Fara í efni

Þegar allir leggjast á eitt þá verður dagurinn þrátt fyrir allt góður!

Myndin er tekin árið 2012 daginn eftir að húsið var reist. Myndina tók Valdimar Thorlacius.
Myndin er tekin árið 2012 daginn eftir að húsið var reist. Myndina tók Valdimar Thorlacius.

Kæru Hvergerðingar!

Sjaldan ef nokkurn tíma hef ég verið stoltari af því að tilheyra þeim hópi sem býr hér í Hveragerði.
Þegar á bjátar stöndum við saman enda vitum við væntanlega flest að þannig vinnast hlutirnir best.
Fyrir slíkt viðhorf er full ástæða til að vera þakklát. Í dag er ég þakklát fyrir stuðning og samhug en einnig hrygg yfir því sem gerst hefur.
Á sama tíma er ég líka full bjartsýni gagnvart því verkefni sem framundan er.

Verðmætum bjargað - allir lögðust á eitt 
Í morgun kom rifa á Hamarshöllina, ofsaveðrið náði þannig taki á höllinni með þeim afleiðingum að hún rifnar og fellur saman. Það er mikil mildi að enginn slasaðist af þeim sem þarna voru staddir og fyrir það þökkum við í dag.  Fyrstu viðbrögð voru að tryggja svæðið enda fátt annað hægt að gera í því aftakaveðri sem þá var.

Þegar lægði, um hádegi, tók við björgun verðmæta en tæki fimleikadeildar lágu óvarin fyrir veðrinu sem og allur annar búnaður sem í höllinni var. Þessi búnaður er nú kominn í öruggar geymslur og verður vonandi í lagi í framhaldinu. Á fjórða tug manna tók þátt í þeirri vinnu, stór hópur frá Brunavörnum Árnessýslu, Hjálparsveit skáta Hveragerði, starfsmenn bæjarins, verktakar, sjálfboðaliðar frá Íþróttafélaginu Hamri og fjöldi annarra. Kærar þakkir til ykkar allra, það er ómetanlegt að eiga ykkur að.

Hamarshöllin er vel tryggð 
Í dag hafa bæjaryfirvöld átt fundi með fulltrúum tryggingafélags bæjarins, Sjóvá. Hafa starfsmenn félagsins verið boðnir og búnir til að aðstoða á allan þann hátt sem félagið hefur tök á. Hamarshöllin og allt hennar innbú er tryggt og nú tekur við frekari vinna og samtal á milli Hveragerðisbæjar og tryggingafélagsins um framhaldið.

Samtal um framhald íþróttaiðkunar er hafið 
Fundur var einnig haldinn með aðalstjórn Íþróttafélagsins Hamars og fulltrúum deilda innan félagsins. Þar var farið yfir stöðuna og framhaldið rætt hvað varðar æfingar á næstu mánuðum. Nágrannasveitarfélög og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa boðið fram húsnæði til æfinga og það hafa einnig gert aðilar hér í Hveragerði sem ráða yfir stórum sölum. Það er dásamlegt að finna þann hlýhug sem til okkar streymir og þann vilja til að aðstoða sem svo víða berst að. Á næstu dögum munum við ræða enn frekar saman og finna leiðir til að ljúka íþróttastarfi þessarar annar með sem bestum hætti. Þar munu allir leggjast á eitt.

Öllum þeim einkaaðilum og fyrirtækjum sem aðstoðað hafa við framkvæmdir dagsins í dag og þeim sem boðið hafa aðstoð við uppbyggingu eru færðar kærar þakkir.
Það er gott að eiga ykkur að!

Hamarshöllin hefur staðið af sér alla storma í 10 ár
Á næstu vikum mun bæjarstjórn ákveða hvert framhaldið verður varðandi uppbyggingu Hamarshallarinnar. Það er gott að muna að undanfarin 10 ár hefur höllin verið umgjörð utan um afar fjölbreytta starfsemi. Íþróttastarf barna og ungmenna, fjölbreyttar æfingar fullorðinna, fjölda móta sem gefið hafa félögum innan Hamars góðar tekjur, þar er púttað, golfarar nýta vellina, markmenn eru þjálfaðir, auglýsingar eru teknar upp, Spartan race var þar með mikla sýningu og síðast en ekki síst hafa félög víðs vegar að af landinu leigt tíma í höllinni til að stunda þar æfingar.

Nú er bara að bretta upp ermar og byggja upp  
Sérstaða þessa húss hefur verið mikil. Það hefur reynst ómetanleg lyftistöng fyrir íþróttalífið í bænum. Því megum við ekki gleyma þegar við nú horfum til framtíðar og vinnum að uppbyggingu í stað þess húss sem varð undan að láta í ofsaveðrinu sem gekk yfir landið síðastliðna nótt. Eða svo vitnað sé í orð Friðriks Sigurbjörnssonar, forseta bæjarstjórnar: Nú er bara að bretta upp ermar og hefja uppbyggingu á ný þannig að íþróttalífið í Hveragerði geti haldið áfram að vaxa og dafna.

Áfram Hamar – Áfram Hveragerði

 Með kærleikskveðju til ykkar allra

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 


Síðast breytt: 22. febrúar 2022
Getum við bætt efni síðunnar?