina.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.



4.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 4. maí 2021.

2104003F

Liðir afgreiddir sértaklega 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11, 12 og 13.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Liður 1 "Deiliskipulag við Varmá í Hveragerði, frá Lystigarðinum Fossflöt og norður fyrir Friðarstaði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir tillöguna nefndarinnar og að skoðað verði hvort rétt sé að takmarka hámarkshraða á Breiðumörk við 30km/klst. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að nú þegar verði hafin hönnun gatna og veitna á svæðinu svo mögulegt sé að bjóða út gatnagerð hið allra fyrsta og í framhaldinu úthluta lóðum á svæðinu.

Fulltrúar O-listans lögðu fram eftirfarandi tillögu.
Tillaga um að endurvekja goshverinn Grýlu
Undirrituð leggja til að skoðað verði í sambandi við skipulag við Friðarstaði hvort hægt sé að endurvekja goshverinn Grýlu við minni Ölfusdals. Grýla var einn af þekktustu goshverum landsins þegar hann var virkur og var vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Þegar Grýla var virkur goshver gaus hún á tveggja stunda fresti og voru gosin um 10-12 metra há. Það væri viðeigandi ef hægt væri að endurvekja Grýlu á ný og reisa við hennar fornu frægð. Lagt er til að kannað verði hvort að hægt sé að fá goshverinn til að gjósa náttúrulega á ný eða hvort að möguleiki sé að tengja t.d. gufuveitu við eða að hvernum og framkalla þannig manngerð gos. Samkvæmt heimildum var Grýla friðlýst náttúruvætti og því er nauðsynlegt að kanna hvort að megi eiga við hverinn og útbúa manngerð gos ef sú leið yrði farin.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Liður 2 "NLFÍ, tillaga að breytingu á aðalskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að tillagan verði send Skipulagsstofnun til staðfestingar.

Liður 3 "Hlíðarhagi, tillaga að breytingu á aðalskipulagi" afgreidd sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að tillagan verði send Skipulagsstofnun til staðfestingar.

Liður 4 "Reykjamörk 22, stækkun lóðar og leyfi til að hefja skipulagsgerð" afgreiddur sérstaklega.
Friðrik Sigurbjörnsson vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn samþykkir að aðalskipulag AT3 reitsins verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að vægi íbúðarbyggðar á reitnum verði aukið og samhliða því verði staða gróðurhúsa á honum skoðuð, sbr. ákvæði í skýrslu um varðveislugildi gróðurhúsa. Í framhaldi eða samhliða þeirri vinnu verði ráðist í deiliskipulagsgerð á svæðinu. Bæjarstjórn samþykkir að ekki er rétt að úthluta lóð sunnan við lóðina Reykjamörk 22 sem íbúðarlóð, fyrr en landnotkun og lögun hennar og hefur verið ákveðin í breyttu aðal- og deiliskipulagi.

Liður 5 "Hlíðarhagi, tillaga að breytingu á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir breytingartillöguna.

Liður 6 "Hveramörk 17, ósk um breytingu á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir breytinguna og að fallið verði frá grenndarkynningu.

Liður 7 "Heiðmörk 64, ósk um breytingu á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að farið verði með málið sem um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða og að það fari fram grenndarkynning á því.

Liður 8 "Grænamörk 10, breyting á deiliskipulagi NLFÍ svæðis, íbúðarbyggð á reit ÍB14" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að auglýsa breytingartillöguna í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 9 "Bláskógar 1, umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að veita leyfi fyrir framkvæmdinni. Fulltrúar O-listans sátu hjá.

Liður 10 "Borgarheiði 14, sólskáli og bílskúr, umsókn um byggingarleyfi, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að veita leyfi fyrir framkvæmdinni.

Liður 11 "Hrauntunga 18, ósk um leyfi fyrir nýju húsi" afgreiddur sérstaklega. Í ljósi niðurstöðu skipulagsfulltrúa og nefndarinnar hafnar bæjarsjórn erindinu en vekur jafnframt athygli á að fyrr á þessum fundi samþykkti bæjarstjórn að hefja endurskoðun deiliskipulags á efsta hluta Kambalands og með því munu landeigendur vonandi geta nýtt lóðir sínar í samræmi við skipulag.

