Fara í efni

Jól í bæ - viðburðir á aðventu og jólum

Hveragerðisbær er orðinn fallega upplýstur í skammdeginu og kominn í jólabúning. Það minnir okkur á að aðventan er að ganga í garð enn eitt árið. Ljósin eru dýrmæt á þessum árstíma því þau lýsa upp dimmasta tímann og veita okkur gleði og yl. Það er alla jafna mikið að gera hjá flestum í aðdraganda jóla því það þarf að kaupa gjafir, föndra og fara á hin ýmsu mannamót en heilmargt er um að vera næstu vikurnar.

Hvergerðingar kunna svo sannarlega að gera sér dagamun á aðventu, jólum og áramótum eins og sést á þéttri dagskrá sem kemur út í dag undir nafninu „Jól í bæ”. Dagskráin inniheldur tónleika, markaði, sýningar, jólaböll, helgihald og fleira í bænum okkar frá fyrsta sunnudegi í aðventu til þriðjudagsins 6. janúar, eða þrettándans.

Dagskrána má finna í hlekk hér neðst í fréttinni í tölvutæku formi en hún verður einnig fáanleg útprentuð og má nálgast hana frá og með mánudeginum 1. desember á Bókasafninu í Hveragerði, í Sundlauginni Laugaskarði, á bæjarskrifstofunni og í Bónus.

Að vanda hefst aðventan hjá okkur í Hveragerði á því að ljósin eru tendruð á jólatrénu í Lystigarðinum á fyrsta sunnudegi í aðventu og svo er aðventukvöld í Hveragerðiskirkju sama kvöld. Síðan rekur hver viðburðurinn annan og allt í einu verða komin jól.

Við bendum sérstaklega á að gaman er að heimsækja Hveragarðinn í aðdraganda jóla og jafnvel skella í rúgbrauð til að baka í gufupottinum. Aðgangur er ókeypis fyrir Hvergerðinga í garðinn svo við hvetjum ykkur til að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða á aðventunni.

Svo má nefna að bókasafnið okkar býður upp á ókeypis föndur og innpökkun fyrir alla á aðventunni. Þar hefur jólaálfurinn líka gert sig heimakominn og tekur upp á ýmsum hrekkjum sem gaman er að fylgjast með.

Það er eitthvað um að vera í Hveragerði flesta daga aðventu og jóla svo allir ættu að geta fundið eitthvað til að brjóta upp daginn með og koma sér í jólagírinn.

Bestu óskir um ánægjulega aðventu og gleðileg jól.

Jól í bæ, viðburðadagatalið


Síðast breytt: 28. nóvember 2025
Getum við bætt efni síðunnar?