Fara í efni

Bæjarstjórn

568. fundur 01. nóvember 2023 kl. 17:00 - 18:09 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Njörður Sigurðsson forseti bæjarstjórnar
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Sandra Sigurðardóttir
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Alda Pálsdóttir
  • Sigmar Karlsson
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Njörður Sigurðsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Fundur þessi er til þess að afgreiða þau mál sem voru á fundi bæjarstjórnar þann 16. október en sá fundur var ógildur þar sem fundarboð fór of seint út.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 20. september 2023

2309005F

Liðir afgreiddir sérstaklega 6.



Enginn tók til máls.
Liður 6 "Viðauki við fjárhagsáætlun - stuðningsúrræði Bungubrekka" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir viðaukann og að fjárhæð fari af lykli 21010-9980 Til síðari ráðstöfunar.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 5. október 2023

2310001F

Liðir afgreiddir sérstaklega 12, 13, 16 og 17.



Enginn tók til máls.
Liður 12 "Sjóðurinn góði - styrktarbeiðni" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að styrkja Sjóðinn góða um kr. 100.000,-.

Liður 13 "Tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir viðauka upp á kr. 79.100.000.- vegna kjarasamningsbundna hækkana á laun niður á deildir eins og fram kemur í beiðninni. Útgjöldunum verði mætt með auknum tekjum af útsvari.

Liður 16 "Umsókn um lóð" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir lóðaúthlutunina.

Liður 17 "Lóðaskipti við Hólmabrún" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir lóðaskiptin.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 26. september 2023

2309002F

Liðir afgreiddir sérstaklega 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 12 og 13.



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson og Alda Pálsdóttir.
Liður 1 "Erindisbréf skipulags- og umhverfisnefndar" er afgreiddur sérstaklega. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir breytt erindisbréf skipulags- og umhverfisnefndar sem lág fyrir fundinum. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Liður 2 "Árhólmar - deiliskipulagsbreyting" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins þar til búið er að gera endanlegt samkomulag við lóðarhafa.

Liður 3 "Dynskógar 22" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir grenndarkynnt byggingaráform með breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 24. ágúst 2023.

Liður 4 "Aðalskipulagsbreyting Öxl 6" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að hafna framlagðri skipulagslýsingu og tillögu að breyttu aðalskipulagi og vísa tillögum að skipulagsbreytingum inn í yfirstandandi vinnu við gerð aðalskipulags Hveragerðisbæjar.

Liður 5 "Deiliskipulagsbreyting á Öxl 6" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að hafna framlagðri tillögu að deiliskipulagi og vísa tillögum að skipulagsbreytingum inn í yfirstandandi vinnu við gerð aðalskipulags Hveragerðisbæjar.

Liður 6 "Athafnasvæði við Vorsabæ - deiliskipulagsbreyting vegna Vorsabæjar 8 og 10" er afgreiddur sérstaklega.

Fulltrúar minnihlutans lögðu fram eftirfarandi fyrirspurnir.

Er það venju samkvæmt að formaður nefndarinnar eða starfsmaður bæjarfélagsins sæki um stækkun lóðar án þess að fram komi að lóðarhafi hafi óskað þess, og þá væntanlega fyrir hönd lóðarhafa?
Telur meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar formann Skipulags- og umhverfisnefndar vera vanhæfan við afgreiðslu á stækkun lóðar Vorsabæ 8 og 10?
Benda má á að formaður Skipulags- og umhverfisnefndar er framkvæmdaaðili verksins m.a. byggingarstjóri og telja má líklegt að hann hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta á að erindið um stækkun lóðarinnar verði samþykkt. Ætla má að hann sé vanhæfur skv. 2.mgr. 20.gr. sveitarstjórnarlaga.
Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson

Kl. 17:11 var gert fundarhlé
Kl. 17:23 hélt fundur áfram.

Bæjarstjórn samþykkir að hafna erindinu.

Liður 7 "Laufskógar 41 - umsókn um gerð bílastæða" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að hafna gerð bílastæða á bæjarlandi en leggja í hendur umhverfisfulltrúa að fjarlægja stíg nær lóðamörkum.


