Fara í efni

Ljósin tendruð á jólatrénu

Jólaljósin voru tendruð á jólatrénu í Lystigarðinum sunnudaginn 3. Desember á fyrsta sunnudegi í aðventu. Það var ískalt í veðri en það kom þó ekki í veg fyrir að börn og fullorðnir nytu stundarinnar saman. Jólasveinarnir stálust til að koma úr Reykjafjalli og skemmtu sér konunglega með krökkunum í garðinum.

Jólatré Hveragerðisbæjar í ár kemur frá fjölskyldunnu að Heiðmörk 21 en það eru þau Kristín Eir Helgadóttir, Jón Trausti Lúthersson, Gísli og Helgi Hrafn Sigurðssynir sem gáfu tréð. Hveragerðisbær kann þeim bestu þakkir fyrir þessa góðu gjöf.

Þetta fallega jólatré er af tegundinni Sitkagreni. Því er lýst sem krónumiklu og beinvöxnu tré og stóð við Heiðmörk 21. Það setti heldur betur svip sinn á götumyndina þar síðustu ár. Tréð mældist 18 metrar á hæð og stofninn um einn metri í þvermál og 3 metrar í ummál. Þessi tegund trjáa getur orðið mjög gömul en elstu slíku trén á Íslandi eru í Reykjavík og var þeim plantað árið 1924. Þau tré gætu átt nóg eftir þar sem tegundin getur náð yfir 700 ára aldri og orðið allt að 100 metra há en þessi tegund er eitt hávaxnasta barrtréð. Tréð okkar taldist 59 ára í fjögurra metra hæð og er því líklega yfir 70 ára gamalt. Trénu hefur því verið plantað á svipuðum tíma og bærinn var stofnaður árið 1946 og því eitt elsta tréð hér í bæ.

Það voru keypt ný ljós á tréð fyrir jólin í ár og eru nú 2.000 ljós sem prýða tréð. Á næstu dögum verður svo stjarna sett á toppinn. Starfsfólk áhaldahúss og garðyrkjudeildar á þakkir skildar fyrir að koma trénu á sinn stað og skreyta það. Raunar líka fyrir að skreyta og lýsa upp allan bæinn á svo fallegan hátt. 

Skátafélagið Strókur bauð upp á heitt kakó í skátaheimilinu á undan athöfninni og seldi kleinur til styrktar landsmótsförum. Fjöldi manns lagði leið sína þangað og áttu saman gæðastund áður en farið var út í Lystigarð. Það var sannarlega gott að ylja sér fyrir kuldann úti.

Barnakór Hveragerðiskirkju kom fram og söng undir stjórn Unnar Birnu sem einnig lék undir á píanó. Dásamlegur kór sem er samsettur af um 20 börnum á aldrinum 3-8 ára.

Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar, rifjaði upp æskuminningar frá tendrun jólaljósa bæjartrésins en það hefur í gegnum tíðina prýtt aðra staði heldur en Lystigarðinn þar sem það stendur nú.

Unnur Birna, Sigurgeir Skafti og Gunnar Hilmarsson tóku lagið fyrir viðstadda og lék Unnur einnig undir söng með jólasveinunum.

Loks hrópuðu börnin hástöfum á jólasveinana sem heyrðu til köllin alla leið upp í hlíðar Reykjafjalls og komu hlaupandi til byggða með mandarínur í poka. Þeir vöktu auðvitað mikla lukku þar sem þeir sungu og skemmtu sér og öðrum. 

Sannarlega yndisleg stund á fyrsta sunnudegi í aðventu í Hveragerði.

Myndir: Bryndís Ragnarsdóttir


Síðast breytt: 4. desember 2023
Getum við bætt efni síðunnar?