Fara í efni

Bæjarstjórn

515. fundur 13. febrúar 2020 kl. 17:00 - 19:51 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Sigurður Einar Guðjónsson varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Garðar R. Árnason
Fundargerð ritaði: Ragnheiður Brynjólfsdóttir þjónustufulltrúi
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 16. janúar 2020.

2001002F

Liður 2 afgreiddur sérstaklega.
Enginn tók til máls:
Liður 2: "Bréf frá Þjóðskrá Íslands" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 6. febrúar 2020.

2001003F

Liðir 9, 10, 13, 14, 15, 17 og 18 afgreiddir sérstaklega.
Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Líður 9, "Lóðaumsókn Búðahraun 1" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir úthlutunina.

Liður 10, "Opnun tilboða verðkönnun - færsla lagna í Skólamörk 2020" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda.

Liður 13, "Minnisblað - makaskipti á lóðum Tálkna ehf og Hveragerðisbæjar í Kambalandi" afgreiddur sérstaklega.

Bæjarstjórn samþykkir þau makaskipti á lóðum sem tilgreind eru í minnisblaðinu. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að hefja nú þegar hönnun þeirra gatna sem enn eru óhannaðar við Langahraun, Dalahraun og Búðahraun ásamt tengivegum að umræddum götum. Þegar hönnun liggur fyrir mun verða tekin ákvörðun um stærð þess áfanga sem næst verður ráðist í en fyrir liggur vilji forsvarsmanna Tálkna ehf til uppbyggingar á lóðum félagsins við Langahraun. Bæjarstjórn lýsir yfir vilja til að framkvæmdir við gatnagerð í efri hluta Langahrauns eigi sér stað á árinu 2020 þó að endanlega ákvörðun bíða hönnunar.

Liður 14, "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa-Endurnýjun öryggismyndavéla við Hamarshöll" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tilboðið.

Liður 15, "Heiðmörk 35, íbúð 102, kauptilboð og gagntilboð" afgreiddur sérstaklega.
Erindið er til afgreiðslu síðar á fundinum.

Liður 17, "Minnisblað frá félagsráðgjafa- Niðurgreiðslur gjalda vegna barna hjá dagforeldrum" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tillögurnar.

Liður 18, "Minnisblað frá skrifstofustjóra - Húsaleiga í félagslegu húsnæði" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tillögurnar og felur félagsráðgjafa að kynna breytingarnar fyrir leigjendum félagslegs húsnæðis í bæjarfélaginu.

Varðandi lið 7, bréf frá Lionsklúbbnum í Hveragerði vill bæjarstjórn þakka þann góða hug sem felst í þessari gjöf um leið og klúbbnum er óskað innilega til hamingju með 50 ára afmælið.

Varðandi lið 8, "Þjónusta sveitarfélaga 2019 -Gallup" vill bæjarstjórn lýsa yfir ánægju með góða niðurstöðu þjónustukönnunarinnar sem styrkir bæjarstjórn og starfsmenn í áframhaldandi störfum og eykur vilja til að gera enn betur.
Það er áberandi að ánægja íbúa er vel yfir meðaltali annarra sveitarfélaga í nær því öllum málaflokkum. Sérstaklega ríkir mikil ánægja með menningarmál, skipulagsmál, gæði umhverfis, þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara en þar skipar Hveragerðisbær sér í efsta sætið. Frá síðustu könnun er áberandi að sjá hversu mjög ánægja íbúa hefur aukist almennt. Þar má nefna að ánægja með þjónustu leikskóla hefur aukist, sem og ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar og á sviði menningarmála. Grunnskólinn er síðan hástökkvari ársins sem er afar ánægjulegt. Enn og aftur er ánægja eldri borgara að aukast frá því síðast en í þeim málaflokki hefur Hveragerði ávallt verið á toppnum.
Bæjarstjórn vill þakka Matthíasi Þorvaldssyni, fulltrúa Gallup fyrir góða yfirferð yfir niðurstöður könnunarinnar en kynningin fór fram áður en bæjarstjórnarfundur hófst.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Fræðslunefndar frá 27. janúar 2020.

