Fara í efni

Bæjarstjórn

574. fundur 08. febrúar 2024 kl. 17:00 - 19:38 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Njörður Sigurðsson forseti bæjarstjórnar
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Alda Pálsdóttir
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Hlynur Kárason varamaður
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Íris Bjargmundsdóttir Bæjarritari
Fundargerð ritaði: Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Njörður Sigurðsson, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundagerð bæjarráðs frá 18. janúar 2024

2401002F

Fundargerð lögð fram til staðfestingar.

Liðir afgreiddir sérstaklega: 8.Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Alda Pálsdóttir og Halldór B. Hreinsson.
Liður 8 "Þjónustusamningur milli Hveragerðisbæjar og Listasafns Árnesinga 2024-2026" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.

2.Fundargerð bæjarráðs 1. febrúar 2024

2401006F

Fundargerð lögð fram til staðfestingar.

Liðir afgreiddir sérstaklega: 3,5,7 og 8.

Liður 6 "Samningar um uppbyggingu leikskólans Óskaland" er sér liður á bæjarstjórnarfundi.Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Alda Pálsdóttir, Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Geir Sveinsson og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir.
Liður 3 "Reglur Bergrisans bs. um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir reglur Bergrisans bs. um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Liður 5 "Breyting á samþykkt um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir til síðari umræðu þær breytingar sem lagðar eru til í lið 1 og 2 í minnisblaði en að breytingar sem lagðar eru til í liði 3 verði frestað.

Liður 7 "Verkáætlun fráveitu 2024 - 2025" afgreiddur sérstaklega.

Meirihluti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun:
Hér eru lögð fram drög að verkáætlun fráveitu til kynningar.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir verkbeiðni 2 og 3 með eftirfarandi bókun:
Með ofangreindu erindi er brugðist við aðkallandi aðgerðum í uppbygginu fráveitumannvirkja í Hveragerði. Núverandi hreinsistöð annar ekki lengur eftirspurn vegna mikillar fólksfjölgunar í bænum og auknum ferðamannafjölda. Hreinsistöðin var tekin í notkun í júní 2002 í meirihlutatíð Framsóknar og Samfylkingar og var hún ein af tæknilegri fráveitumannvirkjum landsins. Það er rétt að halda því til haga að það er bæjarstjórn sem ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitu í bæjarfélaginu. Axlar því núverandi meirihluti þá ábyrgð með þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að.

Í verkbeiðni 2 er um að ræða ákvörðun á forsendum við úrbætur á núverandi skólphreinsistöð við Vorsabæ. Ráðgjafi og verkkaupi eru með sameiginlega sýn á helstu forsendur verkefnisins. Ber þar helst að nefna skólpmagn og efnainnhald sem hanna þarf fyrir. Meta þarf framtíðaraðstæður í Hveragerði en ekki er gert ráð fyrir að leggjast í frekari mælingar á rennsli né efnainnihaldi en nú þegar liggja fyrir.

Verkbeiðni 3 snýst um valkostagreiningu. Skoðað verður hvaða valkostir koma til greina við lausn fráveitumála fyrir hreinsistöð við Vorsabæ. Á þessu stigi verður einnig skoðað hvort hægt sé að ráðast í bráðabirgðalagfæringar þannig að hægt sé að bæta núverandi ástand í hreinsistöðinni í Vorsabæ.

Starfsfólki, sem hefur kappkostað við að koma fráveitumálum í réttan farveg, er þakkað fyrir óeigingjarna vinnu og gott samstal við hagaðila í uppbyggingu fráveitumannvirkja í Hveragerði.

Njörður Sigurðsson
Halldór Benjamín Hreinsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Hlynur Kárason

Kl. 17:28 var gert fundarhlé.
Kl. 17:30 hélt fundur áfram.

Bæjarstjórn samþykkir verkbeiðni 2 og 3 vegna fráveituráðgjafar.

Liður 8 "Ræstingar hjá Hveragerðisbæ" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu aftur til bæjarráðs til fullnaðar afgreiðslu.

