Fara í efni

Um götu- og torgsölu í Hveragerðisbæ

Ný samþykkt og gjaldskrá um götu‐ og torgsölu í Hveragerðisbæ var lögð fram og samþykkt á fundi bæjarráðs þann 15. október 2020. Tilgangur samþykktarinnar er að glæða bæjarfélagið lífi, efla bæjarbrag og að auka við fjölbreytni í starfsemi og þjónustu bæjarins.

Samþykktin á við um hvers kyns kynningar-, sölu- og þjónustustarfsemi í Hveragerðisbæ sem fer fram utanhúss og á almannafæri, s.s. á torgum, götum, gangstéttum og í almenningsgörðum. Samþykktinni er ætlað að tryggja að vel sé að þessum málaflokki staðið, sölustarfsemi sé í sátt við nærumhverfi sitt og að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæjar.

Götu- og torgsala er leyfisskyld í Hveragerðisbæ og eru leyfi gefin út í tilgreindan tíma. Þrír valkostir eru í boði, allir leyfisskyldir sjá nánar 3. gr.
Þeir eru:
a. Langtímaleigusvæði söluvagna
b. Markaðs- og sölusvæði – stærri viðburðir.
c. Markaðs- og sölusvæði – einstaklinga
Minniháttar góðgerðasölur, s.s. tombólur og styrktarsala sem eru ekki í ágóðaskyni, eru ekki leyfisskyldar og falla ekki undir samþykkt þessa. Önnur sala, sem hvorki krefst yfirbyggingar né sérstakrar aðstöðu að neinu leyti, t.d. dagblaðasala er heldur ekki leyfisskyld og fellur ekki undir samþykkt þessa.

Staðsetningar langtímaleigusvæða söluvagna eru 1 stæði við Hveraportið, 1 stæði á plani milli íþróttahúss og pósthússins og 1 stæði á bílaplani við Hamarshöll.
Markaðs- og sölusvæði einstaklinga geta verið við Hveraportið og við Hveragarðinn.

Byggingafulltrúi hefur umsjón með götu‐ og torgsölu og sér um leyfisveitingar langtímaleyfa og markaðssölu stærri viðburða, auk eftirlits og upplýsingagjafar.
Reglur þessar hafa þegar tekið gildi. Samkvæmt samþykkt Skipulags- og mannvirkjanefndar munu staðsetningar nú verða bornar undir nágranna og ef ekki eru gerðar athugasemdir við staðsetningar þá munu umrædd leyfi verða auglýst í samræmi við ákvæði samþykktarinnar.

Rétt er að geta þess að ákvæði um úthlutun og tímafresti auglýsingar gilda ekki við fyrstu úthlutun leyfanna árið 2020. En árið 2020 verða leyfin auglýst um leið og samþykkt þessi hefur verið samþykkt af bæjarráði að teknu tilliti til sjónarmiða nágranna.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Hér má kynna sér Samþykkt og gjaldskrá um götu‐ og torgsölu í Hveragerðisbæ.
Hér má kynna sér umræður á fundi bæjarráðs um málið.


Síðast breytt: 28. nóvember 2020
Getum við bætt efni síðunnar?