2002016

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir og Garðar R. Árnason.
Varðandi lið 3 óskar bæjarstjórn eftir því að formaður fræðslunefndar komi til fundar við bæjarráð í mars næstkomandi og kynni betur niðurstöðu könnunar sem bæjarráð óskaði eftir varðandi það með hvaða hætti leik- og grunnskólar vinna að málum barna með sértæka námsörðugleika.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 4. febrúar 2020.

2002018

Liðir 1,3,4,5,6 og 7 afgreiddir sérstaklega.

Eftirtaldir tóku til máls: Garðar R. Árnason og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 1, "Friðarstaðareitur, deiliskipulag, íbúafundur" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að áfram verði unnið að deiliskipulagsgerðinni í samræmi við tillögur 2 og 3 um verslunar- og þjónustulóðir norðan lóðarinnar Varmá 2 og tillögu að íbúðarbyggð á milli Álfahvamms og lóðarinnar Varmá 1.

Liður 3, "Ás/Grundarsvæði - deiliskipulag, umsagnir um deiliskipulagslýsingu, íbúafundur" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að áfram verði unnið að gerð deiliskipulags fyrir Ás- Grundarsvæðið á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulagslýsingar.


Liður 4, "Breiðamörk 25, óveruleg breyting á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir deiliskipulagsbreytinguna.

Liður 5, "Hverahlíð 14, umsókn um byggingarleyfi fyrir garðskála, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn hafnar erindinu á grundvelli athugasemda frá nágrönnum.


Liður 6, "Varmahlíð 12, umsókn um byggingarleyfi-niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir erindið en engar athugasemdir bárust við grenndarkynningu.

Liður 7, "Réttarheiði 17-19, sólstofa, umsókn um byggingarleyfi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að fram fari grenndarkynning á framkvæmdinni sbr. 1.mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar frá 5. febrúar 2020.

2002017

Liður 2 afgreiddur sérstaklega.

Enginn tekur til máls:
Liður 2, "Tillaga að gjaldskrám afgreiddur sérstaklega".
Bæjarstjórn samþykkir breytingar á gjaldskrám.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð Öldungaráðs frá 16. október 2019.

2002019

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn þakkar öldungaráði fyrir góðar ábendingar sem forstöðumaður stuðningsþjónustu mun vinna að í samráði við bæjarstjóra og aðra starfsmenn bæjarins.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.Skýrsla um mat á varðveislugildi gróðurhúsa ásamt bréfi frá Minjastofnun Íslands.

2002020

Lögð fram skýrsla Landforms ehf. Tilgangur verkefnisins var að skrá helstu gerðir gróðurhúsa sem finna má í bæjarfélaginu en ylræktar- og garðyrkjustöðvar eru mikilvægur hluti af sögu bæjarins
og hafa verið áberandi þáttur í því að móta svipmót byggðarinnar. Þróun undanfarinna ára hefur verið með þeim hætti að rekstur þessara stöðva er í mörgum tilvikum á undanhaldi og því samþykkti bæjarstjórn að láta gera skráningu og úttekt á gróðurhúsum í samvinnu við Minjastofnun í því skyni að kanna stöðu þeirra og gildi fyrir bæjarmyndina. Svanhildur Gunnlaugsdóttir mætti til fundar kl.17:40.

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Meirihluti D-listans lagði fram eftirfarandi bókun:

Í skýrslunni er að finna áhugavert yfirlit yfir núverandi garðyrkjustöðvar Hveragerðisbæjar með myndum, teikningum og lýsingu á gróðurhúsunum ásamt samantekt um sögu hverrar stöðvar.

Lagt er mat á menningarsögulegt gildi, umhverfisgildi og byggingarlag gróðurhúsanna. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að þrjár gróðurhúsaþyrpingar hafa mest varðveislugildi: 1) Við Fagrahvamm og Reykjamörk 22 sem vitnisburður um fágætt byggingarlag.
2) Við Heiðmörk 32-36 þar sem finna má vel varðveitt sýnishorn að nær öllum gerðum gróðurhúsa sem tengjast rekstri garðyrkjustöðvar Dvalarheimilisins Áss.
3)Þelamörk 29-35 þar sem sambyggð gróðurhús setja einkennandi og sérstakan svip á götumyndina.

