Fara í efni

Bæjarstjórn

545. fundur 28. apríl 2022 kl. 17:00 - 19:25 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Alda Pálsdóttir varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Hlynur Kárason varamaður
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Friðrik Sigurbjörnsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar lagði bæjarstjórn fram eftirfarandi bókun.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með þeirri vegferð sem ráðherrar menntamála eru á varðandi nám og starfsemi Garðyrkjuskólans á Reykjum.
Ákvörðun um að flytja allt nám garðyrkjuskólans til Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið tekin en óvissa er um fjámögnun, aðstöðu og fleira slíkt sem gerir stjórnendum þar erfitt fyrir varðandi reksturinn og skipulag til framtíðar.
Kennurum og fulltrúa kennsluskrifstofu hefur verið sagt upp og mikil óvissa ríkir um framtíð garðyrkjunáms. Það er mikil hætta á því að nú fjari hratt undan kennslu í garðyrkjugreinum og að kennsla á Reykjum heyri brátt sögunni til verði ekki þegar í stað gripið í taumana.
Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 8. apríl 2021 var bókað að bæjarráð treysti þeim orðum þáverandi menntamálaráðherra sem sögð höfðu verið á fundum og í viðtölum við bæjarfulltrúa um að fljótlega myndi nást farsæl niðurstaða í málefnum garðyrkjuskólans. Því miður hefur fátt gengið eftir af því sem þar var sagt og staða garðyrkjunáms og starfsemi á Reykjum hefur sjaldan ef nokkurn tíma verið í jafn mikilli óvissu og núna.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar til að benda á þá stöðu sem upp var komin í skólanum er ljóst að lítill vilji hefur verið hjá þeim ráðamönnum sem sinna málefnum skólans að bregðast við.
Vonir okkar um flottan og öflugan garðyrkjuskóla sem m.a. gæti stuðlað að sjálfbærni og auknu matvælaöryggi dvína nú með hverjum deginum.
Baráttunni er ekki lokið! Við munum halda áfram að berjast fyrir öflugum skóla að Reykjum!

1.Fundargerð bæjarráðs frá 22. apríl 2022.

2204005F

Liður afgreiddur sérstaklega 2.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 2 "Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 11. apríl 2022" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2021, seinni umræða.

2204451

Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021.
Á fundinn mættu Kristján Þór Ragnarsson og Ingunn Einarsdóttir frá Deloitte endurskoðun og lögðu fram endurskoðunarskýrslu sína. Kristján Þór Ragnarsson kynnti ársreikninginn og endurskoðunarskýrsluna.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Meirihluti D-listans lagði fram eftirfarandi bókun:
Undanfarin ár hafa verið sveitarfélögum á Íslandi afar erfið. Heimsfaraldur gerði mörgum erfitt fyrir rekstrarlega og nú þegar að faraldurinn er að baki þá brýst út stríð sem gerir vonir um skarpan viðsnúning til hins betra minni en ella hefði orðið. Opinberlega hefur verið mikið fjallað um rekstur sveitarfélaga, almennt, sem á mörgum stöðum stefnir í að verða ósjálfbær og afar þungur.

Þjónusta sveitarfélaga er í eðli sínu mannaflsfrek og með hækkuðum launum, kostnaði vegna styttingar vinnuvikunnar og fjölgun starfsmanna er staðan nú sú að 57,43% af tekjum Hveragerðisbæjar fara í laun og launatengd gjöld. Hefur þetta hlutfall hækkað um 8,5% frá 2017 en á sama tímabili hafa skatttekjur bæjarfélagsins aukist um 1,6%. Ætti flestum að vera ljóst að slík þróun getur ekki og má ekki vera viðvarandi. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að íbúum í Hveragerði hefur fjölgað langt umfram landsmeðaltal á undanförnum árum. Þann 1. desember 2019 voru íbúar 2.699. Í lok apríl 2022 eru íbúar 3.048. Íbúum hefur því fjölgað um 329 á þessu tímabili eða um 12,2% sem er fáheyrt í sögu bæjarins og hlýtur að kalla á meiri þjónustuþörf eins og sést í aukunum launakostnaði.

