Fara í efni

Bæjarstjórn

522. fundur 14. maí 2020 kl. 17:00 á Listasafni Árnesinga
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Garðar R. Árnason
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2019, síðari umræða.

2005028

Lagður fram til seinni umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2019.
Á fundinn mættu Jónas Gestur Jónasson, Kristján Þór Ragnarsson og Ingunn Einarsdóttir, frá Deloitte endurskoðun. Jónas Gestur Jónasson kynnti ársreikninginn og Kristján Þór Ragnarsson kynnti endurskoðunarskýrsluna.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Garðar R. Árnason, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Meirihluti Sjálfstæðismanna lagði fram eftirfarandi bókun:

Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2019 er jákvæð sem nemur 6,3 m.kr. Er niðurstaða ársreiknings nokkuð lakari en gert var ráð fyrir en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir hagnaði er næmi 50 m.kr. . Skýrist þetta frávik einna helst af því að ekki náðist að úthluta þeim lóðum sem til stóð að úthluta í Kambalandi þannig að greiðslur vegna gatnagerðargjalda skiluðu sér ekki eins og til stóð á árinu 2019. Viðhald var þó nokkuð umfram áætlanir sérstaklega í grunnskóla og í vatnsveitu og fráveitu. Byggingaleyfisgjöld voru endurgreidd vegna reglna þar um vegna framkvæmda sem ekki var ráðist út i en innheimt hafði verið fyrir en einnig munar um að ekki var gert ráð fyrir vöxtum vegna leiguskuldar við Reiti fasteignafélags í fjárhagsáætlun. Í ljósi alls þessa má teljast gott að niðurstaðan úr rekstri samstæðu A og B hluta skuli vera jákvæð, þó öll hefðum við kosið að hún væri betri. Fjárhagur bæjarins er í traustum skorðum nú sem fyrri ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A og B hluta frá árinu 2012. Rekstur Hveragerðisbæjar er í fullu samræmi við viðmið laga um skuldastöðu og jafnvægi í rekstri. Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar að undanförnu en nú eru blikur á lofti með auknu atvinnuleysi, minnkandi útsvarstekjum og niðurskuði á framlögum Jöfnunarsjóðs. Mikilvægt er að fylgjast grannt með þróun útgjalda og tekjufalli og bregðast við eftir því sem þurfa þykir.
Með fjárfestingum í landi og fasteignum á undanförnum árum hefur meirihluti D-listans sýnt að hann hugsar til framtíðar en nú er byggingaland í bæjarfélaginu tryggt næstu áratugina. Er það ánægjuleg staða í landlitlu sveitarfélagi. Hús rísa nú eitt af öðru í Kambalandi og mun framtíðin án vafa sýna að þar var skynsemi höfð að leiðarljósi og horft til framtíðar.

Sterk stjórn á fjármálum bæjarins ásamt skynsamlegri uppbyggingu innviða og þjónustu hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum sú besta sem gerist á landinu. Bæjarstjórn hefur verið einhuga og samhent í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og það hefur áhrif langt út fyrir þau störf sem bæjarstjórn eru falin. Vinsældir Hveragerðisbæjar sem farsæls búsetukosts hafa aukist mjög á undanförnum árum, fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fjöldi fjölbreyttra íbúða í byggingu. Því er fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum. Við aðstæður sem þessar og í ljósi þeirrar óvissu sem framundan er, er mikilvægt að fjármálum bæjarins sé áfram stýrt af festu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.