Kl 18:36 var gert fundarhlé.
Kl 18:50 hélt fundur áfram.

Liður 12 "Fagrihvammur L171554, umsókn um skiptingu lóðar" afgreidd sérstaklega. Friðrik Sigurbjörnsson vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn samþykkir skiptingu lóðarinnar.

Liður 13 "Hveramörk 19, fjölgun fasteigna á lóð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að vísa breytingunni í grenndarkynningu.



5.Fundargerð Umhverfisnefndar frá 20. apríl 2021.

2104008F

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð Fræðslunefndar frá 20. apríl 2021.

2104006F

Enginn tók til máls:
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

7.Fundargerð Menningar-íþrótta og frístundanefndar frá 10. maí 2021.

2105002F

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

8.Umsókn um rekstrarleyfi í Árhólmar 1 - Al bakstur.

2105030

Sýslumaðurinn á Suðurlandi óskar eftir umsögn Hveragerðisbæjar vegna umsóknar Al bakstur ehf til sölu veitinga í flokki II kaffihús í Árhólmum 1 fnr. 235-7356.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Friðrik Sigurbjörnsson.

Kl 19:07 var gert fundarhlé.
Kl 19:08 hélt fundur áfram.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við umsóknina.

9.Tillaga frá Okkar Hveragerði um að athuga dreifikerfi útvarps.

2105031

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi tillögu.

Undirrituð leggja til að bæjarstjóra verði falið að koma athugasemdum á framfæri til Ríkisútvarpsins ohf. um léleg móttökuskilyrði útvarps í Hveragerði og óska eftir að fyrirtækið, sem er í eigu allra landsmanna, komi þeim í lag svo að Hvergerðingar og gestir bæjarins geti haft óhindraðan aðgang að útsendingum Rásar 1 og Rásar 2 í gegnum loftnet.

Greinargerð
Á vef Ríkisútvarpsins stendur: „Ríkisútvarpið er eign allra landsmanna og það er starfsfólki mikið kappsmál að eigendurnir - almenningur - hafi greiðan og góðan aðgang að dagskrá RÚV í sjónvarpi, útvarpi og á vef. Af þessum sökum hefur Ríkisútvarpið áratugum saman rekið eigið dreifikerfi.“ Í Hveragerði hafa útvarpsskilyrði í gegnum loftnet verið í ólagi í nokkurn tíma og víða í bænum er erfitt að ná útvarpssendingum Rásar 1 og Rásar 2. Ekki síst er mikilvægt að tryggja að skilyrði útsendingu útvarps í Hveragerði sé í lagi vegna öryggishlutverks Ríkisútvarpsins. Samkvæmt lögum nr. 23/2013 á Ríkisútvarpið í „samvinnu við til þess bær stjórnvöld [að] tryggja nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum. Ríkisútvarpið skal í því skyni setja sér öryggisstefnu um órofinn rekstur hljóðvarpsþjónustu um land allt og á næstu miðum“. Því er mikilvægt að bæjarstjórn beiti sér fyrir því að útvarpsskilyrði Ríkisútvarpsins séu í bætt innan Hveragerðis.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Tillagan samþykkt samhljóða með eftirfarandi bókun meirihluta D-listans.

Fulltrúar meirihluta D-listans taka undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni enda hafa móttöku skilyrði vegna útvarps verið slæm um langa hríð. Viðræður um úrbætur hafa ekki borið árangur en fullkomlega eðlilegt er að viðræður verði hafnar aftur og því verður það gert nú þegar.

10.Fyrirspurn frá Okkar Hveragerði um biðlista á leikskóla.

2105032

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn.