Meirihluti D-listans þakkar greinargóða yfirferð Svanhildar Gunnlaugdóttur yfir helstu atriði skýrslunnar en hún ásamt Oddi Hermannssyni á heiðurinn af þeirri vinnu sem hér er lögð fram. Einnig vill meirihlutinn þakka Pétri Ármannssyni hjá Minjavernd fyrir góða aðstoð og ráðleggingar. Arnari Dór Ólafssyni er þakkað hans framlag til skýrslunnar en hann tók allar myndirnar.

Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Aldís Hafsteinsdóttir
Sigurður Einar Guðjónsson

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis leggja fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis þakka fyrir afar vandaða og góða samantekt um varðveislugildi gróðurhúsa í Hveragerði. Aðdragandi að vinnslu þessarar samantektar er nokkuð langur en haustið 2015 var í fyrsta skipti lögð fram tillaga um að slíkt varðveislumat yrði gert en hún var felld af meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Að lokum var varðveislumat samþykkt af öllum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn vorið 2018.

Gróðurhús eru mikilvægur þáttur í bæjarmynd Hveragerðis og hafa ávallt sett sterkan svip á yfirbragð byggðar og verið einkenni bæjarins frá upphafi hennar árið 1929. Með varðveislumati verður nú hægt með markvissari hætti, og umfram allt með faglegu mati, að skipuleggja byggð og ákveða hvaða gróðurhús skuli vernda. Auk þess að samantektin sé góður grunnur til að hafa þegar taka þarf ákvarðanir um frekari þróun byggðar í Hveragerði á lóðum þeirra garðyrkjustöðva sem enn standa þá er samantektin líka mikilvæg heimild um sögu gróðurhúsa og garðyrkju í bæjarfélaginu.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að niðurstöður skýrslu Landforms verði hafðar til hliðsjónar við skipulagsgerð í framtíðinni og komi til framkvæmda og/eða deiliskipulagsgerðar við þær stöðvar, sem metnar eru hafa mest varðveislugildi verði staða þeirra skoðuð nánar.

Tillagan samþykkt samhljóða.

8.Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hveragerði, síðari umræða.

2002022

Lögð er fram samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvergerði til síðari umræðu.

Eftirtaldir tóku til máls: Garðar R. Árnason og Aldís Hafsteinsdóttir.
Samþykktin samþykkt samhljóða.

9.Innkaupareglur og innkaupastefna Hveragerðisbæjar, síðari umræða.

2002021

Innkaupastefna og innkaupareglur Hveragerðisbæjar lagðar fram til síðari umræðu.

Engin tók til máls:
Stefnan og reglurnar samþykktar samhljóða.

10.Jafnréttisáætlun 2020-2023 - fyrri umræða.

2002025

Jafnréttisáætlun 2020-2023 lögð fram til fyrri umræðu.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Garðar R. Árnason, Njörður Sigurðsson, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Þórunn Pétursdóttir og Sigurður Einar Guðjónsson.
Samþykkt að vísa til síðari umræðu.

11.Heiðmörk 35 íbúð 102 - Kauptilboð.

2002027

Lagt fram kauptilboð frá Hveragerðisbæ í íbúðina Heiðmörk 35 íbúð 102.

Gert fundarhlé kl.18:32.
Fundur hófst aftur kl.18.36.
Bæjarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar og felur bæjarstjóra að fá nánari skýringar á atriðum sem rædd voru á fundinum.

12.Breiðumörk 21 - Kauptilboð.

2002031

Bryndís vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.
Lagt fram kauptilboð frá Hveragerðisbæ í Breiðumörk 21.

Eftirtaldir tóku til máls: Garðar R. Árnason, Aldís Hafsteinsdóttir og Þórunn Pétursdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir kauptilboðið.

