Fara í efni

Bæjarstjórn

506. fundur 14. mars 2019 kl. 17:00 - 19:36 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Ingibjörg Zoéga Björnsdóttir varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir varamaður
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Varaforseti bæjarstjórnar, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir setti fund og stjórnaði.

Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar bauð varaforseti Ingibjörgu Zoéga Björnsdóttur velkomna á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 21.febrúar 2019.

1902003F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 8,10,11,12,13,14 og 15.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 8 "Bréf frá Nordjobb frá 1. febrúar 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 10 "Opnun tilboða - Jarðvegsframkvæmdir í Hveragerði 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðenda Arnon ehf.

Liður 11 "Tilboð frá Héðni frá 14. febrúar 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tilboðið.

Liður 12 "Samningur um afnotarétt - Hengill" afgreiddur sérstaklega.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð og Aldís Hafsteinsdóttir, sem hefur lengstu setu í bæjarstjórn, tók við stjórn fundarins.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

Liður 13 "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa - Heilsueflandi samfélag" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að sækja um þátttöku Hveragerðisbæjar í verkefninu og að vinna við innleiðingu Heilsueflandi samfélags hefjist sem fyrst.

Liður 14 "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa - Heilsueflandi verkefni með eldri borgurum bæjarins" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að fara í verkefnið en bæjarfulltrúar hafa þegar samþykkt verkefnið sín á milli með óformlegum hætti enda er það þegar hafið við miklar vinsældir.

Liður 15 "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa - Íþrótta og ævintýranámskeið sumarið 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir breytingarnar.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.


2.Fundargerð bæjarráðs frá 7.mars 2019.

1902004F

Liðir afgreiddir sérstaklega 6,10,11,12 og 13.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Þórunn Pétursdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Liður 6 "Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 28. febrúar 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að óska eftir að vera aðili að íbúasamráðsverkefninu.

Liður 10 "Bréf frá Íslenska ferðaklasanum frá 15. febrúar 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að gerast aðili í eitt ár til reynslu.

Liður 11 "Bréf frá Bakkastofu á Eyrarbakka frá 1. mars 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að koma að umræddum tónleikum með kr. 100.000 framlagi gegn því að einnig verði haldnir tónleikar í grunnskóla bæjarins.

Liður 12 "Leigu- og rekstrarsamningur vegna Laugasports" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

Liður 13 "Samningar vegna sýningarinnar Sjálfbæra græna Íslands 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir véku af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð og Aldís Hafsteinsdóttir, sem hefur lengstu setu í bæjarstjórn, tók við stjórn fundarins.
Bæjarstjórn samþykkir samninganna með 3 atkvæðum meirihlutans, Fulltrúar Okkar Hveragerði sátu hjá.

Kl. 17:29 var gert fundarhlé.
Kl. 17:55 hélt fundur áfram.

Í lið 8 "Bréf til sveitarfélaga frá samgöngunefnd SASS 2019" eru spurningar til sveitarfélaga vegna samgöngumála.
1. Hver eru þrjú helstu forgangsverkefni í nýframkvæmdum er varða samgöngur í
sveitarfélaginu ykkar?
2. Hver eru þrjú helstu forgangsverkefni í rekstri og viðhaldi samgöngumannvirkja í
sveitarfélaginu ykkar?
3. Ef horft er á Suðurland sem heild, hvaða þrjár samgönguframkvæmdir myndi sveitarsjórn
ykkar setja fremst á blað, aðrar en í ykkar sveitarfélagi?
4. Hver er afstaða sveitarstjórnar er varða áætlanir ríkisstjórnar um veggjöld?
5. Hvaða sýn hefur sveitarstjórn á fyrirkomulag almenningssamgangna á Suðurlandi?
6. Annað sem sveitarstjórn vill koma á framfæri við samgöngunefnd SASS?

Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi svör:
1: Klára þarf framkvæmdir við breikkun Suðurlandsvegar milli Kamba og Biskupstungnabrautar. Skilyrðislaust verður að setja í forgang færslu þjóðvegarins neðan Hveragerðisbæjar.
2: Vanda skal til verka við malbikun á þjóðvegum þannig að viðgerðir endist betur en nú er.
3: Tvöföldun frá Vesturlandsvegi og upp að Sandskeiði. Bundið slitlag á innansveitarvegi sýslunnar. Sjá þarf til þess að helstu ferðamannavegir geti annað þeirri umferð sem um þá fer. Útrýma þarf einbreiðum brúm sérstaklega í Uppsveitum Árnessýslu (brúin yfir Tungufljót) og á þjóðvegi nr. 1.
4: Bæjarstjórn er alfarið á móti innheimtu veggjalda nema jafnræðis sé gætt milli allra vegfarenda.
5: Almenningssamgöngur eru nauðsynlegar og hvað varðar Hveragerði og vesturhluta Árnessýslu er mikilvægt að haldið sé því góða fyrirkomulagi sem hér hefur verið komið upp enda treysta fjölmargir á almenningssamgöngur til að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu til vinnu. Gjaldtöku vegna almenningssamgangna verði haldið í lágmarki en hækkun fargjalda hefur verið langt umfram verðlagsþróun síðustu ár.
6: Ekkert.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 5.mars 2019.

1903023

Liðir afgreiddir sérstaklega: 2,3,4,5,6 og 7.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 2 "Vorsabær, athafnasvæði, breyting á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að breytingartillagan verði auglýst í samræmi við 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 3 "Miðbæjarsvæði og Lystigarðurinn Fossflöt, breytingar á deiliskipulagsáætlunum" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að breytingar á deiliskipulagi miðbæjarsvæðisins og Lystigarðsins Fossflöt verði auglýstar skv. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að haldinn verði almennur kynningarfundur um deiliskipulagstillögurnar.

Liður 4 "Kambahraun 51, umsókn um stækkun lóðar og leyfi til að byggja við íbúðarhús og bílskúr, niðurstaða grenndarkynningar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir erindið en komið verði til móts við athugasemdir og mön verði lækkuð um 1 metra og opnuð með 2 metra breiðu skarði til vesturs.

Liður 5 "Heiðmörk 37-39 skipting lóðar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir erindið.

Liður 6 "Óheimil notkun húsnæðis" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að fela byggingarfulltrúa að kanna hvort og þá hvar slík notkun eigi sér stað og í framhaldi af því, knýja fram úrbætur sbr. ákvæði 1.mgr. 56.gr. mannvirkjalaga, til að tryggja öryggi þeirra sem e.t.v. búa eða gista í ósamþykktu íbúðar- eða gistihúsnæði.

Liður 7 "Bláskógar 1, fyrirspurn um byggingu parhúss" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu til grenndarkynningar.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skólaþjónustu - og velferðarnefndar frá 12.desember 2018.

1903012

Með fundargerðinni fylgdi starfsáætlun skóla- og velferðaþjónustu.
Enginn tók til máls.
Kl. 18:13 var gert fundarhlé.
Kl. 18:17 hélt fundur áfram.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar frá 27.febrúar 2019.

1903025

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Lánasamningur frá Lánasjóði Sveitarfélaga.

1903026

Lagður fram lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga upp á 59 m.kr.lán.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstólsfjárhæð allt að kr. 59.000.000, með útgreiðslufjárhæð allt að kr. 58.455.003.- með lokagjalddaga þann 5. apríl 2055, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.

Bæjarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Er lánið tekið til fjármögnunar til kaupa á félagslegu húsnæði sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Aldísi Hafsteinsdóttur, kt. 211264-5009, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Sveitarfélagsins Hveragerðisbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

7.Gjaldskrá byggingargjalda 2019, síðari umræða.

1903028

Lögð fram til síðari umræðu leiðrétt gjaldskrá byggingargjalda fyrir árið 2019.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

8.Bréf frá Ási dvalar- og hjúkrunarheimilinu frá 25.febrúar 2019.

1903024

Lagt fram bréf frá Ás dvalar- og hjúkrunarheimili vegna byggingar nýs hjúkrunarheimilis í Hveragerði.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Friðrik Sigurbjörnsson.
Bæjarstjórn fagnar áformum forsvarsmanna Áss um nýbyggingu en með tilkomu hennar yrðu aflögð tvíbýlisherbergi á núverandi hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými sem staðsett eru í húsum utan hjúkrunarheimilisins. Eru þær breytingar afar brýnar. Bæjarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þessara framkvæmda og lýsir yfir vilja til að koma að framkvæmdum með þeim hætti sem lýst er í erindinu. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara og vinna að framgangi málsins með öllum tiltækum ráðum.
Bæjarstjórn samþykkir að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja vinnu við deiliskipulag á svæðinu sem tekur mið af þessum tillögum.

9.Bréf frá Héraðsnefnd Árnesinga frá 3.mars 2019.