Í ársreikningi 2019 kemur fram að samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 239,3 mkr. eða sem nemur ríflega 8% af heildartekjum bæjarins.
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 308,5 mkr. eða sem nemur um 10,2% af heildartekjum samstæðu. Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2019 100,8 % sem er 49,2 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað.
Rekstrarniðurstaða samstæðu (A og B hluta) er jákvæð um 6,3 mkr.. Langtímaskuldir samstæðu að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 og Breiðumerkur 20 nema 2.793 mkr... Lífeyrisskuldbinding er 603 mkr.. Samtals gerir þetta 3.396 mkr. eða rétt ríflega 1,26 mkr. pr íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár. Fjárfestingar á árinu 2019 námu 457 mkr.. á móti fjárfestingu ársins 2018 er nam 300 mkr..
Helstu fjárfestingar ársins fólust í kaupum á félagslegum íbúðum (122.5 mkr.), framkvæmdum í Kambalandi (75 mkr.), gatnagerð, vatns- og fráveituframkvæmdum(187 mkr.), viðbygging við grunnskólann (39 mkr.), endurbótum á sundlauginni Laugaskarði (23 mkr.), viðgerðum á Mjólkurbúi (9,5 mkr.), framkvæmdir í vatnsveitu (21,7 mkr.), Framkvæmdir í fráveitu (41,2 mkr), aðrar fjárfestingar voru smærri á árinu. Tekjur vegna gatnagerðargjalda námu 79,4 mkr.. Tekin ný langtímalán voru 329 mkr.. Afborganir langtímalána námu 198,4 mkr..
Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 50% af skatttekjum, félagsþjónustan 13,4% og æskulýðs- og íþróttamál 9,5%.
Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðri og styrkri stjórn forstöðumanna bæjarins og framlagi starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Meirihluti D-listans færir þeim öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins.
Eins vill meirihluti bæjarstjórnar þakka endurskoðendum og skrifstofustjóra fyrir góða vinnu við gerð ársreiknings.
Fjárhagsáætlanir undanfarinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka.

Eyþór H. Ólafsson,
Friðrik Sigurbjörnsson,
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir,
Aldís Hafsteinsdóttir

Bæjarfulltrúi B-listans leggur fram eftirfarandi bókun

Bæjarfulltrúi B-listans, Frjálsir með Framsókn, fagnar jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu bæjarins fyrir árið 2019, en vert er að hafa í huga að hún hefði orðið neikvæð um 25 milljónir króna ef beitt hefði verið sömu afskriftareglum og undanfarin ár. Árangurinn er ekki síst að þakka góðu samstarfi innan bæjarstjórnar og árvekni forstöðumanna bæjarins, sem ber að þakka. Utanaðkomandi þættir skipta ekki síður máli, ekki síst að verðbólga hefur haldist lág undanfarin ár.

Undanfarin ár hefur afkoma bæjarsjóðs verið mjög háð framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, sem endurspeglar hversu tekjulágt bæjarfélagið hefur verið. Á síðasta ári var framlag Jöfnunarsjóðs um 18% af rekstrartekjum bæjarins, eða 534 milljónir króna.

Bagalegt er að að handbært fé frá rekstri fari lækkandi, sem og að veltufjárhlutfallið hefur lækkað á ný, eftir að hafa hækkað síðustu tvö árin þar á undan. Veltufjárhlutfall ársins 2019 var komið niður í 0,77, en æskilegt er að mati undirritaðs að veltufjárhlutfallið væri yfir 1.

Undanfarin ár hafa einkennst m.a. af miklum og nauðsynlegum fjárfestingum í innviðum bæjarfélagsins, sem hefur leitt til aukinnar lántöku. Á milli ára jukust langtímaskuldir bæjarins um 200 milljónir króna og námu í árslok um 2,5 milljörðum króna. Skuldahlutfallið hækkaði árið 2019, rétt eins og 2018. Í lok árs 2019 var hlutfallið 130,85%, en samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið þá var hlutfallið rúmlega 100%. Þó svo að skuldahlutfallið samkvæmt reglugerð sé vel undir mörkum, veldur skuldsetningin ákveðnum áhyggjum. Afborganir langtímaskulda námu rúmlega 200 milljónum á síðasta ári. Fjármagnsgjöld, þ.e. vextir og verðbætur, voru tæpar 211 milljónir, þar af má áætla að um 120 milljónir hafi komið til greiðslu árið 2019. Með öðrum orðum þá er um miklar fjárhæðir að ræða og brýnt að hefja undirbúning að niðurgreiðslu lána.

