Fara í efni

Hveragerðisbær sendir sumarkveðjur

Blómabærinn tekur á móti sumri hreinn og fínn en starfsmenn áhaldahúss, garðyrkju- og umhverfisdeildar  hafa undanfarna daga unnið að sópun og þvotti á götum bæjarins auk þess sem vorblómin eru farin að prýða blómaker við aðalgötuna. 

Það er leitt að þurfa að tilkynna að á sumardaginn fyrsta verður ekki hefðbundin dagskrá eins og bæjarbúar og reyndar landsmenn allir eru vanir.   Unnið er að endurbótum á húsnæði Garðyrkjuskólans að Reykjum þannig að þar ekki tekið á móti gestum í ár.  Sama staða er uppi varðandi sundlaugina Laugaskarði þar sem verið er að endurnýja búningsklefa þannig að sundlaugin er lokuð.  

Gönguleiðir í og við bæinn eru aftur á móti enn á sínum stað.  Hægt er að fara í frisbee golf undir Hamrinum, njóta þess að setjast í listverkið Þetta líður hjá, heimsækja Listasafn Árnesinga og svo má líka fagna sumri með því að njóta þess að rölta um götur bæjarins, skoða söguskiltin, hitta mann og annan og kannski kíkja við í blómaverslun og/eða fá sér snæðing á einhverju af hinum fjölmörgu veitingahúsum sem hér eru. 

Bæjarstjórn og starfsmenn Hveragerðisbæjar senda óskir um gleðilegt, hlýtt og sólríkt  sumar.  Þökkum ánægjulegar stundir í vetur.  Vonandi sjáum við öll fram á dásamlegt sumar  nýbólusett í Covid fríu landi.  

Með sumarkveðju, 
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 


Síðast breytt: 21. apríl 2021
Getum við bætt efni síðunnar?