Fara í efni

Tíðarandi

Listasafn Árnesinga - Austurmörk 21 13. jún - 6. sep

Laugardaginn 13. júní opnar sýningin Tíðarandi – samtímaverk úr einkasafni Skúla Gunnlaugssonar í Listasafni Árnesinga. Sýningin samanstendur af fjölbreyttum verkum úr safni læknisins og listaverkasafnarans Skúla Gunnlaugssonar og eiga verkin það sameiginlegt að vera unnin á síðastliðnum áratug. Listamennirnir á sýningunni tilheyra yngri kynslóð listamanna og hafa verið áberandi í íslensku myndlistarlífi undanfarin ár. Samband listamanns við menningu og anda síns tíma er útgangspunktur sýningarinnar Tíðarandi og skoðað verður hvernig lesa má þjóðfélagslegar hræringar í gegnum listir.

Sýningin Tíðarandi kallast á við sýninguna Gjöfin til íslenzkrar alþýðu – stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ sem sett var upp í Listasafni Árnesinga fyrir nákvæmlega einu ári síðan. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að miðla verkum úr safni einkasafnara sem tilheyra sitthvorri kynslóðinni og má segja að verkin á sýningunum varpi ljósi á tíðaranda tveggja tíma. Listaverkasafnararnir Ragnar og Skúli eiga báðir ættir sínar að rekja til Árnessýslu og hafa átt stóran þátt í því að kynna og kenna þjóðinni að meta íslenska myndlist.

Sýningarstjóri: Vigdís Rún Jónsdóttir

Listasafn Árnesinga

Getum við bætt efni síðunnar?