Fara í efni

Bæjarstjórn

508. fundur 09. maí 2019 kl. 17:00 - 18:23 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Sigurður Einar Guðjónsson varamaður
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Sigrún Árnadóttir varaformaður
  • Garðar R. Árnason
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Ársreikningur 2018, síðari umræða

1905005

Á fundinn mætti Jóhann G. Harðarson, endurskoðandi, kynnti hann ársreikninginn og lagði fram endurskoðunarskýrslu sína.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Garðar Rúnar Árnason og Sigrún Árnadóttir.
Meirihluti Sjálfstæðismanna lagði fram eftirfarandi bókun:
Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2018 er jákvæð sem nemur 59,7 m.kr. Fjárhagur bæjarins er í traustum skorðum nú sem fyrri ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A og B hluta frá árinu 2012. Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar að undanförnu en einnig hefur aðhald og árvekni í rekstrinum reynst nauðsyn til að svo jákvæð niðurstaða næðist. Á árinu 2018 lauk að fullu stærstu framkvæmd kjörtímabilsins, byggingu 6 deilda leikskóla við Þelamörk. Meirihluti D-listans hugsar til framtíðar og er óhræddur við áskoranir eins og framkvæmdir undanfarin ár hafa sýnt. Á árinu 2018 var gengið frá kaupum á Kambalandinu en með þeim kaupum ásamt innlausn á erfðafestu Friðarstaða og kaupum á Sólborgarsvæðinu er Hveragerðisbæ tryggt nægt byggingaland til næstu áratuga.
Einnig hefur verið unnið að gatnagerð í Vorsabæ en þar verður mögulegt að úthluta enn fleiri lóðum til atvinnustarfsemi á næstunni.
Sterk stjórn á fjármálum bæjarins ásamt skynsamlegri uppbyggingu innviða og þjónustu hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum sú besta sem gerist á landinu. Fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fjöldi íbúða í byggingu. Því er fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum. Við aðstæður sem þessar er mikilvægt að fjármálum bæjarins sé áfram stýrt af festu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.
Ársreikningur 2018 sýnir sterka afkomu Hveragerðisbæjar bæði sveitarsjóðs og samstæðu(A og B hluta). Samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 300,9 mkr. eða sem nemur ríflega 10,5% af heildartekjum bæjarins.
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 378,5 mkr. eða sem nemur um 13,2% af heildartekjum samstæðu. Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2018 110 % sem er 40 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað.
Rekstrarniðurstaða samstæðu (A og B hluta) er jákvæð um 59,6 mkr.. Langtímaskuldir samstæðu að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 nema 2.600 mkr... Lífeyrisskuldbinding er 582 mkr.. Samtals gerir þetta 3.182 mkr. eða rétt ríflega 1,2 mkr. pr íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár. Fjárfestingar á árinu 2018 námu 300 mkr.. á móti fjárfestingu ársins 2017 er nam 522.3 mkr..
Helstu fjárfestingar ársins fólust í byggingu nýs leikskóla við Þelamörk(64 mkr.), kaupum á Kambalandi (203 mkr.), gatnagerð, vatns- og fráveituframkvæmdum(186 mkr.), endurbótum á sundlauginni Laugaskarði (75 mkr.) frágangi á Friðarstöðum (5.9 mkr.), viðgerðum á Mjólkurbúi (6,6 mkr.), aðrar fjárfestingar voru smærri á árinu. Tekjur vegna gatnagerðargjalda námu 216 mkr.. Tekin ný langtímalán voru 492 mkr. þar af vegna uppgjörs á skuldbindingum vegna lífeyrissjóðs Brúar 362 mkr.. Afborganir langtímalána námu 188,5 mkr..
Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 50% af skatttekjum, félagsþjónustan 11,4% og æskulýðs- og íþróttamál 9,2%.
Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðri og styrkri stjórn forstöðumanna bæjarins og framlagi starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Meirihluti D-listans færir þeim öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins. Fjárhagsáætlanir undanfarinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka.
Eyþór H. Ólafsson,
Friðrik Sigurbjörnsson,
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir,
Sigurður Einar Guðjónsson.