Að mati bæjarfulltrúa B-listans er staða Hveragerðisbæjar sterk, með sína öflugu grunnstoðir, en alvarlegar blikur eru á lofti varðandi árið 2020 í kjölfar Covid 19 faraldursins, en með hagsýni og ráðdeild við fjármálastjórn bæjarins er framtíð bæjarins björt.

Garðar R. Árnason
B-lista
Frjáls með Framsókn

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi bókun.

Ársreikningur Hveragerðisbæjar sem liggur til samþykktar í bæjarstjórn Hveragerðis sýnir að rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs skilar neikvæðri niðurstöðu upp á 11,4 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 20,2 m.kr. A og B hluti skila samanlagt jákvæðri niðurstöðu upp á 6,3 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan yrði jákvæð upp á 50,2 m.kr. Því er hér um frávik upp á um 44 m.kr. frá fjárhagsáætlun að ræða. Einnig er rétt að benda á að rekstrartekjur A og B-hluta jukust um 45,6 m.kr. frá fjárhagsáætlun og því eru frávikin í raun tvöfalt meiri.

Í skýringum bæjarstjóra á fundi bæjarstjórnar 8. apríl sl. kom fram að ástæðu þessa megi rekja til að innheimta byggingarleyfisgjalda var verulegra lægri en fjárhagsáætlun gerði ráði fyrir þar sem lóðum var úthlutað of seint, viðhald í eignasjóði, fráveitu og vatnsveitu varð meiri og farið var í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir í grunnskólanum. Þá kom einnig fram að gerð voru mistök í fjárhagsáætlunargerð og vantaði inn fjármagnsgjöld vegna Sunnumarkar/Breiðumarkar í áætlun ársins 2019.

Ljóst er að sveitarfélagið stefnir inn í óvissutíma því enn er ekki ljóst hvaða áhrif veirufaraldurinn COVID-19 mun hafa á fjárhag sveitarfélagsins. Líklegt er að tekjur dragist verulega saman á þessu ári og Hveragerðisbær þarf að bregðast við því á skynsamlegan hátt, þó þannig að þjónustustig bæjarins skerðist sem minnst og álögur á íbúa aukist ekki. Þá er ekki ólíklegt að ársreikningur ársins 2020 muni jafnframt sýna frávik frá fjárhagsáætlun eins og ársreikningur 2019.

Undirrituð þakka endurskoðendum fyrir góða vinnu við ársreikning og starfsfólki Hveragerðisbæjar fyrir góð störf fyrir sveitarfélagið.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Ársreikningurinn samþykktur og undirritaður.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 7. maí 2020.

2004005F

Liðir afgreiddir sérstaklega 11, 13, 15 og 17.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 11 "Erindi frá Lóreley Sigurjónsdóttur - Fitness Bilið" afgreiddur sérstaklega.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 13 "Bréf frá Hengill Ultra Trail frá 1. maí 2020" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 15 "Verðkönnun í myndavélakerfi fyrir Grunnskólann í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 17 "Minnisblað frá garðyrkjufulltrúa -laun og vinnutilhögun í vinnuskóla sumarið 2020" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarráð samþykkir bókun bæjarráðs.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 5. maí 2020.

2005024

Liðir afgreiddir sérstaklega 1, 2, 3, 4 og 5.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Garðar Rúnar Árnason.
Liður 1 "Heiðarbrún 43b, nýtt einbýlishús, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að veitt verði byggingaleyfi fyrir framkvæmdinni.

Liður 2 "Friðarstaðareitur, deiliskipulag" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að unnið verði áfram að skipulagsgerðinnií samræmi við framlagðar tillögur og að skipulagsfulltrúa og formanni Skipulags- og mannvirkjanefndar verði falið að ræða við lóðarhafa á svæðinu um stöðu skipulagsgerðarinnar og skipulagsáherslur þeirra.