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir mætti aftur til fundar kl.18:52.

13.Þjónustusamningur við Hestamannafélagið Ljúf 2020-2022.

2002023

Lagður fram þjónustusamingur við Hestamannafélagið Ljúf fyrir árin 2020-2022.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Þjónustusamningurinn samþykktur samhljóða.

14.Næringarstefna mötuneyta skóla Hveragerðisbæjar.

2002026

Lögð fram Næringarstefna mötuneyta skóla Hveragerðisbæjar.

Eftirtaldir tóku til máls: Þórunn Pétursdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Með næringarstefnu mötuneyta skóla Hveragerðisbæjar er mótaður rammi sem stuðlar að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan nemenda og starfsmanna leik- og grunnskóla en slíkt fellur vel að stefnumörkun um heilsueflandi bæjarfélag.

Börn verja stórum hluta dagsins í leik- og grunnskóla og því er mikilvægt að þau eigi þar kost á hollum og góðum mat. Í skólum Hveragerðisbæjar er lögð áhersla á að bjóða upp á heilsusamlegt fæði og fjölbreytt hráefnaval samkvæmt ráðleggingum Landlæknis. Í stefnunni er fjallað um fæðuofnæmi og óþol og einnig hvernig mötuneytin mæta öðrum óskum um sérfæði.

Bæjarstjórn þakkar fulltrúum í starfshópnum sem mótað hefur næringarstefnu mötuneyta skóla Hveragerðisbæjar kærlega fyrir góða vinnu. Næringarstefnan samþykkt samhljóða og verður nú sett upp og kynnt á heimasíðu og fyrir íbúum á samfélagsmiðlum.

Næringarstefnan samþykkt með 6 atkvæðum, Þórunn Pétursdóttir sat hjá með eftirfarandi bókun:
Þar sem gerð er tillaga í stefnunni um að börnum sé ráðlagt að drekka 2 glös af mjólk á dag til að tryggja kalkinntöku treysti ég mér ekki til að styðja samþykkt stefnunnar þar sem ég tel að mjólk sé ekki besti kalkgjafi sem völ er á. Að öðru leyti er ég samþykkt stefnunni.

15.Fyrirspurn Okkar Hveragerði um eftirfylgni við reglur Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka.

2002028

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn.

Í reglum Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga eiga stjórnmálasamtök sem hljóta styrki að birta annars vegar ársreikning á opinberum vettvangi og hins vegar upplýsingar um kostnað við framboð á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram. Þessi ákvæði reglnanna tóku gildi 1. janúar 2018 með breytingu á reglunum. Í greinargerð sem fylgdi með breytingartillögunni á sínum tíma kom fram að „[m]eð
birtingu upplýsinga á opinberum vettvangi er átt við að upplýsingar séu t.d. birtar í héraðsfréttablöðum eða á vef stjórnmálasamtaka“. Eftir því sem næst verður komist hafa aðeins tvö stjórnmálasamtök sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn Hveragerðis uppfyllt þessi skilyrði reglnanna, þ.e. Okkar Hveragerði og Frjáls með Framsókn en Sjálfstæðisfélag Hveragerðis hefur hvorki birt ársreikning á opinberum vettvangi né upplýsingar um kostnað við framboð árið 2018. Spurt er hvort og hvernig bæjarstjóri hyggst fylgja því eftir að stjórnmálasamtök skili þeim upplýsingum sem eru forsenda styrkveitinga frá sveitarfélaginu.
Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjóri óskar eftir að eftirfarandi verði bókað:
Bæjarstjóri harmar þann drátt sem orðið hefur á birtingu þessara upplýsinga en engu öðru er um að kenna en gleymsku. Upplýsingarnar munu verða birtar á opinberum vettvangi innan skamms. Til gamans má geta þess að ársreikningur Sjálfstæðisfélagsins fyrir árið 2019 var birtur á aðalfundi félagsins í gærkvöldi og enn skemmtilegra að geta þess að hagnaður var af rekstri félagsins þrátt fyrir þónokkuð viðhald á húseign enda er Sjálfstæðisfélagið rekið með þeim hætti að fjármunum er safnað öll 4 árin milli kosninga svo hægt sé að standa myndarlega að kosningabaráttu D-listans.

