Fara í efni

Bæjarstjórn

537. fundur 14. október 2021 kl. 17:00 - 21:15 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Friðrik Sigurbjörnsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 16. september 2021.

2109005F

Liðir afgreiddir sérstaklega 3, 4, 5 og 7.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Liður 3 "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa - uppsetning á aðgangskerfi fyrir Sundlaugina Laugaskarði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 4 "Samningur við nemendur 7.bekkjar um umhverfishreinsun 2021-2022" afgreiddur sérstaklega. Samningurinn samþykktur samhljóða.

Liður 5 "Samningur við nemendur 10.bekkjar um aðstoð við skólastarf 2021-2022" afgreiddur sérstaklega. Samningurinn samþykktur samhljóða.

Liður 7 "Lóðaumsókn Vorsbæ 11 - 13 - 15 - 17" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir lóðaúthlutunina.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 6. október 2021.

2109007F

Liðir afgreiddir sérstaklega 5,8 og 9.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigursson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Bryndís Ýr Jóhannsdóttir og Sigrún Árnadóttir.
Liður 5 " Bréf frá sýslumanninun á Suðurlandi - umsókn um tækifærisleyfi afgreiddur sérstaklega. Aldís Hafsteinsdóttir vék af fundinum meðan á afgreiðslu stóð. Bæjarstjórn samþykkir að veita umrætt leyfi.

Klukkan 17:19 var gert fundarhlé.
Klukkan 17:30 hélt fundur áfram.

Liður 8 "Lóðaumsókn - Friðarstaðir 3" afgreiddur sérstaklega. Aldís Hafsteinsdóttir vék af fundinum meðan á afgreiðslu stóð.
Þar sem nú þegar liggja fyrir umsagnir frá skipulagshöfundum og skipulagsfulltrúa og umsækjendur hafa kynnt hugmyndir sínar fyrir bæjarráði samþykkir bæjarstjórn að úthluta Elvari Þrastarsyni lóðina Friðarstaðir 3 (lóð númer 19 á skipulagi). Bæjarstjórn samþykkir að í ljósi umfangs verkefnisins sem hér um ræðir verði frestur til að hefja framkvæmdir til 31. október 2022.

Liður 9 "Lóðaumsókn Friðastaðir 5 og 7" afgreiddur sérstaklega.
Þar sem nú þegar liggja fyrir umsagnir frá skipulagshöfundum og skipulagsfulltrúa og umsækjendur hafa kynnt hugmyndir sínar fyrir bæjarráði samþykkir bæjarstjórn að úthluta Varmá ehf lóðunum Friðarstöðum 5 og 7 (lóðir númer 21 og 22 á skipulagi) enda falli endanleg áform lóðarhafa að gildu deiliskipulagi. Bæjarstjórn samþykkir að í ljósi umfangs verkefnisins sem hér um ræðir verði frestur til að hefja framkvæmdir til 31. október 2022.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar frá 5. október 2021.

2110080

Liðir afgreiddir sérstaklega 1, 2, 3, 5, 6, 8 og 9.

Eftirtaldir tóku til máls:Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigursson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 1 "Athafnasvæði AT3, breyting á aðalskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Friðrik Sigurbjörnsson vék af fundi meðan á afgreiðlu liðarins stóð og Eyþór H. Ólafsson tók við fundarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir að Landform ehf. verði falið að gera tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðis 2017-2029, sem feli í sér að ríkjandi landnotkun á AT3 reitnum verði skilgreind sem íbúðarsvæði ÍB15, með heimild fyrir verslun- og þjónustu og athafnastarfsemi að hluta til þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu og ylrækt.

Liður 2 "ZIP LINE“ braut á Árhólmasvæði, umsagnir um skipulagslýsingu, tillaga að breytingu á aðalskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að tillagan að breytingu á aðalskipulagi ásamt forsendum hennar og umhverfismati, verði kynnt íbúum bæjarins, Sveitarfélaginu Ölfusi og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 3 "Þelamörk 60, viðbygging, breyting á deiliskipulagi fyrir Edenreit" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir breytinguna en gerð er sú krafa að framkvæmdaraðili haldi öllu raski í lágmarki innan aðliggjandi lóðar og gangi frá henni tafarlaust í ekki lakara ástandi en hún er nú í.

