Fara í efni

Sérstakir frístundastyrkir út árið og sótt um gegnum Sportabler

Nú nýverið var opnað fyrir úthlutun á sérstökum styrk til tekjulægri fjölskyldna og er opið fyrir nýtingu styrksins til 31.desember 2021. Þennan styrk er hægt að nýta til að greiða fyrir þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi og er styrkurinn í þessum úthlutunarglugga 25.000kr.- á barn.

Það sem hefur breyst frá fyrri úthlutunum er að núna er ekki um að ræða sérstaka umsókn eftir skráningu og greiðslu, heldur er umsóknarferlið og úthlutun styrksins komið inn í rafræna skráningarferlið og þannig hægt að „úthluta” þessum sérstaka styrk á sama hátt og frístundastyrk sveitarfélaga er úthlutað í skráningarkerfum Nóra og Sportabler. Þetta er því mjög þægilegt fyrir notendur og gerir útdeildingu styrksins skilvirkari fyrir alla aðila.

Í grunninn virkar þetta þannig að forráðamaður finnur námskeið í Nóra eða Sportabler, skráir iðkanda á námskeiðið, velur að nýta frístundastyrk og við það fer af stað ferli sem kannar rétt viðkomandi á bæði frístundastyrk sveitarfélags og sérstökum styrk félagsmálaráðuneytis.

Styrkupphæð sem viðkomandi hefur til úthlutunar birtist þá á skjánum og hægt er að velja þá upphæð sem á að nýta til greiðslu viðkomandi námskeiðs, síðan er gengið frá greiðslu eftirstöðvanna í kerfinu og skráning staðfest. Athugið að upphæð styrks birtist sem samtala frístundastyrks sveitarfélags og sérstaks styrks félagsmálaráðuneytis í kerfum Sportabler ef viðkomandi á rétt á þeim styrk. Mögulega verður boðið upp á sundurliðun á styrkjum í kaupferli notenda, en verið er að skoða þau mál.

Hægt er að sækja sérstakan frístundastyrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2006-2015 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júní 2021. Styrkurinn er 25.000 kr. á hvert barn til áramóta og rúmlega 13.000 börn eiga rétt á styrknum. Stefnt er á að veita sams konar styrk eftir áramót.

Nánari upplýsingar er að finna í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands:

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/27/Serstakir-fristundastyrkir-ut-arid-og-sott-um-gegnum-Sportabler/

 

 


Síðast breytt: 9. september 2021
Getum við bætt efni síðunnar?