Liður 8 "Bláskógar 9 - breytingar á bílskúr grenndarkynning" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr 123/2010. Grenndarkynning nær til Frumskóga 6 og 8 og Bláskóga 6,7 og 11.

Liður 9 "Þórsmörk 3 - fyrirspurn um breytt byggingaráform" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr 123/2010. Grenndarkynning nær til Þórsmerkur 1a, 4 og 5 og Fljótsmerkur 2,4 og 6-12.

Liður 10 "Heiðmörk 21 - umsókn um að fella hverfisverndað tré" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að heimila niðurfellingu trésins.

Liður 12 "Hólmabrún 10 og 12 - fyrirspurn um niðurfellingu á stíg" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að hafna beiðninni.

Liður 13 "Heiðmörk 53 - gisting í flokki II grenndarkynning" er afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að grenndarkynna umsókn um gistileyfi í flokki II í samræmi við skilmála aðalskipulags. Grenndarkynning nær til Heiðmerkur 51, 55, 60, 62 og 64 a-d.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Skipan í nefndir og ráð

2310045

Kosning fulltrúa O-lista í Menningar- atvinnu og markaðsnefnd og sjötta fulltrúa í SASS og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands ásamt varamönnum.



Enginn tók til máls.
Tillaga kom um nýja fulltrúa O-lista í Menningar-atvinnu og markaðsnefnd Sandra Sigurðardóttir verði formaður, Einar Alexander Haraldsson verði aðalmaður, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir verði varamaður og Sigurður Markússon verði varamaður.
Aðalfulltrúi á Ársfund SASS verði Eyþór H. Ólafsson og varafulltrúar verði Sigmar Karlsson og Ingibjörg Zoega Björnsdóttir. Aðalfulltrúi á aðalfund HES verði Alda Pálsdóttir og varafulltrúar verði Sigmar Karlsson og Ingibjörg Zoega Björnsdóttir.

Tillagan samþykkt samhljóða.

5.Tilkynning til bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun vegna óska um borgarfund varðandi íþróttaaðstöðu í Hveragerði

2310044

Í bréfinu frá Írisi Brá Svarvarsdóttur frá 9. október 2023 segir frá fyrirhugaðri undirskriftasöfnun vegna óska um borgarafund vegna íþróttaaðstöðu í Hveragerði.



Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að hefja undirbúning að undirskriftasöfnun í samræmi við 2. gr. reglugerðar um undirskriftasafnanir nr. 154/2013 og felur skrifstofustjóra allan nauðsynlegan undirbúning. Á kjörskrá eru 2498 og því þurfa 250 einstaklingar að skrifa undir til að undirskriftasöfnunin teljist gild skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

6.Tillaga frá bæjarfulltrúum D-listans varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja

2310043

Fulltrúar D-listans leggja til að fallið verði frá áformum meirihlutans um leigu á atvinnuhúsnæði fyrir neðan þjóðveg sem notast á sem íþróttamannvirki. Í stað þess leggja fulltrúar D-listans til að þegar í stað verði ráðist í hönnun og byggingu viðbyggingar við núverandi íþróttahús við Skólamörk. Viðbyggingin verði hönnuð í samvinnu við íþróttafélagið Hamar en almennt miðað við að hún nýtist sem flestum íþróttagreinum.



Greinargerð

Allt frá því að meirihluti bæjarráðs samþykkti tillögu síðasta sumar um leigu á atvinnuhúsnæði fyrir neðan þjóðveg til íþróttaiðkunnar hefur skapast mikil óánægja í samfélaginu með þá ákvörðun. Bent hefur verið á að mikil hætta geti skapast fyrir iðkendur þegar þeir ferðast til og frá íþróttamannvirkinu og auk þess er um að ræða athafnasvæði sem ekki er skipulagt fyrir íþróttamannvirki. Með tillögunni fylgdi engin kostnaðaráætlun en ætla má að leigukostnaður á fjórum árum verði um 70 milljónir króna auk kostnaðar við að gera húsið hæft til íþróttaiðkunnar. Varðandi rekstrarkostnað á húsinu má ætla að starfsmannakostnaður verði á bilinu 60-80 milljónir á fjórum árum auk annars rekstrarkostnaðar. Viðbyggingin sem hér er lögð til gæti verið um 700fm af stærð og eftir samtöl við fagaðili má ætla að byggingarkostnaður verði um 500 þúsund á fermetra eða samtals um 350 milljónir króna.