Liður 5 "Íþróttasvæði norðan Hamars, breyting á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir breytinguna og að málsmeðferð verði í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 6 "Brattahlíð 4, umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir byggingarleyfi fyrir bílskúr en gerð er sú krafa að framkvæmdaraðili gæti vel að því að grafa ekki undan og veikja þannig undirstöður gróðurhúss á aðliggjandi lóð, haldi öllu raski í lágmarki innan aðliggjandi lóðar og gangi frá henni tafarlaust í ekki lakara ástandi en hún er nú í.

Liður 8 "Lyngheiði 13, nýtt bílastæði á lóð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir erindið.

Liður 9 "Lyngheiði 12, nýtt bílastæði á lóð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir erindið og að lóðarhafi greiði allan kostnað utan lóðamarka vegna breytingana.

Fundargerðin að öru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð skólaþjónustu - og velferðarnefndar Árnesþings frá 28. september 2021.

2110088

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir hækkun á tekju- og eignaviðmiðum sérstaks húsnæðisstuðnings til samræmis við viðmiðunarfjárhæðir í leiðbeiningum félags- og barnamálaráðherra til sveitarfélaga. Bæjarstjórn samþykkir einnig að fjárhæðir verði endurskoðaðar að nýju í upphafi árs þegar ráðuneytið uppfærir viðmiðunarfjárhæðir.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð fræðslunefndar frá 5. október 2021.

2110092

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Undir lið 5 leggur meirihluti bæjarstjórnar fram eftirfarandi tillögu:

Undirrituð leggja til að ASK arkitektum verði þegar í stað falið að hefja hönnun viðbyggingar við Leikskólann Óskaland þar sem tekið verði tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á rekstrarumhverfi leikskóla og þeirrar fjölgunar barna sem framundan er. Viðbyggingunni verði sérstaklega ætlað að bæta starfsumhverfi starfsmanna og sérfræðinga sem við skólann starfa. Um leið mun öll umgjörð leikskólastarfsins batna til muna. Einnig verði hönnuð stækkun á núverandi bílastæði í samræmi við deiliskipulag til að mögulegt sé að taka á móti þeirri umferð sem um svæðið er.

Einnig leggja fulltrúar meirihlutans til að ASK arkitektum verði falin hönnun á nýjum sex deilda leikskóla í Kambalandi með það fyrir augum að framkvæmdir við hann geti hafist eins fljótt og kostur er. Við hönnunina verði horft til Leikskólans Undralands en jafnframt horft til breytinga sem gert geta nýjan leikskóla enn betri. Við hönnunina verði gert ráð fyrir mögulegri áfangaskiptingu framkvæmda en einnig tekið tillit til þess að nauðsynlegt getur verið að setja upp lausar kennslustofur á lóð hins nýja leikskóla á einhverjum tímapunkti.

Tillaga er gerð um að Guðmundur F. Baldursson hafi umsjón með undirbúningi framkvæmdanna en hann sá um slíkt hið sama við nýjan leikskóla Undralands. Bygginganefnd verði skipuð sömu aðilum og komu að undirbúningi að byggingu Leikskólans Undralands.

Greinargerð:
Mikill áhugi er fyrir búsetu í Hveragerði og fá færri bæði íbúðir og lóðir en vilja. Engar vísbendingar eru um annað en að þessi þróun haldi áfram og að áframhaldandi fjölgun íbúa verði staðreynd um leið og uppbygging nýrra íbúðahverfa og atvinnuuppbygging verður að veruleika.
Í þriggja ára fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir uppbyggingu leik- og grunnskólamannvirkja. Þegar hefur verið tekin ákvörðun af bæjarstjórn um að hefja nú þegar hönnun næstu viðbygginga við grunnskólann í samræmi við áætlanir þar um.
Til þess að eðlileg samfella náist í þjónustu við bæjarbúa er nauðsynlegt að flýta eins og kostur er uppbyggingu leikskólamannvirkja og er það gert með þessari tillögu.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Eyþór H. Ólafsson
Aldís Hafsteinsdóttir.

Kl 18:38 var gert fundarhlé.
Kl 19:01 hélt fundur áfram.