16.Tillaga Okkar Hveragerði um samfélagsgróðurhús.

2002029

Eftirtaldir tóku til máls: Þórunn Pétursdóttir, Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Garðar R. Árnason, Njörður Sigurðsson og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.

Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi tillögu.

Okkar Hveragerði leggur til að Hveragerðisbær breyti einu eða fleirum af gróðurhúsunum sem eru í eigu bæjarins í samfélagsgróðurhús og bjóði íbúum bæjarins upp á að leigja sér aðstöðu til grænmetisræktunar í því/þeim.

Greinargerð
Á tímum loftslagsbreytinga og aukinnar umhverfisvitundar vilja sífellt fleiri einstaklingar leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ein af leiðunum sem hægt er að fara til að draga úr losun er að rækta sín eigin matvæli, svo sem með fjölbreyttri úti- og inniræktun á grænmeti og kryddjurtum. Þessi misserin er Hveragerðisbær að vinna umhverfis- og loftslagsstefnu bæjarins og við í Okkar Hveragerði teljum að markmið um samfélagsgróðurhús ættu að verða hluti af þeirri vinnu. Við viljum að Hveragerði verði leiðandi á sviði sjálfbærra, grænna lausna sem hafa jákvæð áhrif á daglegt líf bæjarbúa og samfélagsgróðurhús fellur mjög vel að þeirri framtíðarsýn Okkar Hveragerðis.
Þórunn Pétursdóttir
Njörður Sigurðsson


Meirihluti bæjarstjórnar leggur til að tillagan verði felld með eftirfarandi rökum:

Hveragerðisbær á engin gróðurhús sem ekki eru í langtímaleigu og fullri notkun. Leigusamningur um gróðurhús bæjarins við Þelamörk rennur út þann 1. júlí 2022 en þó er hægt að segja honum upp frá og með 1. apríl 2020 með 6 mánaða fyrirvara. Því er ljóst að af umræddu verkefni getur ekki orðið í ár.

Meirihlutinn telur réttast að sé raunverulegur vilji meðal bæjarbúa á rekstri samfélagsgróðurhúss þá myndi þeir aðilar með sér samstarfsvettvang og móti verkefnið, þar á meðal ræktunarstefnu, verklag við viðhald hússins og umgengni, meðferð eiturefna og annað sem nauðsynlegt er að ákveða áður en ráðist er út í jafn viðamikið verkefni og samfélagsgróðurhús er. Það er ljóst að það er ekki einfalt verkefni þegar margir ætla að koma að ræktun í einu og saman húsinu og því er góður undirbúningur mikilvægur. Starfsmenn bæjarins munu ekki leiða það starf og því er starfshópur áhugasamra nauðsynlegur. Þegar niðurstaða hópsins liggur fyrir er rétt að starfhópurinn leiti eftir samstarfi við bæjarstjórn varðandi húsakost.

Rétt er að geta þess að nú þegar eru í farvatninu 4 gróðurhús á Edenreitnum sem bæjarfélagið fær til eignar og munu þau hús verða leigð út til áhugasamra íbúa í Edenbyggð sem hug hafa á ræktun. Mun bæjarstjórn auglýsa þau hús þegar þau verða risin á lóðinni.

Grunnskólinn í Hveragerði hefur um árabil verið í samstarfi við Landbúnaðarháskólann að Reykjum um ræktunarverkefni barna en þó hefur það verkefni ekki verið í gangi að undanförnu sökum þess hversu tímafrek slík verkefni eru. Þó er sjálfsagt að kanna möguleika á samstarfi skólanna tveggja reynist áhugi fyrir slíku meðal starfsmanna grunnskólans eða foreldra/forráðamanna.

Tillagan felld með 4 atkvæðum D-listans en fulltrúi Frjálsra með Framsókn situr hjá.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:51.

Getum við bætt efni síðunnar?