Fara í efni

Leikskólabyggingar á teikniborðinu og lausar kennslustofur að koma

Samþykkt hefur verið af  bæjarstjórn að nú þegar verði hafin vinna við hönnun viðbyggingar við Leikskólann Óskaland þar sem tekið verði tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á rekstrarumhverfi leikskóla og þeirrar fjölgunar barna sem framundan er. Viðbyggingunni verður sérstaklega ætlað að bæta starfsumhverfi starfsmanna og sérfræðinga sem við skólann starfa.

Með tilkomu tveggja deilda í lausum kennslustofum á lóð Óskalands mun bæði börnum og starfsmönnum fjölga og mikilvægt er að brugðist verði við þeirri stöðu hratt og eins vel og kostur er með það fyrir augum að bæta alla umgjörð leikskólastarfsins.  Einnig var samþykkt að hanna stækkun á núverandi bílastæði í samræmi við deiliskipulag til að mögulegt sé að taka á móti þeirri umferð sem um svæðið er og fyrirsjáanleg er á næstu misserum. 

Á sama fundi var ASK arkitektum falin hönnun á nýjum sex deilda leikskóla í Kambalandi með það fyrir augum að framkvæmdir við hann geti hafist eins fljótt og kostur er. Við hönnunina verði horft til Leikskólans Undralands sem sama arkitektastofa hannaði en jafnframt horft til breytinga sem gert geta nýjan leikskóla enn betri. Við hönnunina verði gert ráð fyrir mögulegri áfangaskiptingu framkvæmda en einnig tekið tillit til þess að nauðsynlegt getur verið að setja upp lausar kennslustofur á lóð hins nýja leikskóla á einhverjum tímapunkti.

Í greinargerð sem meirihluti bæjarstjórnar lagði fram með tillögunni kom fram að mikill áhugi er fyrir búsetu í Hveragerði og fá færri bæði íbúðir og lóðir en vilja. Engar vísbendingar eru um annað en að þessi þróun haldi áfram og að áframhaldandi fjölgun íbúa verði staðreynd um leið og uppbygging nýrra íbúðahverfa og atvinnuuppbygging verður að veruleika. Í þriggja ára fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir uppbyggingu leik- og grunnskólamannvirkja. Þegar hefur verið tekin ákvörðun af bæjarstjórn um að hefja nú þegar hönnun næstu viðbygginga við grunnskólann í samræmi við áætlanir þar um.
Til þess að eðlileg samfella náist í þjónustu við bæjarbúa er nauðsynlegt að flýta eins og kostur er uppbyggingu leikskólamannvirkja og er það gert með samþykkt þessarar tillögu.

Það er síðan gaman að geta þess að lausu kennslustofurnar sem setja á upp við Leikskólann Óskaland eru komnar á sinn stað.  Nú tekur við tenging við veitukerfi, frágangur innanhúss og uppsetning búnaðar.  Fátt ætti að því að koma í veg fyrir að stofurnar verði teknar í notkun í lok nóvember eins og vonast var eftir strax í upphafi.  Er ánægjulegt að sjá hversu hratt og vel þessu verkefni hefur miðað áfram og von allra að börnin verði ánægð í nýju húsunum. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 

 

 


Síðast breytt: 5. nóvember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?