Liður 3 "Ás - Grundarsvæði, tillaga að nýju deiliskipulagi, athugasemdir sem borist hafa" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með þeim breytingum að heiti hennar verði ,,Deiliskipulag fyrir Ás- og Grundarsvæði í Hveragerði" og að í skipulags- og í byggingarskilmálum fyrir reitina SÞ1 og SÞ2 verði felld út ákvæði um efnisval og þakform húsa.

Liður 4 "Bláskógar 4, skipting einbýlishúsalóðar í tvær lóðir, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir skiptingu lóðarinnar Bláskóga 4 í tvær lóðir sbr. tillögu Landform ehf..

Liður 5 "Umsókn um lóð fyrir spennistöð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að gera tillögu að staðarvali í samráði við Rarik og Landform ehf. og leggja fyrir næsta fund skipulags- og mannvirkjanefndar.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Fræðslunefndar frá 22. apríl 2020.

2005025

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjórn tekur undir þakkir fræðslunefndar til starfsmanna leik- og grunnskóla bæjarins fyrir vel unnin störf á krefjandi tímum.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 26. mars 2020.

2005026

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 20. apríl 2020.

2005027

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

7.Fundargerð starfshóps um Kjöt og kúnst húsið frá 24. mars 2020.

2005035

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Þórunn Pétursdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Bæjarstjórn þakkar starfshópnum þá vinnu sem lögð var fram og felur honum að vinna áfram í sumar og skila tillögum sínum um framtíðar nýtingu hússins á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir sumarleifi. Í ljósi þess að nú styttist í háönn ferðamennsku á Íslandi og mikilvægi þess að Hveragerði verði áningarstaður jafnt sem áfangastaður ferðamanna í sumar telur bæjarstjórn mikilvægt að koma starfsemi í húsið á allra næstu vikum. Því samþykkir bæjarstjórn að fela Upplýsingamiðstöð Suðurlands og þeim starfsmönnum sem þar eru í samstarfi við menningar- og frístundafulltrúa að hefja nú þegar undirbúning að rekstri markaðstorgs og viðburðamiðstöðvar í húsinu að Breiðumörk 21. Húsið verði opið með fjölbreyttri starfsemi á föstudögum, laugardögum og sunnudögum í sumar, að lágmarki. Jafnframt er lagt til að leirlistakonur sem áður höfðu fengið vilyrði fyrir aðstöðu fái aðstöðu bakatil í húsinu og gætu jafnframt nýtt plan norðan við húsið fyrir starfsemi sína. Rétt er að geta þess að sótt hefur um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna fyrir tveimur verkefnum tengdum ferðaþjónustu og markaðssetningu og lýðheilsu og heilsueflingu og ef að þær umsóknir verða samþykktar gætu þau verkefni bæði verið hýst í húsinu. Í sumar gefst síðan gott tækifæri til að móta hugmyndir um nýtingu hússins til framtíðar. Fjármunir sem eftir standa á fjárhagsáætlun vegna kaupa hússins verði nýttir til að gera húsið snyrtilegt og í merkingar.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

8.Bygging nýs hjúkrunarheimilis í Hveragerði - samningur við Framkvæmdasýslu ríkisins.

2004028

Lagður fram samningur við Framkvæmdasýslu ríkisins vegna nýbyggingar við hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerðis. Eins lögð fram tímaáætlun og heildarkostnaðaráætlun.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með þá vinnu sem er í gangi og sérstaklega þá ákvörðun að rýmum verði fjölgað úr 18 í 22.

Bæjarstjórn samþykkir samninginn og samþykkir jafnframt fyrir sitt leiti að fram fari samkeppni um hönnun hússins.

9.Opnun tilboða - Skólastofa tilboð.

