Fara í efni

Opnun sundlaugar frestast til sunnudagsins 18. júlí

Dyr Sundlaugarinnar Laugaskarði opna á ný eftir langa lokun sunnudaginn 18. júlí kl.  09:00.  Til stóð að opna á  morgun laugardag en það mun því miður ekki takast.  Helst er það votviðri undanfarinna daga sem gert hefur að verkum að ekki hefur verið hægt að vinna í frágangi utanhúss eins og til stóð og einnig er nauðsynlegt að starfsfólk fái ráðrúm til að undirbúa opnun með sem bestum hætti eftir að iðnaðarmenn yfirgefa verkstað sem verður væntanlega í kvöld eða nótt. 

Það gekk mikið á í húsnæði sundlaugarinnar núna áðan þegar bæjarstjóri leit við enda iðnaðarmenn í öllum rýmum að ljúka sínum verkum og starfsfólk í óða önn að undirbúa og þrífa.   

Framundan eru án vafa annasamir mánuðir enda ljóst að margir bíða í ofvæni eftir því að sundlaugin opni á ný enda hefur sundlaugin okkar hér í Hveragerði ítrekað verði valin í hópi fallegustu og bestu sundlauga landsins.  Með framkvæmdunum sem ljúka mun á morgun laugardag er lokið þeim endurbótum á sundlaugarhúsinu sem bráðnauðsynlegar voru orðnar og stórt skref stigið í uppbyggingu Laugaskarðs sem einnar af perlum Hveragerðisbæjar. 

Á meðfylgandi myndum má sjá bæði iðnaðarmenn að störfum sem og duglega starfsmenn sundlaugarinnar að undirbúa opnun og óhætt er að segja að spenna lá í loftinu.  Ekki eingöngu vegna þess að nú hyllir loksins undir lok þessa umfangsmikla verks en einnig spenningur fyrir því að sjá hvernig gestum sundlaugarinnar mun líka við þær breytingar sem gerðar hafa verið. 

Sjáumst í Laugaskarði á sunnudaginn :-)

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 20. júlí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?