Fara í efni

Bæjarráð

749. fundur 15. október 2020 kl. 08:15 - 10:01 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 1. október 2020.

2010023

Í bréfinu er fjallað um Forvarnardaginn sem haldinn var í 15. sinn grunnskólum landsins og í 10. sinn í framhaldsskólum.
Lagt fram til kynningar.

2.Ráðningarbréf um endurskoðun - Deloitte ehf.

2010026

Lagður fram samningur milli Hveragerðisbæjar og Deloitte ehf um að Deloitte endurskoði ársreikning Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020.
Bæjarráð samþykkir að fela Deloitte ehf endurskoðun ársreiknings Hveragerðisbæjar árið 2020.

3.Samþykkt og gjaldskrá um götu- og torgsölu.

2010027

Lögð fram samþykkt og gjaldskrá um götu- og torgsölu.
Samþykktin borin upp og samþykkt samhljóða.

Fulltrúi Okkar Hveragerðis gerði grein fyrir atkvæði sínu með svohljóðandi bókun:
Að mati undirritaðs er um framfaramál að ræða að komið sé á skipulagi á götu- og torgsölu í Hveragerði og þar með opnað á slíkan rekstur. Frá því regludrögin bárust fyrst inn á borð bæjarráðs hafa þau tekið nokkrum breytingum og voru þau unnin áfram í ágætri samvinnu allra bæjarfulltrúa.
Undirritaður greiðir því atkvæði með samþykkt á reglum og gjaldskrá um götu- og torgsölu en vill engu að síður bóka eftirfarandi um tvö atriði sem ekki var samstaða um að breyta:

Í 5. mgr. 1. gr. er ákvæði um að lögð verði áhersla á að söluvarningur í götu- og torgsölu sé viðbót við það vöruúrval sem fyrir er hjá þjónustuaðilum í bæjarfélaginu og í 6. mgr. 2. gr. að úthlutun byggi m.a. á „[k]röfu um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu í bæjarfélaginu“. Það er skoðun undirritaðs að mikilvægt sé, að þegar opinber aðili tekur ákvarðanir um úthlutun á takmörkuðum gæðum, eins og leyfum til götu- og torgsölu, þurfi mat á umsóknum að byggjast sem mest á hlutlægu mati. Mat á hvort rekstur sem umsækjendur um götu- og torgsölu ætla að reka í söluvögnum sé viðbót við vöruúrval sem er fyrir í bænum og gerðar séu kröfur um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu í bæjarfélaginu getur ekki annað en verið huglægt. Því getur verið erfitt fyrir embættismenn bæjarins, sem munu sjá um að úthluta leyfunum, að meta slíkt. Hinn frjálsi markaður mun líklega stýra vöruframboði betur en stjórnendur eða stjórnmálamenn hjá Hveragerðisbæ. Því hefði verið æskilegt að ákvæðið félli burt úr samþykktinni en vilji meirihluta Sjálfstæðisflokksins lá ekki til þess.

Þá hefur ekki komið fram við vinnslu málsins á hvaða forsendum gjald upp á kr. 300.000 á ári fyrir langtímaleyfi byggir á. Rétt er að minna á að opinberir aðilar eiga ekki að hafa tekjur af þjónustu eða leyfisveitingum umfram þann kostnað sem sveitarfélagið ber af því að veita þjónustuna eða úthluta leyfum. Það er því erfitt að sjá hvers vegna leyfi fyrir torg- og götusölu er tvöfalt dýrara í Hveragerði en t.d. í nágrannasveitarfélaginu Reykjavík. Því hefði verið æskilegt að forsendur við þennan útreikning hefðu legið fyrir við vinnslu málsins.

Njörður Sigurðsson


Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans fagna þeirri samstöðu sem er um reglurnar en sjaldan eða aldrei hafa reglur á vegum bæjarfélagsins fengið ýtarlegri umfjöllun. Með þessum reglum getur flóra þjónustu orðið enn fjölbreyttari í bæjarfélaginu en nú er enda er núna kominn farvegur fyrir stærri viðburði og uppákomur auk leyfa til lengri og skemmri tíma til sölustarfsemi.

Þau fáu bæjarfélög sem hafa sett reglur sem þessar eru öll með ákvæði um að matarvagnar skulu bjóða vöru sem eykur fjölbreytni í þjónustuflóru veitingahúsa í viðkomandi bæjarfélagi. Engin ástæða er til að Hveragerðisbær skeri sig úr hvað það varðar enda er tilgangur með leyfisveitingu til matarvagna að ýtt sé undir fjölbreytileika í þjónustuframboði í bænum.

