Steinunn Erla nýr bæjarritari
Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi þann 13. nóvember að ráða Steinunni Erlu Kolbeinsdóttur lögmann í starf bæjarritara hjá Hveragerðisbæ.
Steinunn Erla hefur starfað hjá Lögmönnum Suðurlandi frá árinu 2007, að mestu leyti í þjónustu við sveitarfélög og tengda aðila. Þá hefur hún verið aðalmaður í yfirkjörstjórn sveitarfélagsins Árborgar síðastliðin þrjú ár.
Steinunn lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og í kjölfarið tók hún réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður. Einnig hefur hún undanfarin ár lokið fjölda námskeiða hjá Lögmannafélagi Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands.
Steinunni lýst mjög vel á starfið og hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem í því felast: „Hveragerðisbær er í örum vexti, í bænum er mikil uppbygging í gangi og menningarlífið blómstrar sem aldrei fyrr. Ég er afar þakklát fyrir að fá tækifæri til þess að leggja mitt af mörkum og starfa í þannig samfélagi.“
„Við erum hæstánægð með ráðningu Steinunnar og bindum miklar vonir við hana. Mikill fjöldi umsókna um bæjarritararstöðuna segir okkur að Hveragerði er í mikilli uppsveiflu. Bærinn er spennandi framtíðarvalkostur fyrir íbúa og starfsfólk. Framtíðin er björt af gæðum, metnaði og velferð í Hveragerði,“ segir Pétur G. Markan bæjarstjóri um ráðninguna.
Við bjóðum Steinunni Erlu velkomna til starfa hjá Hveragerðisbæ.