Fara í efni

Samningur undirritaður um kaup á dúk fyrir Hamarshöllina

Samningur hefur verið undirritaður þann 26. apríl 2022 um kaup á nýjum dúk fyrir Hamarshöllina í stað þess sem eyðilagðist í óveðri er gekk yfir landið þann 22. febrúar 2022. Er undirritunin í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar frá 13. apríl 2022.

Samningsupphæðin nemur EUR 624.000,- eða 86,2 m.kr. skv. miðgengi Seðlabanka Íslands í dag, 28. apríl 2022.  Innifalið í tilboðinu er tvöfaldur dúkur sem er sterkari en sá sem áður var, 7 neyðarútgangar, inngangshurðir, akkerisfestingar og lýsing. Einnig er allur sendingakostnaður að verkstað sem og yfirumsjón með uppsetningu innfalinn í tilboðinu.

Á þeim tíma sem leið frá samþykkt til undirritunar áttu sér stað umræður á milli aðila um fyrirkomulag og framkvæmdina í heild sinni sem skýrir að ekki var skrifað undir samninginn fyrr.  Rík áhersla er lögð á að Hamarshöllin verði risin að nýja fyrir komandi vetur.  

Af þessu tilefni er rétt að geta þess að  nokkur fyrirtæki hafa boðið framlag vegna nýrrar Hamarshallar og að sjálfsögðu standa vonir til þess að sjálfboðaliðar aðstoði við uppbyggingu með sama hætti og gert var svo myndarlega árið 2012 þegar 5.000m2 íþróttahús, Hamarshöllin, reis á methraða. 

Með þessari ákvörðun gefst tækifæri til að endurheimta þá aðstöðu sem áður var í Hamarshöllinni með hagkvæmum hætti og stefna jafnframt ótrauð að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja sem aukið geta ánægju og gleði bæði ungra og þeirra sem eldri eru í Hveragerðisbæ.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 


Síðast breytt: 28. apríl 2022
Getum við bætt efni síðunnar?