Fulltrúar minnihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar D-listans ítreka mikilvægi þess að íþróttamál eigi heima hjá nefnd á vegum bæjarins. Íþróttir hafa alla tíð haft sögulegt gildi ásamt því að stuðla að heilbrigði, færni, hreysti, félagslegum samskiptum, skemmtun ásamt svo mörgu öðru. Íþróttir geta verið iðkaðar af ánægju, hvort sem er sem afþreyingu eða til keppni og árangurs í stigum og/eða verðlaunum. Íþróttir hafa einnig þann eiginleika að styrkja bæjarfélag og þá erum við ekki að tala um fjárhagslega og hefur enn stærri þátt í uppbyggingu hjá heilsueflandi bæjarfélagi. Í íþróttastarfinu í Hveragerði eru tugir sjálfboðaliða sem halda starfinu gangandi sér, sínum og okkur hinum til mikillar ánægju. Án þeirra væri ekkert starf, engar íþróttir og þessi umræða ekki fyrir hendi hér. Það er okkur á D-listanum mikið kappsmál að búa þannig um íþróttaiðkun í Hveragerði að allir aldurshópar í bæjarfélaginu hafi aðstöðu og aðgang að viðunandi inniaðstöðu til iðkunar. Nú þegar veturinn er hvað harðastur finna allir aldurshópar fyrir aðstöðuleysinu. Við fögunum því að nú eigi að færa málefni íþrótta aftur í heim í þá nefnd sem þær tilheyrðu fyrir breytingar. Nú sem aldrei fyrr en nauðsynlegt að koma íþróttamálum í Hveragerði aftur í viðunandi horf.

Varðandi leikskólamálin þá viljum við enn og aftur ítreka að við fögnum að sjálfsögðu uppbyggingu og fjölgun leikskólaplássa enda snýst þessi umræða af okkar hálfu ekki um það heldur eingöngu um þá fjármögnunarleið og þá aðferð sem höfð var við þá vinnu. Okkar leið hefði alltaf verið að hefja framkvæmdir við nýjan leikskóla í Kambalandi og mögulega hefði áfangaskipt leið þar verið ákjósanlegust.

Þá vísa fulltrúar D-listans þeim aðdróttunum á bug að hafa lekið trúnaðargögnum í undirbúningi slíkra verkefna á vegum bæjarins og getur það ekki talist vönduð stjórnsýsla að halda mikilvægum gögnum leyndum bæði hvað varðar uppbyggingu og íþyngjandi fjárhagslegar skuldbindingar bæjarfélagsins til margra áratuga. Alla vega er sú stjórnsýsla ekki gagnsæ eins og lofað var fyrir síðustu kosningar og alls ekki góð. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að við munum nú sem endranær styðja við einkaframtakið en sé einkaframtak verri kostur fyrir bæjarfélagið þá sýnum við þá skynsemi að hafna þeim möguleika. Eftir sem áður sýnum við skynsemi og ábyrgð í fjármálum sérstaklega þar sem um ræðir fjármuni bæjarbúa.

Alda Pálsdóttir
Eyþór H. Ólafsson

Kl. 17:36 var gert fundarhlé.
Kl. 18:05 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar árétta það sem fram kom í bókunum þeirra undir lið 6 á þeim fundi bæjarráðs sem hér er fjallað um varðandi veitingu upplýsinga og afhendingu gagna og trúnaðarbrest fulltrúa minnihlutans á fyrri stigum.

Fjallað hefur verið um málefni viðbyggingar leikskólans Óskalands allt frá því undirbúningur útboðs hófst á vegum bæjarstjórnar þar sem fulltrúar allra flokka hafa fengið greinargóðar og skýrar upplýsingar um þær framkvæmdir sem væru framundan og að ákveðið hefði verið að fara þá leið að fá einkaaðila til að byggja viðbygginguna á þeim forsendum að bæjarfélagið hygðist leigja bygginguna. Í þessu samhengi vilja bæjarfulltrúar meirihlutans jafnframt árétta þá staðreynd að á fyrri stigum hefur komið til þess að bæjarfulltrúar minnihlutans hafi lekið upplýsingum úr trúnaðargögnum í undirbúningi slíkra verkefna á vegum bæjarins og hefur það því miður leitt til þess að erfiðleikar hafa verið uppi varðandi framkvæmd samráðs um samninga af þessu tagi við fulltrúa minnihlutans.

