Fara í efni

Þrír þjónustusamningar undirritaðir

Helga Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri og starfandi bæjarstjóri Hveragerðisbæjar undirritaði þjónustusamninga fyrir hönd bæjarins við Skátafélagið Strók og Golfklúbb Hveragerðis síðastliðinn föstudag, 5. apríl. Í dag, mánudaginn 8. apríl, var síðan undirritaður samningur við Hjálparsveit skáta í Hveragerði, HSSH. Allir samningarnir eru til þriggja ára, til ársloka 2026.

Golfklúbbur Hveragerðis

Vignir Demusson, formaður GHG, undirritaði samninginn fyrir hönd félagsins. Samningnum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda og Golfklúbbs Hveragerðis og tryggja öflugt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga í Hveragerði. Með samningi þessum er markmiðið að efla golfíþróttina í Hveragerði og að sem flestum gefist kostur á þátttöku í greininni án óhóflegrar gjaldtöku. Til að efla áhuga bæjarbúa á golfíþróttinni mun GHG standa fyrir golfnámskeiði fyrir börn og unglinga í samvinnu við Hveragerðisbæ. Þá mun GHG áfram sjá um slátt og almennt viðhald á íþróttavöllum bæjarins.

Skátafélagið Strókur

Samningurinn við Skátafélagið Strók er gerður til að tryggja öflugt forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í Hveragerðisbæ. Þar er lögð áhersla á mikilvægi þess öfluga starfs sem fer fram innan Skátafélagsins fyrir samfélagið í heild. Til þess að félagið geti rækt hlutverk sitt sem best styrkir Hveragerðisbær félagið árlega með beinum og óbeinum fjárframlögum en á móti tekur félagið að sér tiltekin verkefni fyrir bæinn.

Það var Sjöfn Ingvarsdóttir skátaforingi sem undirritaði samninginn fyrir hönd Stróks.

Hjálparsveit skáta í Hveragerði

Samningi Hveragerðisbæjar og HSSH er ætlað að efla samstarf milli aðila og tryggja öflugt almannavarna-, félags- og öryggisstarf í Hveragerði. Samningnum er ætlað að tryggja enn frekar starfsemi HSSH, enda lítur bæjarstjórn Hveragerðisbæjar svo á að félagið sinni öflugu félags- og forvarnarstarfi ásamt því að vera mikilvægur hlekkur í öryggismálum bæjarbúa. Þá heldur HSSH tvær flugeldasýningar í Hveragerði ár hvert; á Blómstrandi dögum og á Gamlárskvöld.

Það var nýr formaður HSSH, Arnar Ingi Ingólfsson, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Hjálparsveitar skáta í Hveragerði.


Síðast breytt: 8. apríl 2024
Getum við bætt efni síðunnar?