Samkvæmt reglum Hveragerðisbæjar eru börn tekin inn á leikskóla bæjarins frá 12 mánaða aldri og er það jafnan gert frá maí til október ár hvert. Í nágrannasveitarfélögum Hveragerðis, t.d. Reykjavík og Árborg, hafa foreldrar fengið upplýsingar um hvenær börnin komast inn á leikskólana en þær upplýsingar liggja ekki fyrir í Hveragerði. Það er óþægileg staða fyrir foreldra. Því er spurt hversu mörg börn eru núna á biðlista eða bíða staðfestingar á því að fá leikskólapláss og á hvaða aldri þau eru? Einnig er spurt hvenær foreldrar megi eiga von á staðfestingu á leikskólaplássi fyrir börn sín fyrir haustið? Jafnframt hvort að öll börn sem fædd eru árið 2019 fá pláss inn á leikskóla í haust og hvort að öll börn sem eru 12 mánaða og eldri fái pláss á leikskólum?

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Eyþór H. Ólafsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun sem svar við fyrirspurn bæjarfulltrúanna:

Undanfarið hefur farið fram vinna við að greina mögulegan fjölda leikskólabarna í nánustu framtíð og þau tækifæri sem fyrir hendi eru til að mæta þörf fyrir leikskólapláss í ört vaxandi samfélagi. Samkvæmt fjárhagsáætlun til næstu þriggja ára er áætlað að nýr leikskóli verði byggður í Kambalandi og mun hönnun hans hefjast árið 2022. Samkvæmt þessari sömu áætlun munu framkvæmdir hefjast árið 2023. Í minnisblaði sem liggur fyrir fundinum er gerð grein fyrir þeirri vinnu sem ynnt hefur verið af hendi að undanförnu og tillögur gerðar að leiðum til úrbóta sem felast í leigu á lausum kennslustofum sem settar yrðu upp við Leikskólann Óskaland á haustmánuðum.
Í minnisblaðinu kemur fram að leikskólastjórar hafa tekið til sín þau nöfn af biðlistanum sem boðið verður leikskólapláss að loknu sumarfríi. Að þeim frátöldum eru nú á biðlistanum 22 börn sem verða munu eins árs fram til loka árs 2021. Munu leikskólastjórar hafa samband við foreldra fljótlega. Óhætt er að fullyrða að öll börn sem fædd eru árið 2019 og fyrr munu fá boð um leikskólavistun í haust sæki þau tímanlega um. Stefnt er að því að með tilkomu lausra kennslustofa munu öll börn sem orðin verða 12 mánaða á haustmánuðum fá boð um leikskólavistun. Með auknu rými og að því gefnu að það náist að ráða nýtt starfsfólk má gera ráð fyrir að hægt verði að bjóða fleiri börnum leikskólavist og gera enn betur í þessum efnum en reglur bæjarins gera ráð fyrir.

11.Minnisblað frá bæjarstjóra - lausar kennslustofur við Leikskólann Óskaland.

2105040

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra vegna lausra kennslustofa við Leikskólann Óskaland.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Friðrik Sigurbjörnsson.
Fulltrúar meirihluta D-listans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn samþykkir að fela Skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja nú þegar vinnu við nauðsynlegar breytingar á skipulagi með það fyrir augum að á lóð Leikskólans Óskalands verði þegar í haust hægt að koma fyrir tveimur færanlegum kennslustofum í eins góðum tengslum við núverandi byggingu og kostur er. Jafnframt verði við skipulagsvinnuna horft til þess að fljótlega verði byggt við stoðrými skólans og því mikilvægt að hugað verði að þeirri stækkun við skipulagsvinnuna.

Bæjarstjórn felur jafnframt bæjarstjóra að leita tilboða í uppsetningu og leigu á lausum kennslustofum fyrir starfsemi leikskólans og leggja niðurstöður þeirrar könnunar ásamt kostnaðargreiningu á verkefninu í heild fyrir bæjarráð.

Greinargerð:
Fulltrúar meirihluta D-listans, eru stoltir af þeim árangri sem náðst hefur varðandi leikskólamál í sveitarfélaginu og vill gjarnan halda þeirri stöðu að börnum sem orðin eru 1 árs þegar inntaka nýrra barna fer fram að hausti sé boðin leikskólavistun. Til að svo megi verða í ört vaxandi bæjarfélagi er ljóst að enn þarf að bæta við leikskólaplassum og það þrátt fyrir að nýr leikskóli hafi verið opnaður árið 2017. Sá leikskóli er sex deilda en Óskaland er með fjórar deildir. Með þeirri lausn sem hér er lögð til er gert ráð fyrir nýjum leikskóla á næstu árum sem ekki er vanþörf á miðað við þá fjölgun íbúa sem þegar er staðreynd og fjölda þeirra íbúða sem eru á framkvæmdastigi eða á teikniborðinu.
Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir

Fulltrúa O-listans lagði fram eftirfarandi bókun.

