Fara í efni

Bæjarstjórn

520. fundur 08. apríl 2020 kl. 17:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir varamaður
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 2. apríl 2020.

2003007F

Liðir afgreiddir sérstaklega 4, 5 og 6.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Þórunn Pétursdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Liður 4 "Bréf frá Crossfit Hengli frá 26. mars 2020" afgreiddur sérstaklega. Bryndís Eir Þorsteinsdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 5 "Bréf frá Jakobi Veigari Sigurðssyni frá 31. mars 2020" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 6 "Skólamörk 6 - minnisblað frá Eflu ehf v. bráðabirgðastofu" afgreiddur sérstaklega.
Fulltrúar sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Frjálsra með Framsókn samþykkja að fela bæjarstjóra að selja skólastofuna til flutnings. Fulltrúar Okkar Hveragerðis sátu hjá.

Fundargerði að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð Skipulag- og mannvirkjanefndar frá 7. apríl 2020.

2004006

Liðir afgreiddir sérstaklega 2 og 3.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 2 "Réttarheiði 17-19, sólstofa, umsókn um byggingarleyfi, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir framkvæmdina.

Liður 3 "Brattahlíð 18 og 20-22, umsókn um byggingarleyfi fyrir nýjum matsal, bílskýli og bíslagi/skyggni og breytingum á núverandi húsnæði" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn er sammála mati nefndarinnar að ekki þurfi að grenndarkynna málið. Bæjarstjórn samþykkir framkvæmdina.

Vegna liðar 1 "Ölfusvegur/Sunnumörk og brú yfir Varmá, greinargerð með ákvörðun um matskyldu framkvæmdar samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi bókun.
Bæjarstjórn fagnar því að nú skuli hylla undir framkvæmdir við hliðarveginn þannig að Hveragerðisbær tengist honum og hann verði þar með nýtanlegur með þeim hætti sem honum var ætlað. Bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa falið að ræða við vegamálayfirvöld með það fyrir augum að framkvæmdir geti hafist á haustmánuðum.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð NOS frá 10. mars 2020.

2004002

Liðir afgreiddir sérstaklega 2 og 3.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 2 "Ritari Skóla -og velferðarþjónustu Árnesþings" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að ráðinn verði ritari í 50% stöðu við Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

Liður 3 "Málefni barnaverndar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að ráðinn verði félagsráðgjafi í 100% stöðu við Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2019, fyrri umræða.

2004004

Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2019.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri kynnti ársreikning 2019.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 25,4 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 50,2 m.kr.
Heildartekjur A og B hluta eru 2.917 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifa 2.621 m.kr. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er neikvæð um 35 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir hagnaði 20 m.kr. Helstu ástæður þessa munar er að byggingarleyfisgjald var verulega lægri en áætlun gerði ráð fyrir enda lóðum úthlutað seinna en gert var ráð fyrir, viðhald í eignasjóði, fráveitu og vatnsveitu varð meira en áætlun gerði ráð fyrir og síðla árs var ráðist í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir á húsnæði grunnskólans sem ekki voru á fjárhagsáætlun. Síðast en ekki síst er rétt að það komi fram að vegna mistaka í fjárhagsáætlunargerð voru fjármagnsgjöld vegna leiguskuldar í Sunnumörk/Breiðumörk ekki inn í áætlun ársins 2019.
Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 227 m.kr. eða 7,8 % af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 229 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 316 m.kr. Skýring þessa liggur í framgreindum atriðum. Fjárfestingar á árinu 2019 námu 446 m.kr. Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 198,4 m kr. Tekin ný langtímalán voru 329m.kr.. Í árslok er hlutfall skulda af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar 104,1%.
Rétt er að geta þess að ársreikningurinn er óendurskoðaður við fyrri umræðu en endurskoðendur óska eftir að sá háttur sé hafður á. Þrátt fyrir að endurskoðun sé að mestu lokið geta komið upp skekkjur sem kunna að krefjast leiðréttingar á ársreikningnum. Frekari umfjöllun um ársreikninginn mun fara fram við síðari umræðu sem fram fer í maí og þá munu endurskoðendur einnig skila skoðunarbréfi sínu og ítarlegar verður fjallað um einstaka liði ársreikningsins.


Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.

5.Húsnæðisáætlun 2020 - 2028, síðari umræða.

2004005

Lögð fram til síðari umræðu húsnæðisáætlun fyrir Hveragerðisbæ fyrir árin 2020-2028.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Jóhanna Ýr Jóhannsson og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu við Húsnæðisáætlun:

Í kafla 3.3 á bls. 16 uppfærist tafla 10 um leiguhúsnæðisþörf til 8 ára (2020-2028) sem hér segir:
Leiguíbúðir á almennum markaði verði 18 í stað 6.
Félagslegar leiguíbúðir verði 13 í stað 5.

Greinargerð
Í húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir að þörf sé á sex almennum leiguíbúðum til ársins 2028 og er miðað við að fjöldi leiguíbúða af nýjum íbúðum í bæjarfélaginu verði ekki lægra en 15% á tímabilinu. Þessi tala er fundin út frá því hvernig leigumarkaðurinn er í Hveragerði og á landinu almennt. Á Íslandi búa um 16-18% af íbúum 18 ára og eldri í leiguíbúðum og í áætluninni er leitt líkum að því að um 7-12% íbúa í Hveragerði séu í leiguhúsnæði. Á Norðurlöndunum er hlutfall íbúa í leiguhúsnæði mun hærra en þekkist hér á landi og er til að mynda áætlað að um 35% Dana búi í leiguhúsnæði. Með það að markmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu og að í Hveragerði séu fjölbreyttir búsetukostir sem henta öllum ætti Hveragerðisbær að hafa það markmið að hlutfall almennra leiguíbúða, s.s. í gegnum leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og önnur almenn leigufélög, verði mun hærra en það sem gert er ráð fyrir í húsnæðisáætluninni.

Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er gert ráð fyrir að til ársins 2028 sé þörf á fimm félagslegum leiguíbúðum. Þörf fyrir félagslegar leiguíbúðir virðist vera fundin út frá því hversu margar umsóknir eru nú um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hveragerðisbæ. Eins og staðan er nú á Hveragerðisbær fimm félagslegar leiguíbúðir en þær ættu að vera 16 talsins ef þær væru hlutfallslegar jafnmargar og hjá Sveitarfélaginu Árborg og Ölfusi. Því er rétt að í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar verði sett sú stefna að til ársins 2028 verði félagslegar leiguíbúðir í eigu Hveragerðisbæjar orðnar 18-20 talsins miðað við spár um fólksfjölgun. Það er sameiginleg ábyrgð allra sveitarfélaga að sjá til þess að nægt framboð sé á félagslegu leiguhúsnæði í öllum sveitarfélögum. Sveitarfélög sem ekki bjóða upp á nógu margar félagslegar leiguíbúðir eru þannig að velta ábyrgðinni yfir á önnur. Hveragerðisbær á því að axla sína ábyrgð og standa sig í þessum málum.

Með þessum breytingum sem lagt er til myndi Hveragerðisbær setja sér stefnu um að þörf fyrir leiguíbúðir verði 25% af húsnæðisþörf til ársins 2028 í stað 15% eins og nú er og gert er ráð fyrir í þeirri húsnæðisáætlun sem liggur til samþykktar. Hér skiptir mestu að Hveragerðisbær axli ábyrgð í að bjóða upp á félagslegt leiguhúsnæði eins og áður er getið en einnig að bæjaryfirvöld beiti sér fyrir því að fleiri leiguíbúðir á almennum markaði verði byggðar í Hveragerði.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir


Kl. 18:11 var gert fundarhlé.
Kl. 18:37 hélt fundur áfram.

Breytingartillagan borin upp og felld með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Frjálsra með Framsókn en fulltrúar Okkar Hveragerðis með.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Frjálsra með Framsókn lögðu fram eftirfarandi bókun.
Hveragerðisbær hefur á síðasta ári keypt félagslegt leiguhúsnæði fyrir um 100 mkr. Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli Íbúðafélagsins Bjargs og Hveragerðisbæjar um byggingu almennra leiguíbúða þar sem gert er ráð fyrir 10 íbúðum í raðhúsum. Ennfremur er rétt að hafa í huga að íbúðir sem nú hafa verið nýttar í ferðamannaútleigu gætu verið komnar í almenna útleigu fljótlega. Almennar húsaleigubætur og sérstakar húsleigubætur koma sem stuðningur til leigjenda. Fulltrúar D og B lista telja í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu rétt að stíga varlega til jarðar og fella því tillöguna.

Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.

Bæjarstjórn samþykkir húsnæðisáætlunina með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis lýsa yfir miklum vonbrigðum með að meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafi ekki viljað fallast á tillögur um að Hveragerðisbær setji sér stefnu um aukið félagslegt leiguhúsnæði í bænum ásamt því að fjölga leiguíbúðum á almennum markaði. Undirrituð telja að annað í húsnæðisáætlun bæjarins standi á góðum grunni og greiða atkvæði með henni þó tillaga um að stefna að auknu og fjölbreyttari búsetumöguleikum í bæjarfélaginu hafi verið felld.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Kl. 18:51 var gert fundarhlé.
Kl.19:02 hélt fundur áfram.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Frjálsra með Framsókn lögð fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúar B og D lista mótmæla því að ekki sé komin fram stefna Hveragerðisbæjar um fjölgun íbúða í félagslega kerfinu sem og hvað varðar fjölgun leiguíbúða í bæjarfélaginu. Í húsnæðisáætluninni kemur einmitt fram að stefnt er að mikilli fjölgun þessara búsetuúrræða á næstu árum í bæjarfélaginu. Stóraukin aðkoma ríkisins með auknum fjármunum til stofnframlaga er síðan nauðsynleg eigi að vera hægt að ráðast í uppbyggingu fjölda íbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga.
Síðan er rétt að muna að nánari útfærsla og endanlegar ákvarðanir varðandi frekari fjárfestingar í búsetuúrræðum eru teknar í fjárhagsáætlun hvers árs.

Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.

6.Bréf frá Samgöngustofu frá 3. apríl 2020.

2004008

Lagt fram bréf frá Samgöngustofu frá 3. apríl 2020 þar sem óskað er eftir umsögn, samkvæmt 2. mgr. 3. gr laga nr. 65/2015 um ökutækjaleigu vegna leyfis MMS Company (MMS carrental) til rekstur ökutækjaleigu þar sem verið er að flytja ökutækjaleiguna frá Gljúfrahlolti 25 í Ölfusi að Austurmörk 11, 810 Hveragerði.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir erindið.

7.Stöðuskýrsla bæjarstjóra vegna Covid-19

2004009

Lögð fram fjórða stöðuskýrsla frá bæjarstjóra vegna Covid-19 gerð 8. apríl 2020.
Auk skýrslunnar eru lagðir fram minnispunktar frá bæjarstjóra vegna 5 funda í Aðgerðarstjórn Almannavarna Suðurlands.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Þórunn Pétursdóttir.
Stöðuskýrslan ásamt fylgigögnum lögð fram til kynningar.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?