Fara í efni

Umsögn um úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna

Hér hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver hefði setið í skrifborðstólnum sem hér gægis…
Hér hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef einhver hefði setið í skrifborðstólnum sem hér gægist upp úr hillusamstæðunni sem féll í jarðskjálftanum 2008.

Á fundi bæjarráðs þann 4. febrúar var tekin til afgreiðslu ósk Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem óskað er  eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.

Bæjarráð samþykkti einróma eftirfarandi bókun og hefur henni verið komið á framfæri við nefndina: 

Bæjarráð fagnar þeirri tillögu sem þarna er komin fram og þar með því að fyrirhugað sé að gera úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara.
Bæjarráð vill þó gera tvær athugasemdir og óskar eftir að tillit verði tekið til þessara atriða við frekari vinnslu málsins.

Í fyrsta lagi óskar bæjarráð eftir því að horft verði til náttúruhamfara sem riðið hafa yfir síðustu 15 árin en ekki eingöngu síðustu 10 árin en með þeirri breytingu yrðu afleiðingar jarðskjálftanna sem riðu yfir Suðurland í maí 2008 teknar með í umræddri úttekt.

Í öðru lagi óskar bæjarráð eftir því að kannað verði hver sé staða íbúa varðandi mögulegt tjón sem orðið getur af manngerðum náttúruhamförum en niðurdælingar eru þekkt orsök jarðskjálfta og því mikilvægt að tryggingavernd íbúa sé alveg skýr ef að mögulega yrði tjón af slíkum völdum.
 
Það er mikilvægt fyrir Hvergerðinga að Alþingismenn taki tillit til þessara athugasemda og vonumst við til að það verði gert. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 

Síðast breytt: 4. febrúar 2022
Getum við bætt efni síðunnar?