Undirrituð styðja tillögu um að koma upp færanlegum kennslustofum til bráðabirgða við Leikskólann Óskaland til að mæta mikilli þörf á plássum fyrir leikskólabörn í Hveragerði. Það er varla tilviljun að tillaga um þessa bráðabirgðalausn liggur fyrir á sama fundi og bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis leggja fram fyrirspurn um biðlista á leikskóla Hveragerðisbæjar. Rétt er að benda á að ljóst hefur verið í nokkurn tíma að ekki kæmust öll börn á leikskólaaldri að í leikskólum bæjarins miðað við núverandi stöðu og því hefði mátt bregðast fyrr við en nú er gert. Einnig er rétt að hafa í huga að hér er um bráðabirgðalausn að ræða og nauðsynlegt að strax verði hafist handa við að undirbúa byggingu nýs leikskóla. Þá er jafnframt nauðsynlegt að hefja samhliða undirbúning að stækkun grunnskólans og að ljúka við þá byggingu sem hófst fyrir 35 árum. Mikil uppbygging í Hveragerði þýðir að byggja þarf upp innviði samhliða íbúafjölgun. Því er nauðsynlegt að bregðast við því strax.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Tillagan samþykkt samhljóða.

12.Reglur um stöðureiti og gjaldtöku á Árhólmum í Hveragerðisbæ.

2105042

Lagðar fram reglur um stöðureiti og gjaldtöku á Árhólmum í Hveragerðisbæ.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Sigrún Árnadóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson og Aldis Hafsteinsdóttir.
Meirihluti D-listans lagði fram eftirfarandi breytingatillögu við reglurnar:

Grein 1 breytist ekki efnislega en orðalag breytist og hljóði hún svo:
"Heimilt er að leggja bifreiðum á afmörkuðum stöðureitum á Árhólmum í Hveragerðisbæ.
Greiðslukerfi á Árhólmum byggir á greiningu bílnumera með myndavélum.
Þegar bíl er ekið in á svæðið greinir kerfið bílnúmerið. Þegar ekið er út af svæðinu reiknar kerfið út þann tíma sem á að rukka fyrir og gjaldtöku lýkur þar með. Greitt er í gegnum smáforrit í síma."

Greinargerð:
Í breytingartillögunni er gerð óveruleg breyting á útsendum texta. Með reglunum sem byggja á heimild sveitarfélaga til gjaldtöku á stöðureitum skv. lögum nr. 77/2019 er gert ráð fyrir að gestir sem leggja bílum sínum á og við stöðureiti við Árhólma, Reykjadal greiði gjald fyrir að leggja bíl sínum. Eins og fram kemur í reglunum er um hóflegt gjald að ræða og fyrstu 30 mínúturnar eru gjaldfrjálsar. Gjaldtakan miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri bílastæðanna og til að mæta kostnaði við rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun bílastæðanna, svo sem salernisaðstöðu, sorphirðu en einnig til gerðar og viðhalds göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki á svæðinu. Gjaldskráin verður birt vegfarendum með áberandi hætti á svæðinu og á heimasíðu Hveragerðisbæjar.
Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir

Kl. 19:59 var gert fundarhlé.
Kl. 20:09 hélt fundur áfram.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða með ofangreindri breytingu.
Bæjarstjórn samþykkir jafnframt að fast gjald fyrir hópferðabíla með 19 farþega eða færri verði kr. 1.800.- og fast gjald fyrir hópferðabíla með 20 farþega eða fleiri verði kr. 3.500.-
Reglurnar taka gildi þegar lögreglustjóri hefur samþykkt þær sbr. ákvæði 2. mgr. 86. gr.laga nr. 77/2019 um umferðarlög.

13.Fundargerð NOS frá 14. apríl 2021.

2105033

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 20:22.

Getum við bætt efni síðunnar?