Alda Pálsdóttir

Sigmar Karlsson



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Sigmar Karlsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Geir Sveinsson, Halldór Benjamín Hreinsson og Sandra Sigurðardóttir.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu.

Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar fagnar framkominni tillögu minnihlutans, enda rímar hún að vissu leyti vel við það sem var samþykkt var á fundi bæjarráðs þann 10. ágúst síðastliðinn. Það er gott að sjá að nú er bæjarstjórnin öll sammála um að ráðast í framtíðarlausnir í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Það er einnig gott að geta skapað sátt í samfélaginu og lítum við á tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem tilraun til þess. Hér er rifjuð upp bókun í bæjarráði: ,,Á sama tíma verði haldið áfram áætlunum um uppbyggingu Hamarshallarinnar eins og fjárhagur sveitarfélagsins leyfir. Nýtt verði sú fjárfesting sem bærinn á í grunni Hamarshallarinnar og byggt ofan á hann. Einnig verði sú vinna, sem nú þegar hefur verið lagt í, með uppbyggingu Hamarshallarinnar í áföngum. Þá kemur til greina að kanna samstarf við fasteingafélög um uppbyggingu Hamarshallarinnar sé það hagkvæmt fyrir sveitarfélagið. Einnig verður skoðaður sá kostur að stækka íþróttahús við Skólamörk.“
Það er því þegar í gangi vinna við skoðun þess kosts að stækka íþróttahúsið við Skólamörk samhliða því að komið verði upp skammtímaaðstöðu í leiguhúsnæði og unnið nánar að uppbyggingarleiðum varðandi Hamarshöllina. Því miður hefur sú vinna ekki leitt í ljós þær lágu kostnaðartölur við viðbyggingu við íþróttahúsið við Skólamörk sem minnihlutinn leggur upp með í tillögu sinni.
Leggjum við til að halda öllu opnu sem komið er af stað við uppbyggingu íþróttamannvirkja til að tryggja bætta aðstöðu sem fyrst. Við viljum einnig kanna hug bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna á því að halda þessu samtali áfram og ræða sama um þessi mál í vikunni.

Leggur meirihluti bæjarstjórnar því fram svohljóðandi breytingartillögu: Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að kanna hvort möguleiki er á stækkun á íþróttahúsi við Skólamörk fyrir verðið 350 milljónir, eins og fulltrúar minnihluta leggja fram. Bæjarstjórn samþykkir einnig að halda samtalinu gangandi milli meiri- og minnihluta vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja.

Kl. 17:36 var gert fundarhlé.
Kl. 17:40 hélt fundur áfram.

Breytingartillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

7.Opnun tilboða í viðbyggingu Leikskólans Óskaland

2310108

Opnun tilboða í útboðsverkið Óskaland leikskóli viðbygging fór fram 22. september 2023.



Alls bárust 3 tilboð í verkið.



Terra einingar (frávikstilboð) 930.424.862.-

Búlandshöfði 1.420.787.920.-

Hrafnshóll ehf (frávikstilboð) 654.320.000.-



Kostnaðaráætlun 540.000.000.-



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Sigmar Karlsson og Sandra Sigurðardóttir.
Fulltrúar merihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Allt frá því að núverandi meirihluti tók við hefur verið unnið að styttingu biðlista leikskólabarna og hvernig hægt yrði að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við nýjan sex deilda leikskóla í Kambalandinu sem gert var ráð fyrir að yrði opnaður veturinn 2024-2025. Sömuleiðis að finna lausn á þeim háa kostnaði sem kostnaðaráætlun þess leikskóla hljóðaði uppá eða um 1,3 ma.kr. Á sama tíma þurfti að finna lausn á bágri aðstöðu starfsfólks Óskalands en fyrir lá tilboð í viðbyggingu upp á 250 m.kr. til að leysa það mál.