Bæjarfulltrúi B-listans leggur fram eftirfarandi bókun

Bæjarfulltrúi B-listans, Frjálsir með Framsókn, fagnar jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu bæjarins fyrir árið 2018. Fyrir því liggja nokkrar ástæður, svo sem gott samstarf innan bæjarstjórnar og árvekni forstöðumanna bæjarins, sem ber að þakka. Utanaðkomandi þættir skipta ekki síður máli, ekki síst að verðbólga hefur haldist lág undanfarin ár.
Undanfarin ár hefur framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna verið um 22% af tekjum Hveragerðisbæjar, sem endurspeglar hversu tekjulágt bæjarfélagið hefur verið. Á síðasta ári lækkaði framlag Jöfnunarsjóðs um 14 milljónir króna og er nú rúmlega 18% af tekjum bæjarins, m.a. vegna þess að skatttekjur bæjarins jukust um 159 milljónir, sem er jákvæð þróun til lengri tíma litið, að bærinn sé ekki eins háður framlögum Jöfnunarsjóðs eins og verið hefur.
Ánægjulegt er að sjá að veltufjárhlutfallið hefur hækkað á milli ára, úr 0,88 í 0,96, og er það annað árið í röð sem það hækkar eftir nokkur samfelld ár lækkunar frá 2011. Vonandi heldur sú þróun áfram og að veltufjárhlufallið komist yfir 1.
Undanfarin ár hafa einkennst m.a. af miklum og nauðsynlegum fjárfestingum í innviðum bæjarfélagsins, sem hefur leitt til aukinnar lántöku. Á milli ára jukust langtímalán bæjarins um 392 milljónir króna og námu í árslok um 2,3 milljörðum króna. Skuldahlutfallið hækkaði árið 2018, rétt eins og 2017. Í lok árs 2018 var hlutfallið 127,6%, en samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið þá var hlutfallið 110,4%. Þó svo að skuldahlutfallið samkvæmt reglugerð sé vel undir mörkum, veldur skuldsetningin ákveðnum áhyggjum. Afborganir langtímaskulda námu tæplega 190 milljónum á síðasta ári. Fjármagnsgjöld, þ.e. vextir og verðbætur, voru tæpar 213 milljónir, þar af má áætla að um 87 milljónir hafi laggst inn á lánin til greiðslu síðar og um 127 milljónir komið til greiðslu árið 2018. Með öðrum orðum þá er um miklar fjárhæðir að ræða og brýnt að hefja undirbúning að niðurgreiðslu lána.
Að mati bæjarfulltrúa B-listans er staða Hveragerðisbæjar sterk, með sína öflugu grunnstoðir, en með hagsýni og ráðdeild við fjármálastjórn bæjarins er framtíð bæjarins björt.
Garðar R. Árnason

Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi bókun.

Undanfarin ár hefur fjárhagsáætlun verið unnin í samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur það, ásamt hæfu starfsfólki Hveragerðisbæjar, bætt fjármálastjórn bæjarins. Ársreikningur Hveragerðisbæjar sýnir þó að skuldir bæjarins eru að aukast annað árið í röð. Skuldahlutfall samstæðu í árslok 2018 var 127,6% (110,4% samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið). Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til framkvæmda sveitarfélagsins, s.s. bygging Leikskólans Undralands. Framundan er stór framkvæmd vegna viðbyggingar við Grunnskólann í Hveragerði og þarf að huga vel að fjármálastjórn bæjarins svo að stöðugleika í rekstri bæjarins sé ekki ógnað. Einnig vekur athygli að framlag Jöfnunarsjóðs lækkar á milli ára og þar af leiðandi lækkar hlutfall framlagsins af heildartekjum sveitarsjóðs. Ástæða þessa er að tekjur bæjarins eru að hækka og er það ánægjuefni. Hærri tekjur eru lykilatriði til að hægt sé að greiða skuldir hraðar niður og auka þjónustu við bæjarbúa. Til þess að hækka tekjur bæjarins þarf að efla atvinnulíf í bænum, að fleiri fyrirtæki byggi hér upp starfsemi sína og fleiri fjölbreytt störf verði í boði innan bæjarfélagsins. Bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði hefur bent á að Hveragerðisbær geti gert miklu betur til að stuðla að öflugu atvinnulífi, s.s. með því að ráða atvinnu- og markaðsfulltrúa. Eina sem þarf til er vilji meirihluta bæjarstjórnar.

Sigrún Árnadóttir
Þórunn Pétursdóttir


Ársreikningurinn samþykktur og undirritaður.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 2.maí 2019.

1904002F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 12

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Garðar R. Árnason og Þórunn Pétursdóttir.
Liður 12 "Minnisblað frá skrifstofustjóra - Yfirdráttarheimild í Arion banka" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarráð samþykkir yfirdráttarheimild upp á 55 mkr. hjá Arion banka.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 7. maí 2019.