Kostnaður vegna málefna fatlaðs fólks hefur reynst sveitarfélögunum mun þyngri en gert var ráð fyrir. Í gangi er greiningarvinna vegna fjárhagslegra áhrifa málaflokksins á sveitarfélögin í heild sinni og er ástæða til að binda vonir við að sú vinna hafi í för með sér viðurkenningu ríkisins á aukinni þörf sveitarfélaga fyrir auknar tekjur vegna þessara brýnu mála.

Hér í Hveragerði er niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2021 neikvæð sem nemur 356,5 m.k. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1,3 m.kr í rekstrarafgang frá samtæðu. Er þetta í annað sinn frá árinu 2012 sem niðurstaða bæjarsjóðs og tengdra stofnana er neikvæð.

Hækkun vísitölu var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en slíkar hækkanir á vísitölu hafa gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu allra sem skulda. Þrátt fyrir áhrif hækkunar vísitölu þá hefur sú ákvörðun tryggingastærðfræðinga og fjármálaráðuneytis að nú skuli með einskiptisfærslu færð til bókar breyttar forsendur við útreikning lífeyrisskuldbindinga enn meiri og neikvæðari áhrif. Hér í Hveragerði nemur sú breyting 131 m.kr.. Þó ber að geta þess að hér er um einskiptis aðgerð að ræða sem ekki mun falla til með jafn afdrifaríkum hætti á næstu árum.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 134 m.kr. eða 3,8% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 239,2 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 243,4 m.kr. sem sýnir að reiknaðar stærðir eru að mestu ástæða þeirra frávika sem ársreikningurinn sýnir.

Fjárfestingar á árinu 2021 námu 675 m.kr. sem er umfram það sem gert var ráð fyrir. Viðbótin felst í auknum kostnaði við endurbætur á sundlaugarhúsinu Laugaskarði, kostnaði við uppsetningu lausra kennslustofa við Óskaland og kostnaði við gatnagerð.

Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 278,8 m kr. Tekin ný langtímalán voru 654m.kr..

Í árslok er hlutfall skulda af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar 117,37% sem er vel undir skuldaþakinu svokallaða sem gerir þær kröfur til sveitarfélaga að skuldir þeirra skuli ekki fara yfir 150%. Rétt er þó að geta þess að fjármálareglur sveitarfélaga hafa verið afnumdir vegna heimsfaraldurs covid-19 til ársins 2025.

Það er ánægjulegt að sjá þann mikla kraft sem nú ríkir í Hveragerði hvort sem horft er til uppbyggingar íbúðahúsnæðis eða til uppbyggingar atvinnulífs. Hveragerði nýtur mikilla vinsælda. Hér eru íbúar ánægðastir allra með þjónustu síns sveitarfélags skv. könnun Gallup og ljóst er framtíð bæjarins er björt. Með þrotlausri vinnu og bjartsýni að leiðarljósi njóta nú bæjarbúar ávaxta þess sem vel hefur verið gert.

Fjöldi verkefna er í farvatninu og mikilvægt að um þau sé haldið af festu og reynslu. Hér hefur okkur í sameiningu, íbúum og bæjarstjórn, lánast að byggja upp eitt farsælasta og vinsælasta sveitarfélag landsins. Sveitarfélag sem byggir á umhyggju fyrir íbúum og ábyrgð á fjármunum. Við vonumst til þess að bæjarbúar sjái að hér hefur verið vel haldið utan um reksturinn og að þeir vilji að við vinnum áfram saman.

Meirihluti D-listans vill nýta þetta tækifæri og færa stjórnendum og starfsmönnum öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins og einstakt vinnuframlag við erfiðar og krefjandi aðstæður. Þetta kjörtímabil er nú á enda. Það hefur verið fullt af óvanalegum áskorunum. Áskorunum sem við gátum ekki séð fyrir en höfum nú komist í gegn um nokkuð farsællega.