Leki slíkra trúnaðarupplýsinga sem varða mikilvæga virka viðskiptahagsmuni bæjarfélagsins getur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir bæjarfélagið. Það er því ekki að ástæðulausu sem áréttuð eru sjónarmið um trúnað í siðareglum kjörinna fulltrúa Hveragerðisbæjar. Slíkur leki kom upp í tengslum við undirbúning útboðs vegna viðbyggingar leikskólans Óskalands þar sem drög útboðsgagna höfðu verið send bæjarfulltrúa minnihlutans samhliða því að tekið var ítrekað fram, bæði skriflega og munnlega, að um trúnaðargögn væri að ræða. Setti umræddur bæjarfulltrúi upplýsingar úr þeim trúnaðargögnum á samfélagsmiðla á sínum vegum og braut þannig gegn þeim trúnaði sem bar að ríkja um gögnin í ljósi mikilvægra viðskiptahagsmuna bæjarins. Þrátt fyrir það hefur meirihluti bæjarstjórnar leitast við opið samtal og samráð við fulltrúa minnihlutans vegna slíkra verkefna. Upplýsingar um framvindu verkefnisins hafa verið veitt bæði munnlega og skriflega til fulltrúa minnihlutans innan og utan funda bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hefur bæjarfulltrúum minnihlutans meðal annars verið boðið að koma á skrifstofur Hveragerðisbæjar til að kynna sér trúnaðargögn vegna málsins í þessu ljósi í samræmi við samþykktir um stjórn og fundarsköp bæjarins. Á fundi bæjarráðs þann 18. janúar sl. var síðan eftirfarandi bókað sérstaklega um málið, eins og fram kom í umræddum bókunum meirihutans undir lið 6 lið á þessum fundi bæjarráðs:

„Þess ber að geta að nú er samningagerð á lokametrum vegna stækkunar leikskólans Óskalands og munu þeir samningar vera lagðir fyrir bæjarráð þann 1. febrúar næstkomandi.“

Þessir samningar hafa nú verið lagðir fram til samþykkis, undirritaðir af hálfu bæjarstjóra með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar, sem er ásamt efni samninganna að öllu leyti í samræmi við það upplegg sem hefur verið rætt á fyrri stigum á vegum bæjarstjórnar og bæjarráðs.

Því er með vísan til framangreinds hafnað með öllu að meirihluti bæjarstjórnar og bæjaryfirvöld að öðru leyti hafi haldið mikilvægum gögnum leyndum hvað varðar uppbyggingu og íþyngjandi

fjárhagslegar skuldbindingar bæjarfélagsins til margra áratuga. Leitast hefur þvert á móti verið við að halda uppi gagnsæi í stjórnsýslu bæjarins samhliða því að standa vörð um mikilvæga hagsmuni bæjarfélagsins sem varða íbúa bæjarins mjög miklu.

Njörður Sigurðsson
Halldór Benjamín Hreinsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Hlynur Kárason

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.

3.Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 30. janúar 2024

2401007F

Fundargerð lögð fram til staðfestingar.

Liðir afgreiddir sérstaklega 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8 og 9Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson, Halldór B. Hreinsson og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir.
Liður 2 "Endurskoðun aðalskipulags Hveragerðisbæjar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að kynna skipulagslýsingu endurskoðaðs aðalskipulags Hveragerðisbæjar 2024-2036 fyrir almenningi og senda til umsagnar viðeigandi umsagnaraðila sem og til Skipulagsstofnunar.

Liður 3 "Bláskógar 9 - breytingar á bílskúr grenndarkynning" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir grenndarkynnt byggingaráform í samræmi við niðurstöðu í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 29. desember 2023.

Liður 4 "Gróðurmörk 3 - flutningur á gróðurhúsi, grenndarkynning" afgreiddur sérstaklega.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir grenndarkynnt byggingaráform í samræmi við niðurstöðu í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 26. janúar 2024. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Liður 5 "Þórsmörk 3 - breytt byggingaráform, grenndarkynning" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir grenndarkynnt byggingaráform í samræmi við niðurstöðu í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 26. janúar 2024.

Liður 6 "Fagrihvammur - nýbygging, grenndarkynning" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir grenndarkynnt byggingaráform í samræmi við niðurstöðu í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 26. janúar 2024.

Liður 7 "Heiðarbrún 43 bílskúr - grenndarkynning" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir grenndarkynnt byggingaráform.