2005023

Opnun tilboða í færanlega skólastofu við Grunnskólann í Hveragerði fór fram 7. maí 2020. Alls bárust 6 tilboð í skólastofuna.

Ölfusverk ehf 620.000.-
Stoðverk ehf 1.100.000.-
Þorsteinn Hansen 410.000.-
Skjólklettur ehf 720.000.-
Björn Kjartansson 520.000.-
Pípulagningameistarinn ehf / Magnús Kristinsson 1.890.000.-

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Að mati bæjarstjórnar er ekkert tilboð ásættanlegt og því er, með vísun í 13. gr. laga um framkvæmd útboða, öllum tilboðum hafnað. Til bráðabirgða verður stofan flutt á annan stað þar til henni verður fundið nýtt hlutverk eða auglýst aftur.

10.Minnisblað frá bæjarstjóra vegna mötuneytis leikskólanna.

2005031

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 12. maí 2020 vegna starfsmannamála í mötuneyti leiksólanna í Hveragerði.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Garðar Árnason.

Kl. 18:59 var gert fundarhlé.
Kl. 19:01 hélt fundur áfram.
Bæjarstjórn samþykkir að skipulag og starfsmannahald á mötuneytum leikskólanna í heild sinni færist allt á eina hendi og verði framvegis í mötuneyti Leikskólans Undralands þar sem máltíðir eru eldaðar. Því er samþykkt að segja upp fastráðnum starfsmönnum í mötuneyti Óskalands með lögbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti.

11.Minnisblað frá skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði vegna ræstinga.

2005030

Lagt fram minnisblað frá skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði frá 12. maí 2020 vegna ræstinga við skólann.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að leitað verði tilboða í allar ræstingar við skólann.

12.Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga frá febrúar 2020.

2005032

Í bréfinu er rætt um eftirlit nefndarinnar vegna fjárfestinga og eftirlit með framvindu á árinu 2019.
Með bréfinu fylgdi yfirlit yfir framkvæmdir hjá Hveragerðisbæ fyrir árið 2019.

Enginn tók til máls.
Lagt fram til kynningar.

13.Yfirlýsingar vegna fyrirhugaðrar byggingar leiguhúsnæðis á vegum Íbúðafélagsins Bjargs.

2005033

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra vegna fyrirhugaðra bygginga leiguhúsnæðis á vegum Íbúðarfélagsins Bjargs.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkti einróma á fundi sínum þann 12. mars 2020 sameiginlega viljayfirlýsingu bæjarfélagsins og Íbúðafélagsins Bjargs um byggingu á 10 almennum leiguíbúðum í Hveragerði.

Hér með er einnig staðfest að bæjarfélaginu hefur borist umsókn um stofnframlag frá Íbúðafélaginu Bjargi og að bæjarfélagið muni greiða sinn hluta framlags til bygginganna í samræmi við lög og reglur þar um. Lóðunum Langahrauni 28-36 og Langahrauni 38-46 hefur verið úthlutað til Íbúðafélagsins Bjargs.

Lóðagjöld eru samtals kr. 50.480.591,- . Þá eru meðtalin gatnagerðargjöld, byggingarréttargjöld, öll tengigjöld og byggingarleyfisgjöld. Sundurliðun lóðagjaldanna má finna í meðfylgjandi fylgiskjali. Lóðunum verður skuldajafnað á móti 12% framlagi Hveragerðisbæjar í stofnkostnaði bygginganna. Bæjarstjórn samþykkir að um fullnaðargreiðslu beggja aðila verði að ræða.

14.Bréf frá Vinnumálastofnun frá 12. maí 2020.

2005034

Lagt fram bréf frá Vinnumálstofnun frá 12. maí 2020 þar sem fram kemur að Hveragerðisbær fékk samþykkt að Vinnumálastofnun mun styrkja 12 sumarstörf hjá Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Lagt fram til kynningar.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?