1903009

Lagt fram bréf frá Héraðsnefnd Árnesinga vegna kaupa og endurbóta á fasteigninni Búðarstíg 22 á Eyrarbakka fyrir Byggðasafn Árnesinga jafnframt er óskað eftir einfaldri ábyrg Hveragerðisbæjar vegna lántöku vegna kaupanna hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjórn fagnar því að húsnæðismál Byggðasafns Árnesinga komist með þessum hætti í ásættanlegt horf til framtíðar. Með kaupunum telur bæjarstjórn að gefist ný tækifæri til að styrkja og efla safnastarfsemi á Suðurlandi.
Bæjarstjórn samþykkir erindið. Lántaka vegna kaupanna er einnig samþykkt með eftirfarandi bókun:

Hveragerðisbær samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð á sínum hluta vegna lántöku stofnunar Héraðsnefndar Árnesinga, Byggðasafni Árnesinga hjá Lánasjóði sveitarfélaga að upphæð 100.000.000 kr. til allt að 15 ára.
Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og er hún óskipt (in solidum) gagnvart kröfuhafa, en innbyrðis skiptist hún í hlutfalli við eignarhluti í Byggðasafni Árnesinga.
Hveragerðisbær veitir lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að ganga frá kaupum á húsnæði Byggðasafnsins á Eyrabakka og endurbótum þess sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Bæjarstjórn Hveragerðis skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Byggðasafns Árnesinga til að breyta ekki ákvæði samþykkta stofnunar sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.
Fari svo að Hveragerðisbær selji eignarhlut í Byggðasafni Árnesinga til annarra opinberra aðila, skuldbindur Hveragerðisbær sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.
Jafnframt er Aldísi Hafsteinsdóttur kt. 211264-5009, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Hveragerðisbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar með áritun á lánssamninginn.

10.Húsnæðisáætlun 2019-2027.

1903031

Lögð fram drög að húsnæðisáætlun fyrir Hveragerðisbæ fyrir árin 2019-2027 gerð af VSÓ ráðgjöf.

Eftirtaldir tóku til máls: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Þórunn Pétursdóttir.
Hlutverk húsnæðisáætlana sveitarfélaga er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, til skemmri og lengri tíma. Húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er hér lögð fram til fyrri umræðu en í áætluninni er gerð grein fyrir helstu forsendum á sviði húsnæðismála í Hveragerðisbæ.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn.

11.Tillaga um að kolefnisjafna ökutæki í eigu Hveragerðisbæjar frá Frjálsum með Framsókn.

1903032

Fulltrúi Frjálsa með framsókn lagði fram eftirfarandi tillögu.

Undirrituð leggur til að bæjarstjóra verði falið að kanna kostnað við að kolefnisjafna ökutæki í eigu Hveragerðisbæjar.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Greinargerð
Markmið þessa væri að skipa sér í fremstu röð íslenskra sveitarfélaga í umhverfismálum og skila Hveragerðisbæ í góðu ástandi til komandi kynslóða en eins og segir í umhverfisstefnu Hveragerðisbæjar: “Það er stefna bæjarstjórnar að Hveragerðisbær skipi sér í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi á sviði umhverfismála. Bæjarstjórn vill tryggja að Hveragerðisbæ verði skilað til komandi kynslóða í jafngóðu eða betra ástandi á sviði umhverfismála en áður var.?
Á heimasíðu Kolviðar má kynna sér kolefnisjöfnun einstaklinga sem og fyrirtækja. Hveragerðisbær gæti t.d. gert samstarfssamning um kolefnisbindingu í þeim tilgangi að jafna útblástursmengun ökutækja sinna fyrst um sinn. Síðar mætti skoða kolefnisjöfnun vegna flugferða starfsmanna og gesta. Sjóðurinn gerir einnig samninga við skógræktarfélög eða verktaka um gróðursetningu.

Bæjarstjórn leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:
Hveragerði setji sér markmið um að verða kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030. Umhverfisnefnd verði falið að undirbúa gerð loftslagsstefnu fyrir Hveragerðisbæ og það hvernig fylgja megi henni efir með gerð aðgerðaráætlunar um hvernig bærinn hyggst ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.
Greinargerð:
Sveitarfélög landsins bera ríka ábyrgð á því hvort Ísland nái að uppfylla skuldbindingar sínar í Parísasamkomulaginu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Með því að setja sér markmið um kolefnishlutlaust sveitarfélag fyrir 2030 myndi Hveragerði skipa sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Þórunn Pétursdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Kl. 19:04 var gert fundarhlé.
Kl. 19:17 hélt fundur áfram.

Breytingartillagan samþykkt samhljóða.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:36.

Getum við bætt efni síðunnar?