Fulltrúar Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn lögðu fram eftirfarandi tillögu.
Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn eru sammála því að nauðsynlegt sé að bregðast við og byggja upp innviði í ört vaxandi sveitarfélagi. Jafnframt telja undirrituð að eðlilegt og gott skref sé að stækka Leikskólann Óskaland. Aftur á móti telja undirrituð sig ekki geta tekið upplýsta ákvörðun um tillögu Sjálfstæðisflokksins þar sem hún var ekki kynnt fyrir bæjarstjórnarfund.

Í ljósi þess að bæjarstjórnin öll vinnur í góðu samstarfi við fjárhagsáætlun bæjarins kemur á óvart að tillaga eins og þessi, sem felur að lokum í sér kostnað upp á um einn milljarð króna, sé lögð fram undir fundargerð fræðslunefndar. Venjan er að mál af þessari stærðargráðu séu sérstakur liður í dagskrá bæjarstjórnar og að bæjarfulltrúar hafi tækifæri til að kynna sér gögn málsins fyrir fund. Málefni leikskóla eiga skilið að þeim sé gert hærra undir höfði en þetta.

Undirrituð leggja til að málinu verði frestað til aukabæjarstjórnarfundar sem verði haldinn í næstu viku en þá hafi allir bæjarfulltrúar tækifæri til að kynna sér þetta stóra mál betur og taka upplýsta ákvörðun um bestu leiðina í uppbyggingu leikskóla í Hveragerði til hagsbóta fyrir alla bæjarbúa.

Jóhanna Ýr Jóhannsson
Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Kl 19:04 var gert fundarhlé.
Kl 19:33 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Meirihlutinn telur ekki þörf á að haldinn sé aukafundur í bæjarstjórn vegna þessarar tillögu og samþykkir því ekki tillögu minnihlutans um frestun.
Með tillögu meirihlutans er eingöngu verið að flýta ákvörðunum um uppbyggingu leikskólamannvirkja sem allir bæjarfulltrúar tóku þátt í að móta og þegar hafa verið samþykktar í þriggja ára fjárhagsáætlun.
Ef framkvæmdir við leikskólann Óskaland eiga að nást á komandi ári þá er afar mikilvægt að hönnun byggingarinnar fari af stað ekki seinna en nú þegar. Bæjarfulltrúar eru minntir á að þegar hefur verið farið í deiliskipulagsbreytingu á lóð Óskalands þar sem gert er ráð fyrir umræddri viðbyggingu og því ætti öllum að vera ljóst að þessi viðbygging væri í farvatninu og það frekar fyrr en seinna.
Í gildandi fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár er gert ráð fyrir 525 milljónum til uppbyggingar á skólamannvirkjum í Kambalandi, rúmast kostnaður við leikskóla innan þeirrar fjárhæðar, enda gerir tillaga meirihlutans ráð fyrir að uppbygging verði áfangaskipt. Í greinargerð með sömu fjárhagsáætlun segir að fjölgun íbúa kalli á enn frekari uppbyggingu í þágu barna og gert er ráð fyrir að bæta aðstöðu þeirra og fjölga leikskólaplássum á næstu misserum. Í ljósi þessa ætti umrædd tillaga ekki að koma á óvart.
Fyrir stuttu var byggður nýr leikskóli í Hveragerði þar sem ítarleg þarfagreining átti sér stað og fjöldi leikskóla var skoðaður áður en ákveðið var að byggja Undraland eftir hugmyndum ASK arkitekta. Sá leikskóli þykir afar vel heppnaður og jafnvel svo að önnur sveitarfélög hafa horft hingað þegar þau hafa byggt leikskóla. Því viljum við byggja á þeirri miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin og nýta krafta ASK arkitekta og þá reynslu sem við þegar höfum af nýrri byggingu Undralands við hönnun nýs leikskóla í Kambalandi. Staðsetning hins nýja leikskóla byggir á þeirri staðreynd að í Kambalandi stefnir í um 800-1000 manna byggð og því er þar augljós þörf fyrir nýjan leikskóla.

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Eyþór H. Ólafsson
Aldís Hafsteinsdóttir.

Kl. 19:36 var gert fundarhlé.
Kl. 19:47 hélt fundur áfram.