Meirihluti D-listans þakkar einnig endurskoðendum og skrifstofustjóra fyrir góða vinnu við gerð ársreiknings.
Fjárhagsáætlanir liðinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka.
Eyþór H. Ólafsson
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Alda Pálsdóttir

Fulltrúar O-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Rekstrarreikningur Hveragerðisbæjar er neikvæður upp á tæpar 357 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir því að reksturinn yrði á pari. Þess má líka geta að tekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 242 m.kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Hefðu rekstrartekjurnar ekki hækkað svo mikið hefðu frávikin frá fjárhagsáætlun orðið miklu hærri. Skuldahlutfall Hveragerðisbæjar (A og B hluta) er 148% en 117% skv. reglum þegar búið er að draga lífeyrisskuldbindingar frá. Það ber líka að hafa í huga að ef Hveragerðisbær væri að sinna lögbundinni þjónustu eins og vera ber væri skuldahlutfallið mögulega hærra. Sem dæmi má nefna að sveitarfélagið hefur ekki staðið sig í að útvega félagslegt leiguhúsnæði eins og það á að gera, þrátt fyrir mikla þörf. Þá gæti viðhald ýmissa eigna sveitarfélagsins verið í betra horfi. Einnig má benda á að uppbygging innviða hefur því miður ekki haldist í takt við fjölgun íbúa. Því má segja að sveitarfélagið hafi tekið lán í innviðum bæjarins með því að sinna t.d. ekki uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis, viðhald eigna mætti vera betra og ekki hefur gengið nógu vel að byggja upp innviði vegna fjölgunar íbúa, svo notuð séu þessi þrjú dæmi. Ef hægt væri að setja prósentuútreikninga á þá lántöku væri ljóst að skuldahlutafallið væri hærra.

Ljóst er að rekstur sveitarfélagsins er í járnum, sérstaklega þegar horft er til þess að mikil innviðauppbygging vegna fólksfjölgunar er framundan. Til þess að sveitarfélagið geti haldið úti þokkalegri grunnþjónustu eru verulegar fjárfestingar framundan í sveitarfélaginu sem mun auka skuldsetningu en einnig tekjur til lengri tíma. Það er því ljóst að þegar nýr meirihluti tekur við eftir kosningar þann 14. maí nk. að mikilvægasta verkefnið er að koma uppbyggingu innviða í eðlilegt horf og að Hveragerðisbær hætti því að vera að bregðast við aðstæðum sem eru fyrirsjáanlegar, heldur að unnið sé að fyrirbyggjandi uppbyggingu innviða í bænum, s.s. skóla, gatnakerfis, úthlutun lóða o.s.frv.

Undirritaðir þakka endurskoðendum fyrir góða vinnu við ársreikning og starfsfólki Hveragerðisbæjar fyrir góð störf fyrir sveitarfélagið.

Njörður Sigurðsson
Hlynur Kárason

Bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn leggur fram eftirfarandi bókun

Að enn einu krefjandi árinu loknu ber sérstaklega að þakka árvekni forstöðumanna bæjarins og öllu starfsfólki bæjarins.
Undanfarin ár hefur afkoma bæjarsjóðs verið mjög háð framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, sem endurspeglar hversu tekjulágt bæjarfélagið hefur verið.

Síðustu ár hafa einkennst m.a. af miklum og nauðsynlegum fjárfestingum í innviðum bæjarfélagsins, sem hefur leitt til aukinnar lántöku en milli ára jukust langtímaskuldir bæjarins. Í stækkandi sveitarfélagi eru margar áskoranir og þarft að hafa í huga að uppbygging innviða haldist í hendur við fjölgun bæjarbúa.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Frjáls með Framsókn

Kl. 18:27 var gert fundarhlé.
Kl. 18:41 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Meirihluta D-listans þykir sérkennilegt að sjá gagnrýni á uppbyggingu innviða frá félögum okkar í O-listanum þar sem þeir hafa komið að öllum ákvörðunum við gerð fjárhagsáætlunar undanfarin ár. Þar með vita þeir jafnvel og við að viðbygging við grunnskólann var vígð síðasta haust og nýjar kennslustofur teknar í notkun við Leikskólann Óskaland um áramótin síðustu. Hönnun nýs leikskóla er hafin sem og hönnun viðbygginga við grunnskólann svo fátt eitt sé talið, allt í takti við þarfir sístækkandi samfélags. Við erum einmitt að hugsa til framtíðar og höfum gert það í góðu samstarfi við minnihlutann allt kjörtímabilið.
Eyþór H.Ólafsson
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Alda Pálsdóttir


Ársreikningurinn samþykktur og undirritaður.

