Fara í efni

Bæjarstjórn

463. fundur 12. febrúar 2015 kl. 17:00 - 18:57 Sunnumörk 2
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Njörður Sigurðsson
  • Unnur Þormóðsdóttir
  • Viktoría Sif Kristinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Garðar Rúnar Árnason
  • Þórhallur Einisson
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri

Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson, setti fund og stjórnaði.
Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.
Dagskrá:
1. Fundagerðir.
 1.1. Bæjarráðs frá 15. janúar 2015.
 1.2. Bæjarráðs frá 5. febrúar 2015.
 1.3. Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 3. febrúar 2015.
 1.4. Fræðslunefndar frá 12. janúar 2015.
 1.5. Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 13. janúar 2015.

2. Samningur við Hengil, líkamsrækt ehf.
3. Losun „Grænu tunnunnar“ (tillaga frá B-lista, Frjálsir með Framsókn).
4. Þjónustukönnun Capacent - kynning.
5. Könnun á viðhorfi foreldra / forráðamanna til breytts opnunartíma leikskólanna, kynning.
6. Samþykktir fyrir Skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings bs.
7. Erindisbréf stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
8. Erindisbréf Skóla- og velferðarnefndar Árnesþings.
9. Starfslýsing forstöðumanns skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
10. Fundargerðir til kynningar:
   10.1. NOS frá 29. janúar 2015.
  10.2. Bæjarstjórnar frá 8. janúar 2015.

Í upphafi fundar lagði forseti fram dagskrárbreytingartillögu um að liður 10.1 fundargerð NOS frá 29. janúar 2015 til kynningar færist í lið 1.6 fundargerð NOS frá 29. janúar 2015 til samþykktar.

Dagskrárbreytingartillagan samþykkt samhljóða.

Hér var gengið til dagskrár.

 

1. Fundagerðir;

1.1. Bæjarráðs frá 15. janúar 2015.
Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Eyþór H. Ólafsson, Liður 2.1 „Tillaga að viðmiðunartekjum v/ tekjutengds afsláttar fasteignaskatts og holræsagjalda til öryrkja og ellilífeyrisþega“ afgreiddur sérstaklega.
Samþykktur samhljóða.
Liður 2.2 „Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags“ afgreiddur sérstaklega.
Samþykktur samhljóða.
Liður 2.3 „Minnisblað frá bæjarstjóra v/ innheimtu“ afgreiddur sérstaklega.
Samþykktur samhljóða.
Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

1.2. Bæjarráðs frá 5. febrúar 2015.
Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Viktoría Sif Kristinsdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðar 1.6 stóð.
Liður 1.6 „Bréf frá Löggarði frá 22. janúar 2015“ afgreiddur sérstaklega.
Samþykktur samhljóða.
Liður 2.3 „Lóðarumsókn Dalsbrún 2-8 “ afgreiddur sérstaklega.
Samþykktur samhljóða með þeim fyrirvara sem er í fundargerð bæjarráðs.
Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

1.3. Skipulags og mannvirkjanefndar frá 3. febrúar 2015.
Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Garðar Rúnar Árnason, Unnur Þormóðsdóttir, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Þórhallur Einisson
Liður 4 „Athafnasvæði sunnan Suðurlandsvegar, tillaga að aðal- og deiliskipulagi“ afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að framlagðar tillögur að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi athafnasvæðis á reit A9 og að hluta á reit I1 verði auglýstar í samræmi við 31. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Liður 5 „Kambahraun 3, brauðstofa, umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun bílskúrs“ afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að leitað verði eftir umsögn Brunavarna Árnessýslu um málið og það grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

1.4. Fræðslunefndar frá 12. janúar 2015.
Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Þórhallur Einisson, Aldís Hafsteinsdóttir og Viktoría Sif Kristinsdóttir.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

1.5. Skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings frá 13. janúar 2015.
Með fundargerðinni fylgdi starfsáætlun Skóla- og velferðaþjónustu fyrir árið 2015.
Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

