Fara í efni

Njótum aðventunnar í Hveragerði

Bærinn færist í jólabúning
Bærinn færist í jólabúning

Kæru Hvergerðingar!

Nú er veturinn farinn að minna á sig og skammdegið smám saman að taka yfir. Þá er gott að hafa ljósin í bænum til að birta upp skammdegið. Það hefur verið ánægjulegt að sjá bæinn smám saman færast í hátíðarbúning að undanförnu. Ötult starfsfólk áhaldahúss og garðyrkjudeildar hefur stráð ljósum og litum í kringum okkur síðustu vikurnar. Eins eru heimili og fyrirtæki farin að skreyta og lýsa upp skammdegið með alls kyns ljósum og seríum. Allt þetta hefur svo mikið að segja fyrir aðventuna og biðina eftir sjálfri jólahátíðinni.

Aðventan gengur í garð þann 3. desember, sem er fyrsti sunnudagur í aðventu. Þann dag ætlum við að kveikja á jólatré bæjarins í Lystigarðinum líkt og venjan er. Við munum meðal annars hlusta á barnakór kirkjunnar undir stjórn Unnar Birnu og heyra skemmilegar sögur frá liðnum tímum. Svo gerum við fastlega ráð fyrir að jólasveinarnir stelist til byggða þó þeirra tími sé auðvitað ekki kominn. En ef þeir heyra til okkar og sjá okkur saman komin við jólatréð þá er lítil hætta á að þeir láti sig vanta.

Það verður heilmargt um að vera í Hveragerði á aðventunni og við skulum njóta hennar saman. Fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir bæjarins munu bjóða upp á ýmiss konar jólastemmningu; jólatónlist, jólamarkaði, gjafir í jólapakkana og alls kyns skemmtun fyrir gesti og gangandi.

Til þess að halda utan um viðburðina leggur Hveragerðisbær til viðburðadagatal Hveragerðisbæjar þar sem hægt er að senda inn viðburði og fylgjast með dagskrá desembermánaðar undir liðnum ,,Jól í Hveragerði". Þar verða viðburðirnir saman komnir með smá lýsingu á hverjum viðburði, tímasetningu og mynd. Þar geta þá Hvergerðingar og gestir fylgst með öllum þeim viðburðum sem eru fyrirhugaðir á aðventu og jólum í bænum.

Njótum þess að eiga fallega og notalega aðventu í Hveragerði.

Sigríður Hjálmarsdóttir
Menningar-, atvinnu- og markaðsfulltrúi


Síðast breytt: 23. nóvember 2023
Getum við bætt efni síðunnar?