Fara í efni

Hveragerðisbær fordæmir innrás Rússa og samþykkir móttöku flóttafólks

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu sem kallað hefur bæði þjáningu og eyðileggingu yfir saklaust fólk. Það er skýlaus krafa alþjóðasamfélagsins að hernaðaraðgerðir Rússa verði stöðvaðar nú þegar.  

Bæjarstjórn samþykkir að Hveragerðisbær taki þátt í móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Bæjarstjóra er falið að láta ráðuneytið vita af vilja bæjarstjórnar og að hafa að öðru leyti umsjón með viðræðum við ráðuneytið um móttökuna. Það er skylda allra að taka þátt í að létta þær byrgðar sem nú eru lagðar á íbúa Úkraínu. Þar verðum við öll að leggjast á eitt. Hvergerðingar skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í því að hlúa að þeim sem nú þurfa að flýja heimili sín og það líf sem fólkið áður þekkti. Bæjarstjórn hvetur alla þá sem geta lagt húsnæði til verkefnisins að skrá það inn á  www.island.is  en móttaka flóttamanna verður svo skipulögð í nánu samstarfi ríkis og viðkomandi sveitarfélaga.

Ofangreind ályktun var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 10. mars síðastliðinn og hefur bæjarstjóri þegar verið í góðu sambandi við yfirmenn móttöku flóttafólks sem og aðila hér í Hveragerði sem vegna tengsla sinna hafa hug á að taka á móti eða hafa þegar tekið á móti íbúum sem flúið hafa stríðsátökin í Úkraínu. Er hér um stórt og viðamikið verkefni að ræða sem mikilvægt er að samfélagið allt taki virkan þátt í.  Því er hér með enn og aftur biðlað til þeirra sem vita um húsnæði til afnota fyrir flóttafólk að skrá slíkt inná www.island.is

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri. 


Síðast breytt: 21. mars 2022
Getum við bætt efni síðunnar?