Fulltrúar Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Frjálsra með Framsókn lýsa yfir miklum vonbrigðum með að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái sér ekki fært að veita öllum bæjarfulltrúum jafnan aðgang að því að kynna sér mál sem liggja fyrir fundum. Rétt er að taka fram að undirrituð eru mjög meðvituð um nauðsyn þess að byggja upp innviði bæjarfélagsins eins og oft hefur komið fram í umræðum á bæjarstjórnarfundum. Hins vegar er óskiljanlegt að ekki sé hægt að fresta þessari ákvörðun um nokkra daga svo allir bæjarfulltrúar geti kynnt sér hliðar þessarar milljaraða króna framkvæmda.

Jóhanna Ýr Jóhannsson
Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Kl 19:49 var gert fundarhlé.
Kl. 20:08 hélt fundur áfram.

Kl 20:08 vék Bryndís Eir Þorsteinsdóttir af fundinum og Alda Pálsdóttir varamaður tók sæti hennar.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Meirihlutinn ítrekar að hér er verið að samþykkja að ráðast í hönnun á þjónustu mannvirkjum sem allir eru sammála um að séu nauðsynleg og er þessi ákvörðun í samræmi við stefnumörkun sem þegar liggur fyrir. Ekki er verið að samþykkja að ráðast í sjálfa framkvæmdina enda bíður sú ákvörðun fjárhagsáætlunar 2022 og þriggja ára áætlunar. Ef að efasemdir minnihlutans lúta eingöngu að vali á ASK arkitekum vegna nýbyggingar leikskóla þá er rétt að minna á að sú hin sama arkitektastofa hefur hannað báða leikskóla bæjarins með góðum árangri og þekkir þvi innviði og þarfir bæjarfélagsins vel.
Friðrik Sigurbjörnsson
Eyþór H. Ólafsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Alda Pálsdóttir

Fulltrúi Frjálsra með Framsókn lagði fram eftirfarandi bókun.
Í ljósi umræðu á fundinum um uppbyggingu leikskólamála í Hveragerði harmar undirrituð að bæjarstjórnarfundurinn hafi ekki verið tekinn upp.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn


Tillaga fulltrúa Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn lögð fram og felld með 4 atkvæðum meirihlutans, fulltrúar
Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn með.

Tillaga meirihlutans borin upp og samþykkt með 4 atkvæðum, fulltrúar Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn sátu hjá.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð menningar- íþrótta- og frístundanefndar frá 9. september 2021.

2110091

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

7.Fundargerð umhverfisnefndar frá 22. september 2021.

2110093

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Sigrún Árnadóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Varðandi lið 1 samþykkir bæjarstjórn að Umhverfisnefnd taki við verkefnum starfshóps um Zero waste og að umhverfisfulltrúi verði verkefnisstjóri.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

8.Fundargerð Fasteignafélags Hveragerðis frá 9. september 2021.

2110090

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

9.Fundargerð kjörstjórnar frá 13. september 2021.

2110081

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

10.Fundargerð kjörstjórnar frá 24. september 2021.

2110082

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

11.Fundargerð kjörstjórnar frá 25. september 2021.

2110083

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

12.Fundargerð kjörstjórnar frá 25. september 2021, kjördeild 2.

2110084

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

13.Fundargerð Heilbrigðisnefndar frá 1. október 2021 og samþykkt um vatnsvernd.

2110089

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Bæjarstjórn gerir ekki athugsemdir við að ný samþykkt um vatnsvernd verði samþykkt á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

14.Minnisblað frá bæjarstjóra - vatnsveita í Ölfusborgum.

2110094

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 12. október varðandi vatnsveitu í Ölfusborgum.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að fela lögmönnum bæjarins að segja upp þjónustusamningi um vatnsveitu í Ölfusborgum sem í gildi er á milli Hveragerðisbæjar og Rekstrarfélags Ölfusborga enda hafa á tímabilinu orðið grundvallar breytingar á þjónustuumhverfi Ölfusborga.

15.Gjaldskrá vegna refa- og minkaveiða í Hveragerði

2110085

Lögð fram gjaldskrá vegna refa- og minkaveiða í Hveragerði

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson.
Bæjarstjórn samþykkir gjaldskrána og felur bæjarstjóra birtingu hennar.

16.Persónuverndarstefna Hveragerðisbæjar, endurskoðuð.

2110086

Lögð fram endurskoðuð persónuverndarstefna Hveragerðisbæjar.

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaða persónuverndarstefnu.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 21:15.

Getum við bætt efni síðunnar?