Fara í efni

Jákvæð niðurstaða ársreiknings 2019.

Sókeyjar í bæjarlandinu í maí 2020.
Sókeyjar í bæjarlandinu í maí 2020.

Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2019 er jákvæð sem nemur 6,3 m.kr.  Er niðurstaða ársreiknings nokkuð lakari en gert var ráð fyrir en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir hagnaði er næmi 50 m.kr. . Skýrist þetta frávik einna helst af því að ekki náðist að úthluta þeim lóðum sem til stóð að úthluta í Kambalandi þannig að tekjur vegna gatnagerðar skiluðu sér ekki eins og til stóð á árinu 2019. Viðhald var þó nokkuð umfram áætlanir sérstaklega í grunnskóla og í vatnsveitu og fráveitu. Byggingaleyfisgjöld voru endurgreidd vegna reglna þar um vegna framkvæmda sem ekki var ráðist út i en innheimt hafði verið fyrir en einnig munar um að ekki var gert ráð fyrir vöxtum vegna leiguskuldar við Reiti fasteignafélags í fjárhagsáætlun. Í ljósi alls þessa má teljast nokkuð gott að niðurstaðan úr rekstri samstæðu A og B hluta skuli vera jákvæð, þó að engum blöðum sé um það að fletta að allir hefðu kosið að hún væri betri.

Fjárhagur bæjarins er í traustum skorðum nú sem fyrri ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A og B hluta frá árinu 2012. Rekstur Hveragerðisbæjar er í fullu samræmi við viðmið laga um skuldastöðu og jafnvægi í rekstri. Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar að undanförnu en nú eru blikur á lofti með auknu atvinnuleysi, minnkandi útsvarstekjum og niðurskuði á framlögum Jöfnunarsjóðs. Mikilvægt er að fylgjast grannt með þróun útgjalda og tekjufalli og bregðast við eftir því sem þurfa þykir.

Með fjárfestingum í landi og fasteignum á undanförnum árum hefur bæjarstjórn sýnt að hugsað er til framtíðar en nú er byggingaland í bæjarfélaginu tryggt næstu áratugina. Er það ánægjuleg staða í landlitlu sveitarfélagi. Hús rísa nú eitt af öðru í Kambalandi og mun framtíðin án vafa sýna að kaupin á því landi voru gæfuspor fyrir bæjarbúa. 

Hveragerði er vinsæll staður til búsetu

Sterk stjórn á fjármálum bæjarins ásamt skynsamlegri uppbyggingu innviða og þjónustu hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum sú besta sem gerist á landinu. Bæjarstjórn hefur verið einhuga og samhent í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og það hefur áhrif langt út fyrir þau störf sem bæjarstjórn eru falin. Vinsældir Hveragerðisbæjar sem farsæls búsetukosts hafa aukist mjög á undanförnum árum, fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fjöldi fjölbreyttra íbúða í byggingu. Því er fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum. Við aðstæður sem þessar og í ljósi þeirrar óvissu sem framundan er, er mikilvægt að fjármálum bæjarins sé áfram stýrt af festu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.

Rekstur í traustum skorðum

Í ársreikningi 2019 kemur fram að samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 239,3 mkr. eða sem nemur ríflega 8% af heildartekjum bæjarins.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 308,5 mkr. eða sem nemur um 10,2% af heildartekjum samstæðu. Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2019 100,8 % sem er 49,2 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað.

Rekstrarniðurstaða samstæðu (A og B hluta) er jákvæð um 6,3 mkr.. Langtímaskuldir samstæðu að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 og Breiðumerkur 20 nema 2.793 mkr... Lífeyrisskuldbinding er 603 mkr.. Samtals gerir þetta 3.396 mkr. eða rétt ríflega 1,26 mkr. pr íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár. Fjárfestingar á árinu 2019 námu 457 mkr.. á móti fjárfestingu ársins 2018 er nam 300 mkr..

Helstu fjárfestingar ársins fólust í kaupum á félagslegum íbúðum (122.5 mkr.), framkvæmdum í Kambalandi (75 mkr.), gatnagerð, vatns- og fráveituframkvæmdum(187 mkr.), undirbúning að viðbyggingu við grunnskólann (39 mkr.), endurbótum á sundlauginni Laugaskarði (23 mkr.) en aðrar fjárfestingar voru smærri á árinu.
Tekin ný langtímalán voru 329 mkr.. Afborganir langtímalána námu 198,4 mkr..

Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 50% af skatttekjum, félagsþjónustan 13,4% og æskulýðs- og íþróttamál 9,5%.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðri og styrkri stjórn forstöðumanna bæjarins og framlagi starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Eru þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins.

Fjárhagsáætlanir undanfarinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt.
Fyrir það ber að þakka.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 16. júní 2020
Getum við bætt efni síðunnar?