1.6. NOS frá 5. febrúar 2015.
Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Viktoría Sif Kristinsdóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Liður 6 „Önnur mál ráðning í 50% stöðu sálfræðings“ afgreiddur sérstaklega.
Samþykktur samhljóða.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2. Samningur við Hengil, líkamsrækt ehf.
Lagður fram samningur við Hengil, líkamsrækt ehf um afnotarétt af kjallara íþróttahússins.
Enginn tók til máls.
Samningurinn samþykktur samhljóða með eftirfarandi bókun.
Bæjarstjórn hefur fylgst af ánægju með stóraukinni íþróttaiðkun bæjarbúa á undanförnum misserum. Aðstaða til íþróttaiðkunar hefur tekið stórstígum framförum bæði á vegum einkaaðila og með tilkomu Hamarshallarinnar og nú er svo komið að um fátt er meira rætt manna á milli en um ýmis konar líkamsrækt og heilsueflingu. Tækifærin virðast líka vera fjölmörg og af hinum margvíslegasta toga. Bæjarstjórn þætti fróðlegt að fá yfirlit yfir íþróttaiðkun og heilsueflandi starfsemi í bæjarfélaginu og eins ef að mögulegt væri að finna út hversu margir iðka heilsurækt í Hveragerði, aldur þeirra og kyn. Menningar-, íþrótta-, og frístundanefnd og menningar- og frístundafulltrúa er hér með falið að gera greiningu á þessum atriðum og skila niðurstöðum til bæjarstjórnar á vormánuðum.

3. Losun „Grænu tunnunnar“ (tillaga frá fullrúa B-lista, Frjálsir með Framsókn).
Fulltrúi B-lista, Frjálsir með Framsókn lagði fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarfulltrúi B-lista, Frjálsra með Framsókn, leggur til að bæjarstjórn Hveragerðis feli bæjarstjóra að ræða við Gámaþjónustuna, með það að markmiði að bæta losun „Grænu tunnunnar“ í bæjarfélaginu.
Greinargerð:
Græna tunnan er tæmd á fjögurra vikna fresti og þegar kemur að losun hefur víða komið fyrir að græna tunnan er yfirfull og jafnvel hafa íbúar neyðst til að henda flokkuðu, endurvinnanlegu efni í gráu tunnuna til urðunar. Á síðustu árum hefur bærinn lagt mikla áherslu á flokkun rusls meðal íbúa, til að auka endurvinnslu og draga úr urðun. Upplifi íbúar síendurtekið að geta illa, eða ekki, komið endurvinnanlegu efni frá sér með góðu móti, er viðbúið að dragi úr metnaði og þátttöku íbúa í flokkun. Til að sporna gegn slíku er mikilvægt að leita leiða til að bæta losun á endurvinnanlegu efni, t.d. með því að auka tíðni losunar grænu tunnunnar.
Garðar R. Árnason
Eftirtaldir tóku til máls: Garðar R. Árnason, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Viktoría Sif Kristinsdóttir.
Tillagan samþykkt með atkvæðum minnihlutans. Fulltrúar meirihlutans sátu hjá með eftirfarandi bókun:
Rétt er að það komi fram að engin breyting hefur orðið á tíðni losunar í Hveragerði frá því að þriggja tunnu kerfið var tekið upp í desember 2009. Vegna mistaka þá var ekki óskað eftir aukalosun grænu tunnunnar í byrjun janúar sem oftast hefur verið gert til að taka mesta kúfinn af jólaendurvinnslunni. Það skapaði umræðu í bæjarfélaginu byggða á misskilningi.
Enginn á samt að þurfa að henda flokkuðu, endurvinnanlegu efni í gráu tunnuna því Gámastöðin tekur gjaldfrjálst á móti öllu slíku hér eftir sem hingað til. Eru bæjarbúar hvattir til að nýta sér Gámastöðina og jafnframt að ná sér í miðana sem gefa íbúum gjaldfrjálsan aðgang að gámastöðinni. Meirihluti bæjarstjórnar telur að núverandi kerfi hafi dugað velflestum bæjarbúum ágætlega sé flokkun og frágangur sorps með réttum hætti. Aftur á móti finnst meirihlutanum í góðu lagi að bæjarstjóri ásamt umhverfisfulltrúa ræði við Gámaþjónustuna um sorphirðu og flokkun og með hvaða hætti við getum gert enn betur í þeim efnum. Fulltrúar meirihlutans velja samt að sitja hjá við afgreiðsluna þar sem greinargerð með tillögunni gefur til kynna ástand sem ekki á við rök að styðjast.

