Fara í efni

Viljayfirlýsing um uppbyggingu á Sólborgarsvæðinu

Hveragerðisbær og Þróunarfélag NLFÍ slhf. hafa samþykkt viljayfirlýsingu um að hefja viðræður með það að markmiði að ná samkomulagi um skipulagningu á svokölluðu Sólborgarsvæði sem liggur austan Varmár og að Þróunarfélagið fái heimild til uppbyggingar á landinu.

Áformuð uppbygging felur m.a. í sér íbúðabyggð, svæði fyrir 6* hótel, heilsu- og vellíðunar dvalarstað, sem njóti sérhæfðrar ráðgjafar og faglegrar þjónustu frá Heilsustofnun, og fræðslusetur á sviði sjálfbærni og umhverfismála. Jafnframt verði fjallað um möguleika á stækkun og endurnýjun á húsnæði og aðstöðu Heilsustofnunar á núverandi svæði hennar í Hveragerði. Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að farið verði yfir uppbyggingu nauðsynlegra innviða á svæðinu og greiðslur þar að lútandi.

Rík áhersla er á að hafa víðtækt samráð við íbúa sveitarfélagsins um þróun og uppbyggingu svæðisins.

Viljayfirlýsingin gildir til næstu áramóta með möguleika á framlengingu um sex mánuði.

Af hálfu Náttúrulækningafélag Íslands, sem er eigandi Þróunarfélagsins, er lögð áhersla á að með verkefninu er ætlunin að skapa skilyrði til endurnýjunar og uppbyggingar á húsnæði Heilsustofnunar og auka faglegan styrk hennar til framtíðar. Markmiðið er að svæðið verði eftirsótt til búsetu, eftirsóttur áfangastaður og til fyrirmyndar í sjálfbærni og umhverfismálum.

Bæjarstjórn Hveragerðis sér mikil tækifæri í áformaðri uppbyggingu, m.a. á áhugaverðum og einstökum heilsu- og vellíðunar dvalarstað og íbúðabyggð, ásamt skólum og annarri þjónustu við íbúa með sjálfbærni að leiðarljósi, auk þess að styðja við starfsemi Heilsustofnunar og uppbyggingu á atvinnu í Hveragerði.


Síðast breytt: 21. júlí 2022
Getum við bætt efni síðunnar?