Liður 8 "Umsagnarbeiðni vegna skipulags og matslýsingar - iðnaðarsvæði vegna rannsókna og orkuvinnslu Hverahlíð II og Meitlum" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn tekur undir bókun skipulags- og umhverfisnefndar. Einnig vísar bæjarstjórn til bókunar sinnar frá 11. janúar 2024 er varðar umsagnarbeiðni vegna skipulags og matslýsingar - iðnaðarsvæði vegna rannsókna og orkuvinnslu Hverahlíð II og Meitlum.

Liður 9 "Hesthúsasvæði og golfvöllur - deiliskipulagsgerð" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn heimilar skipulagsfulltrúa að leita tilboða deiliskipulagsráðgjafa til að vinna að deiliskipulagstillögu fyrir hesthúsasvæði og golfvöll bæjarins.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.

4.Fundargerð skólanefndar frá 23. janúar 2024

2401004F

Fundargerð lögð fram til staðfestingar.Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Alda Pálsdóttir og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir.
Fundargerðin er staðfest.

5.Fundargerð Menningar-, atvinnu- og markaðsnefndar frá 1. febrúar 2024

2401008F

Fundargerð lögð fram til staðfestingar.Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Alda Pálsdóttir, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Fundargerðin er staðfest.

6.Minnisblað um stækkun íþróttahúss að Skólamörk

2401013

Lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa um stækkun íþróttahúss að Skólamörk.Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að fara í deiliskipulagsbreytingu vegna stækkunar á íþróttahúsinu við Skólamörk.

7.Samningar um uppbyggingu leikskólans Óskaland

2401127

Lagðir fram samningar um uppbyggingu leikskólans Óskaland auk álitsgerðar HLH ráðgjafar.

Um er að ræða eftirfarandi samninga:

Kaupskyldusamningur varðandi fasteignina Réttarheiði 45, Hveragerði, dags. 29. janúar 2024.

Leigusamningur milli Eikar hf. og Hveragerðisbæjar, dags. 29. janúar 2024.

Yfirlýsing um samstarf vegna uppbyggingar Óskalands leikskóla, dags. 29. janúar 2024.

Viðauki 2 við yfirlýsingu um samstarf vegna uppbyggingar Óskalands leikskóla, dags. 29. janúar 2024.Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Alda Pálsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Halldór B. Hreinsson.
Meirihluti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun:
Allt frá því að núverandi meirihluti tók við hefur verið unnið að styttingu biðlista leikskólabarna og hvernig hægt yrði að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við nýjan 6 deilda leikskóla í Kambalandinu sem gert var ráð fyrir að yrði opnaður veturinn 2024-25. Sömuleiðis að finna lausn á þeim háa kostnaði sem kostnaðaráætlun þess leikskóla hljóðaði upp á eða um 1.300 milljónir kr. Samtímis fjölgun leikskóladeilda í Hveragerði þurfti að finna lausn á bágri aðstöðu starfsfólks Óskalands en fyrir lá tilboð í viðbyggingu við leikskólann uppá 250 milljónir kr. til þess að bæta aðstöðuna.

Samningar þeir sem hér eru lagðir fram marka tímamót í sögu Hveragerðisbæjar samhliða annarri uppbyggingu innviða í bæjarfélaginu á stærri skala en áður hefur komið til. Fyrir sveitarfélag eins og Hveragerði er það heilmikið verkefni að ráðast í framkvæmdir sem þessar svo ekki sé minnst á aðrar fjárfrekar framkvæmdir sem eru í vinnslu í sveitarfélaginu. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þessa verkefnis samhliða öðrum uppbyggingarverkefnum á vegum bæjarins og er starfsfólki þakkað fyrir vel unnin störf í þessu verkefni sem og öðrum. Meirihluti bæjarstjórnar hefur með starfsfólki bæjarins lagt kapp á að leita leiða og lausna til að standa vörð um þjónustu og rekstur bæjarfélagsins og sjá tækifæri í nýjum leiðum sem styðja við þau markmið.

