Þjónustusamningur við Hveragerðissókn undirritaður
Nýr þriggja ára samningur milli Hveragerðisbæjar og Hveragerðissóknar var undirritaður í hádeginu í dag og nær hann yfir samstarf bæjar og kirkju í víðu samhengi.
Meðal þess sem Hveragerðiskirkja leggur til samkvæmt samningnum er öflugt barna- og æskulýðsstarf, barnakór og foreldramorgna yfir vetrartímann. Sértæk verkefni kirkjunnar felast í því að barnakórinn syngur við tendrun jólatrésins í Lystigarðinum á fyrsta sunnudegi í aðventu, guðsþjónustu á Blómstrandi dögum, hugvekju og bæn á 17. júní auk skipulags og utanumhalds um dagskrá fyrir börn og ungmenni á sumardaginn fyrsta. Þá hefur Hveragerðisbær heimild til að nýta safnaðarheimili kirkjunnar til fundahalda og annarra viðburða allt að sex sinnum á ári.
Hveragerðisbær leggur til fasteignagjöld fyrir Hveragerðiskirkju og sinnir umhirðu á lóð kirkjunnar yfir sumartímann. Loks er fjárstyrkur sem nemur kr. 600.000 árið 2025 en árin 2026-27 nemur styrkurinn kr. 1.000.000 fyrir hvort ár.
Eyjólfur Kolbeins formaður sóknarnefndar undirritaði samninginn fyrir hönd Hveragerðissóknar og sagði við þetta tilefni að samningurinn myndi gjörbreyta stöðunni varðandi barna og æskulýðsstarf næstu árin í þröngri fjárhagsstöðu kirkjunnar.
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, Pétur Markan, undirritaði samninginn fyrir hönd bæjarins og hafði orð á því hversu dýrmætu hlutverki kirkjan sinnir á hverjum stað. Það eigi svo sannarlega við hér í Hveragerði. Þess vegna sé það metnaðarmál fyrir bæjarstjórn að styðja við starf Hveragerðiskirkju. Samningur sem þessi sé mikilvægur í því skyni.