Varðandi gjaldið telur meirihlutinn það síst of hátt enda er ljóst að kostnaður fellur á bæjarfélagið vegna þessa sem auðvelt er að færa rök fyrir. Í reglunum er til dæmis gert ráð fyrir að tenging við rafmagn sé útveguð af bæjarfélaginu og eðlilegt er að sá kostnaður afskrifist á nokkrum árum. Einnig er umtalsverður kostnaður við umsýslu og umhirðu svo fátt eitt sé nefnt. Síðan er rétt að muna að með langtímaleyfi eru aðilar að fá afnotarétt af lóð á besta stað í Hveragerðisbæ og því er eðlilegt að fyrir það sé greitt.

Friðrik Sigurbjörnsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir


Þar sem bæjarráði var falin fullnaðarafgreiðsla málsins á fundi bæjarstjórnar skoðast samþykktin hér með samþykkt og umrædd pláss verða auglýst um leið og niðurstaða kynningar gagnvart ibúum liggur fyrir. Fyrsta úthlutun gildi frá og með úthlutunardegi og út árið 2021 í samræmi við ákvæði í samþykktunum. Greitt skal hlutfallslega vegna ársins 2020 miðað við opnun sölustaðar.

4.Minnisblað frá bæjarstjóra - bygging 22 rýma hjúkrunarheimilis við Hverahlíð.

2010029

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 13. október 2020 vegna byggingar 22 rýma hjúkrunarheimilis við Hverahlíð.
Bæjarráð fagnar því að nú hefur verið samþykkt að bjóða út bygginguna í alútboði og nú mun vinna hefjast við vinnslu þeirra útboðsgagna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2021 og ljúki 2023.

5.Skýrsla frá Environice um Kolefnisspor Suðurlands.

2010025

Lögð fram upplýsinga skýrsla sem unnin er af Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) fyrir SASS, fyrir eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands, þar sem tilgangur verkefnisins er meðal annars að reikna kolefnisspor landshlutans og hins vegar að benda á leiðir til kolefnisjöfnunar.
Lagt fram til kynningar.

6.Yfirlýsing um samstarf allra bæjarfulltrúa við gerð fjárhagsáætlunar 2021.

2010031

Fyrir hönd allra bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar er eftirfarandi yfirlýsing lögð fram:

Bæjarfulltrúar Hveragerðisbæjar hafa ákveðið að taka höndum saman og vinna í sameiningu að fjárhagsáætlunargerð bæjarins fyrir árið 2021 eins og þeir hafa gert undanfarin ár.
Allir bæjarfulltrúar hvar í flokki sem þeir standa eru sammála um að efnahagslegt umhverfi sveitarfélaga nú sé með þeim hætti að brýna nauðsyn beri til að bæjarfulltrúar komi samhentir að þeirri vinnu sem framundan er við gerð fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021 og að gerð þriggja ára áætlunar. 2022-2024.

Í vinnu við fjárhagsáætlun 2021 munu bæjarfulltrúar leggja áherslu á að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins og eru sammála um að niðurskurður á þjónustu er ekki leiðin út úr þeirri kreppu sem Ísland og heimurinn siglir inn í. Velferð íbúa og samfélagsins mun ávallt verða höfð að leiðarljósi í þeirri vinnu.


Við Hvergerðingar búum í samfélagi þar sem vel rekin fyrirtæki og stofnanir mynda burðarásinn í atvinnulífi bæjarbúa. Samfélagið er sterkt og sameiningarmáttur Hvergerðinga mikill. Saman munum við takast á við þau verkefni sem heimsfaraldur inflúensu hefur skapað.

Sveitarfélögin í landinu eru mikilvægir þátttakendur í hagkerfi landsins. Þau eru annar stærsti vinnuveitandi landsins og bera að stórum hluta uppi velferðarþjónustu hins opinbera. Náið samráð ríkis og sveitarfélaga er því nauðsynlegt eigi árangur að nást í þeim verkefnum sem framundan eru og til að rekstur sveitarfélaga verði tryggður til framtíðar.

7.Verkfundargerð frá 29. september - Grunnskólinn í Hveragerði, stækkun áfangi 2.

2010030

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

8.Verkfundargerð frá 13. október - Grunnskólinn í Hveragerði, stækkun áfangi 2.

2010028

Fundargerðin ásamt breyttri verkáætlun samþykkt samhljóða.

9.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 29. september 2020.

2010019

Lögð fram til kynningar.

10.Fundargerð SASS frá 2. október 2020.

2010018

Lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð Byggðasafn Árnesinga frá 5. október 2020.

2010021

Lögð fram til kynningar.

12.Tónlistarskóli Árnesinga frá 6. október 2020.

2010020

Lögð fram til kynningar.

13.Fundargerð Framkvæmdaráðs Almannavarna Árnessýslu frá 28. september 2020.

2010022

Lögð fram til kynningar.

14.Punktar frá fundi lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum frá 13. október 2020.

2010032

Lagt fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:01.

Getum við bætt efni síðunnar?