Fara í efni

Um 100 ha land Öxnalækjar nú í eigu Hvergerðinga

Myndin sýnir það landsvæði sem um er að ræða
Myndin sýnir það landsvæði sem um er að ræða

Skrifað hefur verið undir samninga um kaup Hveragerðisbæjar á landi kennt við Öxnalæk alls 96,6 ha auk um það bil 12% eignahlutar í félagi sem á landspildu neðan við þjóðveg alls 13,3 ha.. Því landi fylgja m.a. jarðhitaréttindi og dæluhús. Viðræður um kaupin hafa staðið yfir í nokkurn tíma en nú er þeim lokið með ákjósanlegum hætti fyrir báða aðila.  Kaupverð er 84 m.kr., fyrir umrætt land, hlutinn í félaginu og þeim réttindum sem honum fylgja. Með kaupum á þessu svæði hefur Hvergerðisbær einfaldað allt utanumhald skipulagsmála í bæjarfélaginu en flókið eignarhald á reitum innan bæjarmarka hefur torveldað mjög skipulagningu í vestasta hluta bæjarfélagsins. 

Stór hluti umrædds lands nær frá Ljóðalaut, yfir Hamarinn og inn í Dal. Það er mikilvægt fyrir bæjarfélagið að fara með eignarhald á þessu svæði til þess að geta af krafti framfylgt þeirri stefnumörkun sem mörkuð hefur verið í aðalskipulagi og framtíðarsýn bæjarstjórnar um uppbyggingu þar. Á svæðinu er bæði vatnsvernd og skógrækt og ríkir möguleikar til útivistar sem tengjast uppbyggingu ferðaþjónustu í dalnum, sem mikilvægt er að bæjarfélagið geti stýrt milliliðalaust.

Hér er einnig verið að einfalda eignarhald fyrir neðan þjóðveg til að liðka fyrir uppbyggingu á því svæði en þar eru ríkir möguleikar til stækkunar á byggingarsvæðum þar sem uppbygging er nú í gangi. Þar eru einnig hagsmunir vegna vatnsverndar sem mikilvægt er að haldið sé utan um af festu. Með því að eignast hluti í því félagi sem þarna á stóra spildu verður mögulegt að hafa áhrif á nýtingu hennar til framtíðar. Slíkt mun liðka fyrir og auðvelda framtíðar uppbyggingu á svæðinu.

Það er mat bæjarstjórnar að til framtíðar séu í þessu landi falin mikil verðmæti fyrir Hveragerðisbæ, bæði hvað varðar uppbyggingu og útivist eins og farið var ítarlega yfir á fundi bæjarstjórnar. 

Gengið hefur verið frá viðauka við fjárhagsáætlun vegna þessa en kaupin verða fjármögnum með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga á afar hagstæðum vöxum. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 9. júlí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?