1905003

Liðir afgreiddir sérstaklega 1,2,3,5,6 og 7.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Garðar R. Árnason, Sigurður Einar Guðjónsson og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 1 "Grenndarkynning á óverulegri breytingu á deiliskipulagi Reykjadals í Ölfusi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn ítrekar afgreiðslu bæjarráðs frá 3. september 2015 þar sem óskað er eftir rökstuðningi bæjarstjórnar Ölfuss um að umrædd breyting á deiliskipulagi sé óveruleg og jafnframt eftir niðurstöðu valkostagreiningar með vísan í bókun skipulags- og byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 20. ágúst 2015 um að fyrir u.þ.b. ári síðan hafi legið fyrir þrjár tillögur að staðsetningu á fjárrétt á svæðinu. Bæjarstjórn tekur undir með skipulags- og mannvirkjanefnd að texti á deiliskipulagsuppdrætti um endurgerð réttar í Ölfusdal, sé mjög villandi.
Liður 2 "Miðbæjarsvæði, lystigarðurinn Fossflöt og athafnasvæði Vorsabæ, tillögur að breytingum deiliskipulagsáætlunum, athugasemdir sem borist hafa" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn þakkar viðkomandi aðilum fyrir umsagnir og athugasemdir þeirra við deiliskipulagstillögurnar þrjár. Bæjarstjórn samþykkir tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis með þeirri viðbót við greinargerð að þar verði tekið fram að Varmá sé við deiliskipulagssvæðið og sé á náttúruminjaskrá. Bæjarstjórn samþykkir breytingu á deiliskipulagi Lystigarðsins Fossflöt óbreytta og breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis við Vorsabæ með þeim breytingum að veghelgunarsvæði verði sýnt á deiliskipulagsuppdrætti athafnasvæðis eins og Vegagerðin óskar eftir, að siturlaut (S1) verði færð og bætt verði inn í greinargerð texta um vöktun vatnsbóla í landi Öxnalækjar í samræmi við tillögur Landform ehf. Bæjarstjórn samþykkir efnislega umsögn Landform ehf. sem svar við athugasemdum Taxus ehf.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að láta meta kostnað við að girða af gömlu bæjarhólana í Vorsabæ, eins og minjavörður Suðurlands leggur til og leggja kostnaðaráætlun fyrir bæjarráð.
Bæjarstjórn tekur jákvætt í hvatningu Minjastofnunar um að ráðist verði í endurskoðun fornleifaskráningar í Hveragerði og í tillögu Landform ehf. um að gerð verði könnun á mögulegum nýjum vatnstökustöðum undir Kömbum og vísar þeim verkefnum til gerðar næstu fjárhagsáætlunar.
Bæjarstjórn tekur undir með Umhverfisstofnun að mikilvægt sé að nægt rými sé fyrir aðgengi almennings meðfram Varmá og er sammála bókun skipulags- og mannvirkjanefndar um að fyrirhuguð staðsetning þjónustuhúss í lystigarðinum falli vel að skipulagi hans og raski hvorki verndunargildi né ásýnd svæðisins.

Liður 3 "Kambaland, fjölgun íbúða á fjölbýlishúsalóðum(S)" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn hafnar ósk Tálkna ehf. um að íbúðum á fjölbýlishúsalóðum S verði fjölgað en samþykkir að nýtingarhlutfall lóðanna verði 0,5.

Liður 5 "Lækjarbrún 34-43, fjölgun bílastæða á lóð" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir erindið.

Liður 6 "Veitingarhúsið Varmá, skilti" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn er sammála röksemdum umsækjanda um að veitingahúsið Varmá sé utan alfaraleiðar og að því sé nauðsynlegt að setja upp skilti sem vísar leiðina þangað með skýrum hætti. Bæjarstjórn samþykkir því að heimila Frost og Funa ehf. að setja upp skilti á þeim stað sem óskað er eftir að teknu tilliti til öryggis vegfarenda.

Liður 7 "Bláskógar 1, parhús, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn er sammála bókun skipulags- og mannvirkjanefndar og samþykkir að byggingarleyfi verði veitt fyrir parhúsi Bláskógar 1 í samræmi við fyrirliggjandi aðaluppdrætti.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 30. apríl 2019

1905002

Enginn tók til máls:
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 17.apríl 2019.

1905001

Í bréfinu er rætt um lög um opinber innkaup sem taka að fullu gildi 31. maí 2019. Jafnframt er lagt fram upplýsingapóstur frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna laganna.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að gera tillögu að breytingum á innkaupaferlum Hveragerðisbæjar til samræmis við nýju lögin sem taka gildi þann 31. maí 2019.

6.Þjónustusamningur við Foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði.

1905004

Lagður fram þjónustusamningur við Foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði sem gildir til 31. desember 2021.

Enginn tók til máls.
Þjónustusamningurinn samþykktur samhljóða.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:23.

Getum við bætt efni síðunnar?