Fara í efni

Tré gróðursett til heiðurs Guðríði

Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 18. nóvember:

Bæjarráð Hveragerðisbæjar óskar Guðríði Aadnegaard, námsráðgjafa og umsjónarkennara við Grunnskólann í Hveragerði, innilega til hamingju með hvatningarverðlaun Dags gegn einelti sem veitt voru 9. nóvember sl. og afhent voru af forseta Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra.

Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum og varð Guðríður fyrir valinu vegna þess ómetanlega starfs sem hún hefur unnið í eineltismálum undanfarin ár. Guðríður þykir einnig einkar góð fyrirmynd sem lagt hefur mikið af mörkum til þess að skapa jákvæða menningu í skóla sínum. Þá hefur hún einnig unnið af kappi fyrir íþróttahreyfinguna og hafa störf hennar þar einkennst af metnaði, virðingu og hlýju fyrir börnum og öðru samferðafólki rétt eins og í skólanum okkar. Það er okkur Hvergerðingum ómetanlegt að hafa jafn hæfa starfsmenn og Guðríði í þjónustu við yngstu íbúa bæjarins.

Í tilefni af viðurkenningunni verður gróðursett tré í Lystigarðinum Fossflöt sem með táknrænum hætti mun dafna til framtíðar og minna okkur öll um leið á mikilvægi þess að allir einstaklingar fái að dafna og njóta sín í bænum okkar.

Myndirnar eru teknar þegar bæjarstjóri og formaður fræðslunefndar, Alda Pálsdóttir, afhentu Guðríði blóm í tilefni af viðurkenningunni.  Þessir kátu krakkar á myndinni eru í 8. bekk Grunnskólans í Hveragerði og eru umsjónarhópur Guðríðar og Margrétar Ísaksdóttur sem sést einnig á myndunum. 

Aldís Hafsteisndóttir
Bæjarstjóri 

 


Síðast breytt: 18. nóvember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?