3.Opnun tilboða - Leikskólinn Óskaland - viðbygging.

2204457

Opnun tilboða í verkið - Leikskólinn Óskaland - viðbygging fór fram 13. apríl 2022. Eitt tilboð barst í verkið.

Fortis ehf 251.319.382.kr

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Eftirfarandi tillaga lögð fram og samþykkt samhljóða:
Þar sem einungis eitt tilboð barst í verkið sem var 66% yfir kostnaðaráætlun þá samþykkir bæjarstjórn að hafna tilboðinu. Guðmundi F. Baldurssyni er falið að láta bjóðanda vita og gera jafnframt tillögu til bæjarráðs eins fljótt og kostur er um þá valkosti sem nú eru í stöðunni.

4.Heiðmörk 66 -Niðurstaða uppboðs.

2204458

Í bréfinu frá Pacta lögmönnum kemur fram niðurstaða uppboðs á Heiðmörk 66.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða:
Bæjarstjórn samþykkir að standa við boð sitt og fagnar því ef að málið getur klárast með þessum hætti.

5.Fyrirspurn frá Okkar Hveragerði - upplýsingar um skýrslu Verkís um uppbyggingu Hamarshallarinnar.

2204454

Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn. Undirritaðir óska eftir upplýsingum um kostnað Hveragerðisbæjar við skýrslu Verkís um uppbyggingu Hamarshallarinnar sem var skilað fyrir bæjarstjórnarfund 13. apríl sl. Einnig óska undirritaðir upplýsinga um hvers vegna skýrslan var ekki unnin eftir fyrirmælum bæjarstjórnar, þ.e. að kannaðir yrðu fimm kostir um uppbyggingu Hamarshallarinnar en í skýrslunni voru aðeins tveir kostir kannaðir. Einnig er óskað upplýsinga hvers vegna ófullgerð skýrsla var lögð fram til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Njörður Sigurðsson
Hlynur Kárason.

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi svar við fyrirspurn fulltrúa Okkar Hveragerðis:

Reikningar hafa borist frá Verkís vegna vinnu við valkostagreiningu vegna Hamarshallarinnar að upphæð kr. 1.014.646,- án.vsk. En virðisaukaskattur fæst endurgreiddur af vinnu sem þessari.
Skv. upplýsingum frá Verkís gætu átt eftir að berast reikningar sem nema kr. 585.000,- einnig án vsk með sömu rökum og hér að framan.
Skýrslan var ekki ófullgerð þegar hún var lögð fyrir bæjarstjórn. Ákveðið var að kanna ekki valkosti sem fólu í sér óupphituð og óeinangruð hús enda væru slík hús í hróplegri andstöðu við vilja íþróttahreyfingarinnar og myndu með engu móti nýtast eins og krafa er gerð um af notendum. Í skýrslunni kemur síðan fram að límtréshús væri dýrara en stálgrind og þar með var sá kostur ekki kannaður nánar.

6.Tilkynning til bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar um fyrirhugaða undirskriftasöfnun vegna óska um borgarafund er varðar uppbyggingu Hamarshallarinnar.

2204455

Í bréfinu frá Jónu Sigríði Gunnarsdóttur frá 20. apríl segir frá fyrirhugaðri undirskriftasöfnun vegna óska um borgarafund vegna uppbyggingar Hamarshallarinnar.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að hefja undirbúning að undirskriftasöfnun í samræmi við 2. gr. reglugerðar um undirskriftasafnanir nr. 154/2013 og felur skrifstofustjóra allan nauðsynlegan undirbúning. Á kjörskrá eru 2.284 og því þurfa 229 einstaklingar að skrifa undir til að undirskriftasöfnunin teljist gild skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Fundargerð upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:25.

Getum við bætt efni síðunnar?