Fara í efni

Kveðja til Hvergerðinga frá forseta Íslands

Hvergerðingum hafa borist góðar kveðjur víða að eftir að Hamarshöllin féll saman í ofsaveðri i byrjun vikunnar.  Það er yndisleg tilfinning að finna að þegar á bjátar eru allir viljugir til að leggja hönd á plóg og aðstoða eftir megni.  Eða eins og börnin í grunnskólanum orðuðu svo vel í viðtali við Stöð2 í gærkvöldi, "það eru bara allir með svo gott hjarta".-

Einn af þeim sem sent hefur kveðjur er forseti Íslands.  Kveðjan hans er svohljóðandi:

Þau ótíðindi urðu í nótt að  Hamarshöllin eyðilagðist í fárviðrinu sem gekk yfir landið. Ég hef sent stjórn Hamars, iðkendum og öðrum í félaginu stuðningskveðjur. Þetta er að sjálfsögðu mikill skellur fyrir allt íþróttastarf í Hveragerði.

Ég á góðar minningar frá íþróttamótum með ungviðinu í þessu notalega íþróttahúsi. Vonandi mun takast að bæta skaðann fljótt og vel þannig að Hveragerðingar geti áfram notið hollrar hreyfingar í leik og keppni, ungir  sem aldnir.

Með góðri kveðju
Guðni Th. Jóhannesson

Við Hvergerðingar þökkum af heilum hug forseta Íslands og öllum öðrum sem sent hafa kveðjur, tilboð um aðstoð og hvers kyns stuðning.  
Það er gott að eiga ykkur að. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 


Síðast breytt: 24. febrúar 2022
Getum við bætt efni síðunnar?