Fara í efni

Mörg smit vegna Covid - staðan 28. desember

Að gefnu tilefni er rétt að upplýsa íbúa um nýjustu tölur vegna covid smita í bæjarfélaginu. 
Þann 28. desember  eru 82 einstaklingar í sóttkví og 67 í einangrun með virkt smit hér í Hveragerði.

Það er ljóst af tölum morgunsins að smitum hefur fjölgað nokkuð hratt hér í Hveragerði að undanförnu og nú er staðan sú að smit eru langflest hér í Hveragerði sé horft til annarra sveitarfélaga á Suðurlandi.  Því er mikilvægt að við öll sameinumst um að viðhafa þær sóttvarnir sem í gildi eru og virða almenna smitgát í umgengni við hvert annað. Það er dýrmætt að daglegt líf gangi með sem eðlilegustum hætti og að fyrirtæki og stofnanir starfi án skakkafalla. 

Allir eiga auðvitað núna að vera meðvitaðir um rétt viðbrögð en sjaldan ef nokkurn tíma hefur verið mikilvægara en einmitt núna að allir taki þátt í lögboðnum sóttvörnum.  Reglulegur handþvottur, sprittun, grímunotkun þar sem hún á við og virðing fyrir nálægðarmörkum við annað fólk er lífsnauðsynleg í baráttunni við þennan vágest sem veiran er.

Munum að í þessari baráttu er enginn eyland, við gerum þetta vel, förum að reglum og gerum þetta saman! 

Við viljum hvetja alla til að kynna sér vel allar nýjustu upplýsingar á covid.is.
Vekjum sérstaka athygli á upplýsingum varðandi börn í sóttkví sem foreldrar og forráðamenn barna eru beðnir um að kynna sér vel. 

Smitgát     
Sóttkví   
Einangrun
Börn í sóttkví

Hvergerðingar hafa áður tekist á við erfiða stöðu í þessum faraldri.  Við getum því aftur haft betur í þessum slag og munum gera það með góðum samtakamætti allra. 

Sendi ykkur öllum hlýjar kveðjur og þá sérstaklega þeim sem núna eru í einangrun eða sóttkví!

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 28. desember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?