Fara í efni

Velkomin á Blómstrandi daga

Dagskrá Blómstrandi daga

Á morgun, fimmtudaginn 11. ágúst, hefjast Blómstrandi dagar í Hveragerði, árleg bæjarhátíð sem stendur fram á sunnudag.

Hátíðin er sannkölluð menningarveisla og henni fylgir blómlegt líf og skemmtileg stemning í bænum. Dagskráin í ár er metnaðarfull og fjölbreytt fyrir alla fjölskylduna. Þar má nefna listsýningar, sögugöngur- og ferðir, markaðstorg, opnar vinnustofur og gallerí hjá fjölmörgum listamönnum og bæjarbúum.

Á laugardag verður fjölskyldudagskrá í Lystigarðinum þar sem fram koma meðal annars Friðrik Dór og Lína Langsokkur, félagar í Hljómlistarfélaginu, Diskótekið Dísa og fleiri.

Á sunnudagsmorguninn verður útimessa í Lystigarðinum með séra Ninnu Sif og Lay Low sér um tónlistina. Þar sýnir líka Leikhópurinn Lotta og BMX Brós leika listir sínar. Íþróttafélagið Hamar fagnar 30 ára afmæli sínu og býður hressum krökkum í ljósabolta, þrautabraut, froðubolta, DJ í sundi, leiki og fjör.

Þá bjóða fjölmörg þjónustufyrirtæki í Hveragerði upp á fjölbreytta dagskrá, þar á meðal þrautabraut Hjalta Úrsus í boði Kjöríss, gleðitónleika við Matkrána, listsýningar í garðyrkjustöðvunum Flóru og Ficus, harmonikkufestival í Blómaborg, markaðsstemningu og grínistakvöld í Rósakaffi, Jibbí torfærubílinn við Hofland Eatery, djass í Reykjadal Skála og fleira.

Vönduð tónlistardagskrá verður alla dagana á Blómstrandi dögum, þar sem landsfrægir tónlistarmenn koma fram. Sóli Hólm skemmtir á Hótel Örk annað kvöld, Djassband Ómars Einars kemur fram á föstudag í Listasafninu og Heimir Eyvindar og hljómsveit verður með 90’s nostalgíu. Á laugardag verður glæsileg kvöldvaka á útisviðinu í Lystigarðinum þar sem koma meðal annars fram Jónas Sig og Ómar Guðjóns, Sycamore Tree, Dagný Halla og Værð.

Síðast en ekki síst sér Gunni Óla um brekkusönginn og að lokum verður stórglæsileg flugeldasýning, en Gunni Óla og hljómsveit leika á Blómadansleiknum sem verður á Hótel Örk.

Við bjóðum alla velkomna til okkar á Blómstrandi daga sem er frábært tilefni til að heimsækja bæinn og njóta alls þess sem hann hefur upp á að bjóða

 


Síðast breytt: 10. ágúst 2022
Getum við bætt efni síðunnar?