4. Þjónustukönnun Capacent - kynning.
Bæjarstjóri kynnti þjónustukönnun sem Capacent gerði til að kanna ánægju íbúa með þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins. Könnunin var framkvæmd dagana 21. október – 17. desember 2014.
Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn er afar ánægð með niðurstöður könnunarinnar fyrir Hveragerðisbæ sem sýnir að 90% íbúa er ánægður með Hveragerði sem stað til að búa á. Ánægja íbúa í öllum þeim þjónustuþáttum sem spurt var um var ríflega yfir meðaltali í öllum tilfellum og ítrekað lendir Hveragerðisbær í hópi efstu sveitarfélaga í könnuninni. Það er mikils virði og góð kynning fyrir bæjarfélagið að íbúar séu ánægðir með þá þjónustu sem veitt er.
Þegar spurt er um ánægju varðandi þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið lendir Hveragerði í fjórða sæti á eftir Seltjarnarnesi, Garðabæ og Mosfellsbæ og þegar spurt er um líkurnar á að viðkomandi myndi mæla með þjónustu sveitarfélagsins við vini og ættingja lendir Hveragerði enn og aftur á toppnum í góðum hópi með Garðabæ og Seltjarnarnesi.
Það er ljóst að starfsmenn og stjórnendur hjá Hveragerðisbæ eru að vinna afar gott starf og fyrir það þakkar bæjarstjórn af heilum hug. Við getum samt enn gert betur og nú er verkefnið framundan að viðhalda þessum góða árangri þannig að Hveragerðisbær verði áfram í hópi bestu sveitarfélaga landsins hvað búsetuskilyrði varðar. Bæjarstjórn felur bæjarráði og bæjarstjóra að kynna könnunina fyrir bæjarbúum og öðrum þeim sem gagn gætu haft af niðurstöðunum.

5. Könnun á viðhorfi foreldra/ forráðamanna til breytts opnunartíma leikskólanna, kynning.
Bæjarstjóri kynnti niðurstöður könnunar sem gerð var varðandi opnunartíma og þjónustu leikskólanna sem gerð var í desember og janúar sl. Öllum foreldrum og forráðamönnum barna á leikskólunum var send könnunin með rafrænum hætti en alls barst 101 svar.
Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn fagnar þeirri einstöku niðurstöðu að 91% þeirra sem tóku þátt í könnuninni segjast ánægð með þjónustu leikskólanna. 9% hefur ekki skoðun en enginn svarar því til að viðkomandi sé óánægður með þjónustuna. Er þetta mikil viðurkenning á því góða starfi sem innt er af hendi á leikskólunum. Þegar spurt var um hvort að opnunartíminn hentaði fjölskyldunni reyndist svo vera hjá 71,5% þeirra sem svara. Þegar rýnt er í óskir um breytingar er ljóst að helst er óskað eftir opnun fyrr á morgnana.
Í ljósi þessa felur bæjarstjórn bæjarstjóra að gera tillögu til bæjarráðs um viðbrögð við könnuninni þar sem kostnaði við mögulegar breytingar yrði lýst.

6. Samþykktir fyrir Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs, fyrri umræða.
Lögð fram til fyrri umræðu samþykktir fyrir Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Samþykkt að vísa samþykktunum til síðari umræðu.

7. Erindisbréf stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
Lagt fram erindisbréf fyrir stjórn Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings b.s.
Enginn tók til máls.
Erindisbréfið samþykkt samhljóða.

8. Erindisbréf Skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings.
Lagt fram erindisbréf fyrir Skólaþjónustu og velferðarnefnd Árnesþings.
Enginn tók til máls.
Erindisbréfið samþykkt samhljóða.

9. Starfslýsing forstöðumanns Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
Lögð fram starfslýsing fyrir forstöðumann Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Starfslýsingin samþykkt samhljóða.

10. Fundagerðir til kynningar;
10.1. Bæjarstjórnar frá 8. janúar 2015.

 

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:57

Getum við bætt efni síðunnar?