Fara í efni

Innleiðing tækninýjunga í Grunnskólanum í Hveragerði

Umfangsmikil innleiðing tækninýjunga á sér nú stað í Grunnskólanum í Hveragerði.  Er þar unnið eftir tillögum sem starfshópur sem skipaður var af bæjarstjórn og meta skyldi þörf á upplýsingatæknibúnaði í Grunnskólanum í Hveragerði lagði fram.   
 
Meginmarkmið vinnu starfshópsins var að vinna leiðarljós í upplýsingatækni sem síðar yrðu nánar útfærð af starfsmönnum grunnskólans.  Leggja mat á núverandi tækjakost Grunnskólans í Hveragerði. Meta mismunandi útfærslur og leiðir með hliðsjón af tæknimálum og búnaði og leggja fram kostnaðarmetnar úrbótatillögur fyrir næstu 4 ár.


Í starfshópnum  áttu sæti Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri, Alda Pálsdóttir formaður fræðslunefndar, Sævar Þór Helgason skólastjóri grunnskólans, Katrín Möller fulltrúi TRS, Kristín Arna Hauksdóttir kennsluráðgjafi á grunnskólastigi hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, Kristinn Ólafsson kennari sem sér um upplýsingamál grunnskólans og Sigmar Karlsson deildarstjóri.

Skýrsla starfshópsins var lögð fyrir bæjarstjórn nýverið en þar kemur meðal annars fram eftirfarandi framtíðarsýn: "Skólinn verði vel búinn tækjum til kennslu og þannig verði komið til móts við alla nemendur með fjölbreyttum kennsluaðferðum og verkefnaskilum. Að nemendur hafi aukið val svo áhugi þeirra og styrkleiki nýtist sem best í náminu og þar er tæknin frábært verkfæri til að mæta þörfum nemenda. Í skólanum starfi kennarar sem hafa áhuga á að nýta tækni í kennslu og fái þann stuðning sem þarf til að gera svo.Upplýsingatækni er einn helsti drifkraftur í nýsköpun og endurmótun í skólastarfi. Fjölbreytt og framsækin notkun á upplýsingatækni getur auk þess stuðlað að aukinni umhverfisvernd og grænni hugsun."

Á fundi bæjarstjórnar var starfshópnum þakkað fyrir vel unnin störf og greinargóða og ítarlega skýrslu. Bæjarstjórn tók undir að það sem skiptir mestu máli sé að styrkja tæknihæfni nemenda og kennara og að þeir geti nýtt sér getuna til áframhaldandi vaxtar. Til þess að svo megi verða þarf að efla tækjakost til muna, efla og fræða kennara í starfi en samkvæmt skýrslunni skal stefnt að því að spjaldtölvur verði nýttar í öllum árgöngum skólans og að auki verði Chromebook tölvur nýttar á öllum skólastigum.

Bæjarstjórn samþykkti þau innkaup sem lögð voru  til vegna ársins 2021 en vísaði öðrum ákvörðunum til gerðar fjárhagsáætlunar hvers árs. Kostnaður vegna ársins 2021 fellur undir fjárfestingu vegna viðbyggingar við skólann en tækin sem nú verða keypt munu nýtast þar.  Að lokum óskaði bæjarstjórn eftir því að hópurinn myndi hittiast aftur að tveimur árum liðnum og meti þá árangur af þeim skrefum sem þangað til verða stigin. 

 
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

 

 


Síðast breytt: 13. maí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?