Eftir yfirlegu á því hvernig leysa mætti á sama tíma aðstöðumál Óskalands og fjölgun leikskólaplássa var tekin sú ákvörðun að slá tvær flugur í einu höggi og ráðast í stækkun Óskalands sem fæli í sér fjölgun deilda og bætta aðstöðu starfsfólks því samhliða, en geyma uppbyggingu fyrirhugaðs leikskóla í Kambalandi til betri tíma. Var því hafin vinna við að hanna stækkun Óskalands á þessum forsendum. Ákveðið var að fara þá leið að notast við tilbúnar færanlegar einingar sem tekur skamman tíma að reisa og felur í sér mun lægri kostnað en áður var fyrirhugað. Um er að ræða fullbúna 4 deilda viðbyggingu, samtals 586 m2, sem tengd verður við leikskólann með 13 m2 tengibyggingu og mun stækkunin uppfylla allar kröfur sem gerðar eru í opinberu regluverki til leikskólabygginga. Áætlað er að nýja viðbyggingin verði tekin í notkun í lok september 2024.

Fulltrúar meirihlutans lýsa yfir ánægju sinni með þá niðurstöðu sem fæst í leikskólamálum í Hveragerði með þessum samningum. Það er mikið fagnaðarefni að með þessari hagkvæmu framkvæmd, bæði hvað varðar framkvæmdatíma og fjármuni, skapist 50 leikskólapláss sem áætlað er að svari uppsafnaðri þörf leikskólaplássa í bæjarfélaginu.

Njörður Sigurðsson
Halldór Benjamín Hreinsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Hlynur Kárason

Kl. 18:59 var gert fundarhlé.
Kl. 19:16 hélt fundur áfram.

Minnihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun:
Er kemur að umfjöllun um leikskólamál í Hveragerði þá viljum við enn og aftur ítreka að við fögnum að sjálfsögðu uppbyggingu og fjölgun leikskólaplássa enda snýst þessi umræða af okkar hálfu ekki um það heldur eingöngu um þá fjármögnunarleið og þá aðferð sem viðhöfð er við þá vinnu. Okkar leið hefði alltaf verið að hefja framkvæmdir við nýjan leikskóla í Kambalandi og mögulega hefði áfangaskipt leið þar verið ákjósanlegust.

Bæjarfulltrúar meirihlutans gera ekkert með þá staðreynd að hér er verið að gera samning um leigu upp á yfir fimm þúsund krónur á fm sem er margfalt það sem gerist og gengur í samfélaginu. Jafnframt er ljóst hvernig sem málið er skoðað að endanlegt kaupverð á viðbyggingunni er langt umfram það fermetra verð sem t.d. er á dýrustu einbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu.

Leigan plús kaupverðið eftir 7 ár verður á núvirði um 874 milljónir. Í greinargerð frá HLH ráðgjöf kemur fram að núvirði 874 milljóna á 15 ára láni frá Lánasjóði sveitarfélaga eru um 662 milljónir. Fyrir þann pening myndum við geta byggt viðbygginguna sjálf og átt hana strax miðað við frávikstilboð Hrafnshóla frá því í nóvember.

Við hvetjum meirihlutann til að endurskoða afstöðu sína í þessu máli og hafa hagsmuni bæjarbúa og bæjarsjóðs að leiðarljósi.

Alda Pálsdóttir
Eyþór H. Ólafsson

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir samningana.
Minnihlutinn kaus gegn samningunum.

8.Kosning í nefndir og ráð skv. 43. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar.

2402016

Valgerður Rut Jakobsdóttir hefur óskað eftir lausn frá setu sem varamaður í velferðar- og fræðslunefnd og sem varamaður í skólanefnd.Enginn tók til máls.
Tillaga kom um að Soffía Valdimarsdóttir verði varamaður í velferðar- og fræðslunefnd og varamaður í skólanefnd í stað Valgerðar Rutar Jakobsdóttur.

Tillagan samþykkt samhljóða.

9.Fundadagatal bæjarráðs og bæjarstjórnar 2023-2024

2309055

Vegna landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður fimmtudaginn 14. mars 2024 þarf að færa fyrirhugaðan bæjarstjórnarfund sem halda á sama dag, fram um einn dag eða til miðvikudagsins 13. mars kl. 17:00.Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að fyrirhugaður bæjarstjórnarfundur sem halda á 14. mars 2024 verði færður til miðvikudagsins 13. mars kl. 17:00.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:38.

Getum við bætt efni síðunnar?