Vegna framkvæmda við leikskóla var nauðsynlegt að leita nýrra lausna. Í upphafi þessa árs var ákveðið að fresta byggingu leikskóla í Kambalandi og stækka Leikskólann Óskaland um fjórar deildir auk þess að bæta starfsmannaaðstöðu. Var því öll vinna sett í gang að hanna stækkun Óskalands. Í byrjun ágúst var boðin út jarðvinna við Óskaland og í september stækkun á skólanum þar sem um var að ræða fullbúna þriggja deilda viðbyggingu auk starfsmannaaðstöðu, samtals 586 m2, sem tengd verður við leikskólann með 13 m2 tengibyggingu og mun stækkunin uppfylla allar reglugerðir um leikskólabyggingar.

Öll framkomin tilboð í útboðinu fólu í sér slíkt frávik frá verklýsingu að Hveragerðisbæ er óheimilt að ganga að þeim, sbr. 1. mgr. 66. gr. og 1. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Til viðbótar voru öll framkomin tilboð of há að teknu tilliti til kostnaðaráætlunar, en lægsta tilboð var ríflega 21% yfir kostnaðaráætlun, og teljast tilboðin því óaðgengileg í skilningi 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Af þessum sökum er Hveragerðisbæ nauðugur sá kostur að hafna öllum tilboðum, og vísast til 2. mgr. 83. gr. laga nr. 120/2016 um heimild til þess. Því er lagt til að öllum tilboðum verði hafnað en á sama tíma verði gengið til samkeppnisviðræðna við tilboðsgjafa á grundvelli heimildar e-liðar 2. mgr. 33. gr. laga nr. 120/2016.

Þess má geta að allt frá opnun tilboða hefur starfsfólk bæjarskrifstofunnar ásamt ráðgjöfum farið yfir tilboðin og unnið að nánari útfærslu þeirra með það að markmiði að finna hentuga lausn og bendir allt til þess að sú vinna muni skila ásættanlegum árangri í samræmi við kostnaðaráætlun.

Njörður Sigurðsson
Sandra Sigurðardóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Halldór Benjamín Hreinsson.

Fulltrúar minnihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Ljóst er að niðurstaðan úr viðkomandi útboði er gríðarleg vonbrigði fyrir íbúa Hveragerðisbæjar. Algjör óvissa ríkir um hvenær má búast við fjölgun leikskólaplássa í bæjarfélaginu sem kemur til með að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.
Fulltrúar D-listans hafa ætíð verið þeirrar skoðunnar að fjármunum bæjarins væri betur borgið í uppbyggingu á nýjum leikskóla í Kambalandi. Fulltrúar meirihlutans hafa hins vegar viljað fara, að þeirra sögn, hagkvæma leið með viðbyggingu við Leikskólann Óskaland. Nú hefur komið í ljós að sú lausn er langt frá því að vera jafn hagkvæm eins og meirihlutinn lagði upp með.
Við höfum ítrekað bent á að innviðir á viðkomandi svæði þola illa svo stóra rekstrareiningu, ekki síst út frá öryggi, ásamt því að út frá faglegum sjónarmiðum er tíu deilda leikskóli ekki talinn góður kostur. Málið hefur enn ekki fengið neina umfjöllun í fræðslu- eða skólanefnd en nú gefst tækifæri til að endurskoða þessa ákvörðun, hugsa af ábyrgð til framtíðar og byggja nýjan leikskóla í Kambalandi. Þeirri framkvæmd má gjarnan áfangaskipta. Ljóst er að fyrirhuguð bráðabirgðalausn við Óskaland dugar einungis til skamms tíma til þess að mæta þörfinni varðandi fjölda leikskólaplássa í Hveragerði.
Bæjarfulltrúar D-listans gera athugasemdir við að tilboðsgögn fylgi ekki í fundargögnum í því máli sem hér er tekið fyrir. Samkvæmt 9. grein Samþykkta um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar kemur fram að fundarboði skuli fylgja nauðsynleg gögn til að bæjarfulltrúar geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind. Fram kemur í minnisblaði frá bæjarstjóra að tvö tilboðanna séu frávikstilboð frá útboði en ekki er hægt að gera sér grein fyrir því í hverju frávikin eru fólgin út frá þeim gögnum sem liggja fyrir fundinum.
Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson


Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að hafna öllum tilboðum og ganga til samkeppnisviðræðna við tilboðsgjafa á grundvelli heimildar e-liðar 2. mgr. 33. gr. laga nr. 120/2016. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:09.

Getum við bætt efni síðunnar?